þriðjudagur, júlí 24, 2007

Trúarfíkn


Í einni af skáldsögum Terrys Pratchetts kemst Dauðinn að þeirri niðurstöðu að lífið sé vanabindandi. Enginn getur hætt eftir fyrsta andardráttinn, sá fyrsti kallar á þann næsta og þannig koll af kolli uns fólk leggur sig í kjánalega framkróka og veður eld og brennistein til þess eins að halda lífi. Dauðinn á reyndar afskaplega erfitt með að átta sig á lífinu og rökleysunni sem oft einkennir það, til dæmis eðli fíknar. Því notar hann hugtakið af algerri vanþekkingu. Það gerir engan að súrefnisfíkli að geta ekki án súrefnis verið.
Fíkn er alltaf skemmandi afl. Henni fylgir leynd, skömm og kvíði. Hún lýsir sér í stjórnleysi á flestum sviðum, oft stjórnlausri stjórnsemi. Hún miðar að því að tortíma fíklinum andlega, tilfinningalega, fjárhagslega og félagslega og sviptir hann mannlegri reisn. Hún skilur fjölskyldur eftir í sárum, því fíkillinn tekur flóttann fram yfir velferð maka og barna. Hún einkennist af andfélagslegri hegðun, víðtæku ábyrgðarleysi og stanslausri sjálfshátíð; sjálfsréttlætingu og sjálfsvorkunn. Fíknin er berserksgangur sjálfshyggjunnar.
Flest sem lætur fólki líða vel getur valdið fíkn. Þannig þekkist meðal annars áfengis- og lyfjafíkn, átfíkn, spilafíkn, netfíkn, ástar- og kynlífsfíkn og jafnvel trúarfíkn. Lýsingin hér að ofan á við um þetta allt, ekki síst trúarfíknina. Trúariðkun sem lýsir sér á þennan hátt er sjúkleg.
Annað einkennir alla fíkn: Það er til lausn. Um allan heim hefur fjöldi fólks sigrast á öllum tegundum fíknar – líka trúarfíkn – eftir andlegum leiðum sem meðal annars fela í sér æðri mátt og handleiðslu hans. Þetta gerir það að verkum að margir líta svo á að fíkill í bata hafi einfaldlega skipt einni fíkn út fyrir aðra. Slíkt þekkist auðvitað, en þá láta raunveruleg batamerki eðlilega ekki á sér kræla. Yfirleitt er þetta þó sami misskilningur og ruglar saman áfengi og alkóhólisma.
Trú sem byggir á náungakærleik, auðmýkt og umburðarlyndi er ekki fíkn heldur einmitt fullkomin andstæða hennar á allan hátt. Trú sem sættir í stað þess að sundra er ekki sjúkdómur heldur einmitt lausn undan einhverju skelfilegasta meini sem herjað hefur á mannkynið.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er vísdómsorðum vikunnar nokkuð meðvitað beint til einhverra tiltekinna væntra gesta? :-)

Davíð Þór sagði...

Þau voru nú aðallega hugsuð til þess að minna sjálfan mig á að reyna að hafa þessa speki í hávegum. Mér hættir til að gleyma þessu. Ef aðrir taka hana til sín hlýtur það að vera af hinu góða. Sælir eru friðflytjendur.

Nafnlaus sagði...

Þetta er góður pistill Davíð og þarfur. Fíknin vellur allstaðar fram - óháð öllu nema þeim sem fóðrar hana.

Nafnlaus sagði...

Frábær færsla.

Nafnlaus sagði...

Uppspretta alls ills í heiminum er trú, sagði mér einhver. Held að trúarfíkn sé uppspretta alls ills þegar þú nefnir hana á nafn.

Nafnlaus sagði...

Hittir á mitt hjartans mál í þessum efnum,orðar það bara svo miklu betur.alltaf nærandi að lesa pistlana þína.

Nafnlaus sagði...

Þetta átti nú ekki að vera nafnlaust,
takk fyrir mig.
kv
Bára

Nafnlaus sagði...

Ég er þér sammála um að trú gagnast sumum fíklum til að yfirstíga vandamál sín en held þó að það sé líka vel hægt að sigrast á fíkn án þess að trú komi þar nokkuð við sögu. Náungakærleikur, auðmýkt og umburðarlyndi eru ekki neinir einkahæfileikar trúmannsins.

Spurningin sem vaknar hjá mér við lestur þessa pistils er sú, hvort trú sé vel til þess fallin að lækna trúarfíkn. Nú er almennt viðurkennt að maður læknar ekki áfengisfíkn með því að drekka bara hóflega eða skipta um tegund. Hver skyldi vera laus trúfíkilsins?

Davíð Þór sagði...

Kæra Eva.

Það er svo sannarlega rétt hjá þér að trúað fólk hefur engan einkarétt á náungakærleik, auðmýkt og umburðarlyndi. Og hugsanlega er það líka rétt að hægt sé að sigrast á fíkn eftir öðrum leiðum en andlegum. Flestir fíklar leita slíkra leiða af miklum þrótti áður en þeir fara andlegu leiðina, margir deyja úr sjúkdómnum í leit sinni að annarri lausn við sínu andlega meini en andlegri. Ég fullyrði ekki að slík lausn sé ekki til, aðeins að sú andlega er sannarlega til og hefur gagnast miklum fjölda manna. Þeir sem náð hafa bata eftir öðrum leiðum eru ekki næstum því eins áberandi.

Það kom mér á óvart, eins og þér, að heilbrigð trú væri lausn við sjúklegri, að máttur, trúarfíklinum æðri, og handleiðsla hans gæti komið fyrir hann vitinu. En í raun gengur það upp. Anorexía er ekki svarið við ofáti, heldur andleg vakning og heilbrigt mataræði.

Fyrir áhugasama:
http://ezinearticles.com/?Do-You-Have-A-Religious-Addiction?&id=257862
http://www.religiousaddictionandspiritualabuse.com/
http://www.religiousaddictionandspiritualabuse.com/site/749804/page/375551
http://findarticles.com/p/articles/mi_m0876/is_n58/ai_10844195

Mikið meira er um trúarfíkn og lausn undan henni á netinu, þetta er bara brot af því sem ég fann í snatri.

Nafnlaus sagði...

Menn verða oft hressilega áberandi þegar hin andlega lausn hefur knúið dyra. Mig grunar á stundum að sá effekt ýki fjöldann sem sigrast á fíkn sinni þannig, versus fjölda þeirra sem beita öðrum leiðum.

En mínar grunsemdir eru sosum margar og misjafnlega gáfulegar...

Nafnlaus sagði...

Það er vel vitað um aðrar leiðir, svosem hugræna atferlismeðferð, sem gefið hefur góða raun.

Nafnlaus sagði...

Fíkn-pælingarnar eru mjög áhugaverðar og þarfar. Vantar þó einmitt í þær þetta grunnelement sem þú talar um, stjórnleysið. Það er forsenda fíknar. Stjórnleysið er inní okkur sjálfum og ber að skoðast og læknast þaðan. Of oft er talað um fíknir sem utanaðkomandi óvini, sem gera manneskjuna óvirka og vanmáttuga. Við höfum valið, við höfum valdið. Okkur skortir hins vegar oft viljann og tækin til framkvæmda.
Takk fyrir frábæra pistla, DÞJ.

Nafnlaus sagði...

Sá sem stenst fíkn er ekki þjakaður af stjórnleysi. Sá sem lætur undan fíkn fer hinsvegar í stjórnleysi. Þú getur ekki fullyrt að stjórnleysi sé ávallt forsenda fíknar. Það er barnaleg einföldun og heimskuleg.

Margir fá fíkn þótt þeir hafi mjög góða reglu á öllu sínu lífi. Hin ofvirka verðlaunastöð vill fá sitt og ótal þættir geta kveikt á því ástandi.

Fólk getur annars lært að takast á við fíkn, t.d. með hugrænni atferlismeðferð.

Gunnar S.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki endilega til lausn.
Ekki ef "lausn" felur í sér loforð um endurbætur...

Nafnlaus sagði...

Frábær lesning,,Takk

Kv, Ásgerður