föstudagur, júlí 06, 2007

Fyrsta sjálfsmorðsárásin?


Í Dómarabókinni í Gamla Testamentinu, köflum 13 til 16, er sögð sagan af Samson. Engill Drottins birtist óbyrju nokkurri og tilkynnir henni að hún muni þunguð verða og muni sveinninn „ ... byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista“ (13:5), en á þeim tíma réðu Filistar yfir Ísrael.
Svo virðist sem filiskar (filistískar?) konur hafi einkum höfðað til Samsonar, en kvennamál hans kosta 1.030 alsaklausa Filista lífið (14:19 & 15:15). Auk þess brennir Samson kornakra þeirra og uppskeru alla; „kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða“ (15:5), en á öðrum lumbrar hann svo óþyrmilega „að sundur gengu lær og leggir“ (15:7). Ekki er annars getið en að þeir hafi lifað ofbeldið af, en vísast voru þeir örkumlamenn á eftir.

Fyrir rest tekst filiskri (filistískri?) konu sem heitir Dalía að blekkja Samson þannig að hægt er að koma honum undir manna hendur, en til þess þarf hann að fara í klippingu. Honum er refsað fyrir misgjörðir sínar þannig að bæði augun eru stungin úr honum. Þetta hljómar ansi miskunnarlaust, en miðað við að þarna var dauðarefsing landlæg fyrir það sem nú á dögum myndu teljast litlar sakir hlýtur þetta í ljósi tíðarandans að hafa verið fremur vægur dómur fyrir að hafa á annað þúsund mannslíf á samviskunni auk annara misyndisverka.
Síðar létu Filistar sækja hann sér til skemmtunar. Þá segir svo frá: „Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: „Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!“ Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á. Þá mælti Samson: „Deyi nú sála mín með Filistum!“ Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.“ (16:28 – 30)
Þarna fremur Samson m. ö. o. sjálfsvíg og tekur a. m. k. 1.031 heiðingja með sér – sem lið í því að frelsa þjóðina undan þeim – og hlýtur mika upphefð af.

Múslimir virðast því ekki eiga höfundarréttinn að konseftinu.

3 ummæli:

Netfrænkan sagði...

Góð ábending frændi!! Þakka þér svo fyrir góða pistla sem oftar en ekki minna okkur á bjálkana sem byrgja sýn. kv. Guðlaug Björnsdóttir

Móðir, kona, meyja sagði...

Góður punktur! Mætti oftar heyrast.

Nafnlaus sagði...

Og við höldum áfram að uppfræða börnin í réttu gildismati í sunnudagaskólanum og syngjum :

Davíð var lítill drengur.....