fimmtudagur, júlí 24, 2008

Tónlistarrýni Davíðs Þórs

Sumargleði Kimi Records, Nasa, 23. júlí 2008

Fyrir löngu var ég hvattur til þess hér á þessari síðu að láta til mín taka á vettvangi tónlistargagnrýni. Hef ég nú ákveðið að verða við þeirri bón, þótt seint sé, og fjalla eilítið um tónleika sem undarleg atburðarás olli því að ég fór á í gær. Svo er nefnilega mál með vexti að föðurbróðir konu minnar, sem er bóndi austur á Héraði, hringir öðru hverju í útvarpsstöðvar, svona til að stytta sér stundir þar sem hann þýtur fram og til baka um túnin hjá sér aleinn í traktornum yfir hábjargræðistímann. Í gær vann hann tvo miða á tónleika í Reykjavík og þar sem hann var ekki á leiðinni í bæinn setti hann þá á nafn bróðurdóttur sinnar og bauð henni. Reyndar sagði hann að þetta væri eitthvað með Benna Hemm Hemm á Nasa, sem ætti að byrja klukkan átta.
Það varð því úr að við hjónaleysin tygjuðum okkur af stað á það sem við héldum að yrði tónleikar með Benna Hemm Hemm sem myndu byrja klukkan átta. Stundvíslega kl. 19:50 mættum við og brá dálítið við að sjá ekki kjaft á svæðinu. Þá var okkur tilkynnt að húsið opnaði klukkan átta, tónleikarnir byrjuðu hálfníu. Við fengum okkur því kaffi og komum aftur hálftíma síðar. Þegar klukkan var farin að ganga tíu birtist síðan maður á sviðinu og bauð okkur velkomin á Sumargleði Kimi Records og kynnti hljómsveitina Reykjavík! á sviðið. Þetta var ekki það sem við komum til að sjá, en við ákváðum að láta það ekki á okkur fá og njóta kvöldstundarinnar.
Hljómsveitin Reykjavík! spilar mjög hevví tónlist. Tvennt þótti mér einkum áhugavert. Annað var að annar gítarleikarinn var sífellt að stilla hljóðfærið, rétt eins og einhver hefði veitt því athygli að gítarinn, sem hljómaði eins og vélsög allan tímann, hefði verið eilítið falskur. Hitt var að söngvarinn kvartaði yfir því að hann heyrði ekki nógu hátt í sér í mónítorunum, sem mér fannst hljóta að vera óþarfi vegna þess að ég heyrði ekki betur en að það eina sem hann hefði til málanna að leggja væri að æpa „grwark“ í sífellu fullum hálsi, að vísu misoft og í mismunandi hrynjandi eftir því hvaða lag var verið að spila. Svo sanngirni sé gætt þá fannst mér reyndar eins og stundum færi að örla á laglínum eftir því sem líða tók á prógrammið hjá þeim og á tíma fannst mér næstum eins og ég væri kominn u. þ. b. tuttugu ár aftur í tímann og væri á tónleikum með þeirri frábæru, en vanmetnu hljómsveit, Bodies. Spilagleði og húmor Reykjavíkur! gerðu það að verkum að hægt var að hafa gaman að þeim, jafnvel þótt á köflum hljómaði tónlistin eins og paródía af því sem hún sennilega átti að fyrirstilla.
Næst stigu Morðingjarnir á stokk. Morðingjarnir spila líka tónlist sem í gamla daga hefði verið kölluð pönk, en heitir eflaust eitthvað annað nú á dögum. Morðingjarnir hljóma dálítið eins og Fræbbblarnir hefðu gert í gamla daga ef þeir hefðu verið pínulítið betri hljóðfæraleikarar – pínulítið, ekki mikið. Kannski urðu þessi hugrenningatengsl aðallega til vegna þess að þeir syngja á íslensku, en kannski líka vegna þess að trommuleikarinn minnti mig óhugnanlega mikið á Stebba í Fræbbblunum. Það var alltaf eins og hann væri við það að gefast upp á þessu, þetta væri allt aðeins og hratt og erfitt fyrir hann, öll breik einhvern veginn stórskemmtilega hálfspastísk og líkamsbeitingin eins og hann væri sárkvalinn að reyna að hrista einhverja hræðilega pöddu af hægri olnboganum á sér. Þegar við bættist að í einu laginu heyrði ég ekki betur en að hann væri hálfum takti á eftir hinum þegar laginu lauk og svo þurfti hann að gera hlé til að laga bassafótinn einu sinni, var líkingin fullkomnuð. Morðingjarnir voru stórskemmtilegir, einkum vegna þess að þeir voru langt frá því að taka sig alvarlega sjálfir og svo lítur bassaleikarinn út eins og ungur John Cleese í rokkaragervi.
Þriðja hljómsveitin hét Borkó. Hljóðfæraskipan Borkós er sérkennileg en þar er leikið á víbrafón, synthersizer og trompet auk hefðbundinna rokkhljóðfæra. Tónlistin er löturhægur sýrugrautur sem var bæði fullhægur, sýrður og grautarkenndur fyrir minn smekk. Raunar hljómuðu flest lögin eins og langdregin intró að tónverki sem aldrei hófst. Skemmtilegasta innlegg Borkós í kvöldstundina var þeirra útgáfa af fyrsta laginu á prógrammi Morðingjanna. Þá heyrði maður að tónsmíðin var óbrjáluð og textinn skondinn („Eiturlyfjafíklar í joggingbuxum með skítugt hár, / það hefur ekki verið þvegið í ár.“), en hvort tveggja hafði farið fram hjá mér þegar ég heyrði lagið í upprunalegri útgáfu. Borkó hljómaði vel á köflum, einkum ljáði trompetið tónlistinni oft tignarlegan blæ, en þegar á heildina er litið var prógramm þeirra allt of langt og langdregið. Hafi þetta átt að vera brandari var hann ekki nógu hnitmiðaður.
Loks, um miðnættið, sté Benni Hemm Hemm á svið. Auðvitað er þar langbesta hljómsveitin af þessum fjórum á ferðinni, um það er einfaldlega engum blöðum að fletta. Benni Hemm Hemm hefur að undanförnu getið sér gott orð fyrir frumlegar og reffilegar lagasmíðar, sem er sérkennilegt í ljósi þess hve hann sjálfur er allur leþargískur fyrir mann að sjá og gufukenndur í framkomu. Lögin eru að vísu hvert öðru lík, flest eins byggð upp: Fyrst raular hann sjálfur og glamrar á kassagítar og svo kemur millikafli leikinn á lúðra. Taktpælingar hans, þessir endalausu samsettu ryþmar, eru oft flottar. En stundum finnst manni eins og þær þjóni litlum öðrum tilgangi en að vera til staðar, þær séu frekar eins og kækur tónskáldsins en að þeim sé beitt markvisst og útpælt. Kannski er hann bara að stríða fólki sem asnast til að reyna að dansa við þessa tónlist, en það er hægara sagt en gert við lag þar sem annar hver taktur í er í þremur fjórðu en hinn í fimm áttundu. Benni Hemm Hemm skar sig líka úr að því leyti að maður heyrði textana. Gallinn er að í tilfelli hans er það alls ekki kostur. Þeir textar hans sem ekki valda aulahrolli („Allt í góðu lagi uppi á fjalli í Afganistan ...“ eða e.þ.h.) valda ógleði („We're whaling in the North Atlantic ...“ endurtekið sautjánhundruð sinnum). Í sjálfu sér hef ég lítið um tónlistina að segja, annað en að kvarta yfir því að hljómsveitin byrjaði of seint og spilaði of stutt, miðað við hinar. Já, og svo ætti hann að ráða textahöfund, það munar ekki mikið um einn í viðbót í níu manna bandi.
Að flestu leyti voru tónleikarnir til fyrirmyndar og Baldri, föðurbróður konunnar minnar til mikils sóma. Ég sá ekki betur en að fólk skemmti sér vel og sjálfur undi ég mér ágætlega þótt ég væri kannski vandræðalega hátt yfir meðalaldrinum í húsinu og ekki í markhópi tónleikahaldaranna. Skemmtiatriðin voru hæfilega hallærisleg og „þýskusýningin“ það fyndnasta sem ég hef heyrt í háa herrans tíð, en ég verð að kvarta yfir hagyrðingakeppninni. Seinniparturinn sem vann var ekki bara dónaskapur sem þarf að vera tólf ára til að finnast fyndinn, heldur var hann líka vitlaust kveðinn.

Engin ummæli: