þriðjudagur, október 03, 2006

Vantrúarofstæki

Trúarofstæki er afskaplega hvimleitt. Það er sérlega ógeðfellt þegar fólk þykist hafa einkarétt á því hvernig skilja á eitthvað jafnóskiljanlegt og eðli almættisins og níðir alla þá sem voga sér að skilja það öðruvísi. Það er ömurlegt að hafa aðeins gífuryrði og fordæmingaráróður til málanna að leggja. Gildir þá einu hver skilningur ofstækismannanna er nákvæmlega. Ofstækið er jafnandstyggilegt hvort sem þungamiðja þess er að Jósef hafi ekki verið líffræðilegur faðir Jesú, að laugardagurinn sé hinn eini rétti hvíldardagur, að Guð sé karlremba, að Guð sé hommahatari, að Guð sé þríeinn, að Guð heiti Jehóva eða að Guð sé ekki til, svo nokkrir þekktir ásteitingarsteinar séu nefndir. Ekki bætir úr skák þegar látið er fylgja að allir sem séu ósammála séu illa innrættir heimskingjar og hræsnarar.
Undanfarið hefur mér einkum fundist þeim sem aðhyllast síðastnefnda skilninginn hætta til að fara offari í þeirri sannfæringu sinni að þeir hafi höndlað hinn eina, endanlega sannleik um lífið, alheiminn og allt það. Þeir sem trúa því að Guð sé skáldskapur virðast því miður allmargir hafa gefið sjálfum sér leyfi til að míga á helstu kurteisisreglurnar sem ætlast er til þess að þeir sem trúa öðru um Guð fylgi í sínum boðskap. Vanhugsuð og heimskuleg orð sem páfi lét nýlega falla um múslima eru beinlínis vingjarnleg miðað við sumt sem guðleysingjar setja á prent, svo sem að ekki séu þeir sem eiga sér trú einasta fáfróðir, illgjarnir og skinhelgir heldur að trúin sé beinlínis orsök alls ills.
Þannig er fullyrt að starf móður Teresu hafi verið af hinu illa. Að Desmond Tutu hafi gengið erinda hins illa þegar sáttastarf hans kom í veg fyrir borgarastyrjöld í Suður-Afríku eftir afnám aðskilnaðarstefnunnar. Að það sé slæmt þegar hjálparstofnun kirkjunnar tryggir börnum í þróunarlöndunum aðgang að hreinu vatni. Að áfallahjálp við ástvinamissi sé vond. Að afleitt sé að trúarleg reynsla geri eiturlyfjaneytendur og drykkjusjúklinga að nýtum þjóðfélagsþegnum.
Fyrst og fremst er því þó trúað að um þá sem sannfærðir eru í vantrú sinni gildi aðrar reglur um mannasiði en þá sem sannfærðir eru í trú sinni. Já, og að aðeins hinir trúuðu þurfi að hugsa áður en þeir opna á sér munninn.

Bakþankar í Fréttablaðinu 1. 10. 2006

30 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð.

Líklega er kjarni allrar þessarar umræðu sá að þér finnst að ekki eigi að gagnrýna trúarskoðanir. Þær eigi að vera hafnar yfir gagnrýni því þar er um tilfinningar að ræða, en ekki eitthvað sem hægt er að takast á um með rökum.

Er þetta rétt skilið hjá mér?

Davíð Þór sagði...

Töluverð umræða hefur þegar farið fram um þennan pistil á slóðinni http://www.orvitinn.com/2006/10/01/11.21/

Þar fór umræðan fljótlega út um allar trissur. Þeim sem vilja ræða hvenær trúarsannfæring verður ofstæki er frjálst að gera það hér. Þeim sem vilja gera mig andvígan aðskilnaði ríkis og kirkju og kenna mér um nornaveiðarnar í Kongó, andstöðuna við líknardráp og fóstureyðingar vegna trúarhugmynda, efnahagsþvinganir múslima á hendur Dönum, árásir á sendiráð og annan ófögnuð vegnar trúarlegrar viðkvæmni, andstöðu kaþólsku kirkjunnar við notkun getnaðarvarna á borð við smokka, sem varið geta fólk gegn hættulegum sjúkdómum, allar þær skaðlegu „lækningaraðferðir“ sem trúmenn hafa beitt gegnum aldirnar, svo sem að reka út illa anda í stíl við Jesú, umfangsmiklar pyntingar og morð á þeim sem ekki vildu fella sig við ríkjandi trúarhugmyndir, hommahatrið og kvennakúgunina af því að ég leyfi mér að finnast ekki við hæfi að vera kallaður furðufugl og hlandhaus af því að ég trúi og að menntun mín sé kölluð nám í lygum og hræsni bendi ég hins vegar á þá slóð.

Nafnlaus sagði...

"Þeim sem vilja gera mig andvígan aðskilnaði ríkis og kirkju..."

Af hverju setur þú þig í fórnarlambshlutverk Davíð. Hver hefur reynt að gera þig að því sem þú telur upp? Mér finnst þú dálítið gjarn á að ýkja málflutning þeirra sem þú ert ekki sammála.

Það sem við höfum bent á er að þetta sem þú telur upp er meðal þess sem við Vantrúarsinnar berjumst gegn. Við berjumst ekki gegn því að fólk trúi á eitthvað yfirnáttúrulegt eða hafi einhverjar trúartilfinningar.

Við berjumst gegn hlutum eins og leikskólatrúboði, áróðri gegn samkynhneigðum og mismunun þegnanna þegar kemur að lífsskoðunum. Við berjumst gegn því að loddarar selji fársjúku fólki þjónustu sem ekkert gagn gerir, miðlar pretti fólk og prédikarar hirði aur af fátæku fólki.

Þetta kallar þú ofstæki!

Dagga sagði...

Snýst þetta ekki allt um framsetningu, Matthías?

Það hvernig þið komið skoðunum ykkar á framfæri a.m.k. ofstækisfullt.

Svo er þessi yfirnáttúrulegi hæfileiki til útursnúnings.

Davíð Þór sagði...

Matti: Síðasta athugasemdin sem ég nennti að lesa á hinni slóðinni var: "Hvernig væri þá að félög um þessa tilfinningu hætti að boða þessa tilfinningu í leikskólum og grunnskólum? Hvernig væri að tilfinningafélagið hætti að álykta um samkynhneigða og önnur siðferðileg málefni. Hvernig væri að tilfinningafélagið hætti að notast við skattfé mitt.
Hvernig að tilfinningafólkið haldið þessum tilfinningum fyrir sig.
Ef það gerist skal ég alveg hætta að gagnrýna þessar tilfinningar. En meðan fólki er mismunað útfrá tilfinningum held ég áfram að gagnrýna þessar tilfinningar. Sérstaklega þegar þær stangast á við raunveruleikann. "

Halelúja. Ég get tekið undir hvert orð (nema síðustu setninguna). En þá erum við ekki lengur að ræða réttmæti trúar heldur aðskilnað ríkis og kirkju, sem ég hef rekið áróður með í 20 ár, og játningagrunn Þjóðkirkjunnar, sem ég hef líka verið óragur við að gagnrýna opinberlega. Þið ættuð að fara varlegar í að saka aðra um að gera ykkur upp skoðanir. Við gætum snúið bökum saman í þessari baráttu, þótt ekki væri nema til þess að trúarsannfæring mínum yrði sýnd lágmarksvirðing (ég er ekki einu sinni að biðja um sömu virðingu og ég sýni ykkar) – hins vegar er spurning hvort þú kærir þig um samstarf við mann sem að þínu mati er menntaður í lygum og hræsni og slíkur "furðufugl" að lifa bænalífi (til að nota þín eigin orð). Hvað síðustu setninguna varðar: Finnst þér ekkert ofstæki í því fólgið að þú skulir þykjast vita betur en ég hve raunverulegar tilfinningar mínar eru?

Davíð Þór sagði...

PS. Og hvað fyrra kommentið mitt varðar, hver reyni að gera mig að því sem ég tel upp, þá er það koppípeistað af "röksemdafærslu" gegn málstað mínum á heimasíðunni þinni.

Varríus sagði...

Mér finnst þetta góð grein hjá þér, og þú hugaður að beina réttmætri gagnrýni að þessum háværa en hörundsára hópi (heldur óheppileg blanda það).

Nafnlaus sagði...

„... beinlínis vingjarnleg miðað við sumt sem guðleysingjar setja á prent“

... sumir.

Hófsamir eru í meirihluta og ofstækismenn í minnihluta, jafnt á meðal guðvæddra og guðlausra.

Ofstækismennirnir eru bara háværari.

Því hættir guðlausum til að dæma guðsfólkið út frá fullstækum minnihluta þeirra ... og öfugt, eins og hér skín í.

Geri ráð fyrir að það sé oftúlkun á orðum þínum, en hópatal er vandasamt; fólk skilur það iðulega almennar en skyldi. Guðlausir eru ekki almennt meiri dónar en páfinn var í þessari ræðu ... þótt auðvitað séu sumir þeirra það stundum.

En ef þú ætlar að reyna að telja Vantrúarmönnum hughvarf um framsetningu skoðana, þá be warned: það er botnlaus orkuhít og tímaböðull, og hér sæirðu hverju það skilar --- ef þér entist nenna. Stöku meðlimur svarar í góðu. En þú snýrð seint sjálfkrýnda rökkónginum með formannstitilinn.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Það virðist vera svolítið eins og að lenda í engisprettufaraldri að fara í debatt við þetta fólk.

Björn Friðgeir sagði...

Davíð: Og þetta hér er kurteis ábending eða hvað?
Mér þykir þú varpa steinum úr glerhúsi.

Unknown sagði...

Sem hluti af hinum "háværa og hörundsára" hópi trúleysingja verð ég að leggja orð í belg.

Nú hef ég ekkert sérstaklega verið að básúna trúleysi mitt á götum eða torgum. Ég gekk úr Þjóðkirkjunni á sínum tíma án mikillar fyrirhafnar, og er ánægð með þann gjörning. Ég hef ekki verið að predika trúleysi og ég á trúaða vini, alveg eins og ég á Sjálfstæðismenn að vinum. Við erum einfaldlega sammála um að vera ósammála.

En hvað fæ ég á reglulega framan í mig í opinberum ræðum, pistlum og greinum í íslenskum dagblöðum? Jú, að ég og mínir líkar séum ógnun við mannlegt samfélag, að við séum siðlaus og gott ef við erum ekki barnaníðingar líka (fræg grein ónefndar konu í Mbl.) Það er ekki síst fólk sem er á launum hjá skattborgurum sem heldur þessu fram.

Gagnrýni trúleysingja á trúaða er hátíð við hliðina á þessu.

Nafnlaus sagði...

Farfugl: Gerir það Vantrúarmenn meira í rétti að gagnrýna alla sem trúa? Eru Ísraelsmenn þá í fullum rétti til að drepa fólk, af því að fullt af gyðingum hafa verið drepnir í gegnum tíðina?

Nafnlaus sagði...

Frábært innlegg hjá Daníel Frey.

Tek líka undir orð farfuglsinns.

Það þarf t.d. ekki að leita lengi í greinasafni Biskupsinns til að finna
ofstæki. Þar sem hann sáir fræjum fordóma og haturs í garð trúlausra.

Kristni á Íslandi hefur aðgang að miklum fjármunum ( ríkissjóði ) og öflugumtækju (útvarps og sjónvarpsstöðvar ) til að koma mis góðum boðskap sínum á framfæri.

Vantrúaðir hafa tvær vefsíður og einhverjar bloggsíður til að bera hönd fyrir höfuð sér. Það liggur fyrir að ekki þýðir að hvísla í samkepninni við hið stóra og öfluga bákn kristninnar. Því getur verið nauðsynlegt að grípa til sterkra orða svo andófið drukkni ekki í hafi ofgnóttar kristilegs áróðurs.

Unknown sagði...

Eyvindur:

Mér finnst mikill munur á því hvað einhverjir áhugamenn gera í eigin nafni og á eigin kostnað á prívat vefsíðu, eða hvað opinber embættismaður segir í ræðum sem hann heldur í krafti embættis síns, sem n.b. er kostað af íslenskum skattborgurum.

Ríkiskirkja, sem er kostuð af opinberu fé, á ekki að ýta undir fordóma gagnvart einstaklingum eða hópum í samfélaginu.

Nafnlaus sagði...

Aldrei dytti mér í hug að verja kirkjuna. Það er skítkast Vantrúarmanna út í þá sem einfaldlega trúa, hvort sem það er í gegnum kristni eða eitthvað annað, sem fer í taugarnar á mér. Sérstaklega af því að í þeim skrifum birtist oftar en ekki hroki og fordómar sem eyðileggja hin annars ágætu rök sem þeir færa gegn Þjóðkirkjunni og öðrum miður geðfelldum valdastofnunum. Það kemur þeim ekkert við hverju ég trúi, eða hvort ég lít á einhver æðri öfl sem handleiðslu mína í lífinu. Hins vegar kemur hegðan kirkjunnar manna og staður trúarbragða í samfélaginu okkur við, en það tengist bara trú ekki á nokkurn hátt. Það eru stjórnmál.

Davíð Þór sagði...

Takk fyrir innleggið, kæri bróðir. Rökvís og skynsamur sem endranær. Á þessum nótum finnst mér að umræðan ætti að vera. En auðvitað réttlætir það ekki að Y (trúleysingi) kalli X (mig (þ. e. kristið fólk)) vanvita bara af því að Z (biskupinn) kallaði Y vanvita fyrst - jafnvel þótt X og Z sé hvorttveggja samhljóðar (kristnir). Kannski gerðist ég sekur um hið sama, að saka ykkur Gneistann um ofstæki BB og Örvitans, að þið sem hópur rynnuð saman fyrir mér svona eins og trúaðir sem hópur renna saman fyrir guðleysingjum og ég sé orðinn jábróðir biskups í þeirra huga. Sé svo biðst ég afsökunar og finnst ég eiga sömu afsökunarbeiðni skylda. Að vísu minnir krafan um að við með trúartilfinningu "höldum þessum tilfinningum út af fyrir okkur" svolítið á kröfurnar sem einmitt voru gerðar til samkynhneigðra í grárri forneskjunni. Ég hef aldrei farið fram á að trúleysingjar héldu trúleysi sínu út af fyrir sig, bara að þeir forðuðust gífuryrði og óhróður.

Nafnlaus sagði...

"að saka ykkur Gneistann um ofstæki BB og Örvitans"

Hvaða ofstæki ertu eiginlega að tala um Davíð?

Nafnlaus sagði...

ákvað að leggja þetta til umræðunnar.

Nafnlaus sagði...

Matti: Þú hefur einstakt lag á því að spyrja spurninga sem þú telur að skjóti umræðuna í kaf, en eru í raun gjörsamlega marklausar. Þú ættir kannski að íhuga að fara út í stjórnmál. Já, eða bara gerast prestur. Þú værir góður í því.

Svolítið merkilegt hvað margir af Vantrúarfólki virðist eiga í miklum vandræðum með að ræða á skynsamlegum grundvelli við skynsamt trúað fólk. Það virðist sem þið getið ráðist á óskynsamt trúað fólk, en um leið og fólk getur í raun og veru fært rök fyrir sannfæringu sinni eruð þið strax komin út í horn.

Nafnlaus sagði...

Eyvindur, nákvæmlega hvað ert þú að leggja til umræðunnar - annað en upphrópanir?

Ef ég er ofstækismaður er Davíð Þór það líka, sbr orð hans hér um nafngreint fólk í nýlegum bloggum hans.

Mín skoður er sú að við séum hvorugir ofstækismenn, heldur menn með ákveðnar skoðanir á vissum málum sem tölum stundum hreint út.

Annað hvort báðir eða hvorugur. Gildir svosem einu fyrir mig, ég skal glaður deila hóp með Davíð Þór, enda snjall drengur þar á ferð, þó mér þyki hann ekki enn hafa geta staðið við stóru orðin í Fréttablaðsgreininni.

Nafnlaus sagði...

Ég er fyrst og fremst að færa rök fyrir máli mínu. Rök sem hvorki þú né aðrir Vantrúarmenn hafa geta hrakið. En þú?

Nafnlaus sagði...

Þú ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þar, Davíð Þór, ef þú ætlar að standa í hárinu á þessum sómapiltum.

Hérna má sjá heiðarlega viðleitni mína til þess að slútta umræðu sem ætlaði engan endi að taka. Ef menn nenna að rekja sig eftir þessari endaleysu sjá þeir margt fróðlegt!

Nafnlaus sagði...

Þið eruð gestir og hótel ykkar er jörðin. Hvernig væri nú að fara að gera eitthvað uppbyggilegra og innihaldsríkara en að eyða tíma og heilasellum í þetta raus. Og er ég þá að tala um bæði þá trúuðu og vantrúuðu. Til dæmis má einbeita sér að einhverju haldbæru, eins og hörmulegum aðbúnaði munaðarleysingja í Rúmeníu.

Nafnlaus sagði...

Þegar maður er trúleysingi (eins og ég er) þá er ansi erfitt að kyngja ýmsu sem hinir trúuðu halda fram. Sumt er bara svo banal að það er ekki annað hægt en að gangnrýna án þess að vera særandi. Hvað skal t.d segja um þann guð sem margir kristnir trúa á, þann sem "dæmir", þann sem drap son sinn á ógeðslegan hátt til okkur til "frelsunar". Kæri Davið. það er ekki hægt að gagnrýna trúarbrög án þess að gagnrýna guðfræðina sem er að baki!. Það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá glæpum kirkjunnar í sögulegu samhengi. Kirkjan í dag getur ekki skilið sig frá glæpum sem framdir voru í hennar nafni. það er svipað og að segja að SS séu í raun fín samtök í dag þótt ýmislegt hafi nú verði gert slæmt fyrir 60 árum.

Ég hvet fólk að til þess að lesa biblíuna. Það er besta leiðin til þess að verða trúleysingi. og heimin vantar sannarlega fleiri slíkt fólk.

Nafnlaus sagði...

Finnst fólki skrýtið að maður verði pirraður þegar því er haldið fram að maður hafi sagt að maður vildi ekki að Hjálparstarf kirkjunnar gæfi börnum í þróunarlöndum aðgengi að hreinu vatni? Þetta fæ ég í hausinn fyrir að gagnrýni að það sé ekki gerður skýr greinarmunur á trúboði og hjálparstarfi. Davíð dettur að sjálfssögðu ekki í hug að minnast á að ég hef líka talað gegn því að trúleysingjar rotti sig saman í hjálparsamtök.

Í raun stenst ekkert í grein Davíðs nema þetta með Móður Teresu sem fær auðveldlega titilinn ofmetnasta manneskja 20. aldarinnar.

Það hefur verið sagt að Davíð hafi í raun viljað gagnrýna Vantrú fyrir dónaskap, ef hann hefði í raun viljað gera það þá hefði hann átt að gera það. Það er alveg af nógu að taka. En að skrumskæla málflutning okkar svona til þess að koma höggi á okkur er bara óheiðarlegt og fyrir mitt leyti þá finnst mér óheiðarleiki töluvert verri en ókurteisi.

Nafnlaus sagði...

Svo er náttúrulega þessi ógeðfelda hugmynd að siðfræði og guðfræði séu systur.. þetta er einfaldlega vitlaust. Þetta er rangt. Ég tek undir orð Gneistans en verð að bæta við smá atriði.

Ég held að trúleysingjar séu yfirleitt fólk sem hefur reynt að vera trúað. Prufað það en gefist upp á því. Flestir trúleysingjar sem ég þekki eru betur að sér um trúmál en þeir sem eru trúaðir. Rannsóknir í USA benda til þess að hinir trúlausu eru yfirleitt miklu betur læsir á biblíuna en þeir sem eru t.d bókstafstrúar. Siðferðislega eru trúlausir sennilega traustri því skilnaðartíðni er lægst meðal þeirra en trúaðra.

Hvað mig varðar þá fer afar mikið í taugarnar á mér hvað hinir trúuðu sýna umhverfinu mikið yfirlæti. Prestar eru t.d óþolandi hvað þetta varðar. ég fæ alltaf á tilfinninguna það þeir upplifi sig aðeins nær guðdóminum en pöpullinn...

Ég get ekki gert að því en ég á afar erfitt með að umbera trúardelluna í krinum mig. Spillinguna, hæpna guðfærðina, framapotið, þversangnir trúarritanna, blóði drifna fortíðina, sögufalsanirnar, getnarvarnarbannið, hræsnina, páfadelluna, Því miður Davið. Það er erfitt að tala um trúmál án þess að vera beinskeittur. upplifun kattarins í kringum heita grautsinn er náttúrulega plan sem hinir trúuðu vilja endilega vera á.

það er bara svo ótrúlega morkið og gegn skynsemninni að þurfa að tipla á tánum í kringum "trúarsannfæringu" annara.

Ég man alltaf eftir dæmi sem kom fyrir mig á Akureyri. Mér var það á að kveikja mér í sígarettu með þvi að nota kerti til þess arana. Kemur þá ekki aðvífandi maður einn frekar þungbrýndur og tilkynnir mér alvarlegur að ég hafi núna "drepið sjómann". "Ha?" sagði ég. "Drap ég sjómann?". Sá þungbrýndi sagði mér á að samkvæmt eldgamalli þjóðtrú væri það trú (og vissa) flestra í sinni sveit að sígarettutendringar með þessum hætti hefðu í för með sér að saklaus sjómaður færi í hafið.
Ég spurði hvort þetta gilti einnig um pípureykingar en hann sagðist ekki halda það. ég sagði honum þá að sígarettur væru tiltölulega nýjar í Íslandssögunni og ekki meira en svona 50 til 70 ár síðan fyrsta sígarettan nam hér land í Berkjunesi. Eftir smá umræður sættist sá þungbrýndi á að engin tengsl væru á milli sígarettutendringa með kerti og sjóslysa. Hann sagði samt svolítið sem ég gleymi aldrei. hann sagðgi ég ég ætti að láta af þessu sið "því það gæti móðgað suma sem trúa þessu".....

Akkúrat. á ég að sýna þeim sem trúa þessari vitleysu sérstaka nærgætni? Af og frá. það er af og frá að ég geri það. þeir sem trúa á orsakasamhengi milli sjóslysa og þvi að kveika í sígarettu á ákveðin hátt geta bara átt sína hjátrú í friði. Ég ætla ekki að haga orðum mínum eftir dutlungum hjátrúarliðs.

annars óska ég þér til hamingju með ammælið og vona að þú eyðir ekki þessar færslu.

Davíð Þór sagði...

Þakka viðbrögðin. Ég hef það fyrir sið að eyða ekki færslum þótt ég sé ósammála því sem þar kemur fram. Kemur þar til eðlislæg óbeit mín á hvers konar ritskoðun. Þeir sem beita rökleysum fyrir sig sverta hvort sem er aðeins sjálfa sig. Ég áskil mér þó fullan rétt til þess þyki mér ástæða til, sem mér hefur ekki þótt enn.

Mér þykir leiðinlegt að hafa móðgað Óla Gneista, enda finnst mér hann klár drengur og er sammála honum um fjölmargt þótt ég sé ósammála honum um trú, og leitt að honum hafi fundist ég ráðat á sig í þessum pistli. Þegar ég las pistilinn yfir aftur til að aðgæta hvort eitthvað sé ofmælt í honum rakst ég nefnilega á að svo er ekki. Ég fullyrði aðeins að "allmargir" trúleysingjar fari að mínu mati yfir velsæmismörk í skrifum sínum og við það stend ég. Þegar ég les skrif Gneistans betur með það í huga að hann sé ekki ábyrgur fyrir skrifum Örvitans og BB sé ég hins vegar að hann getur ekki með góðu móti talist einn þessara allmörgu, enda greinilega skynsemispiltur að flestu leyti þrátt fyrir ranghugmyndir sínar (að mínu mati) um almættið. Ég skil því ekki að hann bregðist við eins og vegið hafi verið að honuum persónulega. Ég álít það ofstæki, sem BB gerir, að telja allt slæmt sem trúað fólk hefur gert dæmi um "skaðsemi trúarhugmynda" en að allt hið góða sem trúað fólk geri (Tutu, A.A., Hjálparstarf Kirkjunnar ... o.s.frv.) skuli hins vegar ekki teljast trú til tekna á nokkurn hátt.
Og að blanda "því að loddarar selji fársjúku fólki þjónustu sem ekkert gagn gerir, miðlar pretti fólk og prédikarar hirði aur af fátæku fólki" inn í gagnrýni mína á orfæri ykkar um guðstrú og að fyllyrða að ég vilji svipta trúleysingja tjáningjarfrelsinu, eins og Örvitinn gerir, er auðvitað ekkert annað en strámaður af yfirstærð.

Nafnlaus sagði...

Það var nú líka dálítil ósanngirni í þessu:

"Að það sé slæmt þegar hjálparstofnun kirkjunnar tryggir börnum í þróunarlöndunum aðgang að hreinu vatni. Að áfallahjálp við ástvinamissi sé vond."

Umkvartanir vantrúarseggja snerust vitanlega ekki um hreina vatnið og áfallahjálpina, heldur það að nota tækifærið og tjóðra trúboð saman við þessi góðverk. (Eða „notfæra sér miskunnarlaust neyð annarra til að véla þá inn í kirkjuna,“ eftir því hversu dramatískt andófið á að vera.)

Þú mátt ekki gefa svona færi á þér; þá er einblínt á þessa ósanngirni þína, einmitt til að drepa hinum sanngjarnari umvöndunum þínum um ruddalegan málflutning á dreif.

Nafnlaus sagði...

Davíð segir: . „Ég álít það ofstæki, sem BB gerir, að telja allt slæmt sem trúað fólk hefur gert dæmi um "skaðsemi trúarhugmynda" en að allt hið góða sem trúað fólk geri (Tutu, A.A., Hjálparstarf Kirkjunnar ... o.s.frv.) skuli hins vegar ekki teljast trú til tekna á nokkurn hátt.“

Þú álítur. Hefurðu einhver rök til að bakka upp þetta álit þitt. Ég hef rök fyrir því sem ég segi. Það hlýtur þá að vera rökstutt ofstæki, en álit þitt órökstudd hófsemi.

Nafnlaus sagði...

"og að fyllyrða að ég vilji svipta trúleysingja tjáningjarfrelsinu, eins og Örvitinn gerir, er auðvitað ekkert annað en strámaður af yfirstærð."

Ég er greinilega farinn að kalka alvarlega á gamals aldri, hvar set ég þennan strámann fram? Hvar fullyrði ég að þú viljir svipta okkur tjáningarfrelsinu?

Ertu að tala um bloggfærslu mína þegar ég túlka pistilin þinn svona: "Jú, það er bannað að gagnrýna trú og trúfólk."

Ég tók reyndar undir í athugasemd að sú túlkun mín gæti verið röng, hefði verið sett fram í hálfkæringi, en sjálfur virðist þú staðfesta hana í athugasemd hjá mér þegar þú talar um að trúarskoðunum eigi að sýna virðingu og tillitssemi. Varla sýnir maður trú virðingu eða tillitssemi með því að gagnrýna hana, jafnvel þó orðfæri sé fagurt.