þriðjudagur, október 31, 2006

Legókubbar sálarinnar

Því eru lítil takmörk sett hvað mér drepleiðast rökræður núorðið, eins og ég hafði gaman af þeim þegar ég var yngri. Ég vil jafnvel taka svo djúpt í árinni að fullyrða að fátt sé einmitt betur til þess fallið að eyðileggja samræður en rök. Rök eru þurr og leiðinleg, fyrirsjáanleg og þarafleiðandi fullkomlega húmorslaus. Rökvillur eru fyndnar.
Rök eru legókubbar sálarinnar. Þroskaleikföng. Æfing í að hugsa skýrt fyrir stráka í Morfísleik sem halda að þau leysi lífsgátuna. Með þeim kryfja þeir heiminn eins og þeir skynja hann til að skilja hann betur. En maður vex upp úr þeim. Það býr enginn í húsi úr legókubbum.
Smám saman áttar maður sig á því að það sem skiptir raunverulegu máli, verðmætin sem mölur og ryð fá ekki grandað, byggir ekki á rökum. Ást og fegurð, hamingja og kærleikur – ekkert af þessu er niðurstaða gildrar rökleiðslu. Þetta eru tilfinningar sem eiga það til að þyrma yfir mann, algerlega upp úr þurru, án þess að hægt sé að henda nokkrar reiður á því hvaðan þær koma eða hvers vegna. Stundum eru þær hreinlega ópraktískar, en eru samt þess eðlis að ekki er hægt að leiða þær hjá sér.
Það er ekkert rökrétt við að eyða stórfé og tíma í að slá kúlur ofan í holur í jörðina eða að standa úti í á og veiða fisk sem maður sleppir og koma svo við í fiskbúð á leiðinni heim. Það er ekkert rökrétt við að hafa sérviskulegan smekk og úthella blóði, svita og tárum til að geta haft hlutina nákvæmlega eftir manns eigin höfði. Það er ekkert rökrétt við að fyllast hugarró við að lúta höfði og viðurkenna að sumt geti maður einfaldlega ekki vitað og ákveða í staðinn að treysta í blindni. Samt hafa meintar skynsemisverur staðið sig að þessu öllu og mörgu enn órökréttara og ekki bara sloppið klakklaust frá því heldur beinlínis fundist það auka lífsgæði þeirra. Dýrmætustu svið tilverunnar eru einfaldlega handan raka.
Rök eru gróf einföldun á tilverunni. Tilveran er ekki gerð úr hornréttum einingum sem smella saman á skipulegan hátt. Stundum ræður það eitt hvernig maður kýs að líta á hlutina, því hvort og hvernig þeir yfirhöfuð smella saman. Það er auðvitað þvert á öll rök.
Mesta rökvillan er þó auðvitað sú að ætla að færa rök fyrir því af hverju rök mega sín lítils.
Bakþankar í Fréttablaðinu 29. október 2006

5 ummæli:

Björn Friðgeir sagði...

>Það er ekkert rökrétt við að eyða
>stórfé og tíma í að slá kúlur ofan
>í holur í jörðina eða að standa úti
>í á og veiða fisk sem maður sleppir
>og koma svo við í fiskbúð á leiðinni heim.

Rangt.
Þetta er fullkomlega rökrétt. Innan hagfræðinnar hafa verið smíðuð fræði um þetta, nytjafræði, enda eru hagfræðingar áfram um að skilja hagfræðilega hegðun fólks. Hugmyndin um að fólk sé í sífellu að hámarka svokölluð nytjaföll sín (óafvitandi, ekki með því að teikna föll á blað eins og hagfræðingar gera þegar þessu er lýst) er lykill að hegðun neytenda. Megin takmarkandi þættir eru auðvitað fjárráð og tími, en síðan er það smekkur manns sem ræður hvernig peningum og tíma er eytt.
Þér finnst auðvitað skelfilegt að það sé hægt að beita rökum á þetta, en því miður fyrir þessa þanka þína er það svo. Niðurstaðan að "Dýrmætustu svið tilverunnar eru einfaldlega handan raka." er ekki rétt, og er misnotkun á orðinu 'rök'.

Björn Friðgeir sagði...

Afsakaðu, ég gleymdi:
>Það er ekkert rökrétt við að fyllast
>hugarró við að lúta höfði og viðurkenna
>að sumt geti maður einfaldlega ekki vitað
>og ákveða í staðinn að treysta í blindni.

Auðvitað getur það verið rökrétt. Það að einstaklingum finnist fró í einhverju hefur bara með þeirra þankagang að gera. Sumir öðlast ró við að hugsa svona, aðrir með því að hugsa þannig að þeir geti vitað og geti breytt.

Það sem er ekki rökrétt er að þakka þessa hugarró einhverjum utanaðkomandi krafti og kalla hann Guð, Allah, Þór, Óðinn eða Vishnu.

Hnakkus sagði...

Ertu með einhver rök fyrir þessu?

þórhallur sagði...

Mig langaði bara að segja "Hæ"
ekkert meir....

Nafnlaus sagði...

Sorrý Davíð en nú missirðu alveg marks. Rök eru einfaldlega leið til að komast að niðurstöðu útfrá gefnum forsendum. Það eru fullgild rök fyrir því að standa útí á og veiða og sleppa fiskum á víxl: Það lætur mér líða vel. Það _mætti_ rökræða það áfram _af hverju_ það lætur mér líða vel hafi menn einhvern áhuga á því og dæmi þar hver fyrir sig hvort svo sé. Ekki dissa rök sem tilgangslaus þó þau hafi ekki gagnast þér við leitina að vellíðan.

Það sem þú og fleiri þeir sem fundið hafa trú eruð í raun og veru að segja er að hinn _mælanlegi_ sannleikur skipti ekki máli þegar honum er stillt upp gegn vellíðan og hamingju fólks. Ég skal ekki rengja það, en spyr bara á móti: Skiptir mælanlegur sannleikur þá engu máli?