föstudagur, október 06, 2006

Þ.R.A.U.K. 4: Leyfi til að hræsna

Hinn geðþekki leikari Roger Moore bættist nýverið í ört stækkandi hóp Íslandsvina. Hann kom hingað til að láta gott af sér leiða og vekja máls á þeirri skelfilegu staðreynd að dag hvern deyja 40.000 börn úr hungri hér á reikistjörnunni. Gott verk og þarft. Mér skilst að karlinn hafi boðið af sér góðan þokka í hvívetna og heyrði ekki betur en að hann léti býsna vel af kynnum sínum af landi og þjóð. Ég sá viðtal við hann í Kastljósinu þar sem hann fór fögrum orðum um galakvöldverðinn sem haldinn var og hve mikið fé safnaðist þar handa bágstöddum. Gott ef hann lét ekki í ljós sérstaka aðdáun á því að jafn fámenn þjóð og Íslendingar gæti snobbað á heimsmælikvarða.
Reyndar hafði ég frétt af þessu partíi og uppboði sem þar var haldið, meðal annars seldist ómálað málverk á 21 milljón og einhver borgaði nokkrar milljónir fyrir að fá að segja veðurfréttir í sjónvarpinu. Ég ætla ekki að draga það í efa að þessir peningar muni koma að góðum notum í baráttunni gegn hungri og vosbúð í fátæku löndunum. En eitthvað við þetta allt saman gerði það nú samt að verkum að mér varð óglatt.
Vandamálið er nefnilega misskipting auðsins. Þeir sem slett geta fram tugum milljóna fyrir málverk upp á von og óvon um hvort þeir eigi eftir að fíla það og finnst sniðugt að flagga ríkidæmi sínu með því að borga árslaun verkamanns fyrir að sjást í sjónvarpi ... þeir eru með öðrum orðum vandamálið – EKKI lausnin.
Það er eitthvað ferlega ógeðfellt við það að vestræn efnishyggja haldi óhófi sínu veglegan fögnuð til styrktar fórnarlömbum sínum. Það ber siðferðisvitund þjóðarinnar ekki fagurt vitni að enginn skuli sjá tvískinnunginn sem þarna tröllríður húsum, að frá þessu sé sagt eins og sniðugri, jafnvel svolítið sætri og krúttlegri sérvisku ríka fólksins sem undir niðri er svo vel innrætt að það vill láta gott af auðlegð sinni leiða.
Enn ógeðfelldara er þó að með þessu er þeim sem feitustum hesti ríða frá nauðgun þriðja heimsins, frumforsendu vestrænnar velmegunar, stillt upp sem einhverjum mannkynslausnurum og þeim veittur stimpill upp á göfugt innræti. Ógeðfelldast er þó þegar gefið er í skyn að deyjandi börn kúgaðra þjóða standi í einhverri þakkarskuld við þetta pakk. Það má líkja þessu við að taka ránmorðingja í dýrlingatölu fyrir að láta brotabrot af þýfinu renna til aðstandenda fórnarlambsins.
Sá sem vill slá sjálfan sig til riddara með því að rétta fátækum manni brauð og er svo ósmekklegur að finnast við það tilefni vera við hæfi að hlaða á sig skartgripunum sínum (hverra andvirði gæti brauðfætt meðalstórt þorp í eitt ár) á ekki skilið hól heldur löðrung. Þessi kvöldstund var hátíð til dýrðar vandamálinu, ekki lausninni. Það þarf einhverja óskiljanlega siðblindu til að geta ruglað þessu tvennu svona gjörsamlega saman.
Birt á "Lífið er auðvelt" desember 2005

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott orð Hr.Davíð.....hræsnin er talsverð eins og þú bendir á. Má til með að benda þér á skemmtilega umræðu varðandi einmitt einn ríkasta mann Íslands sem borgar hér enga skatta eða gjöld en ræður núna yfir 2 stærstu almenningshlutafélögum og fjárfestingarfélögum landsins (Burðaráss og Straum) og notar að vild....
býsna magnað helvíti hvernig þessir menn operata....og í umræddu viðtali sem vitnað er í upphafsinnleggi er einmit minnst á að ástæðan fyrir því að forstjóri Straums var rekinn sem og fyrrum hluthafar flæmdir burt var einmitt sú að Hr.B fékk ekki að nota sjóði Straums til að elta sínar fjárfestingar til útlanda...

en hér er umræðan.....
http://barnaland.mbl.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=4939904&advtype=52&page=7

Nafnlaus sagði...

"...nauðgun þriðja heimsins, frumforsendu vestrænnar velmegunar"

WHAT?! Vestræn menning dafnaði betur en flestar aðrar löngu áður en Evrópumenn vissu að heimurinn næði suður yfir Sahara, austur yfir Úralfjöll og vestur fyrir Írlandsstrendur.

Og ég efast satt að segja um að megninu af þriðja heimsinum vegnaði neitt betur í dag hefðu Vesturlandabúar látið hann afskiptalausan á 16.-20. öld.

Davíð Þór sagði...

Eysteinn Kristjánsson hefur rangt fyrir sér. Þar sem í dag heitir þriðji heimurinn var stjörnufræði og læknisfræði, svo dæmi séu tekin, á mjög háu plani á sama tíma og forfeður hans bjuggu í holum sem þeir grófu sér ofan í jörðina, settu spýtur sem þeir síðan tyrfðu yfir og kölluðu torfbæ.

Nafnlaus sagði...

það á s.s. ekkert að kommentera á viðskiptahætti Hr.B Dabbi ???

hélt að þú myndir sjá rautt bara...