mánudagur, október 09, 2006

Þ.R.A.U.K. 9: Drekkjum Valgerði!

Einu sinni fékk ég morðhótun. Síminn hringdi og sallaróleg kvenmannsrödd innti mig eftir því hvort ég væri sá sem ég er. Þegar konan hafði fengið það staðfest tilkynnti hún mér að það ætti að skjóta mig í hausinn og að hún hygðist sjá til þess að það yrði gert á næstunni. Ég verð að viðurkenna að mér varð hreint ekki um sel. Ég hringdi í lögguna og kærði þetta og síðan hringdi ég í vinkonu mína, þjóðþekkta og umdeilda manneskju, og sagði henni að ég hefði fengið morðhótun. Hennar svar var: "Velkominn í klúbbinn."
Það er því miður staðreynd að á Íslandi er fullt af sjúku fólki sem fær eitthvað kikk út úr því að hringja í þekkt fólk, einkum umdeilt, og hóta því lífláti. Þess vegna eru mjög fáir þjóðþekktir, umdeildir Íslendingar í símaskránni. Þetta lasna lið finnur til sín, það fyllist einhverri valdstilfinningu og finnst það menn að meiri með því að geta komið einhverjum frægum í uppnám. Hins vegar er það staðreynd að þetta lið er heybrækur og raggeitur sem aldrei gætu mannað sig upp í að framkvæma það sem það er að hóta. Það er aðeins hugrakkt í gegn um síma og undir nafnleynd. Nú eru tíu ár síðan ég fékk þessa morðhótun og hafi mér verið sýnt morðtilræði á þeim tíma hefur það verið svo gersamlega mislukkað að ég varð þess ekki einu sinni var.
Morðhótanir sem málaðar eru á borða sem gengið er með í skrúðgöngu niður Laugaveginn án þess að borðaberar reyni að hylja andlit sín eru auðvitað engar morðhótanir heldur slagorð. Slagorð þurfa ekki alltaf að vera vel til fundin og slagorðið "Drekkjum Valgerði, ekki Íslandi" er að mínu mati handan velsæmismarka og málstaðnum ekki til framdráttar. Ennfremur er það vanhugsað því það gefur virkjunarsinnunum höggstað á okkur, þeir víkja sér undan að ræða málefnið til að ræða slagorðið – eins og raun ber vitni.
En þar sem æska og eldmóður fara saman er ekki alltaf pláss fyrir etíkettur.
Hins vegar þarf alveg gríðarlega vænisýki og veruleikabrenglun til að að taka þetta slagorð bókstaflega og halda að lífi iðnaðarráðherra sé í raun ógnað. Slíkt fólk er búið að loka sig af inni í sínum eigin heimi ásamt gagnrýnislausum jábræðrum sínum of lengi. Umhverssinnar eru í huga þess orðnir siðlausir terroristar sem ekki víla fyrir sér mannrán og morð frekar en Al Kaída. Andri Snær og Osama Bin Laden eru af sama sauðahúsi í hausnum á því. Hernaðaraæfingar miða ekki við árás fjandsamlegs ríkis heldur hryðjuverkaárás af hálfu Hörpu Arnardóttur, leikkonu, og félaga hennar. Þarf frekari vitnanna við?
Finnist Valgerður Sverrisdóttir eftir að hafa verið drekkt í baðkarinu heima hjá sér má bóka að síðasta fólkið sem líklegt er að verið hafi þar að verki er fólkið sem labbaði með orðin "Drekkjum Valgerði" á borða niður Laugaveginn skömmu áður. Mun líklegra er að morðinginn sé einhver sem sér sér hag í að freima þá aðila fyrir glæpinn. Það þarf ekki að hafa lesið margar glæpasögur eða horft á marga CSI þætti til að sjá þetta í hendi sér.
Morðingjar auglýsa nefnilega yfirleitt ekki fyrirætlanir sínar, það erfiðar þeim að ljúka verkinu. Þannig að í raun ætti maður að fagna því að fá morðhótun. Þar með er einum einstaklingi færra sem hætta er á að drepi mann.
Birt á "Lífið er auðvelt" 6. júní 2006