þriðjudagur, október 03, 2006

Lífið á afmæli í dag

Í dag er eins árs afmæli þessarar síðu. Hamingjuóskir af því tilefni eru þegnar. Í aðdraganda þessara tímamóta velti ég því allengi fyrir mér hvort og þá hvernig ég ætti að halda upp á þau og ákvað að þiggja/stela hugmynd frá bróður mínum. Hún lýsir sér í því að ég ætla að halda upp á afmælið alla næstu viku með því að birta einu sinni til tvisvar á dag brot af því skásta (að eigin mati) frá liðnu ári, endurtekið efni. Þessa efnisþætti hef ég af hógværð minni ákveðið að kalla Það Rismesta Af Undangengnu Klóri (skst. Þ.R.A.U.K.) og er sá fyrsti væntanlegur í fyrramálið.
Restin af þessari færslu hérna er síðan bara hugleiðingar mínar um eðli bloggs almennt og þessa ákveðna bloggs, sem í sjálfu sér er engin ástæða til að lesa sé maður ekki sérstakur áhugamaður um blogg, eðli þess og framsetningu.

Á þessu ári hef ég dálítið pælt í þeim sið að blogga og hvaða tilgangi hann þjónar eiginlega. Áður en ég tók upp á þessum óskunda hafði ég nefnilega lítinn skilning á þessu fyrirbæri og bar fyrir því litla virðingu. Mér fannst með ólíkindum að allt þetta fólk skyldi telja daglegt líf sitt eiga erindi fyrir allra augu og pælingar sínar svo djúpar og spennandi að setja þyrfti þær beint á vefinn. Síðan kynntist ég Þórunni Grétu og varð var við það hvernig hún notar bloggið sitt og þá opnaðist fyrir smá skilningsglætu hjá mér og ég ákvað að prófa, án þess að hafa í raun neina ákveðna hugmynd um hvað fyrir mér vakti.
Nú blogga ég til að vera í betra sambandi við fólk. Ég hringi til dæmis ekki daglega í Huldu, Danna bróður eða mömmu upp úr þurru bara til þess að heyra í þeim hljóðið og spyrjast fyrir um hvað þau séu að gera. Hins vegar fer ég reglulega inn á síðurnar þeirra og kem kannski með athugasemdir við færslur þeirra. Þannig á ég samtal við þau sem ég annars færi á mis við, læt vita af mér og næ að fylgjast með mínum nánustu og taka þátt í pælingum þeirra.
Sömuleiðis hef ég smám saman komið mér upp rúnti af fólki sem ég kíki reglulega á bloggið hjá. Listinn yfir það er hér til hliðar og kallast Misgáfulegt lið. Vegna titilsins er rétt að taka það fram að ég álít ekkert heimskt lið vera á honum, ég kræki ekki í heimskt lið. Allt er þetta lið að mínu mati gáfulegt, misgáfulegt þó. Ég spjalla við það um daginn og veginn, fíflast í því með alls konar athugasemdum og skiptist á skoðunum við það. Nú eða ég læt mér bara nægja að hlusta. Þetta kemur nánast í stað kaffistofunnar í vinnunni (ég er einyrki og vinn heima í stofu), en hefur þá kosti að ég þarf ekki að nuddast utan í neinum sem mér leiðist og get valið mér hverja ég hitti í kaffipásum. Auðvitað kemur þetta ekki alfarið í stað persónulegra samskipta, en fer býsna langt með það.
Ennfremur hefur þetta orðið til þess að ég hef kynnst fullt af fólki sem ég í raun þekki ekki neitt og það finnst mér skemmtilegast. Ég er til dæmis ekki alltaf sammála Hnakkusi, ég veit ekki einu sinni hvað hann heitir, en mér finnst aldrei leiðinlegt í heimsókn hjá honum (jafnvel ekki þegar mér finnst hann mætti gæta orða sinna betur). Ég álpaðist inn á síðuna hans af tilviljun af því að Hjörtur Howser er með krækju á hann. Fjallabaksleiðin er líka áhugaverð, náungi sem ég hef spjallað við en myndi varla þekkja á götu ef hann væri ekki skælbrosandi með hatt. Tótu pönk kannast ég að vísu við frá því í gamla daga. Ef við ynnum á sama stað og ég reykti færum við líklega oft í sígópásur saman. Ég heimsæki fleiri reglulega sem of langt mál yrði að nefna hér og kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir viðveruna (samveruna er ekki alveg rétt orð í þessu samhengi).
Gallinn er auðvitað sá að alls konar lið hefur aðgang að því sem maður er að pæla og gera og er í aðstöðu til að henda í mann hvaða skít sem því þóknast í orðabelgnum, einkum ef bloggið er auglýst og athugasemdirnar fara að skipta tugum. Hér eru tildæmis nokkrar sem að mínu mati eru ekki bætanna virði sem varðveita þær. Fyrir vikið getur maður lent í því að vera í bullandi vörn á sinni eigin síðu og nánast þurft að réttlæta veru sína í sínu eigin partíi. Mér finnst nefnilega eitthvað siðferðilega rangt við að þurrka út athugasemdir sem maður fílar ekki eða að lagfæra færslur eftir á. Það hef ég aðeins gert til að leiðrétta það þegar tæknin dælir sömu athugasmed oft inn og þegar mér verður það á að fara augljóslega rangt með staðreyndir (eins og í hvaða flokki menn eru), en ekki þegar ég sé eftir á að sennilega hefði ég átt að gaumgæfa orðalag hugsana minna aðeins betur áður en ég setti þær á prent. Því auðvitað hef ég stundum hlaupið á mig. Nú síðast setti ég reiðilestur um málfræðivillur í Ríkisútvarpinu inn á vefinn til þess eins að vera bent á það skömu síðar að ég hefði rangt fyrir mér, að máltilfinning mín væri einfaldlega röng skv. Orðabók Marðar. Ég varð þó alltjent fróðari fyrir vikið. Mér finnst blogg með óvirkt kommentakerfi eiginlega ekki þjóna tilgangi sínum, bloggsíða á að mínu mati vera vettvangur samskipta en ekki einhliða yfirlýsinga. Hins vegar er það mjög góð vörn gegn meðvirkni og bloggfíkn svo ég skil þá sjálfsvarnarráðstöfun vel.
Hinn gallinn er nefnleiga sá hve meðvirkur ég er að eðlisfari. Ég þarf að taka á öllu sem ég á til að finnast ég ekki stöðugt verða að vera vakandi yfir þessu, passandi síðuna eins og ungabarn og alltaf að eiga síðasta orðið í öllu sem hér er rætt og yfirhöfuð varðar mig á netinu. En við það gæti ég auðvitað orðið ellidauður (einkum þegar trúmál ber á góma). Nú er ég að vinna markvisst í því að sleppa tökunum.

Upp á síðkastið hef ég verið að föndra með mát (e. template) síðu þessarar, þ. e. hvernig ég flokka tenglana. Ég hef verið með vini, kunningja, fjölskyldu, Hafnfirðinga og þar fram eftir götunum flokkaða eftir ýmsum reglum nánast eftir því hvernig ég hef verið stemmdur frá degi til dags. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef þurft að velta því fyrir mér hverja ég þekki, hve vel, hvernig og hvort ég þekki þennan betur en hinn, upp á það í hvaða flokki hann eigi heima. Þetta leiddist mér og ákvað þess vegna að setja bara alla í einn flokk. Þetta þýðir reyndar að góðir vinir mínir eins og Kolbeinn Proppé lenda í hópi með bláókunnugum mönnum eins og Gneistanum. En sjálfsagt er þeim sem heimsækja síðuna nokk sama um persónleg tengsl mín við þá sem hér eru til hliðar, hins vegar er það spurning hvort vinir mínir móðgist við að vera hafðir í almenningnum. Hvað aðra tengla varðar er ég hálfpartinn úti að aka og veit ekki hvaða ástæða er til að vera með svoleiðis ef nokkur. Í raun byrjaði ég á því að vera með krækjur á aðrar síður af því að allir eru með svoleiðis og fannst sjálfsögð kurteisi að tengja á þá sem tengdu á mig.
Allar ábendingar frá dyggum lesendum varðandi viðmót síðunnar minnar, hvað megi betur fara til að gera hana aðgengilegri, hvað vanti, hverju sé ofaukið o. s. frv. eru vel þegnar.

Að lokum vona ég að þessi síða eigi eftir að vera vettvangur gefandi samskipta við annað fólk um áraraðir.

25 ummæli:

Varríus sagði...

Til hamingju með afmælið.

Hildigunnur sagði...

til hamingju með afmælið.

góð úttekt :-)

Langi Sleði sagði...

Til hamingju með daginn.
Þetta blogg eða hinar svoköllu fjarveruheimsóknir til vina, vandamanna og annarra eru ákaflega upplífgandi.
Er mjög sammála þér varðandi meðvirknina í þessu öllu saman.
Oft líður mér þó eins og sundlaugarverði sem fylgist með því að það komi ekki kúkur í laugina!

Kristín sagði...

Til hamingju með afmælið. Og takk fyrir tengil á mig í almenningi. Ég er að farast yfir því að vita ekki hversu misgáfuleg ég er.

Unknown sagði...

Til hamingju með afmælið.

Það er alveg rétt hjá þér að bloggið er fín leið til að halda sambandi við vini og ættingja - og svo eignast maður nýja "vini" í leiðinni. :)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með áfangann. Ég get ekki sagt að ég þekki nokkurn skapaðann hlut, en ég hef alltaf gaman af því að lesa hugleiðingar þína, held að ég hafi aldrei skilið eftir tjásu hjá þér áður. En við svona hátíðleg tækifæri er sjálfsagt að brjóta odd af oflæti sínu. Keep up the good work.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Já, til hamingju.

Þér að segja tek ég hattinn aldrei niður og er síbrosandi.

Nafnlaus sagði...

Hammarann með ammarann.

Bendi á staðal þar sem fólki er gert kleift að flokka vini, kunningja, samstarfsmenn og kollega.

http://gmpg.org/xfn/

Ég er ekki viss um að það sé auðvelt mál að bræða þetta saman við Bloggerinn, en ef þú notar Wordpress kerfi, þá er þetta innifalið.

Það er kannski ekki þess virði að skipta, en Wordpress hefur líka margt fleira umfram bloggerinn. Endalaust úrval af stílsniðum og viðbótum svo eitthvað sé nefnt.

Skil þetta með meðvirknina, maður fylgist með kommentum á bloggi, spjallborðum flickri, tékkar á traffíkinni á vefjum sem maður mælir umferð á og svo framvegis.

RSS straumar geta hjálpað manni að fylgjast með, en það geldir kannski bara sportið.

Alda sagði...

Hamingjuóskir!! Afar fróðlegt og skemmtilegt að lesa hugrenningar þínar um blogg og bloggheiminn. Vinn sjálf einsömul heima og nota 'heimsóknirnar' í svipuðum tilgangi og þú. Sé að ég er þess heiður aðnjótandi að hafa ratað inn á misgáfulega listann og þakka pent fyrir mig!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ekkert siðferðislega rangt við að þurrka út færslur sem manni líkar ekki. Ekki frekar en að gera hreint þegar einhver kúkar í garðinn manns.

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með daginn. Fann þig í gegnum Hjört Howser fyrir ekki svo löngu. Eftir að ég byrjaði að blogga nú í maí hef ég mun meiri samskipti við vini mína og hef líka kynnst mörgum skemmtilegum bloggurum. Kíki reglulega á bloggvini þína, eins og mína, og finnst þetta allt mjög áhugavert fólk, gladdist ekkert smá að verða ein af þessum misgáfulegu. Vonandi bloggar þú sem lengst!

Þórunn Gréta sagði...

Ætli sökudólgurinn verði þá ekki líka að koma á framfæri hamingjuóskum ;)

Nafnlaus sagði...

Til Hamingju! Ég fylgist spennt með hverri nýrri uppfærslu (þó þær mættu vera fleiri og þéttari, en það er víst ekki hægt að panta þetta) eins og margir fleiri, og vona að þú haldir áfram í mörg ár til.

Nafnlaus sagði...

Já hann er skrítinn og skemmtilegur þessi bloggheimur. Maður veit allskonar hluti um allskonar fólk sem maður þekkir ekkert. ég held að þetta sé einhver undarleg blanda af sýni- og gægjuþörf.

Gummi Erlings sagði...

Til hamingju með ammælið. Og takk fyrir linkinn.

Anna Kristjánsdóttir sagði...

Til hamingju með afmælið.
Ertu svo loksins hættur að reykja? Ég lofa að hætta að bögga þig með aðfinnslum í þeim dúr, enda sjálf fyrrum stórreykingamanneskja!

Hjörtur Howser sagði...

Og mér þykir líka ákaflega vænt um þig Davíð minn.

... því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn....

Og það sem þú skrifar þar með fingrinum skiptir oftar en ekki töluverðu máli. Ég held mikið upp á síðuna þína.
Kv.
HH..

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið, ég man alltaf eftir mínu svona hálfum mánuði of seint. En svona tenglalistar eru vissulega mikil og flókin vísindi, þetta er nærri því jafn flókið og að bjóða í partí ...

Björn Friðgeir sagði...

Til hamingju með bloggafmælið! Alltaf gaman að lesa, þó ég leyfi mér að vera ósammála stundum.

kerling í koti sagði...

Til hamingju með áfangann! En það er nú samt allt í lagi að hringja stundum!

Hnakkus sagði...

Til lukku! Hendi upp link á þig ef ég kemst einhvern tíma yfir letina og ómennskuna og set upp linka almennt.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju félagi. Þetta er einmitt fín leið til að vera í kontakt við fólk sem maður hittir ekki á hverjum degi.

Ég sá nú ekki betur en að í tiltekt þinni hefði tengill á mig horfið!

Davíð Þór sagði...

Þakka allar hamingjuóskirnar. Kolbeinn, tengillinn á þig er í almenningnum og heitir eftir síðunni þinni: "Life is no way to treat an animal". Svo máttu vera miklu duglegri við að blogga.

Rustakusa sagði...

Hamingjuóskir góurinn :-D
..ég fékk nú samt nett kvíðakast yfir misgáfulega listanum, takk samt krúttari.
Það er alltaf spennandi að kíkja á þig.

Karna Sigurðardóttir sagði...

Til hamingju! og góða skemmtun með allt hið ókomna!