Sögulok eða sagan endalausa?
Þegar árið, sem nú er að líða, gekk í garð vonuðu allir velunnarar Þjóðkirkjunnar að það yrði henni þægilegra en það sem þá rann sitt skeið. Árið 2009 hafði nefnilega reynst kirkjunni eitt hið erfiðasta í 14 ár. Kynferðisbrot kirkjunnar þjóna höfðu ekki verið áberandi í fréttum hérlendis fram að því, alltjent ekki ef miðað er við mörg grannlönd okkar, en mál sr. Gunnars Björnssonar breytti því. Í kjölfarið á ásökunum í garð Ólafs Skúlasonar árið 1996 kom kirkjan sér upp ferli til að taka á slíkum málum, en úrræðaleysi hennar í þeim efnum hafði valdið mörgu kirkjufólki hugarangri. Mál Gunnars var hið fyrsta sem fór í gegn um þetta ferli frá upphafi til enda. Líta má því á það sem eins konar „prufukeyrslu“ fyrir kerfið. Kannski er það ágætur vitnisburður í þessum efnum að ekkert slíkt mál skyldi koma til kasta kirkjunnar allan þennan tíma.
Góðu fréttirnar voru auðvitað þær að kerfið virkaði. Niðurstaða fékkst í málið og presturinn var látinn víkja, þótt landslög kæmu í veg fyrir að hægt væri að svipta hann hempunni. Fagráð Þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot stóð sína plikt. Vondu fréttirnar voru aftur á móti þær að ákveðnir, alvarlegir hnökrar á ferlinu komu í ljós. Í stað þess að lagfæra þá, svo kirkjan yrði enn betur í stakk búin til að taka á sambærilegum málum í framtíðinni, varpaði yfirstjórn kirkjunnar hins vegar öndinni léttar, taldi sér trú um að allt væri yfirstaðið og vonaði hið besta. Sú von brást auðvitað.
Hnökrarnir eru, að mínu mati, einkum þrír. Sá fyrsti varðar reyndar ekki kirkjuna heldur dómskerfið. Hann er í því fólginn að tæpt ár tók að fá niðurstöðu í málið frá því að það var kært. Þótt ellefu mánuðir kunni að þykja eðlilegur tími fyrir afgreiðslu sakamála, er óviðunandi að unglingsstúlkur, sem brotið hefur verið á, þurfi að bíða svo lengi eftir að fá viðurkenningu á að þær hafi verið beittar órétti. Eitt ár er heil eilífð fyrir börn og unglinga. Kynferðisbrotamál sem varða þau verða að fá skjótari afgreiðslu.
Í öðru lagi kom í ljós að starfsreglur úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar eru gallaðar. Þær gera ráð fyrir því að nefndin geti gripið til úrræða þegar prestur gerist sekur um agabrot, en ekki ef um siðferðisbrot er að ræða. Siðferðisbrot taka til mannlegra samskipta en agabrot varða vanrækslu presta á þjónustunni sem þeim er ætlað að veita. Að mínum dómi sýnir þetta að brýnt er að breyta 12. gr. laga nr. 78 frá 1997, sem úrskurðarnefndin starfar eftir, á þann veg að við siðferðisbrotum séu sömu úrræði og við agabrotum.
Þriðji og langalvarlegasti ágallinn á afgreiðslu málsins var þó sá að siðanefnd Prestafélags Íslands brást gjörsamlega. Að vísu komst hún að þeirri niðurstöðu að framferði sr. Gunnars hefði brotið í bága við siðareglurnar, en hún brást þeirri skyldu sinni að skera úr um alvarleika brotsins og veita í kjölfarið áminningu eða vísa málinu til stjórnar Prestafélagsins sem tekur ákvörðun um hvort ástæða sé til brottvísunar úr félaginu. Í raun má því segja að mál sr. Gunnars sé enn til meðferðar hjá siðanefndinni, en starfsreglur hennar kveða skýrt á um að henni beri að afgreiða öll mál, sem til hennar er beint, með þeim hætti.
Að mínum dómi var afgreiðsla biskups á Selfossmálinu honum til sóma, enda erfitt að byggja Salómonsúrskurð á annarri eins Pílatusarmeðferð og málið fékk hjá siðanefnd P. Í. Það var ánægjulegt að sjá hann vaxa með þeim hætti í starfi. En hann lét, illu heilli, hjá líða að láta kné fylgja kviði og þrýsta á siðanefndina að vinna vinnuna sína og á Alþingi að lagfæra starfsreglur úrskurðarnefndarinnar. Sömuleiðis lét prestastéttin það ógert að skikka siðanefndina til að fara að reglum eða samþykkja vantraust á hana ella. Fyrir vikið er nefndin núna með öllu tilgangslaus, ómarktæk og trausti rúin. Stéttar- og fagfélag, sem vill láta taka sig alvarlega, má ekki sætta sig við slíkt ástand á siðanefnd sinni.
Þegar upp er staðið er því engum blöðum um það að fletta að kirkjan dró minni lærdóm af Selfossmálinu en henni hefði verið í lófa lagið. Hún var af þeim sökum verr undir það búin en efni stóðu til að sýna rögg og fagmennsku í framgöngu sinni þegar Stóra biskupsmálið sneri aftur af fullum þunga í ágúst á þessu ári. Og einmitt vegna vasklegrar framgöngu herra Karls Sigurbjörnssonar í Selfossmálinu var einkar átakanlegt að sjá hann gera þann álitsauka að engu í sjónvarpsviðtali.
Vissulega var honum vandi á höndum og hann fráleitt öfundsverður af því hlutskipti sínu að þurfa að bera af sér sakir um að hafa haldið hlífiskildi yfir kynferðisafbrotamanni. Aðkoma hans að máli hr. Ólafs Skúlasonar fyrir 14 árum ásamt þeim þungu sökum sem hann var borinn gerðu hann augljóslega vanhæfan til að vera talsmaður kirkjunnar í málinu. Til þess hefðu aðrir átt að vera betur fallnir, s.s. formaður Prestafélagsins eða vígslubiskupar Þjóðkirkjunnar – en þeim er beinlínis ætlað að leysa biskup af þegar hann er löglega afsakaður frá því að gegna skyldum sínum. Biskup gerðist enda sekur um það klaufalega hálfkák að reyna að taka málstað fórnarlambanna án þess þó að treysta sér til að lýsa yfir óvefengjanlegri sekt herra Ólafs heitins, eflaust til að leggja ekki meiri byrðar á aðstandendur hans en þegar er orðið. Þeir eru auðvitað þolendurnir sem gleymst hafa í umræðunni og Karl hefur ekki viljað snúa hnífnum í þeirra hjartasári. Því miður er sá valkostur þó ekki í boði. Það er ekki hægt að taka afstöðu með fórnarlömbum án þess að taka afstöðu gegn gerendunum.
Það sem gerðist í kjölfarið sýnir þó svo ekki verður um villst að kirkjan er ekki biskupinn einn. Kirkjuráð sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fórnarlömbin voru beðin afsökunar. Prestar landsins buðu fórnarlömbum Ólafs Skúlasonar á fund þar sem þau voru beðin fyrirgefningar á máttleysi kirkjunnar. Í viðtali lýsti ein kvennanna þeim fundi sem mikilli sáluhjálp fyrir sig. Sr. Hjálmar Jónsson, sem hafði verið sakaður um yfirhylmingu ásamt Karli, baðst í prédikun fyrirgefningar á því að hafa ekki verið fær um að veita þá hjálp sem hann var beðinn um í mars 1996. Það sama gerði sr. Pálmi Matthíasson, sem einnig hafði verið leitað til. Sr. Sigríður Guðmarsdóttir viðurkenndi í blaðagrein afskiptaleysi sitt og fór fram á að hlutlaus nefnd rannsakaði starfshætti kirkjunnar fyrir fjórtán árum og viðbrögð hennar. Við því var orðið og í nóvember skipaði kirkjuþing nefndina. Formaður hennar er Róbert Spanó, forseti lagadeildar H. Í. Nefndin starfar algerlega sjálfstætt, er óháð öllum stofnunum kirkjunnar og mun skila niðurstöðum sínum næsta sumar.
Kirkjan hefur því óneitanlega lært eitthvað af því sem á henni hefur dunið. Hún vill að sönnu geta reynst skjól öllum sem til hennar leita og virðist reiðubúin að líta í eigin barm. Vonandi reynist hún einnig fær um að bæta ráð sitt. Reyndar fer ekki á milli mála að viðhorfin og vinnubrögðin eru önnur núna en fyrir fjórtán árum. Fyrir það standa allir í þakkarskuld við konurnar sem á sínum tíma komu fram og sögðu sögu sína. Án þeirra væri kirkjan hugsanlega enn jafnúrræðalaus og þá. Sr. Sigurður Árni Þórðarson hefur lagt til að veitt verði „Hetjuverðlaun Þjóðkirkjunnar“ og að fórnarlömb Ólafs Skúlasonar verði fyrstu verðlaunahafarnir. Að slík tillaga sé sett fram sýnir kannski best hin gerbreyttu viðhorf.
Það er þó ekki þar með sagt að Þjóðkirkjan sé búin að bíta úr nálinni með þetta. Þær raddir urðu um skeið háværar að Karli Sigurbjörnssyni bæri að segja af sér vegna málsins. Að mínu mati er sú krafa þó ósanngjörn. Þótt honum hafi vissulega verið mislagðar hendur þegar biskupsmálið sneri aftur í haust verður ekki hjá því litið að arfleifð hans í þessum efnum verður sú að í hans biskupstíð var almennilegri skikkan komið á þessi mál innan kirkjunnar. Ekki skal fullyrt að hann beri sjálfur alla ábyrgð á því, en það var á hans vakt sem það gerðist og það hlýtur að teljast honum til tekna.
Úrsögnum úr Þjóðkirkjunni fjölgaði í kjölfar þessa máls, sem ekki þarf að koma á óvart. Mörgum finnst það eflaust vera það eina sem í þeirra valdi stendur til að láta í ljós óánægju sína í verki. Aftur á móti leiðir könnun, sem gerð var nýlega, í ljós að tiltölulega fáir bera lítið traust til kirkjunnar í hverfinu sínu eða til sóknarprestsins síns. Hlutfallið er um 20% – svipað og hlutfall þeirra sem ekki tilheyra Þjóðkirkjunni. Þótt þetta sé e. t. v. ekki alfarið sami hópurinn má gera ráð fyrir því að hann telji að mestum hluta sama fólkið. Úrsagnirnar bera því ekki vott um óánægju með grasrótarstarf kirkjunnar. Þeim mun sorglegri er sú staðreynd að úrsagnir úr Þjóðkirkjunni hafa þau áhrif ein að í stað þess að sóknargjöld renni til sóknarkirkju renna þau óskipt í ríkissjóð. Úrsagnirnar bitna þannig á barna- og æskulýðsstarfi, félagsstarfi eldri borgara og annarri þjónustu kirkjunnar í nærsamfélagi þess sem segir sig úr henni, einmitt þeim þætti í starfi kirkjunnar sem minnstur styr stendur um. Flestar sóknir í Reykjavík búa sig nú undir 15 - 20% niðurskurð á næsta ári.
Árið 2011 verður afdrifaríkt í sögu Þjóðkirkjunnar. Ósennilegt er að ný stjórnarskrá lýðveldisins geri ráð fyrir sams konar tengslum ríkis og kirkju og 62. grein núverandi stjórnarskrár gerir. Kirkjunnar bíður því mikið starf við endurskipulagningu sína. Æskilegast væri auðvitað að óumdeildur leiðtogi stýrði því starfi, einstaklingur sem ekki er flekkaður af yfirsjónum kirkjunnar í fortíðinni. Það gæti því verið sterkur leikur hjá Karli Sigurbjörnssyni að víkja úr starfi einmitt af því tilefni. Þannig léti hann hagsmuni kirkjunnar ganga fyrir sínum eigin og tryggði að engir fortíðardraugar setji svip á þá mikilvægu skipulagsvinnu sem inna þarf af hendi.
Einnig er mikilvægt fyrir trúverðugleika kirkjunnar að niðurstaða rannsóknarnefndarinnar næsta sumar verði afdráttarlaus, að kirkjan gangist undanbragðalaust við henni og leggi hiklaust í hvert það umbótastarf sem hún gefur tilefni til. Því ef kirkjan getur dregið einhvern lærdóm af atburðum ársins 2010 er hann að mínu mati sá að þótt það sé erfitt að læra af mistökum sínum er það þó, þegar til lengri tíma er litið, ekki næstum því eins erfitt og að gera það ekki.
Grein í Fréttblaðinu 27. 12. 2010
Engin ummæli:
Skrifa ummæli