þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Parsifal schmarsifal

Á sunnudaginn sýndi Sjónvarpið upptöku af óperunni Parsifal. Mér fannst þetta allt saman mjög sorglegt. Þarna var flott leikmynd, flottir búningar, flottir söngvarar, hljómsveit með strengjum og lúðrum og öllu tilbehöri, meira að segja japönskum stjórnanda með fáránlegt hár – og svo var útkoman þessi ævintýralegu leiðindi. Þótt ég ætti að vinna mér það til lífs gæti ég ekki rifjað upp eina sönglínu úr þessum ósköpum í huganum. Af hverju í ósköpunum datt engum í hug að segja einhvern tímann í miðjum klíðum: "Hei, krakkar, fyrst við erum búin að hafa svona ofboðslega mikið fyrir þessu, af hverju gerum við þá ekki frekar eitthvað skemmtilegt?"

Sjálfstæðisflokkurinn schmjálfstæðisflokkurinn

Mér finnst mjög ánægjulegt að reykvískir Sjálfstæðismenn skyldu hafa þá ógæfu til að bera að setja gamla skarfinn í fyrsta sætið frekar en yngri mann sem hefði borið með sér ferskan andblæ og gert listann pínulítið aðlaðandi og spennandi fyrir þá sem er skítsama um málefnin og kjósa listann sem "lúkkar" best. (Auðvitað eru þeir tveir alveg nákvæmlega sami gambrinn, bara í misgömlum belgjum.) Jú, það er fréttnæmt hvernig þetta prófkjör fór, en fyrr má nú samt rota en dauðrota. Þetta voru ekki kosningar heldur prófkjör eins ákveðins flokks. Ég á við að það er góðra gjalda vert að fylgjast með þessu og greina frá niðurstöðum eftir því sem þær liggja fyrir þegar fréttir eru sendar út á annað borð. En þeir sem vildu vera vakandi og sofandi yfir talingunni notuðu til þess aðra miðla en kvikmyndirnar í Sjónvarpinu á laugardagskvöldið. Á tíu mínútna fresti var nýjustu tölum rúllað yfir skjáinn. Það verður erfitt fyrir Sjónvarpið að segja frá niðurröðun annarra flokka á sína lista án þess að míga yfir allar hlutleysiskröfurnar sem til þess eru gerðar.

Nýju fjölskyldumeðlimirnir

Kettlingarnir hennar Kisu hafa verið kyngreindir og gefin nöfn til bráðabirgða, svona til þess að geta talað um þá öðruvísi en sem "kettlingana" eða "þennan gráa" svo dæmi sé tekið. Reyndust þetta vera þrjú fress og ein læða. Eftir mikla umræðu og lýðræðislegt ákvarðanatökuferli með aðkomu allra mennskra fjölskyldumeðlima fengu fressin nöfnin Móri (grár), Gustur (grár og hvítur) og Zorró (svartur), en læðan heitir Læða (svört og hvít). Ég ítreka að jólagjöfin í ár (lítill, kassavanur hnoðri með stór, blá augu og rauðan borða um hálsinn) verður tilbúin til afhendingar á aðfangadag. Áhugasamir setji sig í samband við mig í gegn um þessa síðu eða á netfangið mitt.

Engin ummæli: