þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Fjall sannleikans

Einu sinni var ég þeirrar skoðunar að sannleikurinn væri nokkuð klipptur og skorinn, hann væri aðeins einn, hann væri stór og mikill og óbreytanlegur. Ef tveir menn voru ósammála hélt ég að annar þeirra hlyti að hafa rangt fyrir sér eða að minnsta kosti rangara fyrir sér en hinn. Ég hélt að þegar maður hefði loksins höndlað sannleikann myndi enginn reyna að klekkja á manni með hárbeittum athugasemdum og rökfimi, andstæðingum manns hlytu að fallast hendur gagnvart ógnarmætti sannleikans, hann myndi slá vopnin úr höndum þeirra, rangar skoðanir út úr hausnum á þeim og gera málflutning þeirra að hjómi.
Ég hafði rangt fyrir mér ... eða að minnsta kosti ekki eins rétt og ég hélt.
Að vísu er ég enn þeirrar skoðunar að sannleikurinn sé einn, stór og mikill og óbreytanlegur. Ég er hins vegar löngu hættur að telja mér trú um að einn maður geti höndlað hann og haft með honum sigur á öðrum. Ég lít ekki lengur á sannleikann sem einhvern Suðurpól andans sem við mennirnir, heimskautafarar hugans dúðaðir í heimspekikenningar með mannbrodda rökfræðinnar undir fótum, séum að keppast um að komast á fyrstir allra. Einkum er ég þó hættur að ímynda mér að tveir ólíkir einstaklingar geti séð sannleikann sömu augum. Ég hef nefnilega kynnst mörgu ágætisfólki um dagana, flestu prýðilega vel gefnu, en enn hef ég ekki hitt neinn sem ég hef ekki getað verið ósammála um eitthvað, sem ekki hefur séð sannleikann á einhvern hátt pínulítið öðruvísi en ég, ef ekki hreinlega allverulega mikið öðruvísi.
Núorðið er ég ekki frá því að það fari algerlega eftir því hvar maður er staddur sjálfur hvernig fjall sannleikans kemur manni fyrir sjónir. Menn sem standa sitt hvorum megin við fjall eru auðvitað ekki sammála um hvernig það lítur út. Fjöll eru líka þannig í laginu að það er ekki hægt að sjá þau öll í einu. Sú mynd af fjalli, sem sá sem hreykir sér á tindi þess hefur fyrir augunum, er síðan gerólík allra annarra. Og svo ég klári nú líkinguna þá geta menn orðið úti á fjöllum.
Eflaust gerir sannleikurinn okkur frjáls. En hann frelsar okkur ekki frá öðrum og áreiti þeirra, aðeins okkur sjálfum og viðbrögðum okkar. Og svo sagði líka aldrei neinn að sannleikurinn myndi gera okkur að frelsurum.
Bakþankar í Fréttablaðinu 12. nóvember 2006

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sum fjöll eru jafnvel svo stór að ómögulegt reynist að sjá tind þeirra þótt staðið væri í fjallsrótinni. (Sjá hér.)