laugardagur, september 02, 2006

Sinnaskipti Steingríms

Ég var ánægður með Steingrím J. og tillögu hans um að núverandi stjórnarandstaða stillti saman strengi sína fyrir næstu kosningar til að geta boðið upp á raunhæfan valkost við núverandi ríkisstjórn, enda glatað að íslensk pólitík fari að snúast upp í keppni um að skríða upp í til íhaldsins. Hins vegar fannst mér á viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar að hún skildi ekki alveg hvað hún var að tala um, því hún virtist halda að með þessu væru einhver sinnaskipti að eiga sér stað hjá Steingrími. Vísaði hún þar til þess að árið 1999 var Samfylkingin stofnuð sem kosningabandalag þáverandi vinstri flokkanna. Steingrímur vildi ekki vera með og stofnaði sinn eigin. Það að Steingrímur vilji frekar starfa með Samfylkingunni en Sjálfstæðisflokknum bendir ekki til þess að hann hafi skipt um skoðun á neinu. Því hvernig væri að skoða aðeins hvernig þetta "bandalag vinstri flokkanna" sem kallar sig Samfylkinguna hefur sinnt því að vera bandalag vinstrimanna?
Þegar ljóst var að herinn vildi úr landi fór þáverandi formaður þessara meintu vinstrimanna grátandi í kjölfarið á þeim Davíð og Halldóri með skilaboðin "Ekki fara!" frá íslenskum vinstrimönnum.
Þegar vanda menntakerfisins og heilbrigðiskerfisins hefur borið á góma hafa "vinstrimennirnir" í Samfylkingunni stungið upp á meiri einkavæðingu.
Núverandi formaður Samfylkingarinnar getur ekki núna allt í einu þóst vera formaður flokks sem hefur umhverfissjónarmið að leiðarljósi eftir aðkomu sína að Kárahnúkamálinu. Staðreyndin er að Samfylkingin var öll (með tveim undantekningum) hlynnt því umhverfishryðjuverki.
Samfylkingin hefur frá öndverðu verið einkavæðingar-, NATO- og Kárahnúkaflokkur. Sinnaskiptin áttu sér greinilega stað annars staðar en hjá Steingrími. Að halda því fram að íslenskir umhverfissinnar og vinstrimenn hafi hlaupist undan merkjum með því að taka ekki þátt í starfi Samfylkingarinnar bendir því til þess að viðkomandi skilji merkingu hvorugs orðsins, umhverfi eða vinstri.