Ég vil taka öllum mönnum vara við að blogga. Það skyldi enginn gera af léttúð og ábyrgðarleysi. Orð sem blogguð eru verða ekki aftur tekin, þau eru ekki eins og skraf í góðra vina hópi, orð sem fara út í bláinn, höfða til ákveðinnar stemningar og skiljast í ljósi þess hvernig þau eru sögð og að hverjum viðstöddum. Það sem einu sinni er bloggað er komið á veraldarvefinn, fyrir sjónir allra og verður ekki aftur tekið. Blogg skilst í ljósi þeirrar stemningar sem hver netverji er í þegar hann sér það og er sagt eins hver og einn kýs að lesa það. Þannig geta vinsamlegar orðahnippingar og skens skilist sem sárindi og gremja ef maður gætir sín ekki. Fyrir rest getur maður lent í bullandi vörn á sinni eigin heimasíðu og nánast þurft að réttlæta veru sína í sínu eigin partíi.
Þannig var með mína síðustu bloggfærslu. Hún hefur vakið viðbrögð sem ég sé mig eiginlega knúinn til að bregðast við. Mér finnst einhver sögufölsunarkeimur af því að leiðrétta eða ritskoða færslur eftir á þannig að ég læt það ógert þótt ég, eftir á að hyggja, hefði kannski átt að orða ýmislegt þar öðruvísi en ég gerði enda sumt af því sem þar var sagt og linkað að mínu mati verið misskilið, rangtúlkað og útlagt á versta veg.
Sjálfur er ég vinstrimaður og hef fengið mig alveg gjörsamlega fullsaddann af þeim viðbrögðum hægrimanna við málefnalegri gagnrýni okkar að við séum bara bitrir og fúlir og á móti öllu. Ég nenni ekki einu sinni að fara nánar út í þá sálma og ætla mér sko ekki að bætast í hóp þeirra rökþrota asna sem afgreiða alla sem þeim eru ekki sammála sem "bitra vinstrimenn".
Hollywood ÍslandsStundum finnst mér þó að okkur sjáist ekki fyrir í gagnrýni okkar á íhaldið, allt í fari þess fer í taugarnar á okkur og þannig getum við freistast til að finna að ýmsu í fari þess sem við álítum sjálfsagt og eðlilegt í fari okkar sjálfra. Þannig finnst mér til dæmis skondið þegar fólk, sem ætti að vita það af eigin raun (hér stilli ég mig um að linka á nokkra manneskju) hvað það er lítið glamúröst við það að vera frægur á Íslandi, talar um pólitíska andstæðinga sína sem Hollywood-frambjóðendur: "Fræga fólkið styður Gísla Martein!" Það er jafnmálefnalegt og að kalla þá bitra.
Staðreyndin er einfaldlega sú að Hollywood Íslands er hvergi til nema í slúðurblöðum og hugarheimi þeirra sem af einhverjum ástæðum telja sig ekki tilheyra þeim hópi, jafnvel þótt þeir ættu þegar að er gáð að uppfylla öll inntökuskilyrðin. Þannig virðist vera eitthvað Hollywoodlegra að vera Sjálfstæðismaður og stjórna spjallþætti í Sjónvarpinu en að vera Vinstrigrænn og stjórna umræðuþætti á Skjá 1. Eða tilheyrir maður kannski ekki Hollywood fyrr en einkalíf manns prýðir forsíður Séð og heyrt og Hér og nú? ... Úps.
Það gerir
engan að verri frambjóðanda að hafa verið í sjónvarpi (og þarafleiðandi viðfangsefni slúðurblaða). Þvert á móti má færa rök fyrir því að það geri menn á ýmsan hátt hæfari. Almannatengsl eru sífellt stærri þáttur í starfi stjórnmálamanna í nútímasamfélagi og haldgóð reynsla og þekking á fjölmiðlum hlýtur því að vera kostur. Auðvitað vega þó aðrir kostir þyngra (s. s. heiðarleiki, gott hjartalag, réttlætiskennd o. s. frv.).
Það er ekki heldur neitt óeðlilegt við það að frambjóðendur fái þá sem þekkja þá og treysta og hafa unnið með þeim til að lýsa yfir stuðningi við sig. Þá er gott að sem flestir viti hverjir þessir menn eru. Auðvitað höfðar það til fleiri að margverðlaunaður leikstjóri og menningarspútnikk, svo dæmi sé tekið, lýsi yfir stuðningi heldur en að lyftaramaður hjá Eimskip geri það. Ekki af því að menningarvitinn sé óhjákvæmilega betri manneskja eða hæfari í sínu starfi heldur af því að fólki er eðlislægt að taka meira mark á þeim sem það veit að eru að gera góða hluti heldur en þeim sem það veit ekkert um – jafnvel þótt þeir geti verið að gera alveg jafngóða hluti í sínu starfi, flutningafyrirtækjum er til dæmis gríðarlegur akkur í góðum lyftaramönnum.
Um fokkíng breikEinnig hefur orðasambandið "fokkíng breik" farið fyrir brjóstið á vinum mínum. Kolbeinn Proppé hittir naglann á höfuðið á
heimasíðu sinni þegar hann segir: "Það er leitun að íslenskum stjórnmálamanni sem hefur verið gefið jafnmikið fokkíng breik og Gísla Marteini Baldurssyni. Á sama tíma og vinstri menn voru ekki ráðnir á fréttastofu sjónvarpsins vegna tengsla sinna við vinstri flokka (sumir höfðu reyndar bara tengsl við fólk í öðrum flokkum), fékk Gísli Marteinn að valsa þar um að eigin vild. Fyrst á fréttastofunni, síðan í Dagsljósinu og loks eigin þátt á laugardagskvöldum. Yfir því er í sjálfu sér ekkert að kvarta, Gísli er vinsæll sjónvarpsmaður og laginn við margt sem fylgir því starfi, þó hann sé ekki allra. Það hefur hins vegar verið morgunljóst í mörg ár að Gísli Marteinn ætlaði sér frama í pólitík. Síðasta kjörtímabil hefur hann meira eða minna starfað sem borgarfulltrúi og vel var ljóst að hann mundi ætla sér meira á þeim vettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur m.ö.o. hlaðið undir Gísla Martein, gert hann að sjónvarpsstjörnu sem lið í því ferli að gera hann að pólitískum leiðtoga."
Ég get tekið undir hvert orð. En til þess ber að líta að þessi viðleitni íhaldsins skilaði þeim ekki leiðtoga heldur þriðjasætiskandídat sem ætti að gleðja allt fallega innrætt fólk og skoðast sem lítill sigur.
Til hins ber þó mun fremur að líta að við erum að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Við hverju bjuggust þið? Sjálfstæðismanni með hreint siðferðisvottorð? Við ykkur sem væntið slíks get ég aðeins sagt: Vaknið og finnið kaffiilminn! Og látið mig endilega vita þegar þið finnið vammlausan Sjálfstæðismann því hann á skilið að fá Thule!
Þetta er nákvæmlega það sem ég var að segja. Gísli Marteinn er bæði betri og verri en gengur og gerist um Sjálfstæðismenn og þarafleiðandi hvorki betri né verri þegar upp er staðið. Þegar ég tala um að gefa honum "fokking breik" á ég bara við að við ættum að hætta að einblína svona á persónu hans, hve mjög sem hún annars kann að fara undir skinnið á okkur, af því að þessi fókus á hana beinir sjónum okkar frá hinum raunverulega óvini – sem er ekki Gísli Marteinn Baldursson heldur alheimskapítalisminn!
P. S.
Ég er slíkur netskussi að ég kann ekkert á uppstillingu bloggsíðna. Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvernig ég á að opna fyrir athugasemdir frá öðrum en þeim sem sjálfir blogga á blogspot?