þriðjudagur, október 04, 2005

Venjulegt fólk getur haft áhrif


"Flettið dagblaði, hvaða dag vikunnar sem er, og þar gefur að líta frétt einhvers staðar úr heiminum þar sem greint er frá því að einhver hafi verið fangelsaður, sæti pyntingum eða hafi verið tekinn af lífi af því að skoðanir hans eða trúarbrögð falla ekki kramið hjá stjórnvöldum. Lesandanum finnst hann magnvana gagnvart þessu, en ef fólk um allan heim sameinaðist í andúð sinni væri hægt að koma miklu til leiðar."
Það er sorglegt til þess að hugsa að þessi orð skulu eiga jafnvel við í dag og þegar þau voru rituð – fyrir 44 árum. Þetta eru upphafsorð greinar sem birtist í The Observer 28. maí 1961 sem hét The Forgotten Prisoners eða Gleymdu fangarnir. Greinin átti eftir að draga dilk á eftir sér en birting hennar er talin marka upphafið að stofnun mannréttindahreyfingarinnar Amnesty International. Í byrjun voru þau stofnuð sem eins árs herferð til lausnar sex samviskuföngum, en þeim hefur vaxið fiskur um hrygg og nú er Amnesty International stærstu mannréttindasamtök heims með meira en 1,8 milljónir félaga og stuðningsaðila í fjölda landa, þar af um 5000 á Íslandi. Höfundur greinarinnar var Peter Benenson, að öðrum ólöstuðum tvímælalaust einn mesti mannvinur 20. aldarinnar.
Peter Benenson sannaði að það er hægt að hafa áhrif. Erfitt er að ímynda sér víðtækari breytingar en þær sem orðið hafa á alþjóðlegum viðhorfum til mannréttinda á æviferli hans. Nú eru tæplega hundrað alþjóðlegir samningar um mannréttindi í gildi í heiminum. Meira en 90% af ríkjum veraldar hafa skuldbundið sig til að virða öll helstu mannréttindi þegna sinna. Réttindi kvenna, barna og minnihlutahópa hafa verið tryggð víða um heim með löggjöf. Þeir sem ábyrgir eru fyrir pyntingum og grófum mannréttindabrotum eiga hvergi öruggt skjól og hafa verið látnir sæta ábyrgð gjörða sinna og meirihluti ríkja heims hefur afnumið dauðarefsingu.
Mikið starf er þó enn eftir óunnið. Enn eru konur, börn og minnihlutahópar beittir harðræði og kúgun víða um heim – jafnvel í vestrænum löndum sem stært hafa sig af því að standa framarlega á sviði mannréttinda er mansal og kynlífsþrælkun ekki á neinu undanhaldi. Barnaþrælkun er plága í fjölda landa. Ríki eins og Bandaríkin, sem gjarna hreykja sér af því að vera í fylkingarbrjósti baráttunnar fyrir frelsi og lýðréttindum, beita enn þegna sína dauðarefsingu og pynta fanga, m. a. í Írak og Guantanamo. Það nægir að nefna staði eins og Rúanda og Srebrenica til að ískaldur hrollur fari um þá sem fylgst hafa með heimsfréttum síðastliðin ár.
Peter Benenson lést 26. febrúar síðastliðinn, 83 ára að aldri. Það er kaldhæðnislegt að hryðjuverkin í London í gær skyldu varpa skugga á minningarathöfn um hann sem fram fór í borginni sama dag. Fyrir vikið var kastljósi fjölmiðla beint að því sem enn er að, en ekki að því sem við þó höfum fengið áorkað, m. a. fyrir tilstilli manna eins og hans. Um leið minna atburðirnir okkur á mikilvægi þess að sem flestir fylki liði um þær hugsjónir sem hann stóð fyrir.
Irene Khan, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International, komst vel að orði þegar hún lét svo um mælt við andlát hans: "Líf Peters Benensons bar vitni um hugrekki í þágu þeirrar hugsjónar hans að berjast gegn óréttlæti um allan heim. Hann færði ljós inn í myrkvuð fangelsi, hrylling pyntingaklefa og hörmungar dauðabúða um víða veröld. Samviska hans skein skært í grimmri og hræðilegri veröld, hann trúði á mátt venjulegs fólks til að koma til leiðar ótrúlegum breytingum og með því að stofna Amnesty International gaf hann hverjum og einum tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum."
Það lýsir persónu Peters Benensons kannski einna best að allir forsætisráðherrar Breta sl. 40 ár buðu honum að vera aðlaður en hann afþakkaði ávallt þann heiður og skrifaði þeim í staðinn bréf – sem hann vélritaði sjálfur eigin höndum allt þar til heilsan leyfði honum það ekki lengur – þar sem hann taldi upp þau mannréttindabrot sem Amnesty International var að fást við hverju sinni innan Bretaveldis og lagði til, án þess að tala undir rós, að ef ríkisstjórnin vildi heiðra ævistarf hans skyldi hún beina athygli sinni að því að lagfæra ástandið frekar en því að dilla honum.
Guð blessi minningu Peters Benensons. Guð blessi minningu þeirra sem fórust í hryðjuverkaárásinni í London í gær og veiti öllum líkn sem eiga um sárt að binda í kjölfar þeirra. Guð veiti okkur hinum styrk til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að fleiri þurfi að líða af sömu sökum.
Ég skora á alla sem láta sig mannréttindi einhverju varða að taka þátt í starfi Amnesty á Íslandi. Venjulegt fólk getur haft veruleg áhrif.
(pistill fluttur á Rás 1 8. júlí síðastliðinn)

Engin ummæli: