þriðjudagur, október 04, 2005

Æðruleysi í útvarpinu


Það er óneitanlega merkilegt til þess að hugsa að þegar fólk hefur misst stjórn á lífi sínu skuli eina þekkta leiðin út úr ógöngunum meðal annars felast í því að biðja Guð um æðruleysi til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt, kjark til að breyta því sem maður getur breytt og vit til að greina þar á milli. Auðvitað má færa rök fyrir því að það segi sig sjálf að ekki sé til neins að ala með sér gremju og óánægju sem engu fær breytt – nema hugsanlega manns eigin heilsufari til sálar og líkama – en það er alveg ótrúlegt hve margir virðast eiga erfitt með að temja sér þetta einfalda lífsviðhorf, ekki bara fólk sem er að endurheimta líf sitt úr viðjum áfengis-, eiturlyfja-, fjárhættuspila- og matarfíknar, svo fátt eitt sé nefnt, heldur ekki síður fólk sem ekki virðist eiga við nein vandamál að stríða fyrr en það opnar á sér munninn. Það er alveg stórfurðulegt hve margir telja óánægju sína með það, sem þeir eðli málsins samkvæmt geta ekki haft nein áhrif á, eiga erindi til annarra. Reyndar er það aðallega bara fyndið.
Sjálfur hef ég til dæmis mest yndi af því að hlusta á útvarpsmann nokkurn tala í ríkisútvarpið fyrir hádegi á hverjum degi og fárast yfir því að umhverfi hans og jafnvel hegðun bláókunnugs fólks í útlöndum skuli ekki vera eftir hans höfði og lúta þeim lögmálum sem gilda myndu væri það hann sem væri almáttugur en ekki Guð. Mér finnst hreinlega ekki einleikið hvað hann nennir þessu og er farinn hafa mjög gaman af fullkomnum skorti hans á æðruleysi til að sætta sig við það sem hann fær ekki breytt.
Þannig man ég að eftir síðustu evrópusöngvakeppni hélt hann langa ræðu, fullur vanþóknunar á rúmenska framlaginu. Hann hreinlega náði ekki upp í nefið á sér af hneykslan yfir því að menn skyldu leyfa sér að spila á slípirokka og berja olíutunnur á þessum vettvangi án þess að bera það undir hann og engu líkara var á máli hans en að hann teldi rúmensku listamennina hafa tekið upp á þessu af hreinum ótuktarskap og illgirni í hans garð, persónulega. Að þeir sætu nú heima í Rúmeníu og það hlakkaði í þeim yfir vellukkuðu hrekkjabragði því að nú sæti íslenskur útvarpsmaður norður á Akureyri og það syði á honum af gremju yfir því að þrjár mínútur í alþjóðlegri sjónvarpsútsendingu skyldu ekki hafa verið honum að skapi, að eini tilgangurinn með uppátækinu hefði verið að skaprauna honum. Um leið varð ekki betur á honum skilið en að íslenska framlagið hefði verið beitt miklum órétti, sem þó var ekki hægt að skilja að væri í öðru falinn en því að þorri evrópubúa hafi annan tónlistarsmekk en hann.
Sjálfur gengur þessi útvarpsmaður á undan með góðu fordæmi og leikur eingöngu sín eigin uppáhaldslög í þættinum sínum, lög sem hann sjálfur þekkir og kann og hefur heyrt milljón sinnum áður – ekkert óvænt, ekkert sem þarf að venjast og laga sig að, ekkert sem slegið getur mann út af laginu. Lögin eiga það öll sameiginlegt að hafa fyrst komið fyrir hlustir almennings á áratugnum þegar hann sjálfur var unglingur, enda hefur hann margoft lýst því yfir að sá áratugur státi af muni betri tónlist en áratugirnir þegar einhverjir aðrir en hann sjálfur voru unglingar. Þessa tónlist hefur hann leikið daglega árum, ef ekki áratugum, saman og í raun gæti hann tekið sér frí frá störfum og endurflutt gamla þætti án þess að nokkur yrði þess var. Það væri þá helst að ósamræmis gæti gætt í veðurfarslýsingum.
Það er nefnilega ekki nóg með að tónlistarsmekkur annarra sé í huga þessa útvarpsmanns kaldrifjað samsæri til að gera heiminn að verri stað og eyðileggja daginn fyrir honum, heldur er hnattstaða Íslands honum gríðarlegur þyrnir í augum og veðrið óþrjótandi uppspretta svekkelsis yfir ráðsályktun almættisins. Nú veit ég ekki hvort þetta endalausa önuglyndi af veðurfarslegum ástæðum stafar einvörðungu af því að hann sendir þættina út frá óveðra- og rigningabælinu Akureyri eða hvort hann hafi einfaldlega ekkert til málanna að leggja annað en það hvernig veðrið er fyrir norðan, fyrir utan það hverjir spiluðu inn á plötur fyrir fjörutíu árum – en það er samt sem áður athyglisverð staðreynd að dagskrárgerð hans ræðst að verulegu leyti af hitastiginu á Akureyri hverju sinni.
Nú í vikunni hefur greinilega gert einhverja muggu í Eyjafirði, því síðast þegar ég hlustaði, en þá var sólskin og blíða í Reykjavík, lagði hann það til að landið yrði dregið einhverja þúsund kílómetra suður á bóginn til að laga veðurfarið að skapferli hans. Það að laga skapferli sitt að veðurfarinu virðist vera fáránlega langsótt hugmynd í hans huga og ekki þess virði að um hana sé rætt, jafnvel þótt hver maður ætti að geta sagt sér það sjálfur að minna mál sé að laga þarfir sínar að heiminum en að laga heiminn að þörfum sínum.
Það er skelfilegt til þess að hugsa hve margir þjást og bíða bana af völdum fíknisjúkdóma. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að temji maður sér æðruleysi til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt og kjark til að breyta því sem maður getur breytt – sem er í raun og veru aðeins hausinn á manni sjálfum – opnast leið út úr ógöngunum. Vondu fréttirnar eru þær að fjölmargir þjást ekki af neinum slíkum kvillum og telja sig því yfir það hafna að biðja um þetta æðruleysi og þennan kjark, með þeim afleiðingum að þeirra bíður aðeins magasár af ergelsi yfir því að heimurinn skuli voga sér að snúast um annað en rassgatið á þeim.
(pistill fluttur á Rás 1 15. júlí síðastliðinn)

1 ummæli:

Hildigunnur sagði...

snilld, takk :-D Maður verður eiginlega að fara að kveikja á Rás 2 á morgnana...