mánudagur, febrúar 22, 2010

Grínframboð

Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ekki hugmynd um hvað fyrirtækið hans var að bedrífa í útlöndum á meðan hann sat þar í stjórn. Hann vissi ekki heldur um milljarðana sem fjölskyldufyrirtækið hans rændi af íslensku þjóðinni með ólögmætu olíuokri árum, ef ekki áratugum, saman. Af tvennu illu finnst honum nefnilega skárra að vera gersamlega vanhæfur stjórnandi en að vera gerspilltur stjórnmálamaður.

Komið hefur í ljós að í aðdraganda hrunsins var annar ríkisstjórnarflokkurinn ekki hafður með í neinum ráðum þótt þau vörðuðu málaflokka sem heyrðu beint undir ráðherra hans. Þar voru menn of uppteknir af því að vera ráðherrar til að hafa rænu á að vinna vinnuna sína. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, þáverandi formaður og fjármálaráðherra véluðu landið einir til helvítis sín á milli. Það var ekki fyrr en á síðustu metrunum sem Samfylkingin var upplýst um ástandið.

Leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn er margfaldur Íslandsmeistari í að svara einföldustu spurningum með því að tvinna saman innihaldslausa frasa og pólitískar klisjur í svo endalausar langlokur að þeir sem ekki sofna undir ósköpunum eru löngu búnir að gleyma spurningunni þegar svarið er búið. Þannig er Samfylkingin, snotrar umbúðir um ekki neitt.

Í aðdraganda hrunsins höfðu Vinstrigræn mestar áhyggjur af litnum á ábreiðunum á fæðingardeildinni og þeirri karlrembu að reisa Reykjavíkurskáldinu styttu. Engin von er til að þetta breytist með nýjum oddvita flokksins í borginni, rörsýnasta dólgafeminista síðari tíma. Maður vonaði að hún væri umborin í flokknum, ekki að hún væri þar leiðtogaefni.

Framsóknarflokkurinn býður lausnir á ástandinu, en er ekki einu sinni fær um að standa að formannskjöri innan sinna eigin raða án ógleymanlegs klúðurs.

Frjálslyndi flokkurinn hefur afneitað borgarfulltrúa sínum.

Besti flokkurinn hefur stolið því flottasta úr stefnuskrám hinna flokkanna, en ólíkt þeim lýgur hann því ekki að kjósendum að hann ætli að framkvæma eitthvað af því. Í ljósi ástandsins er óneitanlega grátbroslegt að heyra Besta flokkinn kallaðan grínframboð. Hin sorglega augljósa staðreynd er sú að í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík verða eintóm grínframboð í boði. Ég segi fyrir minn hatt að ég vil frekar að stjórnmálamenn séu brandarakarlar en þeir séu brandari – á minn kostnað.

Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 2. 2010

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Áskorun til íslenskra hönnuða

Reykingar eru ósiður sem ætti að leggja niður. Þetta vita allir. Þær eru ofboðslega óhollar og skaðlegar samfélaginu. Samt reykir fjöldi manna, sífellt færri að vísu, en dágóður hopur samt. Ýmsar aðferðir hafa verið fundnar upp til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Margar þeirra eru eru í því fólgnar að aðeins reykingunum sjálfum er hætt – ekki er sigrast á nikótínfíkninni sem slíkri. Undir þetta flokkast nikótínplástrar, tyggjó og nikótínsoghólkar.
Mín tilfinning er sú að þeir, sem setja þessi ósköp á markaðinn, hafi hins vegar brugðist þeirri skyldu sinni að kynna sér hugarfar og sjálfsmynd markhópsins, þ.e. reykingamanna, og því sé árangurinn af erfiði þeirra minni en hann gæti verið.
Staðreyndin er sú að við reykingamenn eru hégómlegir. Við byrjum að reykja af því að okkur finnst það töff, ekki af því að okkur finnist það gott. Það kostar mikinn sjálfsaga og jafnvel sjálfspíslir að koma sér upp nikótínfíkn. Sígarettan, vindillinn eða pípan verður þannig að leikmun (propsi) eða því sem tískuhönnuðir kalla „accessorie“ sem þjónar þeim tilgangi að skapa ímynd, segja það um reykingamanninn sem hann vill að fólk haldi um sig.
Pípureykingamenn eru flokkur út af fyrir sig. Pípureykingamaður veltir því gaumgæfilega fyrir sér hvernig pípu hann eigi að fá sér. Pípan verður að ríma við „karakter“ hans. Hann dundar sér við það að hreinsa hana og skafa, troða í hana og púa. Pípureykingamaður sem ekki hefur stillt sér upp fyrir framan spegil með pípuna sína í kjaftinum til að gá hvernig hann tekur sig út með hana er jafnfáséður og gleraugnaglámur sem ekki skoðar sjálfan sig í spegli með gleraugun á nefinu áður en hann festir kaup á þeim.
Þess vegna er það með öllu ofvaxið mínum skilningi að framleiðendur nikótinsoghólka skuli láta sér detta það í hug ófullir að nokkur reykingamaður með sjálfsvirðingu vilji láta sjá sig opinberlega með þessi plasthylki uppi í sér. Það er akkúrat ekki neitt töff við þau. Þetta er úr hvítu sjúkrahúsplasti og líkist einhverju sem rifið er úr sótthreinsuðum pappírsumbúðum í Blóðbankanum, ekki handverki eða hönnun sem keypt er af lista- eða handverksmanni eða stimamjúkum eiganda notalegrar, persónulegrar tóbaksbúðar á borð við Björk og fjölda verslana í útlöndum. Að vera með nikótínsoghólk í kjaftinum er jafn töff og að vera með næringu í æð.
Samt er þetta sáraeinfalt tæki. Þetta er bara rör með hólfi sem nikótínhylkið smellur í þannig að innisigli rofnar með þeim afleiðingum að loft sem dregið er í gegn um rörið blandast nikótíninu. Þetta eru engin geimvísindi.
Af hverju hefur þá engum dottið í hug að framleiða hólka fyrir þessi hylki sem eru dálítið smartir. Af hverju eru þeir ekki til langir og stuttir, beinir og bognir, úr leðri, roði, bambus og harðviði, útskornir og mynstraðir? Af hverju get ég ekki sett nikótínhylkið mitt í eitthvað „accessorie“ sem ég get verið svolítið ánægður með heldur bara í sjúkrahúshvítt plasthylki sem lætur mig líta út eins og asma- eða langlegusjúkling?
Ég skora á íslenska hönnuði og handverksmenn að ráða bót á þessu. Þannig geta þeir lagt sitt af mörkum til baráttunnar við þann heilbrigðisvanda sem tóbaksreykingar eru. Þannig geta reykingamenn lagt sígarettuna, vindilinn eða pípuna á hilluna og svalað nikótínfíkninni með vönduðum hlut sem þeim getur þótt vænt um, sem svalar að einhverju leyti hégómleik þeirra og þeim finnst vera í stíl við þann „karakter“ sem þeir vilja sýna umheiminum. Það „accessorizar“ enginn með þeim soghólkum sem nú eru í boði.

mánudagur, febrúar 08, 2010

Englar Guðs

Orðið „engill“ er myndað af gríska orðinu „angelos“ sem strangt til tekið merkir aðeins „sendiboði“. Það er af sama stofni og orðið „angelion“ sem merkir „frétt“. Með forskeytinu „ev-„ sem merkir „vel“ verður til orðið „evangelion“ sem merkir „gleðifrétt“, en hefð hefur skapast fyrir því að þýða það sem „fagnaðarerindi“.

Einu sinni varð mikið flóð í dal nokkrum. Fólk þusti til kirkjunnar því hún var uppi á hól. Presturinn var guðhræddur og grandvar maður og hann leiddi söfnuðinn í bæn til Guðs um að hann léti flóðinu linna. Þá var kirkjudyrunum hrundið upp og hjálparsveit kom til að bjarga fólkinu. Presturinn harðneitaði þó að láta bjarga sér. „Drottinn er minn hirðir,“ sagði hann. „Mig mun ekkert bresta.“ Hjálparsveitin hélt því leiðar sinnar án hans.

Enn hækkaði vatnið og presturinn varð að príla upp á þak kirkjunnar til að drukkna ekki. Þá bar þar að fólk á flekaskrifli sem það hafði tjaslað saman úr hinu og þessu. Fólkið vildi endilega bjarga prestinum, en hann harðneitaði enn og sagði: „Drottinn bjargar mér. Guð sér um sína.“ Fólkið neyddist því til að skilja hann eftir þarna á þakinu.

Áfram hélt vatnið að hækka og presturinn varð að klifra upp í kirkjuturninn til að drukkna ekki. Hann stóð ofan á krossinum og vatnið náði honum upp í höku þegar björgunarþyrla kom á vettvang. Sigmaður var látinn síga niður eftir prestinum, en hann barðist um á hæl og hnakka og vildi ekki sjá neina björgun. Hann var sannfærður að Guð myndi koma honum til bjargar, bænahiti hans og guðhræðsla væri með svo miklum eindæmum að annað væri óhugsandi. Þyrlan varð því að halda sína leið án hans.

Vatnið hélt áfram að hækka og presturinn drukknaði. Hann fór til himna og gekk á fund Guðs sársvekktur. „Ég hef verið góður og grandvar maður og hagað lífi mínu í einu og öllu eftir fyrirmælum þínum,“ sagði hann við Guð. „Hvers vegna komst þú mér ekki til bjargar þegar ég þarfnaðist þín?“

Guð svaraði á móti sárreiður: „Hvað meinarðu? Ég sendi hjálparsveit eftir þér, ég sendi þér fólk á fleka, ég sendi meira að segja heila björgunarþyrlu. Við hverju bjóstu? Kraftaverki?“

Boðskapur sögunnar er þessi: Ekki bíða eftir kraftaverki. Guð sendir þér engla sína. Ef þú ert með augu og eyru opin, að ekki sé minnst á hjartað, þá þekkirðu þá þegar þeir birtast. Ekki á vængjunum, heldur erindinu.

Bakþankar í Fréttablaðinu 6. 2. 2010

þriðjudagur, febrúar 02, 2010

Lagið um Vetrarbrautina

(lag & texti: Monty Python / íslenskun: D. Þ. J.)

Minni lífið á skelfingu og skandal, frú Hvanndal,
og skímu er hvergi að sjá,
því fólk er bæði óþolandi leiðinlegt og ljótt,
mig langar að benda þér á ...

... að jörðin snýst um möndul sinn, það mundu hverja stundu,
á meira en þúsund kílómetra hraða.
Á hundrað þúsund sendist hún um sól sem er vort skjól
og sína orku ber til allra staða.
Sólin okkar fer og allt sem fyrir augu ber
í ferðalag sem býsna hratt er stefnt.
Sjötíu þúsund kílómetra á klukkustund hún spanar
um kerfi eitt sem Vetrarbraut er nefnt.

Vetrarbrautin hefur svona hundrað milljarða stjarna.
Ein hundrað þúsund ljósár þvermálið er.
Hún sverust er í miðið, sextán þúsund ljósár þar,
en þrjú þúsund ljósár myndi hún vera hér.
Þrjátíu þúsund ljósár miðja hennar reiknast héðan,
hver hringferð tekur milljónir alda tvær
og okkar Vetrarbraut er aðeins ein af milljörðum
í alheimi sem stöðugt þokast fjær.

Því alheimurinn sjálfur er að þenjast út og þenjast
og það er alveg ótrúlegt hve greitt.
Á ljóshraða hann þýtur, já, allt uns yfir þrýtur,
þrjú hundruð milljón metra á sekúndu, hraðar fer ei neitt.
Svo mundu, ef þú ert niðurdregin, társtokkin og trist,
hve tilveran er miklum undrum gjörð.
Og vonandi er í geimnum eitthvert vitsmunalíf,
því það vottar ekki fyrir því á jörð.

þriðjudagur, janúar 26, 2010

Greiðslunenna

Skömmu áður en góðærið svokallaða náði hæstu hæðum áskotnaðist mér dálítil fjárhæð þannig að ég sá mér fært að kaupa mér nýjan bíl eða öllu heldur ekki eins gamlan og þann síðasta sem ég hafði átt. Þetta var ekki há fjárhæð, kannski ein mánaðarlaun mín á þessum tíma. Það sem var nýtt var að ég var aflögufær um hana alla í einu til annars en brýnustu nauðsynja.

Aftur á móti gekk erfiðlega að koma bílasölum í skilning um að þetta væri peningurinn sem ég ætlaði að eyða í bíl. Allir byrjuðu þeir á að spyrja mig um greiðslugetu og ekki laust við að þeir móðguðust eilítið þegar ég sagði þeim að hún kæmi þeim ekkert við, en getan væri þó talsvert meiri en áhuginn. Flestir spurðu þeir mig um eftirstöðvarnar og hvernig ég hygðist dreifa þeim. Þeim gekk ámóta erfiðlega að skilja að ég kærði mig ekki um neinar eftirstöðvar. Maður sem gat slett fram meðalmánaðarlaunum sínum sem útborgun í bíl gat nefnilega ekið burt á bíl sem kostaði ein til tvenn árslaun hans. Það, að ég hefði ekki áhuga á að kaupa eins dýran bíl og ég gat mögulega komist upp með, heldur eins góðan og ég gat fengið skuldlausan í skiptum fyrir þessa örfáu hundraðþúsundkalla sem ég átti í handraðanum þá stundina, virtist jaðra við glæp gegn hagkerfinu.

Tími er peningar. Við öflum tekna með því hvernig við verjum tíma okkar. Í hvert sinn sem við eyðum þúsundkalli erum við því í raun ekki að eyða þúsundkallinum heldur þeim hluta ævi okkar sem við vörðum í að afla hans. Þegar tími er peningar segir það sig nefnilega sjálft að peningar eru tími. Þegar við veltum því fyrir okkur hvort eitthvað sé peninganna virði væri því skynsamlegra að velta því fyrir sér hvort það sé dagsins, vikunnar, mánaðarins eða jafnvel áranna virði. Hve stórs hluta ævinnar er það virði að aka um á einum bíl frekar en öðrum?

Mér er í mikilli nöp við orðið greiðslugeta og hve sjálfsagt og einboðið það þykir að miða allt við hana. Þannig er okkur nefnilega talin trú um að ekkert sé eðlilegra en að greiða eins mikið og maður getur. Ég legg því til – í ljósi þess að peningar eru tími – að í staðinn tökum við upp hugtakið „greiðslunenna“. Sjálfur nenni ég ekki að verja mikið meira en einum mánuði ævi minnar í að vera frekar á þokkalegum bíl en engum. Sá bíll hefur reyndar ekki enn verið framleiddur sem er virði mikið stærri hluta lífs míns.

Bakþankar í Fréttablaðinu 25. 1. 2010

mánudagur, janúar 11, 2010

Um sanngirni

Það er erfitt að dæma um hvað séu sanngjörn laun fyrir hina ýmsu vinnu. Hví skyldi rakari þéna meira eða minna en kennari? Er eðlilegt að vörubílstjóri búi í lúxusvillu? Hver eru sanngjörn laun fyrir ráðherra? Í dýrðarríki sósíalismans hafa mennta- og ráðamenn lægstar tekjur, þeirra laun eru starfsánægjan. Þeir hæst launuðu eru verkamennirnir sem vinna erfiðustu störfin sem veita minnsta gleði. Þetta er óneitanlega langt frá því gildismati sem við eigum að venjast.

Um daginn sá ég heimildamynd um efnahagshrunið. Þar sást vörubílstjóri koma heim til sín í glænýtt tvílyft einbýlishús, hlamma sér í breiðan leðursófa og vorkenna sjálfum sér ógurlega yfir reikningunum sem hann þurfti að borga. Góðir vörubílsstjórar eru gulls ígildi og ekki sé ég eftir einni krónu í kaup handa þeim. Þó gat ég ekki varist þeirri hugsun að útlendingum, sem þetta sæju, myndi líklega finnast einkennilegt að hér þætti sjálfsagt mál að vörubílstjóri gæti veitt sér slíkan lifistandard. Alltjent stórefa ég að evrópskir vörubílstjórar búi almennt svona ríkmannlega. Ekki vegna þess að þeir eigi það ekki skilið. Kaupin á eyrinni gerast bara einfaldlega ekki svona í löndunum sem við viljum bera okkur saman við þegar það hentar okkur, eftir því sem ég best veit.

Sömuleiðis vil ég taka fram að ég efast ekki um að allar fjárhagslegar áætlanir þessa ágæta vörubílsstjóra hafi staðist þær forsendur sem honum voru gefnar á sínum tíma og hann tók trúanlegar. Ég ætla honum ekki að hafa eytt um þau efni fram sem þær gerðu ráð fyrir og skil vonbrigði hans þegar þær brugðust. Í mínum huga sýnir þetta þó fyrst og fremst hve þessar efnahagslegu forsendur voru orðnar brjálaðar fyrir hrun og úr öllu samhengi við þann raunveruleika, sem grannþjóðir okkar búa við.

Í myndinni var talað við fleiri, meðal annars konu sem örvænti um framtíð sína og atvinnureksturs síns í kjölfar hrunsins. Hún var að íhuga að flytja hann til Noregs. Hún vann við að greiða hundum.

Hafi tilgangur myndarinnar verið að sýna órétt sem heiðarleg og vinnusöm smáþjóð er nú beitt óttast ég að það hafi mistekist. Myndin sýnir nefnilega að mínu mati samfélag sem lét glepjast, missti veruleikaskynið og fór á límingunum þegar kom að skuldadögum. Það er þó huggun harmi gegn að norskir hundar verða snyrtilegir í framtíðinni.

Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 1. 2010

föstudagur, janúar 08, 2010

Lafir meðan lifir

(Lag og ljóð: Jon Bon Jovi, Richard S. Sambora og Desmond Child.
Íslenskur texti: D. Þ. J.)

Þótt skýjaborgir brjóti tröll,
brunnið virðist allt,
grafin gleði öll
og gleymd - og gleymd,
höldum áfram hnarreist og keik
þótt horfin sé öll von
ofan í eitur, reyk
og eymd - og eymd.

Af því að í öðrum eins ólgusjó
að endingu er sama hver lifði og hver dó.
Við höfum hvert annað, það er alveg nóg.
Við öll - við reyndum þó.

Já, það hefst, það hefst.
Ó, ó. Lafir meðan lifir.
Við höfum það ef þú upp ei gefst.
Ó, ó. Lafir meðan lifir.

Vísum allri armæðu á bug.
Allir saman nú,
sýnum dirfsku, dug
og dáð - og dáð.
Sinnuleysið kom jú við kaun,
en hverju breytir það?
Það batnar varla baun
í bráð - í bráð.

Og í öðrum eins ólgusjó
að endingu er sama hver lifði og hver dó.
Við höfum hvert annað, það er alveg nóg.
Við öll - við reyndum þó.

Já, það hefst, það hefst.
Ó, ó. Lafir meðan lifir.
Við höfum það af ef þú upp ei gefst.
Ó, ó. Lafir meðan lifir.

Nú þarf að þreyja þorrann um skeið.
Það er þungbært, en samt okkar eina leið.

Já, það hefst, það hefst.
Ó, ó. Lafir meðan lifir.
Við höfum það af ef þú upp ei gefst.
Ó, ó. Lafir meðan lifir.

þriðjudagur, janúar 05, 2010

Ást fær af þér óorð

(Lag og ljóð: Jon Bon Jovi, Richard S. Sambora og Desmond Child.
Íslenskur texti: D. Þ. J.)

Þú framdir á sál mér siðlaust morð.
Vina, ást fær af þér óorð.

Jafn engilfríð er ekki nein
með eld í hjartanu og brennistein.
Í ástríðuhlekki ég hnepptur er.
Úr helsi því ekkert fær bjargað mér.
Ó, ó, þú ert ör á streng,
ó, ó, sem hvern ungan dreng
til ólífis særir, þinn rándýra feng.

Þú framdir á sál mér siðlaust morð.
Ást fær af þér óorð,
því allt var tál sem þú barst á borð.
Ást fær af þér óorð.

Þú laðar menn að með ljúfum róm
og læsir í þá blóðrauðum klóm.
Þú þykist feimin, fegurst hnoss,
en fyrsta ástin þín var júdasarkoss.
Ó, ó, þú ert ör á streng,
ó, ó, sem hvern ungan dreng
til ólífis særir, þinn rándýra feng.

Þú framdir á sál mér siðlaust morð.
Ást fær af þér óorð,
því allt var tál sem þú barst á borð.
Ást fær af þér óorð.

laugardagur, janúar 02, 2010

Nýársprédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.
Gleðilegt nýtt ár. Ég vil byrja á að þakka fyrir þann heiður sem mér er sýndur með því að vera treyst til að ávarpa ykkur héðan úr þessum merkilega ræðustóli á þessum mikla hátíðardegi.
Það er til siðs við áramót og önnur tímamót að staldra við, líta yfir farinn veg, meta frammistöðu sína og framvindu lífsins og jafnvel að setja sér markmið og stefnumál fyrir næsta áfanga á lífsleiðinni. Sjónvarpsstöðvar eru iðnar við það að horfa um öxl í lok hvers árs. Þær taka saman annála þar sem helstu fréttaatburðum heils árs eru gerð skil. Ísland 2009 tekur eina klukkustund, restin af heiminum aðra. Þar með fréttum við á tveimur klukkustundum hvað gerðist alls staðar á heilu ári. Það liggur við að óþarfi sé að fylgjast með fréttum nema þennan eina dag á ári, dag samantektarinnar. Gallinn er sá að helstu fréttir eru ekkert mjög gleðilegar. Morð og styrjaldir, hungursneyðir og hamfarir eru stóratburðir. Sauðburður, spilakvöld og fjársafnanir teljast ekki til þeirra. Það eru svokallaðar „human interest“ fréttir sem rata í loftið sem uppfyllingarefni til að fylla fólk ekki þunglyndi yfir hörmungunum og vátíðindunum sem annars væru einu fréttirnar. Þessar fréttir rata sjaldan í annála ársins, ekki nema þær séu þeim mun skringilegri. Það er gömul saga og ný að engar fréttir eru góðar fréttir, sem þýðir um leið að góðar fréttir eru engar fréttir.
En hér á þessum stað er kannski við hæfi að líta um öxl og skoða árið sem er að líða frá sjónarhóli kirkjunnar. Hvaða sess hefur árið 2009 í kirkjusögulegu samhengi? Rataði kirkjan eitthvað í fréttir og af hvaða tilefni? Já, hún gerði það – og ekki bara í samhengi sem hún getur verið stolt af. Ég held samt að óþarfi sé að ræða hér ítarlega þau mál sem varða kirkjuna og mest rými fengu í fjölmiðlum á nýliðnu ári. Þau hafa verið til lykta leidd.
En það voru ekki allar fréttir af kirkjunni þess eðlis að þær vörpuðu rýrð á heilaga köllun hennar. Sem dæmi má nefna að í septembermánuði 2008 varði Hjálparstarf kirkjunnar 900.000 krónum til aðstoðar íslenskum fjölskyldum með fjárstyrkjum, mat, lyfjum, skólagjöldum, skólavörum, tómstundagjöldum og öðrum hætti. Í september á nýliðnu ári tífaldaðist þessi tala. Ekkert lát er á beiðnum eftir aðstoð. Á tímum uppgangs og útrásar, í góðærinu svokallaða sem nú er minning ein, veitti hjálparstarf kirkjunnar þeim hópum aðstoð sem minnst máttu sín í samfélaginu. Foreldrum sem stóðu ein með börn sín, þeim sem ekki gátu stundað atvinnu vegna veikinda eða örorku, öldruðum sem ekki fengu stuðning frá fjölskyldum sínum þegar lífeyririnn hrökk ekki til og þeim sorglega mörgu sem orðið hafa áfengi og öðrum fíkniefnum að bráð. Í stuttu máli, fólkinu sem góðærið hunsaði. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur hópurinn sem leitar til hjálparstarfsins stækkað til muna.
Mig langar að gera orð Sigurvins Jónssonar guðfræðings úr prédíkun, sem hann flutti í Neskirkju 4. október síðastliðinn, að mínum: „Sú viðleitni kirkjunnar að taka upp samskot í messum til styrktar þeim sem þurfa stuðnings við er í senn eðlileg og sannkristin viðbrögð við því breytta þjóðfélagi sem nú blasir við. Í raun má segja að það sé afleiðing og einkenni þess hversu hratt þjóð okkar reis úr sárri fátækt til velmegunar að slík samskot skuli ekki almennt tíðkast í íslensku þjóðkirkjunni, því sá siður að safna fé handa bágstöddum í messum og kristnum samkomum er iðkaður í yfirgnæfandi meirihluta kirkna og kirkjudeilda. Frá fyrstu tíð hefur kristin kirkja litið á það sem eitt af grunnhlutverkum sínum að veita samhjálp og stuðning til allra þeirra sem til hennar leita. Allra.“
Þessi orð kalla að mínu mati á að við leitumst við að svara mikilvægri spurningu. Hvað er kirkja? Er kirkja hús þar sem fé er safnað til að kaupa orgel, sálmabækur, fagurlega útskornar hurðir, steinda glugga og fögur messuklæði svo Guði sé nú nægur sómi sýndur af helgihaldinu? Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr því mikla og göfuga hlutverki sem kirkjan hefur í gegn um tíðina gegnt og gegnir enn í íslensku lista- og menningarlífi eða framlagi hennar til íslensks tónlistarlífs, myndlistar, hannyrða og arkítektúrs. Öðru nær. En þó er ekki laust við að það hvarfli að mér að þeim Guði, sem við viljum játa trú á, væri kannski meiri sómi sýndur með öðrum hætti í þeim nýja raunveruleika sem nú blasir við, að hann kalli frekar á að við játum trú okkar með því að helga tíma okkar, orku og fjármunum því að auðsýna hvert öðru kærleika í verki en heldur í því að gera umgjörð helgihaldsins sem glæsilegasta. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ Er hin sanna lofgjörð og hin einlæga tilbeiðsla ekki mun fremur fólgin í því?
Er kirkja hús þar sem fólk, sem segist vera kristið, kemur saman og syngur sálma og hlustar á prestinn sinn tala í kortér út frá Biblíunni um það hve mikilvægt það sé að vera almennileg manneskja? Ég verð að viðurkenna að í námi mínu í guðfræði við Háskóla Íslands hafa mér oftsinnis fallist hendur gagnvart því hve helstu hugsuðum mannkynssögunnar hefur tekist að þvæla það og flækja sem í eðli sínu ætti að vera einfaldasta mál í heimi: Að vera gott fólk. Þetta ættu ekki að vera nein geimvísindi. En það er kannski ekki eins einfalt og maður heldur.
Hvernig ætlar kristinn maður að bregðast við í atvinnuleysi og efnahagskreppu þegar sveitarfélagi hans berst freistandi tilboð frá alþjóðlegu stórfyrirtæki um stórfellda atvinnuuppbyggingu sem skapar fjölda starfa í samfélaginu til langrar framtíðar. Fyrirtækið lætur sér annt um samfélagið, það styrkir skóla og æskulýðsstarf, það gefur sparkvelli og fjármagnar útihátíðir á tyllidögum, það er meira að segja með prest í hálfu starfi við að annast sálgæslu starfsmanna. Hefur samfélagið ekki himin höndum tekið þegar því berst slíkt tilboð frá svo stöndugu og vel meinandi fyrirtæki? Hvað ef fyrirtækið er um leið einn öflugasti og tæknivæddasti vopnaframleiðandinn í heiminum? Hvað erum við þá að gera minnstu bræðrum Krists og þar með Kristi sjálfum? Hvað myndi Jesús gera? Siðferðilegu álitamálin sem við þurfum að glíma við eru nærtækari og stærri en við gerum okkur endilega grein fyrir í daglegu amstri hvunndagsins.
Hvað er kirkja? Við heyrðum hér áðan lýsingu Páls postula á kirkju: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ En við höfum líka heyrt meira um kirkjuna. Öll sögðumst við saman hér rétt áðan trúa á „heilaga, almenna kirkju“. Hvað meintum við með því? Trúum við þessu í raun og veru? Að hvaða leyti er kirkjan heilög?
Hún er að minnsta kosti ekki heilög að því leyti að hún samanstandi einungis af fullkomnum og gallalausum einstaklingum. Við þurfum ekki að hafa fylgst með fréttum síðastliðins árs til að sannfærast um það, við þurfum ekki heldur að horfa á blóði drifna sögu kirkjunnar á miðöldum, okkur ætti að nægja að líta í eigin barm af sæmilegri sanngirni. Öll höfum við syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum, eins og við játum í hvert sinn áður en við göngum til altaris. Þannig hefur það alltaf verið, frumkirkjan var ekki heldur samansafn af englum í mannsmynd. Í fyrra bréfi Páls postula til söfnuðarins í Korintu kemur greinilega fram að þar var mikið um flokkadrætti og deilur um hin ýmsu atriði, hver væri merkilegri en annar í trúnni, í hverju sönn trú eða trúarreynsla fælist. Páll segir strax í ávarpi sínu að þeir, sem skipuðu þennan sundurlynda hóp þrasara, séu „helgaðir í Kristi Jesú, heilagir að köllun til“. Það sama gerir hann í upphafi Rómverjabréfsins, hann heilsar þeim „sem heilagir eru samkvæmt köllun“. Kirkjan er m.ö.o. ekki heilög í sjálfri sér, heldur er það köllun hennar sem er heilög og helgar hana.
Það er bæði gott og blessað að lofa Guð með söng og hljóðfæraleik. „Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju. Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með flautum og strengjaleik,“ segir í 150. Davíðssálmi. En er það hin helga köllun kirkjunnar, köllunin sem helgar hana? Nei, það er ekki söngurinn, eins fagur og göfgandi og hann þó getur verið, sem er einkenni heilagrar kirkju, heldur kærleikurinn. Mest lofum við Guð með kærleika. „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars,“ segir Jesús sjálfur. Það er í þeirri merkingu sem við játum trú á „heilaga, almenna kirkju“. Köllun hennar er að miðla heilögum kærleika Guðs til allra manna. Allra.
Og hvernig hefur nú kirkjunni tekist upp við það hlutverk sitt? Hve vel megnaði hún að sinna sinni helgu köllun á nýliðnu ári? Hvað fór úrskeiðis? Hvaða lærdóma getur hún dregið af því? Hvernig getur hún komið í veg fyrir að það sem miður fór endurtaki sig? Þessara spurninga ber kirkjunni að spyrja sjálfa sig af algjöru miskunnarleysi og svara þeim undanbragðalaust. Hollusta við kirkjuna felst nefnilega ekki í skilyrðislausri undirgefni, hlýðni eða meðvirkni. Hugleysinginn horfir í hina áttina þegar eitthvað ber út af á meðan kæruleysið og sinnuleysið sitja aðgerðarlaus álengdar með hendur í skauti. Það er kærleikurinn sem tekur til hendinni og skerst í leikinn. Þess vegna ber kirkjunni að iðka stöðuga sjálfsrannsókn, vera í stöðugri innri siðbót. Þetta heitir upp á latínu „ekklesia semper reformanda“ og er grundvallaratriði í lútherskum kirkjuskilningi, jafnvel atriðið sem lúthersk kirkja byggir líf sitt á. Samkvæmt því átti siðbótin sér ekki stað í eitt skipti fyrir öll og upp frá því varð hin jarðneska kirkjustofnun óaðfinnanleg að eilífu, amen. Öðru nær. Siðbót kirkjunnar verður að vera óstöðvandi, sífellt og áframhaldandi þroskaferli.
Nýleg könnun hefur leitt í ljós að 75% þjóðarinnar eru hlynnt fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Þetta þýðir alltaf, hvernig sem þessi tölfræði dreifist með tilliti til aðildar að trúfélögum, að afgerandi meirihluti þeirra sem tilheyra Þjóðkirkjunni eru þessarar skoðunar. Að einhverju leyti kann þessi niðurstaða að byggja á ákveðinni vanþekkingu á því hvernig sambandi ríkis og kirkju er háttað. Sumpart kann það að eiga sér skýringar í lélegum almannatengslum Þjóðkirkjunnar. Að minnsta kosti virðast ótrúlega margir halda að kirkjan sé ekki annað en samansafn hátekjumanna á ríkisspenanum sem fara í kjól á sunnudögum til að hjala einhverja mærð yfir þeim örfáu sálum sem láta sjá sig í messu. Sjálfsagt eiga fyrirferðarmiklar fréttir af siðferðisbrotum kirkjunnar þjóna einnig sinn þátt í þessari afgerandi niðurstöðu.
En kannski er bara auðveldara að finna skýringar á borð við þær að eitt fölnað laufblað hafi fengið meiri umfjöllun en allur hinn fagri skógur eða að fólk viti í raun ekki alveg nógu mikið um það sem það er að myndast við að hafa skoðun á, heldur en að horfast í augu við að þessi niðurstaða endurómar einfaldlega kall breyttra tíma. Kirkjufyrirkomulag okkar byggir á kenningu Lúthers um hinn almenna prestdóm kristins manns. Samkvæmt henni eiga veraldlegir valdhafar að annast kirkjuna, eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins, af því að það er skylda þeirra sem kristinna manna og leiðtoga meðal síns fólks. Í fjölhyggjusamfélagi eru þessar forsendur brostnar. Hví skyldi það vera skylda búddista eða trúleysingja í valdastöðu að standa vörð um kristna kirkju eða lútherskan sið? Það þarf ekki að líta á þessa niðurstöðu sem áfellisdóm yfir kirkjunni, líklega er hún aðeins ákall um réttlæti, jafnrétti trúarbragða og lífsskoðana, ákall um að ytra rekstrarfyrirkomulag kirkjunnar samræmist því trúfrelsi sem hér er við lýði og við viljum öll að hér sé við lýði. Kirkjan verður að horfast í augu við þetta í sinni stöðugu siðbót.
En hvað er þá kirkja? Ég hef nú þegar varpað þessari spurningu fram nokkrum sinnum. Og alloft hef ég byrjað setningu á orðunum „kirkjan þarf“ og „kirkjan verður“. Hver er þessi kirkja sem „á“ og „þarf“ og „verður“ að gera allt þetta sem ég hef sagt? Svarið er einfalt. Kirkja er samfélag. Heilög kirkja er söfnuður Guðs, samsafn allra þeirra sem kallaðir eru til fylgdar við Krist, allra þeirra „sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists“, svo ég vitni aftur í Pál postula. Kirkjan er m.ö.o. þú og ég. Og við erum krafin svars. Erum við reiðubúin til að svara okkar heilögu köllun? Alltaf? Alls staðar? Og til allra?
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Hafnarfjarðarkirkju 1. janúar 2010

mánudagur, desember 21, 2009

Költ

Nú í vikunni var trúarhópur með sérstakan áhuga á kynlífi til umfjöllunar í fjölmiðlum. Einn fulltrúi Siðmenntar sagði hópinn „hvert annað költ“. Ummælin endurspegla ákveðna vanþekkingu á hugtakinu „költ“. Í umræðunni virðist það aðeins hafa neikvæða merkingu og vera notað um hvaða sértrúarhóp sem er, fyrirbæri sem réttara væri að nefna „sect“.
Þeir sem einkum henda költ-hugtakið á lofti í þessari populísku æsiblaðamerkingu eru fyrst og fremst ýmsir „antí-költískir“ hópar, jafnan drifinir áfram af trúar- eða vantrúarofstæki. Það fyndna er að þessir hópar hafa einmitt sjálfir öll helstu einkenni „secta“. Þar má nefna ósveigjanlega hugmyndafræði og neikvæða afstöðu til umheimsins. Þeir sem aðhyllast aðrar skoðanir hafa einfaldlega rangt fyrir sér og eiga ekkert erindi inn í hópinn. Ekkert svigrúm er fyrir ólíkar eða frjálslegar túlkanir á sannleikanum sem hópurinn aðhyllist.
Í seinni tíð hefur þótt vænlegast að skilgreina trú út frá viðfangsefni sínu, hinstu rökum tilverunnar. Þannig er trú hvert það hugmyndakerfi sem býður svör við spurningum, sem eðli sínu samkvæmt verður ekki svarað á óyggjandi hátt með aðferðum vísindanna. Það að spurningunni er svarað skilgreinir trúna, ekki það hvort svarið er já eða nei. Trú þarf því ekki að beinast að verufræðilegu fyrirbæri eins og hinum gyðing-kristna og íslamska guði. Slík skilgreining næði ekki yfir búddisma eða önnur guðlaus trúarbrögð.
Í akademískri félagsfræði hefur hugtakið „költ“ mun opnari merkingu og varla trúarlega. Költi má líkja við hlaðborð hugmynda um andleg efni, sem gjarnan kunna þó að eiga sér trúarlegar rætur, þ.e. veita svör við hinum hinstu spurningum. Af þessu hlaðborði velur síðan hver einstaklingur fyrir sig á sínum eigin (költísku) forsendum það sem hentar honum, án þess að því fylgi afdráttarlaus hollusta við eða óbilandi trú á eina lífsskoðun umfram aðra.
Þannig mætti t.d. tala um jóga-költ. Þá er átt við að fjöldi fólks af öllum trúarbrögðum og engum iðkar jóga sér til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar og það nær ekkert lengra, þótt hugmyndafræði jóga byggi á hindúískum mannskilningi og heimsmynd. Sömuleiðis mætti tala um nýaldarköltið sem naut vinsælda á síðasta áratug, hippaköltið sem átti sitt blómaskeið nokkru fyrr og, já, líka siðmenntarköltið sem um þessar mundir virðist vera í blóma.
Bakþankar í Fréttablaðinu 19. 12. 2009

mánudagur, desember 07, 2009

Þú ert aldrei einn á ferð

Helgi eina í byrjun október áttum við hjónaleysin erindi austur á Egilsstaði. Illu heilli brast þó á með óveðri á föstudeginum og um kaffileytið varð ljóst að ekkert yrði úr flugi. Þar sem erindið var brýnt ákváðum við að keyra austur, enda á þokkalega útbúnum fólksbíl með fjórhjóladrifi. Við lögðum af stað um fimmleytið og gerðum ráð fyrir að ná áfangastað um tvöleytið um nóttina. Norðurleiðin varð fyrir valinu, því veðurofsinn var mestur á sunnanverðu landinu.
Í fyrstu gekk ferðin að óskum. Hálkublettir og skafrenningur á Holtavörðu- og Öxnadalsheiði voru lítil fyrirstaða fyrir okkar ágæta fjölskyldubíl. Síðasti áfanginn, Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði, átti að vera skástur samkvæmt upplýsingasíma Vegagerðarinnar. Þar var þó slíkt snjófjúk að á löngum köflum sáum við aðeins eina stiku fram fyrir okkur þótt vegurinn væri auður. Við ókum því löturhægt.
Skyndilega rann bíllinn til og áður en ég fékk rönd við reist sat hann fastur. Nánari athugun leiddi í ljós að á u.þ.b. tíu metra kafla hafði skafið í hnédjúpan skafl þvert yfir veginn, sennilega vegna þess að til beggja handa voru vegrið sem safnað höfðu snjó á milli sín. Þarna sannaðist hið fornkveðna að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Einn skafl nægir til að leiðin á milli Akureyrar og Egilsstaða sé ófær.
Nú var úr vöndu að ráða. Ekkert þýddi að ýta bílnum. Við vorum pikkföst í skafli uppi á heiði í svartamyrkri um hánótt og höfðum ekki orðið vör mannaferða síðan á Mývatni. Farsíminn kom okkur til bjargar. Hringt var í 112 þar sem við fengum samband við lögregluna á Egilsstöðum. Við höfðum verið það forsjál að núllstilla kílómetramælinn á Akureyri og gátum því gefið upp nokkuð nákvæma staðarákvörðun. Tæpum hálftíma síðar birtist bóndi af nálægum bæ eins og frelsandi engill á fjallajeppa og kippti okkur yfir hindrunina.
Því er ég að deila þessu með ykkur að mér finnst ekki vanþörf á að minna á að um allt land er gott fólk, sem lætur sig ekki muna um að vera dregið fram úr hlýju rúminu um hánótt til að fara út í frost og fjúk til aðstoðar kjánum eins og mér, sem asnast til að ofmeta eigin getu og sýna þeim óblíðu skilyrðum, sem landið okkar gerir okkur að búa við og ferðast í, ekki tilhlýðilega virðingu.
Hafi það allt Guðs þökk fyrir, ekki síst bóndinn á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.
Bakþankar í Fréttablaðinu 5. desember 2009

mánudagur, nóvember 23, 2009

Hin nýja lesblinda


Kaldhæðni er vandmeðfarin og sennilega í bráðri útrýmingarhættu. Sú skemmtilega list að segja eitthvað eitt til þess að segja í raun eitthvað allt annað undir niðri virðist nefnilega hitta í mark hjá sífellt færri neytendum afþreyingar. Kannski er það einmitt þar sem hundurinn liggur grafinn. Þegar afþreying verður að áreynslulausri neyslu sem hægt er að taka við algerlega hugsunarlaust, án nokkurrar þekkingar á menningarumhverfi sínu eða bakgrunni þess, hvað þá einhverrar næmni á blæbrigði tungu og tjáningar eða læsis á vísanir og skírskotanir, missir viðtakandinn auðvitað hvatann og þarafleiðandi smám saman einnig hæfileikann til að skyggnast undir yfirborð þess sem borið er á borð fyrir hann. Þetta er hin nýja lesblinda sem menningu okkar og almennum skemmtilegum í samfélaginu stafar mun meiri hætta af en hinni. Þetta er blinda á merkinguna á milli línanna.
Þetta form lesblindu á sér þó býsna skondnar birtingarmyndir. Það gerist einkum þegar þeir, sem verið er að hæðast að, eru of heimskir til að sjá háðið á milli línanna. Nýjasta dæmið um svona heimsku er svokallaður dagur ofbeldis gegn rauðhærðum. Hann mun eiga rætur að rekja til bandarísku sjónvarpsþáttanna South Park. Í einum þáttanna heldur kynþáttahatarinn Cartman þrumuræðu um að rauðhært fólk sé heimskt, ómennskt og sálarlaust, enda hafi Júdas verið rauðhærður. Það sem gerist í kjölfarið er skrumskæling á þekktum vampírumyndum. Hinir rauðhærðu eru skuggalegar næturverur sem þyrstir í blóð, Cartman sjálfur verður rauðhærður og gerist leiðtogi rauðkollanna.
Þátturinn er bráðfyndin og skelegg háðsádeila á fordóma. Stillt er upp mismunun á hlægilega langsóttum forsendum og sýnt hve afkáraleg hún er, líka þótt forsendur hennar kunni að vera kunnuglegri. Þetta virðist aftur á móti hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá flestum. Börn hafa tekið speki Cartmans alvarlega, rétt eins og einhvern tímann sé að marka orð af því sem hann segir og höfundarnir verið gerðir ábyrgir fyrir ofbeldi gegn rauðhærðum – sem þeir voru einmitt að hæða. Að mínu mati stafar þetta af því að of mikið af forheimskandi afþreyingu hefur gert fólk of heimskt til að átta sig á því að enn er til list þar sem merkingin liggur ekki öll á ysta yfirborði hennar, list sem gerir kröfu til þess að fólk hugsi um það sem er verið að segja því.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 11. 2009

fimmtudagur, nóvember 19, 2009

Credo

Þú horfir af barmi hárra kletta
í hylinn dökkva
og hræðist ekki að hrasa og detta
heldur að stökkva.

Þú hugsar um allt sem þú hefur að tapa
og háskann að trúa
en óttast í rauninni ekki að hrapa
eins og að fljúga.

Þetta litla ljóð orti ég fyrir mörgum árum. Það rifjaðist upp fyrir mér í samtali fyrir skömmu. Ég minnist þess ekki að hafa birt það opinberlega áður.

mánudagur, nóvember 09, 2009

Aumingja þrælasalinn

Íslenskum fjölmiðlum er að vissu leyti vorkunn að vera ekki betri en þeir eru. Smæð markaðarins gerir það einfaldlega að verkum að fjármagnið leyfir ekki að fjöldi starfskfrafta og vinnustunda á bak við hvern dálksentímetra sé sambærilegur við það sem gerist víðast hvar erlendis. Þetta er þó auðvitað engin afsökun fyrir því almenna metnaðarleysi sem til dæmis lýsir sér í því hve allir íslenskir ritmiðlar virðast hafa einlægan áhuga á því hvort Amy Winehouse var í nærbuxum eða ekki síðast þegar hún fór á djammið.
Auðvitað fjalla íslenskir fjölmiðlar mestanpart um alvarlegri mál. Nýlegt, skelfilegt mansalsmál, sem verið er að rannsaka, hefur þannig fengið talsverða umfjöllun og eðlilega vakið almennan óhug. Rannsókn hefur leitt í ljós svo víðtæk og fjölbreytt afbrot, ofbeldi og hvers konar svik, að nú er verið að rannsaka málið sem skipulagða glæpastarfsemi. Þó er ekki laust við að manni finnist ekki hafa komið alveg nægilega skýrt fram nákvæmlega hvað í mansali felst. Það er í raun ekkert annað en þrælahald, oft í formi nauðungarvændis, þ.e.a.s. þaulskipulagðra raðnauðgana á fátækum stúlkum í ábataskyni fyrir þriðja aðila. Ástæðulaust er að fara fegri orðum um athæfið.
Illu heilli óttast ég að ástæða þess hve mikið hefur verið fjallað um þetta mál að undanförnu sé ekki sú hve ofbeldi af þessu tagi er einstaklega svívirðilegt, heldur sú að málið tengist sjúkri kynhegðun, lesefni sem allir óvönduðustu fjölmiðlar veraldar gera sér einmitt sérstakan mat úr að velta sér upp úr. Nýjasta útspilið sýnir nefnilega að dómgreind og siðferði hafa ekki roð við dramatískum uppslætti. Þar var gert mikið úr því að handtaka konu nokkurrar, sem tengist málinu, skyldi ekki fara fram í kyrrþey og að henni skyldi sýnd sú tillitssemi að bíða eftir ömmunni til að passa börnin áður en farið var með hana á lögreglustöðina til yfirheyrslu um meinta aðild hennar að viðurstyggðinni. Vafalaust er það áfall fyrir barn að sjá móður sína handtekna, en að óþægileg lífsreynsla af því tagi þyki eiga erindi í umfjöllun um þá lífsreynslu að vera haldið í þrælkun og nauðgað ítrekað lýsir engu öðru en siðblindu af stærðargráðu sem engin orð fá gert tæmandi skil.
En kannski er ekki við öðru að búast í landi þar sem engin pressa hefur markað sér þá meðvituðu ritstjórnarstefnu að vera aldrei hlandgul.
Bakþankar í Fréttablaðinu 7. 11. 2009

föstudagur, nóvember 06, 2009

Lof anarkísins

Hvað glæðir þínu geði í
gleði sem er tær og hlý
svo brosað færðu björtum himni mót
og hrekur óttann hjarta úr
og hlífir þér í kaldri skúr?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað slekkur sáran þorsta þinn
með þungan, frjóan ávöxt sinn
og stendur fast á sterkri, traustri rót
og eflir þrótt og örvar dug
og eldi blæs í kalinn hug?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað greiðir veg um grýttan stig
og gætir þín og verndar þig
er fætur þína lemstrar lífsins grjót
og líknar þinni lúnu sál
og leysir öll þín vandamál?
Anarkí er allra meina bót.

D. Þ. J.

þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Skömm og skandalar

(Sir Lancelot/Lord Melody)

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Austur á fjörðum forðum bjó
fjölskylda ein í spekt og ró
uns upphófst mikið uppistand
er erfinginn vildi í hjónaband.
Þá sonur gekk á föður fund,
í fylgd með honum hið unga sprund,
en pabbi dæsti er hann dömuna sá:
„Hún er dóttir mín þessi'en segðu mömmu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Misseri leið í sorg og sút,
en sveinninn hugðist þó ganga út.
Hann ástfanginn af ungmey var
sem eldaði dýrar kræsingar.
En pabbi dæsti er hann dömuna sá:
„Hún er dóttir mín líka'en segðu mömmu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

En mömmu sagði'hann allt, enda miður sín,
og mömmu gömlu fannst þetta ágætt grín.
„Þú hlusta ekki skalt þennan hórkarl á,
því hann er ekki pabbi þinn, en segðu'ekki frá.“

Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.
Ó og æ!
Skömm og skandalar um allan bæ.

Nýleg forsíða vikunnar minnti mig á þennan gamla slagara. Mér vitanlega hefur hann ekki verið þýddur á íslensku fyrr en nú. Þetta er auðvitað enginn gullaldaldarkveðskapur, en kannski má hafa gaman af þessu fyrir því.

mánudagur, október 26, 2009

Djöfullinn í þögninni

„Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug.“ (1Pét 5.8-10)
Þessi mögnuðu orð leituðu á hug minn í vikunni sem leið. Í þeim er nefnilega að mínu mati fólgið dásamlegt fyrirheit um að kærleikurinn hafi sigur að lokum og hinn þjáði rísi upp öflugri en áður.
Auðvitað veit ég að þessi orð, sem skrifuð voru öðru hvoru megin við aldamótin 100, eru skrifuð til kristinna söfnuða í Litlu-Asíu, sem sættu ofsóknum, en ekki Íslendinga í upphafi 21. aldar. Djöfullinn, sem þarna er talað um, er ekki þessi óeiginlegi sem hver þarf að draga sitt eigið eintak af, sjálfum sér og fólkinu í kringum hann til tjóns, heldur grimmúðlegt heimsveldi. Mér finnst þau samt eiga jafnvel við um hann.
Ég veit líka að djöfullinn er ekki í tísku um þessar mundir. Það þykir hálfgerður miðaldafnykur af öllu tali þar sem hann ber góma. En merking þrífst á andstæðu sinni. Ljós er ljós af því að við þekkjum myrkur, hlýja er hlýja af því að við þekkjum kulda. Guð er kærleikur (1 Jóh 4.8) og við þekkjum andstæðuna, þá tilfinningu að Guð hafi yfirgefið okkur og öllum sé sama. Andstæða kærleikans er nefnilega ekki hatur heldur skeytingarleysi. Hatur er ástríða. Fullkominn skortur á kærleika er ekki hatur heldur hitt, það að standa á sama. Ef Guð er kærleikur hlýtur djöfullinn því að vera skeytingarleysi.
Allir þekkja kveðjuna: „Friður sé með yður.“ Kristilegri orðsendingu er varla hægt að fá. Forsenda friðar, samkvæmt kristnum skilningi, hlýtur að vera réttlæti, af því að friður um óréttlæti er ekki friður, heldur einmitt skeytingarleysi.
Illu heilli höfum við séð skeytingarleysið ganga um eins öskrandi ljón og valda okkar minnstu bræðrum og systrum þjáningum. En við höfum líka séð skeytingarleysið hopa eilítið.
Sumir segja að Guð búi í þögninni. Vera má að stundum sé það svo. En þegar þagað er um óréttlæti geymir þögnin engan Guð, aðeins djöfulinn.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. október 2009

þriðjudagur, október 20, 2009

Vígð smámenni

Kristur tók sér alltaf stöðu með hinum kúguðu og forsmáðu, gegn kúgurum og valdníðingum. Kirkja sem ekki gerir það getur ekki gert neina kröfu til þess að teljast kirkja Krists á jörð. Þetta er svona einfalt. Stofnun sem tekur sér stöðu með þeim sem uppvís hefur orðið að siðferðisbroti, gegn fórnarlömbunum, er ekki kirkja heldur ömurleg afskræming alls þess sem kirkja á að vera.
Kirkja er samfélag. Hagmsunir samfélags verða alltaf að vega þyngra en hagsmunir einstaklinganna sem þjóna því. Kirkjunni ber ávallt að vera stærri en persónuleikarnir sem gegna embættum á vegum hennar. Því miður hefur mörgum klerkum þó að undanförnu virst með öllu fyrirmunað að taka velferð kirkjunnar fram yfir persónulega hagsmuni sína, of blindaðir af embættisást til að sjá tjónið sem þeir valda. Nema þeim sé skítsama. Afraksturinn er trausti rúin Þjóðkirkja.
Nýjasta dæmið er mál Gunnars Björnssonar. Þar sem hann var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot, bæði í héraði og í Hæstarétti, telur hann sig geta snúið aftur í embætti sitt eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að hann strauk unglingsstúlkum og kyssti þær, þrátt fyrir að sóknarnefnd hafi lagst gegn því að hann snúi aftur til starfa og Fagráð Þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot sé sama sinnis. Aukinheldur rauf hann bæði vígslueið sinn, „að vera öðrum til fyrirmyndar og styrktar í sannri trú og grandvöru líferni“, og braut siðareglur Prestafélags Íslands þar sem segir: „Prestur má ekki undir neinum kringumstæðum misnota aðstöðu sína sem sálusorgari eða ógna velferð skjólstæðings, s.s. með kynferðislegri áreitni, né vanvirða tilfinningar hans og tiltrú með öðrum hætti“. Þótt dómstólar telji framferði hans ekki falla undir skilgreininguna á kynferðislegri áreitni er óvefengjanlegt að tilfinningar stúlknanna voru vanvirtar og tiltrú þeirra ógnað.
Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar telur að Gunnar hafi gerst sekur um ótvírætt siðferðisbrot þótt hún treysti sér ekki til að mæla með því við biskup að hann yrði sviptur brauðinu. Ástæða þess er einfaldlega sú að vegna einhvers, sem aðeins getur verið handvömm við samningu starfsreglna nefndarinnar, hefur hún engin úrræði að grípa til vegna siðferðisbrota. Þegar framin eru svokölluð agabrot horfir málið öðruvísi við. Þá getur hún mælt með tafarlausri brottvikningu. Gunnar var af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki fundinn sekur um agabrot.
Biskupi var því vandi á höndum. Hann þurfti að ákveða hvað gera skyldi við prest, margsekan um siðferðisbrot, sem sóknarnefnd vildi losna við, en sem nýtur verndar laga um starfsöryggi opinberra starfsmanna, þótt fráleitt sé að ætla að þau hafi verið sett í þeim tilgangi að vernda trúarleiðtoga sem káfa á börnum. Ólögmæt brottvikning hefði getað kostað himinháar skaðabætur. Sýnir þetta auðvitað betur en nokkuð annað hve brýnt það er að um Þjóðkirkjuna fari að gilda sömu lög og um trúfélög almennt. Hvernig getur kirkja, sem er með öllu úrræðalaus gagnvart siðferðisbrotum þjóna sinna, ætlast til þess að á henni sé tekið mark um siðferðileg álitamál? Ekki þarf að fara í neinar grafgötur með það hvernig brugðist yrði við ef starfsmaður annarrar æskulýðsstarfssemi yrði uppvís að sams konar siðferðisbroti.
Biskup kvað upp sannkallaðan Salómonsúrskurð. Gunnar skyldi halda starfi, en vera falin önnur verkefni, þar sem hæfileikar hans njóta sín og ekki er krafist náinnar umgengni við börn undir lögaldri. Gunnar kaus hins vegar að hrækja á þessa líflínu, sem biskup af mildi sinni varpaði til hans, með því að lýsa því yfir að hann myndi hunsa þessi fyrirmæli. Nú er aðeins hægt að vona að þá lítilsvirðingu, sem Gunnar sýnir persónu biskups Íslands og valdi hans, sem æðsta embættismanns Þjóðkirkjunnar, með viðbrögðum sínum, megi skilgreina sem agabrotið sem svo sárlega vantar á ferilsskrá hans til að hægt sé með lögmætum hætti að svipta hann hempunni í eitt skipti fyrir öll.
Tíu prestar hafa lýst yfir stuðingi við Gunnar í baráttu hans fyrir brauðinu. Það er sorglegt. Enn sorglegra er þó að aðrir prestar Þjóðkirkjunnar, sem telja á annað hundraðið, skuli þegja þunnu hljóði í stað þess að fylkja liði að baki biskupi sínum. Að mínu mati ber þeim tafarlaust að lýsa yfir algjörum stuðningi við biskup í því mikilvæga verkefni sem hann virðist, til allrar hamingju, ætla að taka sér fyrir hendur: Að sýna í verki að Þjóðkirkjan vill að sönnu vera kirkja Krists á jörð en ekki hagsmunagæsla fyrir vígð smámenni.
Grein í Fréttablaðinu 19. október 2009
Viðbót 20. okt: Til að sanngirni sé gætt er rétt að fram komi að prestar höfðu tjáð sig um málið áður en grein þessi birtist, a.m.k. sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir í aldeilis glimrandi prédikun, sem farið hafði fram hjá mér. Sama dag og þessi grein birtust gengu sr. Örn Bárður Jónsson og sr. Sigríður Anna Pálsdóttir ennfremur fram fyrir skjöldu og tóku afdráttarlausa afstöðu með biskupi. Líklega litu flestir prestar svo á að ljóst væri að þeir sem ekki styddu Gunnar styddu biskup. Að mínu mati var það ranglega ályktað hjá þeim.

mánudagur, október 12, 2009

Kjaftæðið um krúttin

Þegar ég var unglingur brast á með pönki. Það var uppreisn gegn tildri og yfirborðsmennsku diskósins. Ég var alls ekki eina íslenska ungmennið frá borgaralegu millistéttarheimili sem pönkið heillaði. Við gengum ekki í rifnum fötum af því að við höfðum ekki efni á nýjum, eins og upphafsmenn pönksins í fátækrahverfum Stóra-Bretlands, heldur af því að í því fólst, að okkar mati, einhvers konar yfirlýsing. Leðurjakkinn, sígildur einkennisbúningur uppreisnarseggsins, hefði auðvitað þótt fágæt munaðarvara í því umhverfi sem pönkið spratt úr. Fyrir rest voru pönkaragellurnar síst farnar að verja minni fjármunum í hárvörur (fyrir hanakambinn) og augnmálningu (biksvarta) en diskódísirnar. Byltingin étur börnin sín.
Um þessar mundir tröllríða svokölluð „krútt“ öllu því sem heitast og flottast þykir. Í því felst að tónlist skal vera gersneydd allri agressjón og klæðnaður í senn hlýlegur og fátæklegur. Prjónahúfur, sem helst eiga að líta út fyrir að hafa verið gerðar í handavinnutíma í 10 ára bekk, eru eitt helsta einkennið ásamt grófum ullarkápum og vettlingum. Af þessum sökum standa margir í þeirri meiningu að krúttin séu óháð tískustraumum og stefnum, þau taki sjálfstæðar ákvarðarnir um klæðaburð sinn í stað þess að fylgja fyrirmælum.
Ef fatnaður krúttanna er skoðaður nánar verður þó auðvitað strax ljóst að þar gilda mjög strangar reglur. Það, hve staðlaður og samræmdur klæðaburðurinn er, bendir ennfremur til þess að reglum þessum sé framfylgt af fyllstu hörku, tískulögreglan sé síst afslappaðri en áður fyrr, jafnvel þótt fagurfræðilegar forsendur útlitseftirlitsins kunni að virðast nýstárlegar.
Vegna þess hve bannið við öllu nýlegu og ríkmannlegu – og reyndar öllu sem ekki lítur út fyrir að hafa annað hvort fengist hjá Rauða krossinum eða Hjálpræðishernum – er skilyrðislaust, telja ýmsir ennfremur að krúttin séu betur í stakk búin en aðrir til að takast á við kreppuna. Þetta er náttúrlega eins og hvert annað kjaftæði. Það gerir engan hæfari til að mæta fátækt, sem hefur aðallega hangið á kaffihúsum sötrandi latte á 450 krónur bollann brimandi netið á mörghundruðþúsund króna kjöltutölvu, að finnast ógeðslega flott að vera eins og niðursetningur til fara og Sigur Rós skemmtileg.
Bakþankar í Fréttablaðinu 10. 10. 2009

sunnudagur, október 04, 2009

Fé, fé, fé, fé, fé, fé

(lag&texti: Benny Anderson & Björn Ulvæus / íslenskur texti: D. Þ. J.)

Ég þræla'og púla út í eitt
svo eytt ég geti'og skuldir greitt.
Ljótt er það.
En þrátt fyrir það aldrei er
neitt afgangs til að leika sér.
Nema hvað.
Draumfagra ég óra á,
í auðkýfing ég þyrfti'að ná.
Hve líf mitt yrði laust við streð,
hve létt þá yrði'og kátt mitt geð.

Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
lífið sé spé;
ljúft að vera til.
Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
hvorki hlé né
hik á sólar yl.
Aha, aha. Sitthvað gæti ég gert.
Ef ég aðeins ætti fé, fé,
væri'allt mér í vil.

Á hverju strái ekki er
slíkt öðlingsmenni, því er ver.
Ljótt er það.
Og þótt hann væri frír og frjáls
hann félli tæpast mér um háls.
Nema hvað.
Ég þyrfti'að líða'í ljúfri fró
um Las Vegas og Mónakó
og vinna stóran póker pott
af peningum og lifa flott.

Fé, fé, fé, fé, fé, fé,
lífið sé spé … o.s.frv.