laugardagur, janúar 02, 2010

Nýársprédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.
Gleðilegt nýtt ár. Ég vil byrja á að þakka fyrir þann heiður sem mér er sýndur með því að vera treyst til að ávarpa ykkur héðan úr þessum merkilega ræðustóli á þessum mikla hátíðardegi.
Það er til siðs við áramót og önnur tímamót að staldra við, líta yfir farinn veg, meta frammistöðu sína og framvindu lífsins og jafnvel að setja sér markmið og stefnumál fyrir næsta áfanga á lífsleiðinni. Sjónvarpsstöðvar eru iðnar við það að horfa um öxl í lok hvers árs. Þær taka saman annála þar sem helstu fréttaatburðum heils árs eru gerð skil. Ísland 2009 tekur eina klukkustund, restin af heiminum aðra. Þar með fréttum við á tveimur klukkustundum hvað gerðist alls staðar á heilu ári. Það liggur við að óþarfi sé að fylgjast með fréttum nema þennan eina dag á ári, dag samantektarinnar. Gallinn er sá að helstu fréttir eru ekkert mjög gleðilegar. Morð og styrjaldir, hungursneyðir og hamfarir eru stóratburðir. Sauðburður, spilakvöld og fjársafnanir teljast ekki til þeirra. Það eru svokallaðar „human interest“ fréttir sem rata í loftið sem uppfyllingarefni til að fylla fólk ekki þunglyndi yfir hörmungunum og vátíðindunum sem annars væru einu fréttirnar. Þessar fréttir rata sjaldan í annála ársins, ekki nema þær séu þeim mun skringilegri. Það er gömul saga og ný að engar fréttir eru góðar fréttir, sem þýðir um leið að góðar fréttir eru engar fréttir.
En hér á þessum stað er kannski við hæfi að líta um öxl og skoða árið sem er að líða frá sjónarhóli kirkjunnar. Hvaða sess hefur árið 2009 í kirkjusögulegu samhengi? Rataði kirkjan eitthvað í fréttir og af hvaða tilefni? Já, hún gerði það – og ekki bara í samhengi sem hún getur verið stolt af. Ég held samt að óþarfi sé að ræða hér ítarlega þau mál sem varða kirkjuna og mest rými fengu í fjölmiðlum á nýliðnu ári. Þau hafa verið til lykta leidd.
En það voru ekki allar fréttir af kirkjunni þess eðlis að þær vörpuðu rýrð á heilaga köllun hennar. Sem dæmi má nefna að í septembermánuði 2008 varði Hjálparstarf kirkjunnar 900.000 krónum til aðstoðar íslenskum fjölskyldum með fjárstyrkjum, mat, lyfjum, skólagjöldum, skólavörum, tómstundagjöldum og öðrum hætti. Í september á nýliðnu ári tífaldaðist þessi tala. Ekkert lát er á beiðnum eftir aðstoð. Á tímum uppgangs og útrásar, í góðærinu svokallaða sem nú er minning ein, veitti hjálparstarf kirkjunnar þeim hópum aðstoð sem minnst máttu sín í samfélaginu. Foreldrum sem stóðu ein með börn sín, þeim sem ekki gátu stundað atvinnu vegna veikinda eða örorku, öldruðum sem ekki fengu stuðning frá fjölskyldum sínum þegar lífeyririnn hrökk ekki til og þeim sorglega mörgu sem orðið hafa áfengi og öðrum fíkniefnum að bráð. Í stuttu máli, fólkinu sem góðærið hunsaði. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur hópurinn sem leitar til hjálparstarfsins stækkað til muna.
Mig langar að gera orð Sigurvins Jónssonar guðfræðings úr prédíkun, sem hann flutti í Neskirkju 4. október síðastliðinn, að mínum: „Sú viðleitni kirkjunnar að taka upp samskot í messum til styrktar þeim sem þurfa stuðnings við er í senn eðlileg og sannkristin viðbrögð við því breytta þjóðfélagi sem nú blasir við. Í raun má segja að það sé afleiðing og einkenni þess hversu hratt þjóð okkar reis úr sárri fátækt til velmegunar að slík samskot skuli ekki almennt tíðkast í íslensku þjóðkirkjunni, því sá siður að safna fé handa bágstöddum í messum og kristnum samkomum er iðkaður í yfirgnæfandi meirihluta kirkna og kirkjudeilda. Frá fyrstu tíð hefur kristin kirkja litið á það sem eitt af grunnhlutverkum sínum að veita samhjálp og stuðning til allra þeirra sem til hennar leita. Allra.“
Þessi orð kalla að mínu mati á að við leitumst við að svara mikilvægri spurningu. Hvað er kirkja? Er kirkja hús þar sem fé er safnað til að kaupa orgel, sálmabækur, fagurlega útskornar hurðir, steinda glugga og fögur messuklæði svo Guði sé nú nægur sómi sýndur af helgihaldinu? Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr því mikla og göfuga hlutverki sem kirkjan hefur í gegn um tíðina gegnt og gegnir enn í íslensku lista- og menningarlífi eða framlagi hennar til íslensks tónlistarlífs, myndlistar, hannyrða og arkítektúrs. Öðru nær. En þó er ekki laust við að það hvarfli að mér að þeim Guði, sem við viljum játa trú á, væri kannski meiri sómi sýndur með öðrum hætti í þeim nýja raunveruleika sem nú blasir við, að hann kalli frekar á að við játum trú okkar með því að helga tíma okkar, orku og fjármunum því að auðsýna hvert öðru kærleika í verki en heldur í því að gera umgjörð helgihaldsins sem glæsilegasta. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ Er hin sanna lofgjörð og hin einlæga tilbeiðsla ekki mun fremur fólgin í því?
Er kirkja hús þar sem fólk, sem segist vera kristið, kemur saman og syngur sálma og hlustar á prestinn sinn tala í kortér út frá Biblíunni um það hve mikilvægt það sé að vera almennileg manneskja? Ég verð að viðurkenna að í námi mínu í guðfræði við Háskóla Íslands hafa mér oftsinnis fallist hendur gagnvart því hve helstu hugsuðum mannkynssögunnar hefur tekist að þvæla það og flækja sem í eðli sínu ætti að vera einfaldasta mál í heimi: Að vera gott fólk. Þetta ættu ekki að vera nein geimvísindi. En það er kannski ekki eins einfalt og maður heldur.
Hvernig ætlar kristinn maður að bregðast við í atvinnuleysi og efnahagskreppu þegar sveitarfélagi hans berst freistandi tilboð frá alþjóðlegu stórfyrirtæki um stórfellda atvinnuuppbyggingu sem skapar fjölda starfa í samfélaginu til langrar framtíðar. Fyrirtækið lætur sér annt um samfélagið, það styrkir skóla og æskulýðsstarf, það gefur sparkvelli og fjármagnar útihátíðir á tyllidögum, það er meira að segja með prest í hálfu starfi við að annast sálgæslu starfsmanna. Hefur samfélagið ekki himin höndum tekið þegar því berst slíkt tilboð frá svo stöndugu og vel meinandi fyrirtæki? Hvað ef fyrirtækið er um leið einn öflugasti og tæknivæddasti vopnaframleiðandinn í heiminum? Hvað erum við þá að gera minnstu bræðrum Krists og þar með Kristi sjálfum? Hvað myndi Jesús gera? Siðferðilegu álitamálin sem við þurfum að glíma við eru nærtækari og stærri en við gerum okkur endilega grein fyrir í daglegu amstri hvunndagsins.
Hvað er kirkja? Við heyrðum hér áðan lýsingu Páls postula á kirkju: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ En við höfum líka heyrt meira um kirkjuna. Öll sögðumst við saman hér rétt áðan trúa á „heilaga, almenna kirkju“. Hvað meintum við með því? Trúum við þessu í raun og veru? Að hvaða leyti er kirkjan heilög?
Hún er að minnsta kosti ekki heilög að því leyti að hún samanstandi einungis af fullkomnum og gallalausum einstaklingum. Við þurfum ekki að hafa fylgst með fréttum síðastliðins árs til að sannfærast um það, við þurfum ekki heldur að horfa á blóði drifna sögu kirkjunnar á miðöldum, okkur ætti að nægja að líta í eigin barm af sæmilegri sanngirni. Öll höfum við syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum, eins og við játum í hvert sinn áður en við göngum til altaris. Þannig hefur það alltaf verið, frumkirkjan var ekki heldur samansafn af englum í mannsmynd. Í fyrra bréfi Páls postula til söfnuðarins í Korintu kemur greinilega fram að þar var mikið um flokkadrætti og deilur um hin ýmsu atriði, hver væri merkilegri en annar í trúnni, í hverju sönn trú eða trúarreynsla fælist. Páll segir strax í ávarpi sínu að þeir, sem skipuðu þennan sundurlynda hóp þrasara, séu „helgaðir í Kristi Jesú, heilagir að köllun til“. Það sama gerir hann í upphafi Rómverjabréfsins, hann heilsar þeim „sem heilagir eru samkvæmt köllun“. Kirkjan er m.ö.o. ekki heilög í sjálfri sér, heldur er það köllun hennar sem er heilög og helgar hana.
Það er bæði gott og blessað að lofa Guð með söng og hljóðfæraleik. „Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju. Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með flautum og strengjaleik,“ segir í 150. Davíðssálmi. En er það hin helga köllun kirkjunnar, köllunin sem helgar hana? Nei, það er ekki söngurinn, eins fagur og göfgandi og hann þó getur verið, sem er einkenni heilagrar kirkju, heldur kærleikurinn. Mest lofum við Guð með kærleika. „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars,“ segir Jesús sjálfur. Það er í þeirri merkingu sem við játum trú á „heilaga, almenna kirkju“. Köllun hennar er að miðla heilögum kærleika Guðs til allra manna. Allra.
Og hvernig hefur nú kirkjunni tekist upp við það hlutverk sitt? Hve vel megnaði hún að sinna sinni helgu köllun á nýliðnu ári? Hvað fór úrskeiðis? Hvaða lærdóma getur hún dregið af því? Hvernig getur hún komið í veg fyrir að það sem miður fór endurtaki sig? Þessara spurninga ber kirkjunni að spyrja sjálfa sig af algjöru miskunnarleysi og svara þeim undanbragðalaust. Hollusta við kirkjuna felst nefnilega ekki í skilyrðislausri undirgefni, hlýðni eða meðvirkni. Hugleysinginn horfir í hina áttina þegar eitthvað ber út af á meðan kæruleysið og sinnuleysið sitja aðgerðarlaus álengdar með hendur í skauti. Það er kærleikurinn sem tekur til hendinni og skerst í leikinn. Þess vegna ber kirkjunni að iðka stöðuga sjálfsrannsókn, vera í stöðugri innri siðbót. Þetta heitir upp á latínu „ekklesia semper reformanda“ og er grundvallaratriði í lútherskum kirkjuskilningi, jafnvel atriðið sem lúthersk kirkja byggir líf sitt á. Samkvæmt því átti siðbótin sér ekki stað í eitt skipti fyrir öll og upp frá því varð hin jarðneska kirkjustofnun óaðfinnanleg að eilífu, amen. Öðru nær. Siðbót kirkjunnar verður að vera óstöðvandi, sífellt og áframhaldandi þroskaferli.
Nýleg könnun hefur leitt í ljós að 75% þjóðarinnar eru hlynnt fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Þetta þýðir alltaf, hvernig sem þessi tölfræði dreifist með tilliti til aðildar að trúfélögum, að afgerandi meirihluti þeirra sem tilheyra Þjóðkirkjunni eru þessarar skoðunar. Að einhverju leyti kann þessi niðurstaða að byggja á ákveðinni vanþekkingu á því hvernig sambandi ríkis og kirkju er háttað. Sumpart kann það að eiga sér skýringar í lélegum almannatengslum Þjóðkirkjunnar. Að minnsta kosti virðast ótrúlega margir halda að kirkjan sé ekki annað en samansafn hátekjumanna á ríkisspenanum sem fara í kjól á sunnudögum til að hjala einhverja mærð yfir þeim örfáu sálum sem láta sjá sig í messu. Sjálfsagt eiga fyrirferðarmiklar fréttir af siðferðisbrotum kirkjunnar þjóna einnig sinn þátt í þessari afgerandi niðurstöðu.
En kannski er bara auðveldara að finna skýringar á borð við þær að eitt fölnað laufblað hafi fengið meiri umfjöllun en allur hinn fagri skógur eða að fólk viti í raun ekki alveg nógu mikið um það sem það er að myndast við að hafa skoðun á, heldur en að horfast í augu við að þessi niðurstaða endurómar einfaldlega kall breyttra tíma. Kirkjufyrirkomulag okkar byggir á kenningu Lúthers um hinn almenna prestdóm kristins manns. Samkvæmt henni eiga veraldlegir valdhafar að annast kirkjuna, eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins, af því að það er skylda þeirra sem kristinna manna og leiðtoga meðal síns fólks. Í fjölhyggjusamfélagi eru þessar forsendur brostnar. Hví skyldi það vera skylda búddista eða trúleysingja í valdastöðu að standa vörð um kristna kirkju eða lútherskan sið? Það þarf ekki að líta á þessa niðurstöðu sem áfellisdóm yfir kirkjunni, líklega er hún aðeins ákall um réttlæti, jafnrétti trúarbragða og lífsskoðana, ákall um að ytra rekstrarfyrirkomulag kirkjunnar samræmist því trúfrelsi sem hér er við lýði og við viljum öll að hér sé við lýði. Kirkjan verður að horfast í augu við þetta í sinni stöðugu siðbót.
En hvað er þá kirkja? Ég hef nú þegar varpað þessari spurningu fram nokkrum sinnum. Og alloft hef ég byrjað setningu á orðunum „kirkjan þarf“ og „kirkjan verður“. Hver er þessi kirkja sem „á“ og „þarf“ og „verður“ að gera allt þetta sem ég hef sagt? Svarið er einfalt. Kirkja er samfélag. Heilög kirkja er söfnuður Guðs, samsafn allra þeirra sem kallaðir eru til fylgdar við Krist, allra þeirra „sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists“, svo ég vitni aftur í Pál postula. Kirkjan er m.ö.o. þú og ég. Og við erum krafin svars. Erum við reiðubúin til að svara okkar heilögu köllun? Alltaf? Alls staðar? Og til allra?
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Hafnarfjarðarkirkju 1. janúar 2010

4 ummæli:

Óli Gneisti sagði...

Þetta var nú ekkert slæmt hjá þér. Gleðilegt ár.

Óli Gneisti sagði...

Og spilið skemmtilegt þó ég eigi væntanlega eftir að bæta við húsreglum og stundaglasi.

Davíð Þór sagði...

Takk fyrir. Sömuleiðis. Já og húsreglur eru auðvitað hverjum manni í sjálfsvald settar.

ill Brilla sagði...

þetta er svo langt blogg að ég þarf að kommenta í áföngum á meðan ég les, svo að ég gleymi ekki athugasemdum sem mér dettur í hug.

1.Góðærið.. Hadith= the Hour will not come to pass untill; Gains will be shared out among the rich, with no benefit to the poor.... einn af hverjum sex jarðarbúa þjáist af næringarskorti (samkvæmt nokkurra ára gamalli tölfræði), og samt er nóg til, til að fæða alla íbúa jarðarinnar aftur og aftur og aftur.... sá tækifæri til að benda á það.

2. Mér finnst gott að þú minnir á góðgerðarstarfsemi kirkjunnar í samhengi við Góðærið sem traðkaði á þeim sem minna mega sín, og vill benda á kvikmyndina "Capitalism, a love story" (Lang besta mynd michael moore)... Mér fannst nefnilega Prestarnir sem hann talaði við í sambandi við kapítalisma og trú- ótrúlega flottir :D (verður að kíkja á þetta)

3. Þegar talað er um="í kristi", eins og 'Póstullinn Páll' segir "þið eruð öll eitt í Kristi Jesú".. Er þá átt við þýðingu gríska orðsins Christo?, eða er verið að gefa í skyn að Jesú sjálfur sé 'Guð', eða stillt upp með Guði? ...Þegar ég las nýja testamenntið þá fannst mér þetta nefnilega svolítið flókið. (semsagt; hvort er verið að tala um "Christo" eða einfaldlega verið að ávarpa jesú ? )

4. Ef ég væri kristinn þá hefði ég ýmsar skoðanir á því "Hvað kirkja er", en ég slapp naumlega fyrir horn þegar ég fór með Shahadah í gamla daga, en mér datt ein hugmynd í hug á meðan ég tók eina klósettpásu frá þessu (Nr.1 ekki 2, ef það hefði verið Nr2 þá fengiru gáfulegri pælingu) varðandi "hvað er kirkja".. Að Kirkja er, eins og þú nefnir "samfélag", skólabekkur í Hópverkefni þar sem hlutverk presta er að vera Nördarnir í bekknum....
..En það er bara léleg ágiskun byggð á orðum þínum.

5. Gott blogg, frekar langt en stundum kemst maður ekki hjá því.