þriðjudagur, janúar 27, 2009

Botn 10: Verstu kvikmyndir sem ég hef séð

Ég nenni ekki að vera pólitískur eða aktúell. Hér er listi yfir tíu verstu kvikmyndir sem ég hef séð. Tekið skal fram að íslenskar myndir vantar á þennan lista þótt a.m.k. tvær ættu sannarlega heima á honum. Einnig skal tekið fram að þetta eru einungis myndir sem ég ég hef setið undir frá upphafi til enda.

10. Gladiator (2000), Ridley Scott

Heimskuleg, ótrúverðug og umfram allt gjörsamlega tilgangslaus saga um óþolandi mann. Aðeins peningarnir sem settir voru í framleiðsluna komu í veg fyrir að myndin færi beint á myndband. Óverðskulduðstu Óskarsverðlaun sögunnar.

9. Daredevil (2003), Mark Steven Johnson

Á! Æj! Úff! Hér hjálpast ekkert að.

8. Armageddon (1998), Michael Bay

Loftsteinn ógnar jörðinni. Skynsamlegra þykir að senda bormenn á helgarnámskeið í geimferðum til að redda þessu heldur en að senda geimfara á helgarnámskeið í borun. Myndin státar af heimskulegustu setningu kvikmyndasögunnar: „Ég hefði ekki átt að ala þig upp á olíuborpalli.“ Döh!

7. Idioterne (1998), Lars von Trier

Hópur af ljótum og leiðinlegum hrokkagikkjum ákveða að tékka á því hve ljótir, leiðinlegir og hrokafullir þeir geti orðið.

6. Ett hål i mitt hjärta (2004), Lukas Moodyson

Heimskur og leiðinlegur unglingur vorkennir sjálfum sér ógurlega inni í herberginu sínu á meðan heimskur og leiðinlegur pabbi hans gerir lélega klámmynd með heimskum og leiðinlegum vinum sínum. Tilgangslaus sóðaskapur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

5. Babel (2006), Alejandro Gonzalez Inarritu

Pakk sem á ekkert gott skilið lendir í því sem það á skilið og vorkennir sjálfu sér ógurlega í 143 mínútur. Söguna hefði mátt segja á 15 mínútum. Hún hefði að vísu orðið jafnleiðinleg, bara ekki eins lengi.

4. Caché (2005), Michael Haneke

Leiðinlegur og sjálfumglaður karl fær dularfullar sendingar. Ekkert kemur í ljós. Í lok myndarinnar er hann jafn leiðinlegur og sjálfumglaður og í upphafi hennar. Myndin státar af ótrúverðugasta sjálfsvígi kvikmyndasögunnar.

3. Braking the Waves (1996), Lars von Trier

Dauðadrukkinn kvikmyndatökumaður fylgist með ömurlegu lífi óáhugaverðrar konu í nöturlegu umhverfi.

2. The English Patient (1996), Anthony Minghella

Ekkert gerist. Lengi. Svo er reynt að drepa aðalsöguhetjuna. Svo heldur ekkert áfram að gerast. Lengi.

1. Lost in Translation (2003), Sofia Coppola

Ekkert gerist – í Japan.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það hlýtur birta talsverða sjálfspyntingarhvöt að sitja undir svona mörgum svona leiðinlegum myndum. Ekki gæti ég fyrir mitt litla líf nefnt svo mikið sem eina svona leiðinlega, ég virðist þurrka þær út úr minninu. Fer raunar afar sjaldan í bíó, aldrei á leigu og nenni ekki sjónvarpi nema það höfði til mín á einhvern hátt. Gaman að lesa skrifin þín.

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála þér með þessar myndir sem ég hef séð.DD, Idioterne, Gladiator og Þarmageddon. Ég orðaði það eftir að ég sá þessi ósköp að það var miklu skemmtilegra að horfa á málverk þorna eða 100m sprett hjá sniglum.
kv.
Ingi

zerogirl sagði...

Ég er svo heppin að hafa ekki séð neina af þessum myndum. Reyndar sá ég tíu mínutur af Lost in Translation einhverntíma...það var nóg.

Annars er Family Man með Nick Cage alltaf á toppnum yfir leiðinlegar myndir hjá mér - enda eina myndin sem ég hef gegnið út af í bíó.

Nafnlaus sagði...

Greinilegt að þú hefur ekki séð Dogville í leikstjórn Lars Von Trier. Mannréttindanefnd ESB ætti að banna svona pyntingar.

grumpy sagði...

Skil nú ekkert í þér að setja Gladiator á þennan lista. Hinar myndirnar er ég hins vegar alveg sammála þér með, hef reyndar ekki nennt að byrja að horfa á þær flestar einu sinni.

kolli sagði...

Are you not Entertained?

Nafnlaus sagði...

Mér fannst " Braking the Waves " dáldið eftirminnileg
.Misjafn er smekkurinn og er það hið besta mál...