þriðjudagur, janúar 06, 2009

Sátt um samstöðu

Áramótaboðskapur helstu þjóðarleiðtoganna var að hér á landi þyrfti sátt um samstöðu. Eða var það samstaða um sátt? Ég man ekki hvor klisjan var höfð á undan. En þessi boðskapur hljómaði býsna vel alveg þangað til maður fór að hugsa um hann. Sennilega hefði verið mun auðveldara að byrla manni þessu inn hefði maður ekki verið nýbúinn að horfa á innlendan fréttaannál ársins.
Ég hafði nefnilega steingleymt því hvað það voru framin mörg minniháttar bankarán á síðasta ári. Mánaðarlega hafði eitthvert greyið þust inn í bankaútibú vopnað hamri, kúbeini eða dúkahníf til að fjármagna fíkn sína eða gera upp skuld við undirheimalýð. Þegar best tókst til nam uppskeran af þessari aðferð við að ræna banka einni milljón króna. Varla hefur neinn trúað því í alvörunni að hann kæmist upp með þetta. Af tvennu illu hafa afleiðingar bankaránsins líklega aðeins verið fýsilegri kostur en hinn, að standa ekki í skilum.
Í engu þessara tilfella var talað um sátt eða samstöðu. Þvert á móti var boðskapurinn að þetta yrði ekki liðið, glæpamaðurinn skyldi nást og þýfið endurheimt. Engum datt í hug að þjóðin í heild sinni hefði tekið þátt í ráninu og þaðan af síður var talað um að ekki mætti persónugera vandann sem peningahvarfið skapaði. Í einu tilfelli var meira að segja kallað á þyrlu til að leita að persónunni sem gerði þetta úr lofti. Hún hafði falið sig í gjótu úti í hrauni í Hafnarfirði.
Þegar ekki er hlaupið með hundraðþúsundkalla út úr bönkum eftir að hafa ógnað afkomu blásaklauss fólks heldur milljarða, ef ekki tugi milljarða, er hins vegar gapað á sátt um samstöðu. Annað hvort það eða samstöðu um sátt. Ekki er hægt að kalla út þyrlu til að hafa uppi á þjófunum, enda leynast þeir ekki í hraungjótum suður í Hafnarfirði heldur á suðurhafseyjunni sem hentar skattframtalinu þeirra best.
Þegar ógæfumaður beitir klaufhamri eða kúbeini til að fjarlægja peninga sem hann á ekkert í úr banka ríkir aðeins sátt og samstaða um að draga hann til ábyrgðar fyrir athæfið. Eðlilega. Það verður að gilda um alla bankaræningja, óháð upphæð, óháð aðferðum, óháð fíkninni sem verið er að fjármagna. Sáttur yrði ég við samstöðu um það. Því miður held ég að landsfeðurnir hafi verið að meina eitthvað annað.
Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 1. 2009

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er ekki að myndast sátt um samstöðu gegn samstöðu um sátt?

Vonum bara að réttlætinu verði fullnægt áður en fólk fer að minnast kinnbeinsbrotum lögregluþjóna með sökunuði - þegar ekkert alvarlegra gerðist og fólk gat sofið rótt.

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju með nýja titilinn :)

Bestu kveðjur,
Maggi og Bára