sunnudagur, desember 17, 2006

Jólatrésala, jólatréssala eða jólatrjáasala?



Mér hafa borist fyrirspurnir um hvað sé rétt heiti á þeirri þjónustu að selja fólki jólatré. Elías spyr hvort það eigi að vera eitt eða tvö S í „jólatrés(s)sala“ og Bára bætir um betur og segist hafa haldið að „jólatrjáasala“ væri hið eina rétta heiti á fyrirbærinu.
Segja má að það komi vel á vondan að ég skuli vera spurður um þetta atriði, því ekki er langt síðan það var mér einmitt sérstakt kappsmál að orðinu „jólatrés(s)sala“ væri útrýmt úr íslensku og í staðinn væri talað um „jólatrjáasölu“. Gekk þetta svo langt að árum saman beindi ég öllum mínum jólatrjáaviðskiptum að flugbjörgunarsveitinni – á málræktarlegum forsendum. Hún var eini söluaðili jólatrjáa sem auglýsti þessa fjáröflun sína sem „jólatrjáasölu“. Þess ber að geta að á þessum árum var ég eindregið fylgjandi svokallaðri „preskriftífri“ málfræði.
Síðan þá hef ég mildast talsvert í afstöðu minni og finnst núorðið frekar við hæfi að tala um „viðeigandi“ og „óviðeigandi“, „eðlilega“ og „óeðlilega“ eða jafnvel „viðurkennda“ málnotkun frekar en að setja sig í það dómarasæti að kalla meðferð annarra á móðurmáli sínu „rétta“ eða „ranga“, nema maður geti fært alveg sérstaklega góð rök fyrir því. Strangt til tekið talar maður aðeins „rangt“ mál þegar maður talar þannig að maður er annað hvort misskilinn eða ekki skilinn. Því setningar og orð hafa í sjálfu sér enga aðra merkingu en þá sem samkomulag ríkir um að þau hafi.
Auðvitað segir það sig sjálft að sá sem selur jólatré selur fleiri jólatré en eitt og því er eðlilegt að rætt sé um jólatrjáasölu. Að það geri orðið „jólatrés(s)sala“ rangt er hins vegar fráleitt. Fjölmörg dæmi eru í íslensku um samsett orð þar sem fyrri hlutinn er hafður í eintölu þótt merkingarlega sé augljóst að „réttara“ væri að hafa hann í fleirtölu. Dæmi um það gæti verið orðið „rækjusalat“. Auðvitað er ekki bara ein rækja í rækjusalati, en samt kannast ég hvorki við orðin „rækjasalat“ né „ræknasalat“. Það veldur einfaldlega engum misskilingi þótt fyrri hlutinn sé hafður í eintölu. Fyrir því eru eflaust fagurfræðilegar ástæður, ætli „rækjusalat“ þyki ekki fara betur í munni en „ræknasalat“.
En vilji maður tala um „jólatré(s)sölu“, hvort á maður þá að hafa hana með einu S-i eða tveim? Að mínu mati er hér einungis um smekksatriði að ræða. Færa má rök fyrir því að eðlilegra sé að hafa tvö S, að fyrri hlutinn sé orðið „jólatré“ í eignarfalli, þ. e. „jólatrés“ enda hér um „sölu jólatrés“ að ræða. Hins vegar er eingarfallssamsetning ekki algild regla í tungumálinu og fjölmörg dæmi til um stofnsamsetningar. Þá er fyrri hluti samsetts orð ekki eignarfallsmynd heldur stofn orðsins. Sem dæmi má nefna orðin „hestbak“ (en ekki „hestsbak“) og „húsþak“ (en ekki „hússþak“). Þar sem hér er um að ræða sölu á allmörgum jólatrjám en ekki einu jólatré má jafnvel færa gild rök fyrir því að hér sé stofnsamsetning betur við hæfi en eignarfalls, að „jólatré“ sé þá eins konar magnorð, líkt og þegar talað er um „fiskbúð“ (en hvorki „fisksbúð“, „fiskjarbúð“ né „fiskabúð“).
Það hvort fólk talar um jólatrjáasölu, jólatréssölu eða jólatrésölu lýsir því að mínu mati einungis íslenskusmekk þess – ekki íslenskukunnáttu. Sjálfur tel ég ennfremur aðrar og hættulegri ógnir steðja að móðurmálinu en þá hvert þessara þriggja orða fólk notar um þá göfugu iðju að selja fólki jólatré og að við, verndarar tungunnar, ættum frekar að beina sjónum okkar að þeim.

15 ummæli:

Kristín sagði...

Ég mæli með því að þú haldir áfram að kaupa jólatréð þitt af Flugbjörgunarsveitinni.

Unknown sagði...

Bravó Davíð, brilljant pistill. Hann vekur þó upp eina spurningu í mínum huga. Er það eingöngu málvenja, jafnvel máluppeldi, einstaklings sem greinir á milli notkun á eignarfallssamsetningu eða stofnsamsetningu? Og þá er ég að tala um þennan "venjulega" Jón sem hvorki er sérstaklega málviltur né menntaður í móðurmálinu. Sem dæmi greini ég á milli fiskbúðar og fiskabúðar. Ég fer í fiskbúð til að kaupa mér í soðið en ég fer í fiskabúðina til að kaupa mér nýjan Gubba-fisk í fiskabúrið mitt.

Hildigunnur sagði...

það er rækjusalat í Staðarskála.

og ég held áfram að kaupa trén mín hjá Flubbunum, þegar ég fæ þau ekki send að austan, þeas. Reyndar sá ég jólatrjáasöluskilti í Hafnarfirði áðan líka.

Nafnlaus sagði...

Hvað segirðu þá um athyglivert og athyglisvert?

Davíð Þór sagði...

Athygli tekur ekki s í eignarfalli, svo hér er ekki um eignarfallssamsetningu að ræða, heldur er s hér tengihljóð, eins og í orðinu Landhelgisgæslan (en "landhelgi" tekur ekki heldur s í eignarfalli). Þeir sem segja athyglivert verða að segja "Landhelgigæslan" ætli þeir að vera sjálfum sér samkvæmir.

Nafnlaus sagði...

Ég hef alltaf skilið það þannig að hlutir geti verið bæði athyglisverðir og athygli verðir.

Hvað með orðið jólatrjásala?

Nafnlaus sagði...

Davíð, það gengur ekki að þú sért orðinn slíkur reiðareksmaður í málfræðinni - heimur versnandi fer. Auðvitað er eingöngu til eitt algilt og gullfallegt mál - eða sérðu Egil Skallagrímsson velkjast í vafa um eignarfalls S?

Nei allt sem ekki lítur réttum beygingarreglum skal fordæmt. Þess vegna skal enginn fara til Akraneskaupstaðar, þegar hinn eini sanni AkranesSkaupstaður er hér handan við flóann.

Livi íslensgan!

Nafnlaus sagði...

Og þeir sem ætla að benda á að eitthvað lúti einhverju og því eigi að vera ý í lýtur eru að grafa undan íslenskri máleiningu og um leið þjóðareiningu.

Nafnlaus sagði...

Þessu tengt. Landspítalinn og Ægisíða. Þarna vantar meira ess..., eða hvað?

Nafnlaus sagði...

Ég held að hér sé fullt af fólki með keppniSskap ;)

kv.
Elías

Nafnlaus sagði...

Já mjög góður pistill. Fyrst fólk er byrjað að spyrja: hvað með vaktkerfi vs. vaktakerfi? Er þetta ekki kerfi yfir margar vaktir en ekki eina vakt? Og túnfisksalat - túnfiskSsalat - af hverju ekki túnfiskasalat?

Gott þetta með fremdarástandið!

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skemmtunina. Vefurinn þinn er gimsteinn í bloggsorpinu. Hér er reyndar eitt blogg sem þú gætir haft gaman af: Tökuorðatortímandinn: http://loanwordterminator.blogspot.com/. Gleymum sjómannaafslættinum, hann ætti að vera handa þeim sem hafa sérviskuleg áhugamál og kunna að tala um þau.

Hildigunnur sagði...

ég set aldrei marga túnfiska í mitt salat :-D

Nafnlaus sagði...

Ég ætla að hafa ræknasalat og lambslæri í matinn á jólunum.

Og meira tengt fremdarástandi þá er sjaldan talað um þekk börn eða að vera framarlega á merinni með eitthvað...

Nafnlaus sagði...

Davíð, af nákvæmlega sömu ástæðu og við tölum um sölu en ekki sölur þá tölum við um rækju en ekki rækjur. Það er rótin sem við breytum í fleirtölu, ekki hlutum sem er skeytt fyrir framan eða aftan rótina.