miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Sýrður rjómi, súpukjöt, strætóskýli og málkennd mín

Ég tók strætó í vinnuna í morgun. Það varð mér tilefni til þessara vangaveltna. Það er nefnilega orðið kalt.
Upp á síðkastið hef ég séð sýrðan rjóma auglýstan í sjónvarpinu. Ég efast ekki um að þetta sé ágætur sýrður rjómi, ég veit það ekki ég hef ekki smakkað hann. En hann er víst sérlega fitulítill og sá fituminnsti er 4%. Þetta finnst mér merkilegt. Á súrmjólkurfernum (sem ég les á hverjum morgni) stendur nefnilega að í hverjum hundrað grömmum af súrmjólk séu 3,9 grömm af fitu. Spurningin er því: Hvenær verður mjólk að rjóma? Ef súrmjólkin mín væri 0,1 prósenti feitari væri hún þá orðin rjómi? Samkvæmt minni málkennd er mjólkurafurð sem er 4% fita því ekki fitulítill rjómi heldur feit mjólk. Ég er auðvitað enginn mjólkurfræðingur, en sem neytanda finnst mér einhver ólykt af þessu. Það sem hlutirnir eru kallaðir verður að vera í einhverju samræmi við það hvernig þeir eru í raun, ekki hvað er best að kalla þá til að ég í fáfræði minni kaupi þá.
Sama gildir um súpukjöt. Mér finnst að til þess að leyfilegt megi vera að selja vöru sem kjöt verði að vera eitthvað lágmarksmagn af kjöti í henni. Væri súpukjöt selt sem „súpufita, -sinar og –bein“ myndi ég ekki gera neina athugasemd við það. Ég er auðvitað enginn kjötiðnaðarmaður, en sem neytanda finnst mér eitthvað athugavert við þetta.
Og þá er komið að strætóskýlinu. Ég er enginn verkfræðingur, en ég veit að orðið „skýli“ er skrifað með ufsiloni af því að það er skylt orðinu „skjól“. Þannig finnst mér strætóskýli svolítið eins og súpukjöt, það er álíka mikið skjól í strætóskýli og það er kjöt í súpukjöti. Til að hægt sé að selja og markaðssetja mannvirki sem skýli finnst mér að það verði að vera hægt að sýna fram á að eitthvað mælanlegt skjól sé af því.
Eða er ég bara að misskilja? Er málkennd mín á villigötum? Er „skýli“ í raun bara einhvers konar annars flokks eða afmyndað skjól, samanber „maður/menni“, „kona/kvendi“, „þvottur/þvætti“? Skjól/skýli? Hvað skyldi Mörður segja?

21 comments:

Hjörtur Howser sagði...

Er vett-lingur minni en vöttur?
Svona eins og jepp-lingur er minni en jeppi. Rifrildi minna en rifa? Miðað við mína reynslu þá er skýli mun minna en skjól, allavega í strætólandi.

Nafnlaus sagði...

Merkilegt nokk þá hreyfir þetta innlegg þitt við máli sem ég hef lengi átt við. Ég er nefnilega sannfærður um að eitt af höfuð vandamálum ízlenska strætisvagna kerfisins séu þessi téðu skýli - sem ekkert skjól veita.

Það er nefnilega hverjum þeim kunnugt, sem einhvern tíma hefur þurft að eiga við ízlensku guluna í lengri tíma, að einhver versta leið til þess að sóa tíma - án einhvers konar nauðar - er að standa inn í þessum strætóskýlum. Sérstaklega frá hausti og fram á vor. Sem á þá sérstaklega illa við þá sem standa í skýlum vegna skólaferða.

Og ungt fólk gleymir seint þeim ósæla tíma sem var eytt í næðingi, snjókomu, ísregni og leiðindum innan þessara óskýla.

Þess vegna dettur mér - og fleirum - ekki í hug að endurtaka það, með nokkrum hætti, að nota þetta kerfi. Frekar eyði ég peningum í bíla. Eins vitlaust og það er, í rauninni. En það er annað mál. Ég er bara ekki tilbúinn til þess að eiga við þessi svokölluðu "skýli". Þau eru vonlaus staður að vera á. Litlar gættir að víti.

Nafnlaus sagði...

"Rétt heiti" á landbúnaðarafurðum voru nú örlagavaldur í hinum frábæru þáttum Já, ráðherra!

Þar barðist Jim Hacker við fulltrúa Evrópubandalagsins sem vildu banna Bretum að kalla pylsurnar sínar pylsur. Þess í stað lögðu þeir til nafnið: "The Emulsified High-Fat Offal Tube"

Nafnlaus sagði...

Það má kalla mjólkurvörur rjóma allta að 10% fituinnihaldi eftir það verður að kalla hanna annað. MS kallar sinn 5% feita Sýrðan léttan en Mjólku leyfist að kalla hann Sýrða rjóma 5% sem er ólöglegt.

Nafnlaus sagði...

Mmmm.... spiiiikfeitt súpukjöt, soðið til helvítis í stórum potti, með salti, lúku af hrísgrjónum og svo rófum og gulrótum.

(Hérna á að koma hljóðið sem Hómer Simpson framkallar þegar hann hugsar um mat)

Kristín sagði...

Ég hef nú aðallega undrast strætóbiðstöðvarnar hér á hjara veraldar, í 113. Hér er ekkert verið að plata fólk, bara nettur staur með merki SVR á látinn duga. M.a.s. niðri á Vesturlandsveginum stendur fólk og bíður eftir vagninum á umferðareyju í miðjum umferðarþunganum og ekkert skýli.
En kannski breytir það engu ef skýlin niðri í bæ eru til einskis.

Nafnlaus sagði...

Hvergi annarsstaðar en á Spáni hef ég séð önnur eins strætóskýli. Ekki er nú veðrið eins hér og á Spáni, og ég furða mig á því að gömlu skýlunum sem þó héldu vindi, hafi verið skipt út fyrir þennan hrylling.

Nafnlaus sagði...

Ef maður ætlar að skrifa með zetu er nú lágmark að kunna það.

Nafnlaus sagði...

Ingibjörg Sólrún lét kaupa nýju og fínu skýlin af vini sínum (án útboðs offkorrs) af því að enginn annar vildi það

Nafnlaus sagði...

Það er gaman af orðum. Hvað er söluturn?

Nafnlaus sagði...

Þessi skýlaskrifli má sjá í danaveldi og henta eflaust ágætlega þeirra veðurfari, en heðu aldrei átt að koma til greina hérna á skerinu.

Nafnlaus sagði...

Ég er nú enginn orðasérfræðingur, en á þetta ekki heima í sama kafla og misskilningurinn á orðinu loforð. Ég lærði að maður ætti að standa við það sem maður lofar. Loforð sem ég heyri mikið talað um en sé sjaldnast efnd eru kosningaloforð!
Laulau

Nafnlaus sagði...

Algerlega off-topic í þessum þræði, en algerlega nauðsynlegt fyrir alla sem á einhvern hátt standa í rökræðum, skoðanaskiptum eða bara tjáskiptum yfirleitt á internetinu að hafa í huga:

http://www.wired.com/news/technology/0,70179-0.html
http://www.apa.org/monitor/feb06/egos.html

Það vita þetta nú sennilega flestir, svona inní sér, en það er ástæða fyrir því að umræður á netinu fara upp til hópa úr böndunum og enda í skítkasti.

Karna Sigurðardóttir sagði...

Í einni færslu tókst þér að viðurkenna að þú ert ekki mjólkurfræðingur, ekki kjötiðnaðarmaður og ekki verkfræðingur. Hvurslags opinberunaræði hefur heltekið þig gæskur?

K

Nafnlaus sagði...

Fyrst léttur sýrður er ekki rjómi, heldur samkvæmt fituinnihaldi mjólk... Er þetta þá semsagt súr mjólk? Súrmjólk í föstu formi?

Nafnlaus sagði...

Fyrir einhverjum árum komu þessi nýju strætóskýli og voru gjöf frá Dönum, minnir mig. Enn ein sönnun þess að þeir hata okkur. Þau borga sig sjálf upp (eða þannig) af því að hægt er að selja auglýsingar á þau. Ég man eftir einhverju nöldri um þetta. Mér er yfirleitt of kalt inni í þessum skýlum til að geta lesið auglýsingar (augun frosin) þannig að það hafa ekki verið vanir strætófarþegar sem föttuðu upp á þessum skýlum sem engu skýla!!! Beiskj - beiskj

Nafnlaus sagði...

Ég hef svosem ekkert til málanna að leggja í þessari umræðu annað en að mér finnst þetta skemmtilegar pælingar.

Ég vil hins vegar hrósa þér fyrir textana á "Lög til að skjóta sig við". Þetta eru meistarastykki svo ekki sé meira sagt, dálítið erfitt að lesa suma þeirra reyndar þarsem ég kannast of mikið við margt af þessu frá þessu ári....

Fyrir mér ertu Kóngurinn !!! :)

Jimy Maack sagði...

Mér þykir einatt verra þegar fólk talar um 'útsýni' í þeirri merkingu að sjón þeirra út um glugga eða af einhverri hæð sé 'sýni'. Þetta er hræðileg málvilla og það fer sérstaklega í taugar mínar að ferðaskrifstofur auglýsa líka hótelherbegi með 'garðsýni' (sem er bakki af mold, grjóti, tvö lauflöð af pálmatrjám og klórblandað vatnsglas).

Eins má sjá þessa villu ef við tækjum samskonar orð 'lífssýn'. Þætti mér frekar ógeðfellt ef að fólk segði mér að ég hefði svo gott lífssýni.

Nafnlaus sagði...

Ég lenti einu sinni í því að bíða í strætóskýli sem skýldi mér frá strætó. Strætóbílstjórinn sá mig ekki (þar sem ég húkti niður í horni að reyna að halda mér á lífi í kuldanum) og keyrði bara framhjá :(

Nafnlaus sagði...

Aðeins varðandi "sýrða rjóman" Það er lítið mál að smíða svona rjóma heimavið, þú tekur kaffipoka (filter) setur í sigti og hellir svo súrmjólk í og lætur stana yfir vaskinum. Og viti menn eftir svona eins og tvo til þrjá tíma ertu kominn með 3,9% sýrðan "rjóma"

Bara svona til gamans!!

Nafnlaus sagði...

Ef ég man rétt þá var það eitthvert danskt fyrirtæki sem tók að sér að setja upp þessi skýli á höfuðborgarsvæðinu, borginni að kostnaðarlausu. En í staðinn fengu þeir samt söluréttinn að auglýsingum í þau í einhvern X langan tíma svo hæpið er að tala um gjöf í þessu máli.
Svenso