sunnudagur, nóvember 12, 2006

Skoðanir mánaðarins

Um daginn hitti ég mann niðri í bæ sem ég hef alltaf borið talsverða virðingu fyrir þótt ég hafi oft staðið mig að því að vera ósammála honum. Talið barst að orðasennunni um trúmál sem ég tók þátt í fyrir rúmum mánuði og hann tjáði mér að einhvern tímann hefði honum orðið það á að bera blak af biskupi, að verja einhver umdeild ummæli hans. Maður þessi sagði mér að afleiðingar þess væru þær að ef hann gúglar nafnið sitt í dag þá er helmingur þess sem upp kemur árásir á hann því tengdar.
Þetta varð til þess að ég kannaði sjálfan mig á sama hátt og varð pínulítið niðurdreginn og upptekinn af existensíalískum efasemdum um sjálfan mig í kjölfarið. Ég komst nefnilega að því að það skiptir engu máli hvaða skoðun maður hefur, það eina sem maður getur gefið sér er að einhver verður ósammála. Hvort sem maður er með eða á móti sjálfhjálparbók, költi, tímariti, nethrottaskap eða einhverju allt, allt öðru þá er það eina sem er gefið að einhvers staðar fær maður einhvern upp á móti sér. Ég fann fólk sem er sjaldan, stundum, oft, yfirleitt og alltaf ósammála mér. Eina manneskjan sem ég fann ekki er sú sem er alltaf sammála mér.
Maður tilheyrir hópi. Svo tjáir maður skoðun og það fækkar í hópnum sem maður tilheyrir. Maður tjáir aðra skoðun og enn fækkar. Ég hef orðið uppvís að svo mörgum skoðunum að ég er fyrir löngu orðinn aleinn úti á berangri og hef því engu að tapa lengur með því að hafa skoðanir. Því ætti ég þá ekki að tjá þær fyrst þær skipta engu máli?
Hér koma því skoðanir mínar á dægur- og hitamálum síðastliðins mánaðar allar á einu bretti:

1. Stóra Hjartar Howser-málið

Ég hlusta lítið á útvarp og hefði ekki komist að því að Hjörtur Howser væri með útvarpsþátt næstum því svona fljótt ef hann hefði ekki verið rekinn. Ég hefði aldrei heyrt þessara ummæla Hjartar getið ef hann hefði ekki verið rekinn fyrir þau. Brottrekstur Hjartar er því að mínu mati annað hvort lævíst plott af hálfu doktors Sigrúnar Stefánsdóttur til að allir fái að heyra það sem hann sagði eða það heimskulegasta sem hægt var að gera í stöðunni. Þar sem ég veit ekki til þess að doktor Sigrún hafi einhverja sérstaka ástæðu til að vera í nöp við Gus Gus og vilja að allir heyri hvernig Hjörtur dissaði þá í útvarpinu hallast ég að því síðarnefnda.
Síðan er það spurning A af hverju doktor Sigrún er í þesari stöðu og B af hverju hún er norður á Akureyri. Ég er þakklátur fyrir að hún var ekki orðin dagskrárlögga ríkisins þegar ég var dagskrárgerðarmaður á RÚV, ég hefði ekki orðið langlífur í starfi. Hins vegar efast ég um að atvinnulífið í Eyjafirði sé svo illa statt að þetta hálfa stöðugildi doktors Sigrúnar reddi því. Ég veit ekki til þess að hafi gefist vel í neinu tilfelli að hafa verkstjórann í öðrum landshluta en restina af staffinu. Er það rétt skilið hjá mér að ef kona með doktorspróf sæki um starf hjá hinu opinbera sé það brot á landslögum að ráða hann ekki, óháð karakter hennar?

2. Stóra hvalveiðimálið

Við höfum rétt til að veiða hval. Það þýðir hins vegar ekki að rétt sé að veiða hval. Einu rökin gegn hvalveiðum eru hin fjölþjólega andstaða gegn þeim. Því miður eru þau bara veigameiri en öll rökin með þeim. Þetta er ekki lengur spurning um rétt og rangt heldur gáfulegt og heimskulegt. Í þessu tilviki tel ég heimskulegt að stjórnast af stolti og því sem maður hefur rétt á að gera og gáfulegt að vægja þótt maður viti betur en sefasjúki múgurinn. Testósterón er hormón, ekki stjórnmálaskoðun.
Hins vegar er ég ekki frá því að hugsanlega hafi verið gott að hefja hvalveiðar, þótt ekki sé nema til þess að fá það á hreint í eitt skipti fyrir öll að ekki sé fjárhagslegur grundvöllur fyrir þeim. Því þegar upp er staðið er þetta bara spurning um það hvort Kristján Loftsson fer hlæjandi eða grátandi í bankann. Ég neita að trúa að það eigi að fara að niðurgreiða hvalveiðar til að halda þeim gangandi.
Ég skil sjómenn vel að vilja fá að veiða. Ég legg til að þeir veiði frekar þá sem tóku af þeim réttinn til að veiða og gáfu Samherjabræðrum hann.

3. Stóra pissumálið

Ég er listnemum óendanlega þakklátur fyrir að pissa hver á annan. Ef þeir hefðu ekki gert það hefðum við aldrei fengið að sjá hina ódauðlegu sjónvarpsfrétt um persónulegar og listrænar forsendur þess að pissa á annað fólk. Þannig tel ég afleiðingar gjörningsins mun meira og merkilegra listaverk en gjörninginn sjálfan, sem ég hlýt að skilja sem einhvern symbólisma fyrir það hvernig migið er á konur (í óeiginlegri merkingu) í þjóðfélaginu.
Sorglegastur þótti mér femínistinn sem leit á þetta sem dæmi um klámvæðinguna. Jújú, eins manns þvaglát er annars manns klám og allt það, en markmið kláms hlýtur að vera kynörvun. Að það sé það fyrsta sem manni dettur í hug í þessu samhengi er bara dapurlegt.

4. Stóra Russel Crowe-málið

Æ, var ekki hægt að geyma þennan brandara fyrir árshátíð auglýsingastofunnar? Hins vegar vaknar spurningin um það hvor sé siðblindari:
A: Sá sem er dæmdur í fangelsi fyrir mútuþægni og þjófnað og neitar að skammast sín, iðrast og biðjast afsökunar heldur kýs að líta á sig sem fórnarlamb.
B: Pólitískir stuðningsmenn A.
Stjórnmálaflokkur þar sem B eru nógu margir til að koma A í annað sætið á framboðslista er síðan kapítuli út af fyrir sig.
Orðabelgurinn er opinn fyrir vangaveltum.

5. Stóra útlendingahatursmálið

Mér finnst við, þetta frjálslynda og umburðarlynda fólk, hafa verið einum snögg að æpa "rasismi, útlendingahatur" í þessari umræðu og skellt skollaeyrum við kjarna málsins. Jú, vissulega hafa allir rasistar landsins hoppað á vagninn og fimmfaldað fylgi hins ógeðfellda málshefjenda. En horfum á staðreyndir málsins og áhyggjurnar sem verið er að tjá frekar en pakkið sem vill kynda undir áhyggjunum og magna þær úr hófi.
Asnar hrína. Það er í eðli þeirra og ekki hægt að gera neitt til að koma í veg fyrir það. Við megum hins vegar ekki láta hrínið stjórna umræðunni, ráða viðbrögðum okkar. Þá höfum við leyft ösnunum að gera okkur að leiksoppum sínum.
Þar sem er hjartarúm er húsrúm. Hingað eiga allir að vera velkomnir sem reiðubúnir eru að undirgangast þær reglur sem hér gilda. Við erum aðilar að alþjóðlegum sáttmálum og verðum að axla þær skuldbindingar sem þeir leggja okkur á herðar. Og við verðum að reyna að gera það án þess að til árekstra komi.
Það þarf ekki að vera rasismi og útlendingahatur að finnast óeðlilegt að geta ekki talað móðurmál sitt þegar maður fer út í bakarí að kaupa sér brauð eða að finnast verra að þeir sem annast aldraða ömmu manns á elliheimilinu skilji hana ekki. Það þarf ekki endilega að vera rasismi að finnast uggvænlegt að um eða yfir helmingur nemenda í bekk í grunnskóla eigi sér annað móðurmál en íslensku. Maður hefur á tilfinningunni að það þýði að nýbúar séu ekki dreifðir jafnt um byggðir landsins heldur sé byggð þeirra samþjöppuð á fáum stöðum. Að vísu á þetta ekki að þurfa að vera vandamál ef rétt er brugðist við, en er þá ekki ósköp eðlilegt að spurt sé: "Hvernig er brugðist við?" og að þeirri spurningu sé svarað öðruvísi en með upphrópunum um rasisma og útlendingahatur?
Við stöndum frammi fyrir drastískum breytingum á þjóðfélaginu og breytingar vekja alltaf ugg, hvort sem þær eru til góðs eða hins verra. Ávörpum ugginn í stað þess að fordæma hann og hrekja hann í felur.
Og gleymum því aldrei að vandamálið er ekki útlendingarnir. Þeir eru upp til hópa harðduglegt fólk sem óskar aðeins eftir því að fá að virka í þjóðfélaginu.
Vandamálið er þjóðfélag sem gerir kröfu um að nýbúar læri málið, en refsar þeim samt fjárhagslega fyrir að leggja slíkt nám á sig.
Vandamálið er þjóðfélag þar sem er svo mikil þensla að þjóðin kemst ekki yfir allt sem þarf að vinna þannig að flytja þarf inn mannskap ... en bara í lægst launuðu djobbinn.
Vandamálið er þjóðfélag þar sem lægst launuðu djobbin eru umönnunar- og þjónustustörf.
Vandamálið er verkalýðshreyfing sem er of vanmáttug til að gera neitt í því að útlendingar séu fluttir inn í stórum stíl til að vinna skítverk fyrir miklu minna en lágmarkslaun.
Vandamálið er fólk sem er ekki fært um að taka ábyrgð á sínu eigin lífi heldur finnst þægilega að kenna "hinum" um allt sem miður fer og stjórnmálamenn sem eru reiðubúnir til að taka undir þau sjónarmið í skiptum fyrir atkvæði.
Verum vinir. Búum ekki til vandamál. Leysum þau.

19 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rasisti! Gus Gus hatari! Kvenhatari! Klámkall! Asni!

Hvernig vogarðu þér að hafa skoðanir?!

Nafnlaus sagði...

ég verð víst að hryggja þig á því að þú ert ekki ennþá orðinn einn.. ég er alveg hjartanlega sammála öllum þessum skoðunum þínum.

hronnsa sagði...

sammala vaelunni. og hjartanlega sammala ther. takk fyrir mig.

Nafnlaus sagði...

„Testósterón er hormón, ekki stjórnmálaskoðun.“ Stórkostlegt.

Þorbjörn sagði...

Sæll. Sammála þér að öllu öðru leyti en því að það er ekki hægt að líta framhjá fyrirsögn greinar Jóns Magnússonar, Ísland fyrir íslendinga?, og ýmissa þeirra sjónarhorna sem fram koma í henni.
Það er ekki nema von að fyrstu orðin sem komust upp í hugann voru rasisti og þjóðernissinni.

Nafnlaus sagði...

Ummæli hans um múslima voru líka mjög ámælisverð, ég get ekki annað sagt.

Nafnlaus sagði...

"Það þarf ekki endilega að vera rasismi að finnast uggvænlegt að um eða yfir helmingur nemenda í bekk í grunnskóla eigi sér annað móðurmál en íslensku. Maður hefur á tilfinningunni að það þýði að nýbúar séu ekki dreifðir jafnt um byggðir landsins heldur sé byggð þeirra samþjöppuð á fáum stöðum."

hvaða áhyggjur ættir þú að hafa af því að yfir helmingur nemenda hafi annað móðurmál? er einhver skaði í því?

Unknown sagði...

Sammála mörgu af þessu, en þó verð ég að setja spurningarmerki við það hvernig frjálslyndir hófu innflytjendaumræðuna og hvernig þeir hafa haldið henni áfram.

Jón Magnússon er ekki sá eini þeirra sem kom með neikvæð ummæli um múslima, heldur tók formaður flokksins undir þau í sjónvarpsþætti.

Það skiptir máli HVERNIG umræðan er og því miður hefur útspil frjálslyndra orðið til þess að gefa útlendingahatri byr undir báða vængi.

Nafnlaus sagði...

jæja er ekki kominn tími á mokkakaffi?

Hjörtur Howser sagði...

Eins og svo oft áður sérð þú kjarna málanna en ekki bara hismið.
Ég er grunsamlega oft sammála þér og þegar ég er það ekki má ég til að hlusta á þín rök.
Kv.
HH..

Davíð Þór sagði...

Ég held að ég kalli fólk nú ekki asna fyrir það eitt að vera ósammála mér, enda ber ég mikla virðingu fyrir mörgum sem ég er ósammála um margt. En þegar fólk er ekki bara ósammála manni heldur snýr út úr fyrir manni, gerir manni upp skoðanir og svarar út í hött getur manni nú sárnað ... og gripið til þess ráðs að kalla viðkomandi asna - sem maður á auðvitað ekki að gera þótt stundum ráði maður ekki við sig. Og fólk sem tjáir sig á netinu um að "Údlendingar eygi að læra ísslensku eða þeir verðy sentir heim með firstu vél" (svo vitnað sé í Hnakkus) er auðvitað bara asnar.

Davíð Þór sagði...

Og hvað varðar þetta með að helmingur nemenda í bekk hafi annað móðurmál, þá er það nú bara spurning um íslenskukennslu. Það hlýtur að vera erfitt að kenna hópi sem er með mjög misgóða undirstöðu í faginu - og gæti bitnað á þeim sem eru með betri undirstöðu. Annars er ég ekkert átortítet um móðurmálskennslu í grunnskólum, hvað þá hjá börnum af erlendum uppruna. Þetta var bara vangavelta.

Nafnlaus sagði...

"En þegar fólk er ekki bara ósammála manni heldur snýr út úr fyrir manni, gerir manni upp skoðanir og svarar út í hött getur manni nú sárnað"

Mikið óskaplega er ég sammála, það er afskaplega leiðinlegt að lenda í þessu.

Nafnlaus sagði...

Ég held að sá hópur þar sem allir séu sammála um allt sé einfaldlega ekki til. Þetta snýst um að vera trúr í sínum skoðunum. Ég hef t.d. verið í stjórnmálavafstri síðan ég var 14 ára gamall en ég hef engan hitt sem hefur verið mér sammála um allt. Í þeim efnum finnur maður þann vettvang sem rímar best við eigin skoðanir.

Var það ekki Groucho Marx sem sagði: Ég gæti ekki hugsað mér að vera meðlimur í klúbbi sem mundi samþykkja mig sem félaga.

Á sama hátt gæti ég ekki hugsað mér að vera í kompaníi þar sem allir deildu öllum skoðunum mínum.

Nafnlaus sagði...

Halló. Nýr lesandi hér! Takk fyrir mig, mikið gaman að "lesa þig" þó ég vilji ekki lesa á milli orða þinna eins og margur!
Mikið er ég sammála þér í ofantöldu (þó hægt væri örugglega að rökræða smáatriðin :-)
Sérstaklega kann ég við þessa:
"Verum vinir. Búum ekki til vandamál. Leysum þau."
Laulau

Jimy Maack sagði...

Ég er reyndar alveg hjartanlega sammála því að fólk sem er búsett á Íslandi skuli læra Íslenskuna til hlýtar. Aftur á móti tel ég einnig að það skuli varast að vera með útlendingahatur og kynþáttafordóma þegar talað er um íslenskukunnáttu, því Íslendingar eru ekki alltaf barnanna bestir þegar kemur að málakunnáttu.
Mér þykir vænt um tungumálið okkar og það er miður að vart meira en 10% ungs fólks á Íslandi í dag er mælandi á íslenska tungu án þess að troða inn einhverjum bévuðum málvillum, setningarfræðilegum stórslysum eður hálfvitalegum yfirlýsingum sem ekki meika sens sbr. 'Það er svo fallegt að keyra í Hvalfirðinum'. Síðast þegar ég gáði var jú fallegt í Hvalfirði, en það var aldrei fallegt að keyra neinstaðar!
Þegar Íslendingar tala um að 'senda einhvern heim' ef hann talar ekki nógu gott mál get ég tekið undir það, en þá má ekki gera upp á milli fólks á grundvelli þjóðernis.
Sértu Íslendingur og talir lélega Íslensku, skaltu sendur 'heim'.

Ég legg til að allir lesblindir kynþáttahatarar á Íslandi verði sendir aftur til Noregs.

Alda sagði...

Við erum greinilega saman í hóp því ég er hjartanlega sammála þessu öllu. Og allt í sambandi við nr. 4 (þeas, fyrir utan auglýsingastofubrandarann) er svo skammarlegt að ég á varla til orð.

Nafnlaus sagði...

Halló og takk fyrir gott blogg.

Í sambandi við innflytjendaumræðuna langar mig að benda ykkur á ansi fróðlegan pistil á síðunni www.yr.is undir heitinu "Ísland í dag, í alvöru?"

Mbk.

Alda Berglind sagði...

Var rétt í þessu að uppgötva þetta blogg þitt. Mjög skemmtileg lesning en er kannski full sein að komast inn í umræðuna hér. Ég hef ekkert heyrt af Howser málinu né pissumálinu (enda ekki búsett á Íslandi núna) en verð að vera hjartanlega sammála þér í öllu hinu... - eins og reyndar í nær öll þau skipti sem ég les eitthvað eftir þig.

Takk fyrir mig.