þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Að kippa lýðræðinu úr sambandi

Íslenskan er yndislega gegnsætt mál. Við búum í lýðveldi af því að lýðurinn hefur völdin. Hér er lýðræði af því að lýðurinn ræður. Að vísu hefur lýðurinn svo margt annað að gera að hann hefur komið sér upp fulltrúalýðræði þar sem lýðurinn velur fulltrúa til að ráða fyrir sig. Þetta væri hreint fyrirtak ef fyrirkomulagið á því hvernig lýðurinn velur fulltrúana væri ekki svona ólýðræðislegt.
Margir flokkanna hafa nefnilega komið sér upp prófkjörum. Þar raðar lítið brot af væntanlegum kjósendum flokksins upp listanum sem boðinn verður fram. Þannig getur tiltölulega fámennur hópur með samanteknum ráðum komið fullkomlega óhæfum frambjóðanda, jafnvel forhertum glæpamanni, í eitt efstu sætanna þvert á vilja alls meirihluta kjósenda.
Fjölmiðlar taka síðan þátt í því að kippa lýðræðinu úr sambandi á þennan hátt með því að hamra stögugt á því að þessi eða hinn sé í „öruggu“ sæti. Í lýðræði sem stendur undir nafni, en er ekki skrípamynd af hugtakinu, á enginn að vera „öruggur“ um eitt einasta atkvæði fyrr en það hefur verið greitt honum. Ef þjófóttur mútuþegi kemst á þing má það ekki vera af því að nokkrir siðblindingjar sem meta dugnað meira en heiðarleika komu honum í „öruggt“ sæti í prófkjöri. Það á að vera af því að kjósendur í flokksins í kjördæminu völdu hann sem fulltrúa sinn.
Prófkjör hafa einfaldlega gengið sér gjörsamlega til húðar. Það vekur manni beinlínis ugg að vongóð þingmannsefni skuli jafnvel kosta jafnmiklu til að komast á þing og þau geta vænst að fá í kaup á kjörtímabilinu. Annað hvort er það alveg himinhrópandi augljóslega vondur bisnes eða eitthvað er í gangi sem maður veit ekki um en ætti að vera á allra vitorði í lýðræðisþjóðfélagi.
Það er löngu orðið tímabært að leggja prófkjör og forvöl niður og sameina þau kosningum. Það er ekki mikið mál og auðvelt í framkvæmd að kjósendur númeri, segjum tíu manns frá einum og upp í tíu, um leið og þeir kjósa flokkinn sem þeir bjóða sig fram fyrir. Þannig ráða þeir sem sannarlega kjósa hvern flokk hverjir fulltrúar hans eru en ekki fáeinir einstaklingar sem stjórnast kunna af annarlegum forsendum.
Vonandi verður eitthvað í þessum kosningum og aðdraganda þeirra til þess að lýðræðinu verði stungið í samband aftur.
Bakþankar í Fréttablaðinu 26. nóvember 2006

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Komdu sæll Davíð og takk fyrir skemmtilega síðu/pistla. Þetta með hann Árna (ég gef mér það að þú sért að ræða um hann). Nú er það þannig að einhverjir fáeinir einstaklingar sem stjórnast kunna af annarlegum forsendum fengu Árna vissulega að bjóða sig fram í prófkjörið. En hins vegar ef það nú bara svo að Árni fékk, öllum að óvörum, mjög góða kosningu í einu af stærstu prófkjörum Sjálfstæðisflokksins! Og þar réðu ekki fáeinir einstaklingar úrslitum, ekki nema að þú teljir að sjálfsstæðismenn séu fáeinir í Suðurkjördæmi!

Ég er nú alveg sammála þér í því að prófkjörið er líklega ekki hentugasta leiðin til að velja úr hópi fólks fyrir kosningar. Ég segi, líklega ekki, vegna þess að ég get ekki bent á aðra leið sem ég tel henta betur. Mér finnst til dæmis ekki að hentugt sé að fáeinir einstaklingar (þá meina ég fáeinir í orðsins fyllstu merkingu) ákveði það hverjir eiga að fá "leyfi" til að bjóða sig fram, af einhverjum og kannski annarlegum ástæðum, en ekki vegna þess að flokksmenn fái að ráða því (svo langt sem það nær í núverandi prófkjörs fyrirkomulagi).

Annars finnst mér það merkilegt að fylgjast með því hvernig fordómar birtast okkur í dag. Stór hópur fólks í samfélaginu óð sem vitlaus væri upp um alla veggi og súlur (nota ég þetta rétt?) þegar umræða um óheftan innflutning á vinnuafli til landsins náði hámarki fyrir nokkru. Menn og konur máttu ekki ræða þessi mál án þess að vera stimpluð rasistar og vera með einhverja öfga þjóðernishyggju, það má ekki ræða um útlendinga á Íslandi því þá varstu með fordóma. Allir eiga að vera umburðalyndir gagnvart öllum og sýna afgreiðslufólki í Bónus virðingu. Svo þegar kemur að því að gefa mönnum annað tækifæri eftir að hafa misstígið sig á lífsleiðinni þá er annað hljóð í kútnum. Þeir geta sko gerst einbúar á einhverju skeri suður af landinu, því þeir eru ekki nógu fínir fyrir menningarlífið í borg óttans á meginlandinu! Maðurinn er búinn að afplána sinn dóm og búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum lagalega séð. Ég ætla að gefa honum séns, ég reyndar kýs hann ekki út af því að hann er ekki í mínu kjördæmi. Vissulega er það hans að sanna sig og að hann hafi tekið sig á og þangað til að hann hefur gert það er eðlilegt að fylgst sé með honum, almenningur og aðrir stjórnmálamenn. En hann á að eiga þann möguleika að sýna að hann sé traustsins verður.

Davíð Þór sagði...

Ég er eindreginn talsmaður þess að fólki fái annað tækifæri. En ég er líka eindreginn talsmaður þess að geri sér grein fyrir því að það fær ekki annað tækifæri af því að það á það skilið heldur þrátt fyrir að það eigi það ekki skilið. (Hér mætti jafnvel nota hugtakið 'náð' ef umræðuefnið væri ekki pólitík.) Nauðgari sem hefur tekið út dóm sinn og lýsir því yfir þegar hann er orðinn frjáls að "beljan hafi átt þetta skilið" er að mínu mati ekki búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum, óháð því hvað laganna bókstafur hefur um málið að segja. Ekki heldur þjófur sem enn er þeirrar skoðunar að hann hafi bara valið óheppilega leið til að "leiðrétta kjör sín".

Nú vantar mig tölfræðilegar upplýsingar (þær liggja ábyggilega fyrir en breyta engu um meginatriðið), en gaman væri að vita þetta þrennt:
A. Hve margir kusu Árna í prófkjörinu?
B. Hve margir þeirra sem kusu í prófkjörinu gættu þess að greiða Árna ekki atkvæði?
C. Hve margir kjósa Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi?
D. Hve margir eru C mínus A?
Þá koma spekúlasjónirnar:
E. Hve hátt hlutfall þeirra sem vilja fá Árna á þing skyldi hafa tekið þátt í prófkjörinu?
F. Hve hátt hlutfall þeirra sem vilja ekki sjá hann á þingi skyldi hafa tekið þátt í prófkjörinu?

Ég hef það á tilfinningunni að nánast hver kjaftur sem vill fá Árna á þing aftur. hafi kosið hann í prófkjörinu. Ég hef það á tilfinningunni að mikill meirihluti almennra kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilji hins vegar ekki að hann sé fulltrúi þeirra Við stöndum semsagt frammi fyrir því að hópur A er að koma Árna á þing í óþökk hóps D. Ég hef það á tilfinningunni að hópur A sé mun minni en hópur D. Málið er að vegna prófkjörsfyirkomulagsins verða þetta aldrei neitt annað en tilfinningar/spekúlasjónir.

Ég er ekki á móti því að Árni setjist á þing ef það er vilji kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ég tel hins vegar af og frá að prófkjörið hafi tekið af öll tvímæli um að svo sé.

Menningarlífið í borg óttans á meginlandinu kemur málinu ekkert við.

Nafnlaus sagði...

Íslendingar eru upp til hópa aumingjagóðir og það gæti verið ein ástæðan fyrir þessu óvænta gengi. Árni hefur heldur aldrei farið dult með það að hann er þarna fyrir Eyjamenn, og Sunnlendinga auðvitað, og var þekktur fyrir að hygla sínum þegar hann sat á þingi áður en komst upp um hann.

Hjörleifur sagði...

Bara það að það þurfi að eyða aragrúa af orðum til að verja greyið í stað þess að ræða stefnu flokksins, hlýtur að vekja upp spurningar hvort að þetta sé þess virði. Ef hann getur ekki varið sig sjálfur, hvers vegna ættum við þá að gera það?

Jimy Maack sagði...

Góð grein.

Nafnlaus sagði...

Lýðræðið er óvirkt þessa stundina vegna tæknilegra mistaka. Vinsamlega reynið aftur síðar.

Nafnlaus sagði...

5814 kusu í Suðurkjördæmi, og þarf af kusu 2302 Árna í 1. til 2. sætið. Þá hafa hinir líklega passað sig að kjósa hann ekki. Það er gaman að setja þessar tölur í samhengi við kosningu Lúðvíks Bergvinssonar. 5149 kusu í prófkjöri Samfylkingarinnar og fékk Lúðvík einungis 1523 í 1.-2. sætið. Þannig að Árni er að fá "sterkari" kosningu.

Ég er auðvitað sammála þér Davíð um að nauðgari sem segir að "beljan hafi átt það skilið!" eftir að hafa afplánað sinn dóm, er náttúrulega ekki búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum. Hins vegar hefur Árni ekki sagt neitt í þessum dúr. Hann kom með, vægast sagt klúðurslega, viðurkenningu á sínum brotum. Og mér finnst að hann þurfi að gera betur en það ef hann ætlar að sækjast eftir því að komast á þing og sækja atkvæði út fyrir sinn flokksbundna stuðningshóp á suðurlandi. Eins og ég segi þá það er undir Árna komið hvernig og hvort hann sanni sig sem traustsins verður.

Persónulega er ég ekki pólitískur stuðningsmaður hans, en mér finnst bara að hann eigi að fá sénsinn. Og ef hann misnotar aftur það traust sem fylgismenn hans í suðurkjördæmi veita honum, þá verð ég fyrstur manna að segja honum að hypja sig af þingi og úr opinberri stjórnsýslu.

Nafnlaus sagði...

"Hann kom með, vægast sagt klúðurslega, viðurkenningu á sínum brotum." Ja blindir erum vér bræður.

Það er á engan veginn viðurkenning á brotum sínum að segja að það sem maður var dæmdur fyrir séu "tæknileg mistök". Það er einmitt afvísun á brotunum, fullyrðing að í raun hafi maður ekki gert neitt af sér, kerfið hafi bara þvælst aðeins fyrir. Og það er einmitt það sem Davíð er að tala um, ef ég skil hann rétt. Nauðgari sem segir að beljan hafi átt þetta skilið fyrir að ganga í svo ögrandi fötum og freista hans, er ekki að taka á sig sök heldur færa hana yfir á fórnarlamb nauðgunarinnar. Maður sem segir að þjófnaður sé tæknileg mistök er ekki að taka á sig sök heldur færa hana yfir á kerfið sem hann bjó við.

Árna Johnsen á að gefa séns eins og öllum öðrum, enda eigum við að reka betrunar- en ekki refsikerfi. Hann hefur hins vegar sýnt að betrunin var engin og þess vegna hefur á ekkert erindi á Alþingi.

Það að lýsa yfir tæknilegum mistökum er að segja að væri kerfið á einhvern hátt öðruvísi þá mundi hann gera allt saman aftur. Honum finnst sem sagt brotið ekki siðferðilega rangt, eingöngu stangast á við einhvern kerfisbókstaf.

kerling í koti sagði...

Já, það eru auðvitað bara tæknileg mistök hjá fólki að bera sig ekki rétt að því að stela svo allt kemst upp.

Nafnlaus sagði...

Góð grein Davíð. Auðvitað eru flestir á því að Árni hafi ekkert að gera á þing aftur. það er vel hægt að fyrirgefa honum og það er vel að hann fái, á ný, tækifæri til að sanna sig. Mér þætti það bara eðlilegra að það væri ekki í sama starfi og hann gengdi áður - sérstaklega þegar starfið er á löggjafarþingi landsins.

Maður veltir líka fyrir sér hvers lags fordæmi felst í þessu fyrir aðra. Mér finnst stofnunin Alþingi taka niður og tapa ákveðinni virðingu ef Árni sest þar aftur inn sem þingmaður.

Nafnlaus sagði...

Ef Áddni greyið hefði sýnt minnstu iðrun og yfirbót væri hægt að fyrirgefa honum og jafnvel gúdder'ann aftur á þing. Það hefur hann hinsvegar aldrei gert, hvorki fyrir né eftir að hann var dæmdur og því sé ég enga ástæðu að taka kallinn í sátt.

Ormurinn

Jimy Maack sagði...

Þetta minnir mig óneitanlega á bókina 'The Last Continent' eftir Terry Pratchett, sem gerist í mjög Ástralíulegu landi að nafni Fourecks. Þar er stjórnmálamönnum stungið samstundis inn og þeir ná kjöri, til þess að spara tíma og fyrirhöfn.

Nafnlaus sagði...

Merkilegt að þetta sé einu sinni til umræðu. Maðurinn hefur ekkert með stjórnsýslu að gera, hann er búinn að misnota það, sýnt að honum sé ekki treystandi. Eina sem þetta gerir er að gegnumlýsa spillinguna og klíkuskapinn sem ræður ríkjum í þessum svokölluðu stjórnmálum í dag. Timburmaðurinn er líklega ekki eini jókerinn í stokknum.

Þorbjörn sagði...

Árni er eflaust besti maður. Það er gott í honum eins og öðrum. Þingmennska er hins vegar ekki eina atvinnan sem finnst í þessu landi. Mér hefði fundist réttast að hann reyndi að beina kröftum sínum í eitthvað annað. Hann getur eflaust stýrt gröfu, málað hús, svarað í síma, kennt, jafnvel haft mannaforráð. Af hverju endilega á þing? Ef hann er svo vinsæll í Eyjum, af hverju reynir hann ekki við sveitarstjórnarmálin þar?

Ég vil gefa honum annað tækifæri á því að búa og lifa frjáls maður, þó það nú væri. En á þing styð ég hann ekki.

Nafnlaus sagði...

Batnandi fólki er bezt að lifa.
En er Árna batnað, síðan hann lenti í þessum hræðilega starfsmanni Byko hérna um árið þá er maðurinn ekki búinn að tala um annað en miskilning og klúður og nú nýjast tæknileg mistök er þetta maður sem fólk vill fá á þing?

Ég þekki handrukkara og fyrrverandi fíkniefnasala og þó svo að þeir myndu segja sorry og meina það þá myndi ég ekki vilja fá þá á þing.
Ef ég mætti ráða þá myndi ég banna alla glæpamenn á þingi.
Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég veit ekki mikið um pólitík, ég veit bara það að ég hef ávalt kosið sjálfstæðis flokkinn en á meðan ómennið og glæponinn don Árni viðloðinn þennan flokk þá verð ég að segja að ég mun ekki láta mér detta það til hugar að setja x við D aftur.

Ég held að greyið litla fórnarlambið hann árni ætti að fara að gera sér grein fyrir því að hann sveik land og þjóð og með þessum svikum er hann búinn að fyrirgera sér öllum rétti til að vera talsmaður einhvers fólks nema þá að þetta fólk sem hann vill tala fyrir sé statt á Litla Hrauni þá gæti hann hugsanlega reint að redda þeim nýjum rúmum.

Nafnlaus sagði...

Mér fanst endirinn bestur
Langar í þessu sambandi að benda á eldgamla og góða hugmynd.

http://www.deiglan.com/index.php?itemid=6423