sunnudagur, nóvember 19, 2006

„Kellingar töpuðu …“

… var sagt hátt og skýrt í útvarpsfréttum í gær. Ég undraðist að helsta niðurstaða nýjustu prófkjöra skyldi dregin saman í svona brútal setningu, þótt vissulega væri ekki hægt að þræta fyrir sannleiksgildi hennar. Einnig vakti það athygli mína að Hörður Magnússon skyldi vera farinn að segja fréttir af pólitík. Þó fannst mér það á ákveðinn hátt við hæfi fyrst kvenfyrirlitningin sem frá öndverðu hefur einkennt íþróttahreyfinguna skuli vera orðin jafnáberandi meðal hægra- og miðjufólks og nýyfirstaðin prófkjör bera vitni um. Mér fannst þetta þó afar slæmt, hvernig sem á það var litið.
Þá lagði ég við hlustir og komst að því að Hörður var alls ekki að fræða mig um að kellingar hefðu tapað einu né neinu heldur hefðu Keflvíkingar tapað körfuboltaleik. Það fannst mér eiginlega verra en hitt. Ef einhver vill segja að Keflvíkingar séu kellingar ætti hann að mínu mati að gera það af sannfæringu, ekki óskýrmælgi.

5 ummæli:

Jimy Maack sagði...

Ég fór í Smáralind um daginn þar sem nefmælt upplýsingastúlkan raupaði í sífellu 'Visktar athujji' sem væri 'viðskiptavinir athugið' á Íslensku.

Alltaf jafn hvimleitt þegar ómálga fólk er látið lesa upp á almannafæri og opinbera þar með metnaðarleysi yfirmanna sinna.

Nafnlaus sagði...

Þorsteinn Guðmunds hefur lýst hvernig Hamas menn sprengdu varnir andstæðinga sinna, og átti þá við Hamars menn í körfubolta.
Einnig er ansi algengt að Reykingar hafi gert hitt og þetta og er þá átt við Reykvíkinga

zpiderr.blog.is

þórhallur sagði...

ka e eilega a ykkur?? só a sumi nennekki a tala

Hjörtur Howser sagði...

Enginn hefur dregið óskýrmælgi jafn sundur og saman í háði og hinn óviðjafnanlegi Laddi. Atriði hans með Rauða Ljóninu er klassískt og lið eins og Manchester United og Tottenham Hotspur verða aldrei söm.
En aldrei er góð vísa of oft ofkveðin og full ástæða til að halda vöku sinni.

Nafnlaus sagði...

Hamars menn gátu léttilega sprengt varnir Keflvíkinga og sjálfa sig í tætlur. Enda er hvoru tveggja kellingar.