fimmtudagur, desember 02, 2010

Um skóleysi og vonleysi

Prédikun flutt í stúdentamessu í Háskólakapellunni 1. 12. 2010.


Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hetjum okkar Íslendinga er fjálglega lýst í Íslendingasögunum. Gunnar á Hlíðarenda var manna „kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur“. Aðrir voru minna spennandi. Egill Skallagrímsson var „málugur, orðvís og illur viðureignar“. Grettir Ásmundsson var „fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum“. Þessar umsagnir eru sumar eftirsóknarverðar, aðrar síður. En í öllum þessum mannlýsingum eru nokkur lýsingarorð sem hvergi sjást. Engri af hetjum okkar er lýst þannig að hún hafi verið skemmtileg og hress, jákvæð eða bjartsýn. Það er miður. Mér finnst nefnilega stundum, þegar ég fylgist með dægurmálaumræðunni, að svartsýni og bölmóður þyki dyggð á Íslandi. Reiði er heilbrigð viðbrögð við því þegar réttlætiskennd manns er misboðið. Umræðan í kjölfar hrunsins alræmda og þrenginnanna sem því fylgdu, hafa, að mínum dómi, aftur á móti farið leiðinlega fljótt úr því að einkennast af innblásinni og eðlilegri reiði, út í að innihalda eintóma niðurdrepandi gremju og geðvonsku.

Auðvitað hafa margir ríka ástæðu til að vera reiðir. Fólk hefur orðið fyrir barðinu á óréttlæti, jafnvel misst aleiguna, fyrst og fremst vegna andvaraleysis og máttleysis íslenskra stjórnvalda, bæði núverandi og fyrrverandi. Hver er ég að standa hér og segja: „Reyniði nú að brosa og taka lífinu ekki svona alvarlega“? Ég hef engan rétt til þess.

Reiði getur verið nauðsynlegt umbótaafl fái hún heilbrigða útrás. Þeir sem breytt hafa þjóðfélögum til hins betra, afnumið kúgun og valdníðslu, ráðist að stoðum alræðis og arðráns og höggvið þær í spað, gerðu það ekki af því að þeir voru svo hressir og léttir á því. Þeir voru innblásnir af reiði. En þeir voru ekki innblásnir af gremju og svartagallsrausi. Slíkt fyllir mann ekki þrótti heldur dregur hann úr manni. Þeir voru nefnilega ekki bara með reiði sína í farteskinu heldur líka vænan skammt af bjartsýni, trú á að ástandið væri komið til að fara, að með samstöðu og dugnaði væri hægt að taka til hendinni og ryðja óréttlætinu úr vegi. Það er heilbrigð útrás fyrir reiði. Gremja og geðvonska er á hinn bóginn sjúk útrás fyrir reiði. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert, sem horft hefur til heilla, hefur verið reist á stoðum geðvonsku og bölmóðs. Ekkert, sem bætt hefur líf einstaklinga, hefur verið knúið áfram með tuði og svartsýni. Slík afstaða hjálpar engum – nema hugsanlega þeim sem framleiða magasýrutöflur.

Það er auðvelt að tala svona. Maður getur ekki bara hætt að vera reiður, af því að tilraunir til heilbrigðrar útrásar skila ekki árangri. Reiðin leitar út og ef hún fær ekki heilbrigða útrás finnur hún sér aðra. Það sem við erum að verða vitni að er að fólk rýkur upp í fylkingar út af hvaða pínulitla ágreiningsefni sem er, sem síðan gelta hvor á aðra. Svona er, að mínu mati, umræða fólks sem er sem lamað af tortryggni og vonbrigðum. Vonbrigðum með það að réttlætið hefur ekki náð fram að ganga. Vonbrigðum með það að fjöldi manna missti lífsviðurværi sitt og ævisparnað án þess að hafa neitt til saka unnið annað en að fara eftir þeim leikreglum sem samfélagið setti. Vonbrigðum með að þeir einu sem látnir hafa verið svara til saka fyrir það sem gerst hefur skuli vera níu manns sem ekki gerðu annað af sér en að æpa á Alþingismenn tiltölulega kurteislega orðaðar setningar, miðað við kringumstæður, sem efnislega innihéldu ekki annað en það sem þorra þjóðarinnar bjó í brjósti.

Ég tek þátt í kirkjulegu starfi í sóknarkirkjunni minni. Mér finnst það gera mér gott og ég mæli með því. Ekki bara því að mæta í messu og hlusta á fallega tónlist og vonandi uppbyggileg orð af vörum prestsins í prédikuninni, heldur því að eiga samfélag við annað fólk um sannindi sem snúast um annað en brauðstritið, um afstöðu sem ristir dýpra en til þess hvernig við getum náð endum saman um mánaðarmótin. Ekki að það séu ekki verðug viðfangsefni. Ég held bara að það svipti mann mjög mikilvægum þætti þess, sem gerir lífið þess virði að lifa því, að hugsa og tala aldrei um neitt annað.

Ég geri mér grein fyrir því að fólk hefur mjög ólíka trúarafstöðu, stundum væri eflaust nær að tala um lífsskoðun en trúarafstöðu. Það eiga ekkert allir heima í minni evangelísk-lúthersku sóknarkirkju, ekki bara af landafræðilegum ástæðum heldur trúar- eða lífsskoðunarlegum. En mannlífið er nú sem betur fer svo fjölbreytt að ég held að allir eigi heima einhvers staðar, ekki bara í landafræðilegri merkingu. Og það er gott að að eiga heima, ekki bara á landakortinu heldur á andlegu sviði tilverunnar. Það hjálpar manni að kljást við tilfinningar eins og vonbrigði og það að upplifa sig sem fórnarlamb. Kannski ekki á þann hátt að maður fái töframátt til að breyta innviðum og viðmiðum samfélagsins, en það getur hjálpað manni að láta þessar tilfininngar ekki eitra andlegt líf sitt.

Hvað á ég við?

Snemma í haust prédikuðu prestar Þjóðkirkjunnar um fátækt á Íslandi. Textinn sem prédikað var út frá er í 7. kafla Lúkasarguðspjalls, sagan um bersyndugu konuna sem þvoði fætur Jesú með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði smyrslum. Þetta er falleg saga um hina kristnu afstöðu til sektar og samfélagslegrar útskúfunar, um það að vera fórnarlamb kringumstæðna. Við vitum nefnilega ekki mikið um þessa bersyndugu konu annað en að hún var í andlegri kröm. Við vitum ekki hver synd hennar var. Kannski var hún að praktísera, kannski hafði hún bara ekki farið að reglum samfélagsins í tilhugalífi sínu, látið undan heilbrigðri löngun í trássi við lög og ekki komist upp með það. Við vitum að samfélagið sem hún lifði í var gegnsýrt af karlrembu, að um kynhegðun giltu strangar reglur og að viðurlög við brotum á þeim voru vægast sagt ómannúðleg. Það er skelfilegt til þess að vita að enn skuli vera samfélög meðal okkar sem eru eins. En við vitum líka að fólk er í eðli sínu eins nú og þá, hér og þar. „Hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“ orti Tómas.

Við getum því sagt okkur sjálf sitthvað í viðbót um þessa bersyndugu konu. Hún valdi ekki þann kostinn, af öllu því úrvali valkosta sem stóð henni til boða varðandi það sem hún gæti gert við líf sitt, að sennilega væri skynsamlegast að vera bersyndug. Hún var fórnarlamb. Við vitum nefnielga líka að það voru fórnarlömb kynferðisafbrota sem urðu fyrir útskúfun og fordæmingu samfélagsins, ekki gerendurnir. Boðskapur sögunnar er einfaldur, augljós og fallegur: Jesús Kristur tók málstað þeirra sem samfélagið dæmdi úr leik, hann stóð með hinum útskúfuðu og smáðu, með fórnarlömbunum gegn gerendunum. Kirkja, sem að sönnu er kirkja Krists, gerir slíkt hið sama. Alltaf. Alls staðar. Annars er hún ekki kirkja Krists.

Texti þessa sunnudags er að ýmsu leyti betur til þess fallinn að fjalla um fátækt. Hann er líka úr Lúkasarguðspjalli, 4. kafla. Þar segir frá því þegar Jesús fór til Nasaret og las upp úr spádómsbók Jesaja þessi orð: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“

Jahá. Þetta er snorturt og einfalt. Jesús flytur fátækum gleðilegan boðskap. Og ég spyr: Þar sem ég er að prédika út frá þessum texta, ætti ég þá ekki að segja við fólk sem misst hefur allt: „Hafið engar áhyggjur, þetta verður allt í lagi, allt verður eins og áður. Jesús segir það.“?

Ég ætla ekki að gera það. Fyrir því eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri er sú að með því væri ég að hræsna. Ég væri að segja eitthvað sem ég trúi ekki sjálfur. Ég er ekkert viss um að allt verði í lagi, það er að segja ef við setjum samasemmerki á milli orðanna „í lagi“ og orðanna „eins og áður“.

Við megum ekki gleyma því að nokkrir tugir einstaklinga frömdu á þjóðinni auðgunarglæp, sem jafngildir því í krónum og aurum að hvert einasta hús á eyjunni hafi verið brennt til kaldra kola. Hvert einasta. Það er ekkert sjálfgefið að þjóð nái að jafna sig á slíku. Ég hef reyndar trú á því að íslenska þjóðin geri það, en það tekur tíma. Ég er aftur á móti ekki eins sannfærður um að í kjölfarið geti allt orðið eins og áður. Að sömu lífsgæði, að sama neyslustig, að sami lifistandard og þótti eðlilegur á mesta þenslutímanum bíði okkar. Ég held að ástæða sé til að stórefa það. Og ég er ekki einu sinni viss um að það væri æskilegt. Þótt fátæku börnin í Afríku séu orðin svo mikil klisja að maður sé nánast að gera þeim óleik með því að minnast á þau, þá held ég samt að við höfum gott af því að skoða aðstöðu okkar í aðeins víðara samhengi. Eins og einn vinur minn sagði: „Mér fannst ég eiga ofboðslega bágt að vera skólaus alveg þangað til ég hitti fótalausa manninn.“ Íslendingar kunna að vera skólausir sem stendur, en við erum ekki fótalaus.

Hin ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að standa hér og segja að gleðilegi boðskapurinn hans Jesú til fátæklinganna sé sá að bráðum verði allt eins og áður er sú að ég held að það hafi alls ekki verið það sem hann átti við. Ríki hans var ekki af þessum heimi. Lausn bandingjanna, sem hann talar um, var ekki loforð um afnám þrælahalds í nánustu framtíð. Efnahagur Rómaveldis byggði að svo miklu leyti á þrælahaldi að fyrirvaralaust afnám þess hefði valdið efnahagshruni sem hrun bankakerfisins á Íslandi hefði bliknað í samanburði við. Ég er ekki að segja að þrælahald hafi verið sjálfsagt og gott, ég er að segja þjóðfélagsgerðin hafi svo eindregið gert ráð fyrir því að afnám þess hafi verið óhugsandi, það hefði lamað viðskipti, samgöngur og matvælaframleiðslu sem leitt hefði af sér annars konar hörmungar. Jesús var ekki hagfræðingur og hann hefði sennilega ekki skilið orðið „stjórnlagaþing“ – jafnvel þótt það hefði verið þýtt á arameísku. Það var annars konar lausn sem hann var að boða, lausn undan ótta, vonleysi og tilgangsleysi til vonar, kærleika og einhvers sem í dag væri sennilega kallað „mannleg reisn“. Í því felst að hver einasti einstaklingur hefur sérstakt manngildi, gefið af Guði, sem enginn mannlegur máttur hefur rétt til þess að umsnúa eða draga úr. Sem enginn mannlegur máttur hefur getu til þess að gera að engu. Gildi þitt sem manneskju fer ekki eftir því hvort þú átt eða skuldar, hvort þú ert frjáls eða ófrjáls í einhverri merkingu. Þú ert einstakt og elskað sköpunarverk Guðs eins og þú ert, hvort sem þú býrð í 30 fermetrum eða 300, hvort sem þú stendur í biðröð við kassann í kjörbúðinni eða biðröð hjá hjálparstofnun eftir matargjöf. Þú ert óendanlega dýrmæt(ur). Gildi þitt sem manneskju fer ekki eftir veraldlegum kringumstæðum þínum. Það er gleðilegur boðskapur.

Fyrst minnst var á biðraðir eftir matargjöfum þá hafa þær vakið marga til umhugsunar. Hvernig getur slíkt gerst eins og hendi væri veifað í þjóðfélagi sem var að rifna af velmegun fyrir ekki svo löngu síðan? Þessar biðraðir hafa verið kallaðar smánarblettur á íslensku þjóðfélagi. Því er ég ósammála. Sú staðreynd að þessar gjafir skuli vera í boði þar sem er þörf fyrir þær segir ekki ljóta sögu um þjóðfélagið heldur fallega. Biðraðirnar eru svo sannarlega ekki smánarblettur á þeim sem standa í þeim, fólki sem hefur afrekað það að leggja stolt sitt til hliðar og biðja um aðstoðina sem það þarf til að geta séð sér og sínum farborða. Það fyrirkomulag að raðir myndist er vissulega klaufalegt og vanhugsað, en varla smánarblettur. Það hlýtur að mega gera það auðveldara fyrir sjálfsvirðingu fólks sem þarf þessa hjálp að taka við henni. Þörfin fyrir þessar matargjafir er aftur á móti til skammar, en ekki fyrir íslensku þjóðina, ekki þá sem þiggja aðstoðina og þaðan af síður þá sem veita hana. Skömmin er þeirra sem sköpuðu þörfina og þeirra sem eru í aðstöðu til að útrýma henni en gera það ekki.

Ég tek þátt í kirkjulegu starfi. Það hefur ekki verið auðvelt síðastliðið ár. Kirkjan hefur gengið í gegn um erfiðleika, sem óþarfi er að tíunda hér, en hún getur að verulegu leyti aðeins kennt sjálfri sér og yfirstjórn sinni um. Flestar stofnanir þjóðfélagsins eru rúnar trausti og kirkjan þar með talið. Það er ólíklegt til vinsælda að bera blak af Þjóðkirkjunni opinberlega. Þetta hefur haft áhrif á móralinn, það verður að viðurkennast. Það er leiðinlegt og niðurdrepandi að fá aldrei neitt annað en skít og skömm fyrir það sem maður er að gera. Fyrir skömmu héldum við þess vegna samkomu til að hrista hópinn saman, bæta móralinn og þétta raðirnar. Meðal annars sem gert var í því augnamiði var að fá sálfræðing til að kenna okkur hvernig sterkur hópur bregst við andstreymi. Það var gagnlegt. Sterkur hópur eflist við andstreymi. Þar snýr fólk bökum saman. Eitt af því sem einkennir sterkan hóp er að þar er gengið í þau verk sem þarf að vinna, enginn skýtur sér undan ábyrgð á þeim forsendum að verkið falli ekki undir starfslýsingu hans. Í sterkum hópi styðja einstaklingar hver annan.

Það sem einkennir veikan hóp er einmitt hið gagnstæða. Veikur hópur splundrast við andstreymi. Hann klofnar í smærri einingar sem benda hver á aðra og kenna hver annarri um. Í veikum hópi gengst enginn við ábyrgð og einstaklingarnir keppast við að koma henni á aðra. Hljómar þetta kunnuglega? Jú, það sem einkennir veikan hóp er í raun stutt lýsing á allri framgöngu íslenskra stjórnmálamanna frá því fyrir hrun. Það þarf því engan að undra að þjóðin sé sem lömuð af vonbrigðum. Og vonbrigðin veikja þjóðina sem hóp.

Áðan var fluttur nýr sálmur eftir tónlistarmanninn K.K, Kristján Kristjánsson. Í öðru ljóði eftir hann segir: „Til eru höfðingjar við Íslands bláu fjöll sem heldur vilja deyja en lifa í þeirri smán að hafa ekkert gefið sem þeir gátu verið án.“ Þarna er á ferðinni mannlýsing sem mér finnst öllu aðdáunarverðari en þær sem ég hóf orð mín á að vitna í. Svona eru hetjurnar sem við þurfum núna.

Ég held að íslenska þjóðin vilji vera og geti verið sterkur hópur. Ég held að ef íslenska þjóðin ber gæfu til að snúa bökum saman og ganga í þau verk sem þarf að vinna og þola ekki öllu lengri bið og leggja eðlilegan og sjálfsagðan ágreining um aukaatriði til hliðar rétt á meðan, ef við látum skóleysið ekki fylla okkur vonleysi, ef við gerumst höfðingjarnir, sem leggja það af mörkum sem þeir geta verið án, að þá ... verði kannski ekki allt eins og áður. En þá getum við sent leiðtogum okkar skýr skilaboð, skilaboð sem reyndar hafa heyrst áður, en komu þá úr hinni áttinni. Skilaboðin eru: „Þið eruð ekki þjóðin.“

Ef íslenska þjóðin ber gæfu til þess að vera sterkur hópur en ekki veikur, þá treysti ég mér til að flytja henni gleðilegan boðskap: „Þetta verður allt í lagi.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.


Guðspjallstexti dagsins (Lúk 4.16-21): Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

1 ummæli: