Umburðarlyndi er kjaftæði. Bókstaflega lýsir orðið eitt og sér ekki öðru en því lyndi að umbera. En enginn vill vera umborinn. Fólk vill vera samþykkt og viðurkennt, ekki umborið. Ef einhver ætlar að slá sjálfan sig til riddara fyrir þá góðmennsku sína að umbera mig getur sá hinn sami tekið sitt umburðarlyndi og troðið því þangað sem sólin ekki skín. Þannig umburðarlyndi er ekkert annað en hroki og yfirlæti undir þunnu lagi af bleikri málningu.
Umburðarlyndi er svo mikið í tísku um þessar mundir að því er jafnvel stillt upp sem andstöðu forræðishyggju, ritskoðunar og alls annars sem setur frelsi einstaklingsins til að gera það sem honum sýnist, sjálfum sér til sálartjóns og öðrum til ama, einhverjar skorður. Fyrir vikið verður kynþáttahatur að skoðun sem verður að umbera, því fólk á að hafa frelsi til að vera eins miklir kynþáttahatarar og það kýs.
En sumt á einfaldlega aldrei að umbera. Mannréttindabrot á ekki undir neinum kringumstæðum að umbera. Heimsku, ofbeldi, grimmd og fáfræði á ekki að umbera. Mannhatur á ekki að umbera, hvort sem það beinist að konum, útlendingum, hommum, guðleysingjum, múslimum eða rauðhausum. Skoðanir sem byggja á heimsku og hatri á ekki að umbera. Skoðanir sem vega að mannréttindindum, t.d. trúfrelsi og tjáningarfrelsi, á ekki að umbera.
Það á að samþykkja fólk án þess því fylgi að grimmd þess, fáfræði og heimska sé umborin. Skoðanir byggðar á þessu eru hættulegar og dæmin sýna að þeim vex fiskur um hrygg ef þær er umbornar. Þar sem slíkar skoðanir ná lýðhylli eru þær undantekningarlaust landinu og þjóðinni til mikils skaðræðis. Mér ber engin skylda til að umbera nýnasisma, útlendingahatur, trúar- eða vantrúarofstæki eða neitt annað sem vegur að grundvallarmannréttindum. Ég áskil mér rétt, reyndar er mér tryggður hann í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, til að berjast gegn þessu öllu með kjafti og klóm – að því tilskyldu að sú barátta brjóti ekki réttindi annarra. Höfum hugfast að réttindum, s.s. ferðafrelsi, er hægt að fyrirgera með að misbeita þeim.
Ef við umberum samtök gegn grundvallarmannréttindum á borð við trúfrelsi, t. d. því að moska rísi í Reykjavík, verðum við á nákvæmlega sömu forsendum að umbera Ku Klux Klan og samtök helfararafneitara, svo fátt eitt af sama sauðahúsi sé nefnt. Það er umburðarlyndi andskotans.
Bakþankar í Fréttablaðinu 13. 11. 2010.
4 ummæli:
Afhverju ber mér að umbera trúfrelsi?
Er það ekki bara afleyðing heimsku og fáfræði, sem þú einmitt vilt svo gjarnan berjast gegn?
Af því að réttur til trúfrelsis er tryggður í stjórnarskrá, 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og reyndar flestum þeim alþjóðlegu mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að. Þú átt að umbera trúfrelsi af því að það varðar við lög að gera það ekki, ef þér nægja ekki siðferðisrök til þess.
Það er ekkert siðferðis mál að umbera trú annara. Ber mér ekki siðferðileg skylda til að upplýsa náungan um villu síns vegar?
Eru þessi lög þá ekki bara mistök sem ber að leiðrétta?
Hvað með að það, að trú sumra (svo sem múslima)leyfir enganveginn samþykki á samkynhnegð?
Hvor rétturinn er þá "hærri"?
Eða viltu neyða trú allra til að vera með fullkomið umburðarlyndi.
Á sá trúaði að fara að beita skynsemi ásamt því að trúa.
Grefur það einmitt ekki undan trúnni sjálfri?
Ef þú tekur trúmálin alvarlega eru þau ekki það umburðarlynd að þau lendi ekki uppá kant við önnur viðmið/gildi sem við höfum tamið okkur sem sjálfsögð.
Og þú svarar ekki hvort trúin sé ekki einmitt vottur um fáfræði og/eða skilningsleysi viðkomandi.
Ég sé blinda trú, trúir án ástæðu/sannana, sem hreinlega uppgjöf á leitinni við að afla sér skilnings og þekkingu.
Ég trúi þróunnarkenningunni, þar til annað og betra kemur í ljós.
Fólk fæðist samkynhneigt, Gylfi og velur sér trú (svona oftast), svo kannski ekki gott að bera þetta saman. Annars er betra að Davíð svari þessu sjálfur - og þá á sinn hátt. Það kunna það fáir betur.
Rétturinn til trúfrelsins/trúleysis, er sá hinn sami. Trúfrelsi vantaði í Evrópu í nokkur ár, sem leiddi til hnygnunar fræða og vísinda. Meira að segja listirnar sködduðust á þeim skratta. Persónulega er ég á móti skipulögðum trúarbrögðum (er samt fylgjandi trú, en það er annað mál), en að heimila öðrum að iðka trú sína er mér að meinalausu. Þangað til þeir fara að slettast upp á mig, eða reyna að grafa undan mínum réttindum, þá mun ég svara fullum hálsi.
Ég er sammála Davíð hvað varðar moskuna; við getum ekki valið úr hverjir hafa réttindi til trúariðkunar og hverjir ekki; við getum meira að segja ekki bannað fólki að hafa skoðanir (ég hef samt ekki fengið frelsi til að nota sakramenti rastafari á Íslandi...). En við höfum val - við höfum skildu - til að segja okkar skoðanir á móti og berjast gegn þeirra hugmyndafræði.
"I do not agree with what you have to say, but I'll defend to the death your right to say it." - Voltaire.
Og kannski þarna ber okkur í milli, mér og þér Davíð - án þess þó ég ætli að gera þér upp skoðanir. Málfrelsi eru mannréttindi, sem þurfti að berjast lengi fyrir; þau má aldrei skerða, frekar en trúfrelsi. Ég sannarlega vona að þar séum við sammála. Hatursáróður (sem greinilega jaðrar oft við brot á mannréttindaköflum nokkurra laga) þyrfti hinsvegar að skoða nánar. Og líka hvað varðar suma kirkjunar menn.
Skrifa ummæli