Varðandi síðastu færslu og viðbrögð við henni langar mig að rökstyðja mál mitt eilítið betur. Í því augnamiði vil ég byrja á að benda á nokkur vel valin atriði úr Mannréttindayfirlýsingu SÞ:
2. gr. „Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“
18. gr. „Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu og helgihaldi.“
19. gr. „Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.“
30. gr. „Ekkert í yfirlýsingu þessari má túlka á þann veg að nokkru ríki, hópi eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það er stefni að því að gera að engu einhver þau réttindi eða frelsi sem hér hafa verið upp talin.“
Semsagt: 30. gr. tekur af allan vafa um að 19. gr. tryggir engum rétt til að stefna að því að gera að engu þau réttindi sem tryggð eru í 18. gr. – M.ö.o.: Réttur fólks til að vera frjálst skoðana sinna og láta þær í ljós gildir ekki um rétt fólks til að stefna að því gera að engu rétt annarra til að rækja trú sína opinberlega með tilbeiðslu og helgihaldi.
Við þetta má bæta 2. lið 29. gr. sömu yfirlýsingar: „Við beitingu réttinda sinna og frelsis, skulu allir háðir þeim takmörkunum einum sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir réttindum og frelsi annarra og til þess að fullnægja réttlátum kröfum um siðgæði, almannareglu og velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.“
Þarna er viðurkennt að beiting réttinda og frelsis geti verið háð tökmörkunum sem settar eru með lögum. Þetta má bera saman við alþjóðasamning um afnám kynþáttamisréttis frá 1968 sem Íslendingar eru aðilar að. Þar segir m. a.:
4. gr. a.: „Gera refsiverða með lögum alla útbreiðslu á hugmyndum sem eru byggðar á kynþáttayfirburðum eða óvild ...“
4. gr. b.: „Lýsa ólögleg og banna samtök og einnig skipulagða og alla aðra áróðursstarfsemi sem stuðlar að og hvetur til kynþáttamisréttis og skal gera þátttöku í slíkum samtökum eða starfsemi refsiverða með lögum.“
Samningurinn skilgreinir „kynþáttamisrétti“ sem það að fólk af öðrum „kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna“ (1. gr.) njóti ekki borgaralegra réttinda og tilgreinir samningurinn sérstaklega, í gr. 5d (vii), rétt „til frjálsrar hugsunar, samvisku og trúar.“
Þennan samning er því erfitt að skilja öðruvísi en þannig að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til að allur áróður gegn rétti fólks til að iðka trú sína skuli varða við lög.
Samtök gegn því að moska rísi í Reykjavík eru vissulega siðlaus að mínu mat. En það er í raun algjört aukaatriði. Það er fráleitt að byggja samfélag á persónulegri siðferðiskennd einstaklinga. Það á ekki að virða mannréttindi af því að mér finnst að það eigi að gera það.
Það á að virða mannréttindi af því að við höfum skuldbundið okkur til þess í lögum og alþjóðlegum samningum. Það á að virða lög og skuldbindingar. Þau lög og skuldbindingar kveða skýrt á um að samtök gegn því að moska rísi í Reykjavík skuli varða við landslög.
6 ummæli:
Þannig að þú ert þá að leiðrétta grein þína og segja: umburðarlyndi er slæmt (tilheyrir andskotanum) nema það sé fyrirskipað í lagadálki sem yfirvöld hafa undirritað fyrir okkar hönd? Ég velti fyrir mér hvaða álit andstæðingar Hitlers og ríkisstjórnar hans hefðu haft á þessum boðskap í ljósi lagasetningar nasista sem lögleiddi ofsóknir gegn gyðingum á síðustu öld... Hér meina ég vel að merkja ekki að líkja megi íslenskum stjórnvöldum við Hitler og félaga hans heldur er ég að benda á að lög eru ekki handan gagnrýni heldur í sífelldri endurskoðun, túlkun og endurskilgreiningu í takt við framþróun lýðræðissamfélags. Þetta þýðir að þeir sem eru gegn mosku í Reykjavík hafa rétt á að gagnrýna og að beita sér fyrir ákveðinni túlkun eða breytingu laga í samræmi við það sem þeir telja óréttlæti þó þeir sömu verði að umbera rétt múslíma til að iðka sína trú. Að lokum vil ég nefna annað öfgakennt dæmi - hvað myndir þú gera ef hópur brenglaðra manna vildi reisa hof við hlið heimilis þíns til dýrðar djöflinum? Myndir þú mótmæla eða umbera?
Mannréttindi taka ekki til skipulagsmála. Ef satanistar vildu reisa hof við hlið heimilis míns gæti ég beitt mér gegn því ef ég gæti fært rök fyrir því að af því hlytist ónæði, s.s. hávaða- eða sjónmengun eða slysahætta. Ég hefði ekki rétt til að beita mér gegn rétti satanista til að iðka trú sína - að því tilskyldu að sú trúariðkun brjóti ekki í bága við ákvæði mannréttindasáttmála sem Íslendingar hafa skuldbundið sig til að virða.
Ég skil hvað þú átt við og er sammála því að þú hefur ekki rétt á að 1) beita þér gegn rétti satanista til að iðka trú sína. Þú hefur hins vegar rétt á að 2) gagnrýna fyrirkomulagið, þ.e. standandi lög og þann rétt sem þau veita, og þú mátt gera það í nafni þess sem þér finnst að eigi að breytast - er það ekki? Kannski eru moskuandstæðingar meira í fyrra athæfinu en hinu síðari og á þeim grundvelli má gagnrýna þá en 2) er réttur allra og í samræmi við upphaflegan boðskap þinn um að sýna ekki "umburðarlyndi andskotans".
Sæll Davíð og þakka þér fyrir góða pistla. Þakka þér sérstaklega fyrir skýra túlkun á 3.0. greininni. Þetta er brilliant skrifað:
Réttur fólks til að vera frjálst skoðana sinna og láta þær í ljós gildir ekki um rétt fólks til að stefna að því gera að engu rétt annarra til að rækja trú sína opinberlega með tilbeiðslu og helgihaldi.
Neðar í pistlinum skrifarðu:
Það er fráleitt að byggja samfélag á persónulegri siðferðiskennd einstaklinga. Það á ekki að virða mannréttindi af því að mér finnst að það eigi að gera það.
Ég er vissulega sammála að mannréttindi geti ekki byggst á handahófskenndu mati einhverra einstaklinga því við getum aldrei vitað hversu margt annað en siðferði og mannréttindi hefur áhrif á matið í heild. Samtímis er ég sannfærð um að rétt siðferði sé manneskjunni eðlislægt án þess að ég geti útskýrt það nánar.
Danski heimspekingurinn Mads Storegaard Jensen fjallaði um þessa hugmynd í bók sinni "Dommedagsfesten. En kritik af tidens kulturpessimisme".
Andmæli hans gengu út á að manneskjan hefur innbygt siðferði án þess að útskýra tilvist þess frekar.
Að siðferði sé innbyggt í fólk sé grundvöllur þeirra hugmynda sem krystallast í mannréttindasáttmálum og sem flest siðuð þjóðfélög hafa tekið inn í sitt reglusett.
Hugsun hans er því sú, að það sé ekki endilega siðferðilega rétt það sem stendur í lögum, heldur þarf það einnig að standast siðferðilegt mat fólksins.
Þetta kallar á sífellda endurskoðun og réttarkerfið þarf að vera meðvitað um muninn á því sem er lagalega refsivert og þess sem er siðlaust og þarmeð fyrir utan seilingu réttarkerfisins.
Annars takk fyrir frábæra pistla,
Anna Jonna.
Tek undir með Önnu Jonnu varðandi gæði pistla þinna - þeir eru yfirleitt rökfastir, skýrir og fullir af innsæi - auk þess eru þeir oft mjög skemmtilegir. Þetta kunnum við að meta :) - takk!
Rétt rétt
Skrifa ummæli