miðvikudagur, mars 04, 2009

Náð og friður


Síðasta sunnudag var æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar. Af því tilefni var ég beðinn að prédika í Grafarvogskirkju og beina orðum mínum sérstaklega til fermingarbarna. Hér er það sem ég sagði:

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hæ. Velkomin í kirkju. Mér er það sönn ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér á þessum Drottins degi. Ég hafði sagt að ég myndi tala út frá guðspjallstexta dagsins, en ég vona að mér fyrirgefist að gera það.
Hefðbundin upphafsorð prédikana, þau sem ég hóf mál mitt á, urðu mér nefnilega tilefni til umhugsunar. Í raun má segja að ég hafi aldrei komist út úr ávarpinu. Í dag er nefnilega æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar og þess vegna er prédíkun dagsins beint að æskunni, einkum fermingarbörnunum. Og hvað þýðir það fyrir fermingarbarn að vera ávarpað með þessum orðum, náð sé með þér og friður? Hvað er það? Hvenær heyrir íslenskt ungmenni þessi orð, annars staðar en í kirkju – og þá yfirleitt án þess að bókstafleg merking þeirra sé útskýrð?
Við verðum nefnilega að varast að gera grunnhugtök trúar okkar að merkingarlausum orðaleppum. Þá er betra að heilsa bara með því að segja Hæ. Það skilja alla vega allir hvað átt er við með því. Náð og friður er nefnilega aðeins meira en bara það hvernig prestum er kennt að segja hæ. Orðin hafa merkingu og þau eru notuð af ástæðu.
Sjálfsagt væri hægt að tengja hugtakið náð við einhvers konar miskunn, það að vera náðaður – þurfa ekki að taka út refsingu sína. En hver er að refsa okkur – og fyrir hvað? Guð refsar okkur ekki. Hann elskar okkur, hann skapaði okkur eins og við erum og færi aldrei að refsa okkur fyrir það sem hann gerði. Við erum aftur á móti sköpuð í Guðs mynd og verkið lofar meistarann. Við erum sem betur fer flest útbúin með fyrirbæri sem kallað er samviska, fyrirbæri sem á stundum refsar okkur harðlega – þegar hún hefur ástæðu til eða telur sig jafnvel ranglega hafa ástæðu til. Náð gæti því verið fólgin í því að vera ekki sífellt pískaður áfram af samviskunni.
Sá sem er undir náð er ekki samviskulaus, en hann hefur kannski ástæðu til að vera sáttur við samvisku sína og samviska hans ástæðu til að vera sátt við hann. Við þurfum ekki að vera fullkomin, við þurfum ekki að vera fallegri eða gáfaðari en við erum, við þurfum ekki stærri brjóst eða meiri vöðva, fleiri tattú eða flottara tan til að Guð elski okkur – til að við getum verið sátt við Guð og menn og, umfram allt, við okkur sjálf.
Sá sem veit að hann er undir náð þarf ekki að vera þjakaður af vanmáttarkennd. Náð getur verið í því fólgin að vita og treysta því að Guð elskar þig eins og þú ert. Hann getur verið ósáttur við eitthvað sem þú gerir og notað samvisku þína til að koma þeim skilaboðum til þín. En hann elskar þig. Náð sé með ykkur öllum.
Hitt orðið, friður, er auðskiljanlegra. Friður fyrir botni Miðjarðarhafsins virðist fjarlægur draumur, það þarf að skapa frið um Seðlabankann, nú er nauðsynlegt að friður ríki á vinnumarkaði.
Ég vona að þið fyrirgefið mér að gerast svolítið fræðilegur í smástund og slá um mig með minni takmörkuðu hebreskukunnáttu. Orðið sem hér er til grundvallar er „shalom“. Það merkir ekki alveg friður. Í Síðari Samúelsbók segir frá því þegar Davíð konungur kallar hraustan hermann sinn, Úría Hetíta, á sinn fund. Hann spyr hann m. a. að því hvernig hernaðurinn gangi. Þar segir bókstaflega að hann spyrji hann um „shalom“ stríðsins. Frið stríðsins?
Hebreska orðið shalom er m. ö. o. ekki andheiti orðsins ófriður. Nær væri að þýða það sem „velgengni“ eða kannski enn frekar „jafnvægi“. Þar sem allt er í lagi ríkir „shalom“ – óháð því hvort þar sé allt með ró og spekt eða ekki. Það fer nefnilega eftir kringumstæðum hverju sinni í hverju jafnvægi eða eðlilegt ástand er fólgið.
Til dæmis má nefna fuglabjarg. Þar á allt að iða af lífi og varla að heyrast mannsins mál fyrir hávaða og gargi. Ef allt er í lagi með fuglabjargið er þar lítill friður. Þar er hins vegar „shalom“. Ef farið væri með eldvörpu á fuglabjargið og öllu lífi eytt þar væri þar meiri friður. Það er hins vegar ekki „shalom“. Á heimili þar sem börn búa er oft lítill friður. Heilbrigð börn leika sér og hafa hátt, skilja dótið sitt eftir í gangveginum og krefjast athygli, jafnvel þótt verið sé að elda mat eða brjóta saman þvott. Þannig á lífið að vera.
Það er ekkert eðlilegt við það að í lífi manns og sál ríki alltaf eitthvað endalaust drottins dýrðarinnar koppalogn. Fólk eldist og deyr. Það er eðlilegt að missa og sakna. Harmur og sorg er eðlilegur hluti mannlegrar tilveru. Það er ekkert eðlilegt við líf sem er laust við allt slíkt. Það er ekkert eðlilegt við það að líða í gegn um lífið á skýi og verða aldrei fyrir neinu áreiti af umheiminum. Það er ekkert eðlilegt við að þekkja ekkert annað hugarástand en einhverja endalausa, sólskinsbjarta sálarró. Það er ekki það sem ég á við þegar ég segi „Friður sé með þér“.
Það hljómar hins vegar dálítið sótthreinsað og klínískt að segja: „Sátt og andlegt jafnvægi sé með ykkur“, þótt það sé kannski eitthvað í þá áttina sem átt er við. Þess vegna segjum við: „Náð sé með ykkur og friður.“ En við segjum meira. Við bætum við þetta orðunum: „... frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.“
Nú um stundir – og ekki bara nú um stundir heldur ansi lengi – hefur mikið verið hamast á fermingunni og henni fundið flest til foráttu. Fermingarbörn hafa engan andlegan þroska til að taka þessa ákvörðun, þau stjórnast af annarlegum hvötum, eigingirni og græðgi. Þau eru ekki orðin sjálfstæðar hugsandi verur og eru að þóknast umhverfinu, þrýstingi foreldra og jafnaldra. Á þessum aldri er ekkert eins hræðilegt og ógnvekjandi og að stinga í stúf, að falla ekki inn í hópinn. Þess vegna fermast allir þótt enginn trúi á Guð. Gott ef ekki heyrist að kirkjan sé að kalla óheyrileg fjárútlát yfir heimilin í landinu til þess eins að drýgja tekjur prestastéttarinnar – af því að hún er svo vond.
Ég ætla ekki að standa hér og hræsna með því að láta eins og öll þessi gagnrýni sé gjörsamlega úr lausu lofti gripin. Ég ætla ekki að telja ykkur trú um að ég sé þess fullviss að hvert einasta fermingarbarn á Íslandi sé svo rótfast og stöðugt í sinni persónulegu trúarsannfæringu að henni verði ekki hvikað það sem það á eftir ólifað. Ég ætla ekki að láta eins og ég geri mér ekki grein fyrir því að í hugum sumra fermingarbarna séu fermingargjafirnar ofar á blaði en náðin og friðurinn frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Ég ætla heldur ekki að láta eins og víða sé ekki gert mun meira tilstand út af fermingunni en að mínu mati er nokkur ástæða til; það þarf ekkert að klára að flísaleggja forstofuna eða skipta um sófasett svo barnið geti fermst.
Fermingarbörn hafa ekki tekið út fullan andlegan þroska, það er alveg satt. Ef ég má gerast persónulegur þá hafði ég reyndar ekki tekið út fullan andlegan þroska á þrítugsafmælinu mínu. Reyndar, þegar ég rifja upp fertugsafmælið mitt fyrir fjórum árum, þá verður mér ljóst að ég hafði ekki heldur tekið út fullan andlegan þroska þá. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að óska þess að ekkert okkar hér inni hafi tekið út fullan andlegan þroska. Lífið á að vera stanslaust þroskaferli. Ef við ætlum að bíða með að fermast þangað til við höfum náð fullum andlegum þroska endar það með því að við verðum að slá fermingunni saman við síðustu smurninguna.
Þessi árgangur fermingarbarna, eins og allir aðrir árgangar á undan honum, á eftir að kynnast tískustraumum í kenningum og hugsun um andleg málefni. Þau eiga eftir að halda áfram að þjálfa rökhugsun sína á spurningunni: Guð, húmbúkk eða heilagur sannleikur? Það er hollt og gott. Mörg eiga eftir að komast að þeirri niðurstöðu að vísindin útskýri mannlega tilveru mun betur en trúin, að Guð sé óþarfur og þarafleiðandi hugarburður. Eflaust eiga þau mörg hver eftir að halda ræður þar sem þróunarkenning Darwins er sögð afsanna kristnar hugmyndir um tilurð mannsins. Að þróun og sköpun geti ekki farið saman þegar mannskepnan er viðfangið, jafnvel þótt hvorki sé hægt að benda á nokkra aðra þróun sem ekki felur í sér sköpun né nokkra aðra sköpun sem ekki felur í sér þróun. Hvort sem um er að ræða vöru, þjónustu eða hugmyndir virðast sköpun og þróun einatt haldast í hendur. Jafnt húsbúnaður sem kökuuppskriftir verða til fyrir samspil sköpunar og þróunar, en uppskrift að manni virðist af einhverjum ástæðum aðeins geta verið annað hvort, samkvæmt þeim sem nú á dögum ganga harðast fram í trúboði fyrir meinta gagnrýna hugsun. En þetta var útúrdúr.
Málið er að lífið gerist. Og við rekum okkur flest fyrr eða síðar á það að lífið lýtur ekki lögmálum gagnrýninnar hugsunar. Við verðum ástfangin af vitlausum aðila, sem er náttúrlega bara heimskulegt. Við gerum eitthvað sem við ætluðum ekki að gera eða, það sem verra er, eitthvað sem við vorum búin að ákveða að gera ekki. Í hundrað barna fermingarhópi munu 10 – 20 eiga eftir að glíma við drykkjuvandamál. Aðeins fleiri munu ganga í gegn um hjónaskilnað, svo ég nefni tvennt sem margir upplifa en enginn velur sér. Þetta er ekkert náttúrulögmál og ég er svo sannarlega ekki að óska neinum neins ills. Ég er bara að horfa hlutlægt á málin og hef enga ástæðu til að ætla að þessi árgangur sé það frábrugðinn öllum öðrum að öll tölfræði varðandi hann verði öðruvísi en um árgangana á undan honum.
Lífið gerist. Og við stöndum frammi fyrir því að hugsun okkar og máttur hrökkva skammt. Við stöndum frammi fyrir því að skynsemi okkar skilar okkur ekki á þá staði í lífi okkar sem við hefðum kosið. Við stöndum frammi fyrir því að við erum ófær um að koma lífi okkar í lag af eigin rammleik. Við erum ósátt og við erum ekki í jafnvægi. Okkur vantar eitthvað.
Þá rifjast það kannski upp fyrir okkur að einhvern tímann í fyrndinni tókum við þá ákvörðun að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar. Kannski áttum við okkur á því að það er ákvörðun sem við höfum ekki staðið við, að einhvern tímann tókum við þá ákvörðun að ákveða eitthvað annað, jafnvel þótt það hafi ekki verið meðvituð og yfirveguð ákvörðun. Við komum okkur upp öðrum leiðtoga – okkur sjálfum. Og kannski áttum við okkur á því að það er sú ákvörðun sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum á.
Og kannski rifjast meira upp fyrir okkur. Kannski rifjast upp hugtökin náð og friður og við gerum okkur ljóst að það er einmitt það sem líf okkar skortir svo sárlega. Jafnvel kynnum við að muna eftir fleiru sem okkur var kennt, til að mynda því að Guð gleðst yfir hverjum týndum sauði sem snýr aftur. Að við erum ávallt velkomin í hans hús, sama hvað við höfum verið lengi í burtu, sama hvað á daga okkar hefur drifið. Þá gerist það að spurningin „Guð, húmbúkk eða heilagur sannleikur“ hættir að vera áhugaverð rökfræðiæfing á framhaldsskólastigi og verður sáluhjálparatriði.
Ef ferminginn nær að lauma þeirri hugmynd að okkur að við erum einstakt og elskað sköpunarverk Guðs, en ekki bara tár í mannhafinu sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi, þá er hún aldrei tilgangslaus, sama hve miklum óþarfa er hlaðið utan á hana. Ef hún nær að sá því fræi í hugskot okkar að kristinn maður er undir náð og að náð Guðs er eilíf og óþrjótandi og stendur öllum til boða, er fermingin alltaf til góðs, sama á hvaða andlega ferðalag við förum í kjölfarið. Ef fermingin verður til þess að við vitum hvar náð er að finna þegar við finnum að það er einmitt hún sem okkur vantar, hafa allir gott af því að fermast.
Að því sögðu langar mig að óska ykkur öllum náðar og friðar frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð. Þessi predikun var mjög góð og enn betri í þínum flutningi. Ég vil bara þakkar þér fyrir mjög svo ánægjulega kvöldstund í Grafarvogskirkju.
Bestu kveðjur,
Gunnar Einar Steingrímsson