mánudagur, mars 02, 2009

Álftagarg úr Svörtuloftum

Nú vikunni henti sá voveiflegi atburður íslenskt efnahagslíf að Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri, tjáði sig opinberlega. Slíkt hefur einatt leitt af sér hinar mestu hörmungar, enda hefur nú verið komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Tjón af þessum toga er nefnilega „fyrirbyggjanlegt“.
Viðtalið var þó hið athyglisverðasta, einkum vegna þess hve glögga innsýn það veitti í hugarheim Davíðs. Til að mynda byrjaði hann á að kannast ekkert við að hann væri óvinsæll. Þótt skoðanakannanir sýndu að 90% þjóðarinnar vildu losna við hann af fóðrunum tók hann ekkert mark á því, enda birtust þær í Baugsmiðlum. Hann dró í efa að þessar kannanir hefðu nokkurn tímann verið gerðar. Hann trúir því m. ö. o. einlæglega að á ritstjórnarskrifstofum Fréttablaðsins sitji þeir Bónusfeðgar og skáldi upp skoðanakannanir, sem aldrei eru framkvæmdar, til að koma höggi á hann.
Þessu til áréttingar sagði hann að fjöldi manna segði hann einan hafa haldið haus í útrásarfárinu og goldið við því varhug. Farið á Youtube og leitið að myndbandinu „Útrásarsöngur Davíðs“. Annað hvort er þar illur tvífari Davíðs á ferð að koma á hann óorði eða minni Davíðs af orðum sínum og gjörðum í fortíðinni er svo selektíft að það hlýtur að jaðra við hreina ósannsögli. Þetta sýnir auðvitað betur en nokkuð annað hvílík nauðsyn það var að koma æðstu peningastofnun þjóðarinnar í hendur fólks sem ekki stendur alveg svona völtum fótum í raunveruleikanum.
Viðtalið fór illa af stað og síðan hélt áfram að syrta í álinn. Ný lög um Seðlabanka beindust gegn honum persónulega og það þótti honum ógeðfellt. Það var ekki eins og þessi sami Davíð hefði forðum daga keyrt fjölmiðlalög í gegn um Alþingi, sem augljóslega miðuðu aðeins að því að knésetja persónulega óvildarmenn hans sjálfs. Hér mætti láta gamminn geysa um grjót og glerhús, flísar og bjálka, en ég læt það ógert.
Burtséð frá því hve geðfellt slíkt er, hlýtur það þó að mega teljast alveg ótrúleg bíræfni að sami Davíð og ákvað upp á sitt einsdæmi að svívirða stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins með því að gera þjóðina meðseka um stríðsglæpi Bandaríkjahers í Írak skuli nú telja sig þess umkominn að upplýsa okkur um geðfellda stjórnsýslu.
Farvel, nafni. Þín verður ekki saknað.
Bakþankar í Fréttablaðinu 28. 2. 2009

2 ummæli:

NN sagði...

Ég legg til að heilkennið verði kallað ,,eftir-á-fantasía".

Burkni sagði...

Farvel?
Því miður er það talsverð óskhyggja að halda að hann sé endanlega horfinn af sjónarsviðinu ... hann lætur þessa ekki óhefnt, það máttu bóka!