miðvikudagur, apríl 18, 2007

Hugleiðingar óþarfs manns


Ég er óþarfur maður. Í fyrsta lagi er ég haldinn oki ranghugmynda og ætti því að óska mér kvalafulls dauðdaga hið fyrsta til að vera sjálfum mér samkvæmur. Ég sem hélt að trú mín hefði einmitt forðað mér undan oki ranghugmynda minna sem stefndu í að draga mig hægt og rólega til kvalafulls dauðdaga. Nafnlaus bloggari í Hafnarfirði veit betur og hefur leiðrétt þetta á netinu. Hvað um það.

Það sem veldur mér meiri áhyggjum er að það sem ég hef að lifibrauði virðist ekki bara vera misráðið heldur jafnvel til hreinnar óþurftar. Ég sit nefnilega við þessa dagana og þýði kvikmyndina um Simpson-fjölskylduna í Springfield (Lindarhaga), í óþökk allra að því er virðist. Það er eins og það sé almenn stemning fyrir því í þjóðfélaginu að það sé beinlíns skaðlegt fyrir tungu okkar og menningu að þetta efni sé til á móðurmáli okkar.
Auðvitað má til sanns vegar færa að meiri ástæða sé til að þýða margt annað, en mínar hugmyndir um áhugaverð þýðingaverkefni njóta ekki hljómgrunns hjá þeim sem greiða þýðendum laun fyrir vinnu sína og því tek ég því sem mér býðst og líst þokkalega á. Ég þarf til allrar hamingju ekki lengur að þýða efni sem mér býður við.
Á bak við mörg helstu þýðingarafrek íslenskunnar er áratuga löng vinna erlendra höfunda og flóknar pælingar í tungumálum. Nægir þar að nefna Hringadróttinssögu. Af einhverjum ástæðum hef ég samt aldrei heyrt neinn tala um að misráðið hafi verið að þýða hana á íslensku af því hve rætur hennar í enskri tungu og menningu séu djúpar. Auðvitað fer alltaf eitthvað forgörðum í þýðingu. Óvíða er það jafnáberandi og í verkum Shakespeares, eftirlætishöfundar Lindu P. Samt þykir af einhverjum ástæðum fengur að verk hans séu til á íslensku, sum jafnvel í nokkrum þýðingum.
Einu sinni þótti það eftirsóknarvert að sem flestar perlur heimsbókmenntanna væru til í íslenskri þýðingu. Einhvern tímann gerðist það hins vegar að þýðendur urðu í huga þjóðarinnar að menningarlegum skemmdarvörgum. Nú virðist það vera þannig að helstu perlurnar eigi ekki að menga með því að snara þeim á fjósamannatunguna sem við tölum.
Það er í lagi að snara drasli eins og Faðirvorinu en að snerta gullkorn á borð við "D-oh!" og "Hi-diddly-ho!" er hins vegar sakkrílids.

25 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þýðingin hlýtur að verða þolanleg, fyrst það ert þú sem stendur á bakvið hana. Hinsvegar er það staðreynd að sumt er illþýðanlegt, eins og t.d. Discworld-serían og annað sem byggir að miklu leyti á engilsaxneskum orðaleikjum. Slíkt hljómar oftast fremur hjákátlega.

Nafnlaus sagði...

Miðað við að hann kvartar í færslunni yfir því að vera vakinn af Hallgrímskirkjubjöllunum, og hefur gert það áður, leyfi ég mér að efast um að hann sé bloggari í Hafnarfirði.

Hnakkus sagði...

Ekki útiloka neitt strax Sherlock. Hallgrímskirkja er afar hávær.

Davíð Þór sagði...

Þetta átti að vera "úr" Hafnarfirði. Meira veit ég ekki um hann.

Davíð Þór sagði...

Og af hverju ætti Discworld serían að vera illþýðanlegri en Hringadróttinssaga eða Biblían?

Unknown sagði...

Mér fannst nú ekki vel heppnast með þýðinguna á Hringadróttinssögu einhvernveginn, klifanir og stagl um alla sögu.

Annars hlakka ég til að sjá myndina, og í raun hefur maður minni áhyggjur af þýðingunni heldur en af leiklestrinum. Sérstaklega ef sbs á að verða hinn stórkostlega leikni Comic book guy. Það fara fáir í sveitta nördabolinn hans.

Nafnlaus sagði...

kannski svipað og þýðing á Lísu í Undralandi, það er ekkert varið í hana á íslensku. Enda ekkert nema enskir orðaleikir.

Hringadróttinssaga - tja, ekki ætla ég að segja að hún eigi ekki að vera til á íslensku, en ég er samt engan veginn sátt við þýðinguna á henni. Karl Ágúst og pabbi hans hefðu frekar átt að þýða þann bálk, þeirra þýðing á Hobbit er snilld.

Reyndar, annars, hef ég ekki heyrt eiginlega krítík á að það sé slæmt að þýða Simpsons per se; hinsvegar krítíkina að raddirnar sjálfar séu óaðskiljanlegur hluti persónanna, ekki tungumálið. Örn Árnason er fínn leikari og frábær talsetjari en höfum við ekki heyrt rödd hans í fullmörgum teiknimyndahlutverkum til að hann verði trúverðugur Hómer?

Nafnlaus sagði...

Springfield... er það ekki Hveragerði?

Ingvar Valg.

Nafnlaus sagði...

Það er nokkuð til í þessu hjá þér þó ég sé lítið fyrir þýðingar. Það er eitt sem fólk virðist gleyma í þessum málum, að það eru til fleiri erlend tungumál en bara enska. Ekki get ég fyrir mitt litla líf lesið rússnesku en las samt um daginn rússneska bók og hafði gaman af (Plötusnúður Rauða hersins, mæli með henni). Mér finnst alveg sjálfsagt mál að þýða bækur og myndir yfir á íslensku, með því skilyrði þó að upprunalega útgáfan sé einnig fyrir hendi ef fólk kýs hana frekar.

Ragnar.

Ps. Ef þú ætlar að þýða Pratchett þá þarftu að gera það virkilega vel.

Hnakkus sagði...

Það er ekki það sama að þýða bækur og talsetja myndir. Upprunalega raddsetningin í Simpsons t.d. er leikverk sem er hreinlega strokað út og annað sett í staðinn. Að setja íslenskan texta við myndir er sambærilegra við bókaþýðingar en talsetning. Ég er lítið hrifinn af talsetningu almennt. Sjálfur lærði ég ensku af því að horfa á Transformers og Mr. T teiknimyndir í gamla daga. Þær þjóðir sem talsetja allt eru einmitt þær þjóðir sem eiga erfiðast með að læra önnur tungumál en sitt eigið. Talsetningarbransinn hérna virðist aðallega þjóna sjálfum sér sem er ekkert skrýtið kannski því leikarar þurfa að borða eins og aðrir. Ég get t.d. ekki ímyndað mér að það sé mikil eftirspurn eftir íslenskri talsetningu á Simpsons. Talsetning hélt ég að væri aðallega fyrir mjög ung börn sem ekki geta lesið texta og þau eru ekki mörg í hópi Simpsons aðdáenda.

Nafnlaus sagði...

Hnakkus, þetta er nákvæmlega mín skoðun, mér finnst Simpsons hreinlega ekki vera efni fyrir ólæs börn.. sorrí. Allavega leyfi ég 6 ára dóttur minni ekki að horfa á Simpsons þætti í sjónvarpinu og þó er hún orðin fluglæs. Þess vegna er þetta hreinn óþarfi og bara peningaeyðsla sem hægt væri að nýta í að þýða og talsetja "barna"myndir :D

Nafnlaus sagði...

Þar sem þættirnir um Simpsons fjölskylduna er mér afar kærir verð ég að fá að benda á pistil er ég skrifaði, smellið á "naflaus" til að lesa.

Nafnlaus sagði...

Springfield= Hveravellir, Lindarvellir, Sumarvellir, Gormavellir

Nafnlaus sagði...

Ekki Sumarvellir, Vorvellir.

Björn Friðgeir sagði...

Þó ég komi seint til leiks vil ég benda á einn stóran mun á samanburði Davíðs. Jafnvel þótt Terry kynni íslensku gæti hann seint sagt:
"I am very pleased to know that an Icelandic translation of The Hobbit is in preparation.
I had long hoped that some of my work might be translated into Icelandic, a language which I think would fit it better than any other I have any adequate knowledge of."
Úr bréfi frá 5. júní 1973, númer 352 í The Letters of JRR Tolkien.
Ég er sammála Hildigunni um að ég er sáttari við þýðingu Úlfs og Karls Ágústs. Hringadróttinssögu á að þýða á Njálumál, það er það sem hentar.
Enskir orðaleikir fara ekki vel á íslensku og ég er hræddur um að þær barnabækur Pratchett sem þýddar hafa verið á íslensku hafi ekki selst vel, og að vísindaskáldsögur og fantasíur eigi almennt erfitt uppdráttar þýddar, langstærstur hluti markhópsins vill þær frekar á ensku.
Og því miður finnst mér talsetning á The Simpsons varla eiga rétt á sér, tek undir með Hnakkusi og Vælu.

Nafnlaus sagði...

Þetta getur ekki orðið verra en þýska talsetningin, sem er reyndar dulítið skemmtileg. Þar talar nefnilega einn leikari fyrir allar persónurnar og fyrir vikið tala allir nákvæmlega eins. Meira að segja Lísa og Mr. Burns hljóma alveg eins.

Nafnlaus sagði...

Þú veist að þú ert auliu fyrir að vilja taka þátt í þessu.

Nafnlaus sagði...

Þú veist að þú ert auliu fyrir að vilja taka þátt í þessu.
-Einar B.

Stefán Arason sagði...

Þeir sem ekki vilja sjá myndina talsetta, þurfa ekki að gera það, en ég er viss um að meðlimir lesblindufélagsins verða himinlifandi yfir talsetningunni.

Gangi þér vel með þýðinguna Davíð. Það gott að vita að þýðingin er í góðum höndum.
Spennandi að sjá hvort þú komir með eins frábærar þýðingar og fyrirrennari þinn, sbr. b-sharps=aís-ilegir.

Gerdur Sif sagði...

Mér finnst fínt að myndin verði talsett á íslensku ef vel verður staðið að þýðingunni. Þegar hún kemur út á DVD get ég þá horft á hana á íslensku með dætrum mínum og á ensku þegar þær eru farnar að sofa. Þýðingin á Hringadróttinssögu er ein mesta snilldarþýðing á ensku bókmenntaverki sem ég hef lesið. Sjáið þið bara titlana: Hringadróttinssaga, Tvegga turna tal, Hilmir snýr heim. Þetta er einstaklega falleg þýðing sem í fari lélegri þýðanda hefði getað endað sem: Herra hringsins, Saga tveggja turna, Endurkoma kóngsins.
Ég er sammála því að þýðingin á verkum Pratchetts yrði mjög erfið vegna allra orðaleikjanna, en það sem fólk þarf að gera sér grein fyrir að góð þýðing snýst aldrei um að þýða orð höfundar bókstaflega, heldur þarf að endursegja söguna á íslensku. Og þar sem íslenskan er stútfull af tækifærum til skemmtilegra orðaleikja ætti góður þýðandi að geta gert Terry Pratchett jafn heillandi á íslensku eins og ensku. Davíð Þór ef þér tekst einhvern tíman að sannfæra útgefanda um að gefa Pratchett út á íslensku þá ertu allavega með einn staðfastan kaupanda hérna.
(Ef þetta kemur oftar en einu sinni biðst ég afsökunar, er búin að eiga í vandræðum með blogger.)

Unknown sagði...

ég er nú alveg rosalega spenntur að lesa handritið þitt davíð.

fólk lætur eins og þetta hafi einhver áhrif á eitthvað, alltof mikil dramatík í gangi.

Stefán Arason sagði...

Þar er ég sammála þér Gerður, ég naut þess að lesa Hringadróttinssögu sökum málfarsins. En ég hef ekki lesið þýðingu Karls Ágústs á Hobbitnum, svo samanburð get ég ekki komið með.

Nafnlaus sagði...

Miðað við árangur þinn með talsetningu á íslensku barnaefni hingað til - sem er frábær - þá stendurðu þig vel og þetta verður jafnvel enn fyndnara hjá þér.

Þórunn Gréta sagði...

Ég bjó í Þýskalandi um nokkurt skeið og horfði á Simpsonsfjölskylduna talsetta því betri er þýskur Hómer en enginn Hómer. Ég man ekki betur en hver og ein persóna hafi átt sinn leikara allan tímann sem ég dvaldi þar ytra. Ég hef kannski bara verið farin að heyra svona illa strax um 16 ára aldurinn.... nema mig sé farið að bresta minnið nú sléttum tíu árum síðar.

Unknown sagði...

Ja, ég er búinn að vera mikill aðdáandi að verkum Tolkiens síðan ég man eftir mér. Þó er ég aðeins sautján. En varðandi þetta(löngu dauða) umræðuefni, þá fannst mér "Hilmir snýr heim" þýðingin asnaleg vegna þess að "Return of the king" titillinn er að vitna í Aragorn. Hann er í stuttu máli erfingi Elendils og þar af leiðandi erfingi krúnunar af Gondor sem er búið að vera konungslaust í þónokkur ár.
Titillinn bendir til þess að Aragorn myndi setjast í hásæti Gondor. En hver er þá þessi Hilmir? Ég hef jú fattað það loksins að þýðendur eru ekki heimskir. "Hilmir" er fornt orð yfir konung. Það er skylt orðinu "hjálmur" sem bendir til hermennsku, þar af leiðandi að konungur tæki þátt í orusstu. Þetta gæti ég hugsað mér að Þýðandinn hafði í huga við þýðingu. En "Hilmir" var því miður bara misskilið sem nafn.