mánudagur, apríl 23, 2007

Íslendingar ættu ekki að heita Íslendingar, þeir ættu að heita Vitleysingar ...... sagði Einar vinur minn fyrir margt löngu og eftir því sem ég kynnist þjóð minni nánar sannfærist ég betur og betur um sannleiksgildi þessara orða. Það er nefnilega hreint ekki einleikið að þjóð sem hefur jafnmikla ástæðu til hógværðar og lítillætis og sú íslenska skuli vera jafnófær um að sýna þá eiginleika og raun ber vitni. Nokkur helstu einkenni hins dæmigerða vitleysings eiga það nefnilega til að loða við meinta vitræna orðræðu Íslendinga eins og skítur við sóða.

Vitleysingar óttast allt sem þeir þekkja ekki. Þannig er ein uppáhalds rökvillan mín þessi séríslenska speki: Það sem ekki hefur virkað til þessa fer ekki allt í einu að virka núna. Hvar er rökvillan í henni? Jú, það sem aldrei hefur verið prófað hefur eðli málsins samkvæmt aldrei virkað. Niðurstaðan er semsagt: Það sem aldrei hefur verið prófað áður mun ekki virka. Þetta eru kjörorð flestra þeirra sem hafa eitthvað að segja um menningar- og afþreyingarframleiðslu þjóðarinnar. Þó sem betur fer ekki allra.

Einu sinni langaði mig að vera með útvarpsþátt. Ég og Jakob vinur minn bjuggum til grind að þætti sem okkur langaði að búa til. Við sýndum útvarpsstöðinni þáttinn og þar á bæ var hváð: "Svona hefur aldrei verið gert áður. Þetta virkar ekki. Hver er eiginlega markhópurinn?"
Það var fátt um svör hjá okkur Jakobi. Markhópurinn? Við höfðum aldrei spáð í neinn markhóp. Við höfðum einfaldlega velt því fyrir okkur hvernig þátt við sjálfir myndum nenna að hlusta á og gerðum uppkast að slíkum þætti.
Fyrir rest var áhættan tekin og útvarpsþættinum hleypt af stokkunum. Það var vegna þess að annar útvarpsþáttur sem ég hafði komið að hafði notið hylli, en hann hafði bara komist á dagskrá stöðvarinnar fyrir frændsemis sakir Bjössa basta við eigandann. Hann hét Radíus.
Þessi nýi þáttur hét Górilla og sló í gegn (svo ég sýni nú þjóðerni mitt og varpi hógværð og lítillæti fyrir róða). Hann mældist með eilítið meiri hlustun en hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu og talsvert meiri hlustun en Jón og Gulli sem voru með þátt á annarri stöð á sama tíma og við (með tífalt hærra kaup eins og síðar kom í ljós í úttekt í einhverju blaði). Þeirra þáttur var byggður á formúlu sem var búin að margsanna sig og var beint að skýrt skilgreindum markhópi. Þátturinn okkar Jakobs var ekki líkur neinu sem gert hafði verið áður og markhópurinn var við Jakob.
Meðalíslendingurinn er ekki til. Allir eru frábrugðnir öðrum einhverju leyti. Það sem er ætlað fyrir alla eða einhvern meðaltalsvísitöluhlustanda endar á því að vera ekki fyrir neinn. Það er ekki til neins að spyrja fólk hvað það vilji heyra því það nefnir aðeins eitthvað sem það hefur heyrt áður. Eins mætti spyrja fólk að því hvert sé uppáhaldslagið þeirra eða uppáhaldsbókin þeirra og draga af svörunum þá ályktun að óhætt sé að hætta að semja tónlist og skrifa bækur því enginn hafi nefnt ósamið lag eða óskrifaða bók.

Annað sem einkennir vitleysinga er að þeir halda að þeir séu miklu klárari en þeir eru. Maður hefur heyrt það fullyrt svo oft að Íslendingar séu svo góðir í ensku að maður er nánast farinn að trúa því umhugsunarlaust. En málið er auðvitað aðeins flóknara. Um leið og Íslendingur er farinn að geta bablað ensku þokkalega skiljanlega með málþroska og orðaforða fjögurra ára enskumælandi barns telur hann sig nefnilega orðinn altalandi á tunguna. Fjöldi Íslendinga sem ekki myndi treysta sér til að lesa skáldsögu eða fræðirit á miðlungsþungri ensku hikar ekki við að segjast tala tungumálið reiprennandi.
Útlendingar eru ekki jafnblindir á eigin getu og segjast oft ekki tala ensku nógu vel, af því að þeir vilja ekki verða sér til minnkunar með því að tala eins og óvitar, jafnvel þótt þeir tali jafngóða ensku og kokhraustur Íslendingur sem segist tala lýtalausa ensku þótt eina nafnorðið sem hann hafi á valdi sínu sé "thing" og hann noti orðasambandið "you know" sem nafnorðsígildi sem geti merkt það sem hentar honum hverju sinni. Hann hefur nefnilega glápt svo mikið á CSI að hann er með framburðinn á hreinu.
Fyndnast er að Íslendingar skuli telja sig hafa lært "svona góða ensku" af sjónvarpsglápi. Ekkert bendir til þess að þjóðir sem góna minna á fjöldaframleitt, bandarískt skjádrasl tali verri ensku en Íslendingar. Eða hefur enskukunnáttu íslenskra barna kannski hrakað þennan áratug sem nánast allt barnaefni hefur verið talsett? Ég stórefa það.

Þriðja einkennið á vitleysingi er að hann heldur að hann sé farinn að skilja allt um leið og hann getur klórað sig fram úr meginatriðunum og hlegið að augljósasta slapstickinu. Ég hef horft tvisvar á nýju Simpsons myndina og fattaði strax söguþráðinn. Ég hló líka að því hvað Hómer var vitlaus og leiðinlegur og Bart dónalegur og stjórnlaus. Mér finnst líka fyndið þegar þeir segja Flanders að halda kjafti.
Ég er búinn að lesa handritið. Það er með leiðbeiningum fyrir þýðendur, þar sem vísanir eru útskýrðar og þeir hvattir til að staðfæra þær. Helmingur þeirra hafði farið fram hjá mér við áhorfið og þykist ég þó þokkalega vel að mér í enskri tungu og sæmilega fróður um sögu og menningu Bandaríkjanna. Handritið er einfaldlega morandi í skírskotunum og tilvitnunum í bandaríska dægurmenningu og pólitíska umræðu, skírskotunum sem óhjákvæmilega fara fram hjá hverjum þeim sem ekki er rækilega með á nótunum og mjög sennilega fjölmörgum Bandaríkjamönnum. Ég get því miður ekki nefnt dæmi vegna trúnaðar sem sem ég er bundinn varðandi handritið.
Samt eru Íslendingar strax tilbúnir til að fullyrða að það sé skemmdarverk að þýða myndina, þeir séu svo klárir og kúl og fatti þetta allt svo vel og séu svo rosalega vel inni í þessu að þýðing eyðileggi fyrir þeim ánægjuna af myndinni. Jafnvel ganga sumir svo langt að fullyrða að talsetningin eigi hreinlega ekki rétt á sér.
Vel má vera að íslenskur leikari nái ekki að segja "dóh!" á jafnfyndin hátt og Dan Castellaneta, en þeir sem halda að húmorinn í Simpsons sé í því fólginn hvað Hómer sé vitlaus og Bart mikill prakkari eru á sama plani og Queen-aðdáendur sem finnst Radio Gaga besta lagið með þeim.

Sjálfsagt var sagt við Helga Hálfdanar þegar hann hóf sitt verk: "Þeir sem hafa áhuga á Shakespeare vilja sjá hann á ensku. Þú ert ekki bara að vinna óþarft verk, heldur beinlínis verk sem á ekki rétt á sér." Sagði ekki páfinn líka við Martein Lúther á sínum tíma að þeir sem þyrftu að geta lesið Nýja-Testamentið kynnu allir grísku? Þess vegna gef ég ekki mikið fyrir yfirlýsingar eins og að "vísindaskáldsögur og fantasíur eigi almennt erfitt uppdráttar þýddar, langstærstur hluti markhópsins vill þær frekar á ensku."
Ég hef lesið greinar um Discworld bækurnar þar sem vísanir og skírskotanir eru útskýrðar á svipaðan hátt og í Simpsons handritinu. Ég hef verið aðdáandi þessara bóka í 20 ár, en samt hafði stór hluti þessara vísana og orðaleikja farið fram hjá mér. Discworld bækur Terrys Pratchetts hafa verið þýddar á búlgörsku, dönsku, eistnesku, finnsku, frönsku, grísku, hebresku, hollensku, ítölsku, kóresku, litháísku, norsku, portúgölsku, pólsku, rúmensku, rússnesku, serbnesku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, tyrknesku, ungversku og þýsku. Íslenska virðist vera eina tungumálið í heiminum sem fantasíuskáldskapur virkar ekki á.
Það hefði verið erfitt að finna "markhóp" fyrir Draumalandið. LoveStar hefði verið dauðadæmd hefði henni verið lýst fyrir dæmigerðum vitleysingi. "Svona skáldsaga hefur aldrei verið skrifuð áður og þar af leiðandi aldrei selst, hver heldurðu að vilji gefa út skáldsögu sem aldrei selst?"

Markhópar eru einfaldlega ekki til. Þar sem boðlegt efni er í boði myndast um það hópur þeirra sem kunna að meta það. Mér hefur reynst ágætlega til þessa að reyna að búa eitthvað til sem ég sjálfur myndi nenna að hlusta á, sjá eða lesa. Sem betur fer hafa nógu margir reynst hafa svipaðan smekk og ég til að ég hafi getað haft það að lifibrauði.

Kannski bendir það til þess að Íslendingum sé ekki alveg alls varnað þrátt fyrir allt.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Annað sem einkennir vitleysinga er að þeir halda að þeir séu miklu klárari en þeir eru.

mér finnst þessi setning þín svara þessu rausi um ágæti landa þinna prýðilega.

þú ættir kannski að flytja til ... eh, hvar er það þar sem fólk er ekki vitleysingar upp til hópa?

annars finnst mér Radio Gaga bara með betri lögum Queen. haha þar dæmdi ég mig úr leik!

Baddi sagði...

Ég hlakka til að fá að lesa Pratchett bækurnar á íslensku, ekki bara Discworld sögurnar heldur líka Bromeliad þríeykið.

Unknown sagði...

Ég er nú að renna í gegnum allar simpsons seríuarnar þessa dagana. Þegar maður hefur glápt á þátt er gott að fara á wikipedíu, fletta honum upp og lesa Cultural reffana sem eru þar. Dýpkar mikið við það. Vildi að það væri til svona krefjandi íslenskt sjónvarpsefni.

Nafnlaus sagði...

Mér hefur alltaf þótt Bohemian Rapshody meðal þeirra bestu verka.

Nafnlaus sagði...

Kannske er vandamálið það að þýðendurnir sjálfir fatta oft ekki menningartilvísanirnar, klúðra þýðingu/staðfærslu á þeim, og þar með missa áhorfendur alla trú á þýðingum almennt.
Annars grunar mig að þýðendur fái oft bara handrt í hendurnar, þýði það orð fyrir orð, og þar af leiðandi fáum við svona yndislegar villur. Dæmi:
"What do you do for a living ?"
"I cut trailers"

verður
"Við hvað vinnurðu?"
"Ég klippi hjólhýsi."
(Interstate 60)

eða
"Oops That's my bad!"
verður
"Æ. Þetta er rúmið mitt."

(Friends)

fangor sagði...

það er vissulega áhugavert verkefni að þýða diskworld bækurnar yfir á íslensku. til dæmis mætti þýða allar shakespeare-vísanirnar sem vísanir í þýðingar helga hálfdánar til að gæta samræmis. aðrar bókmenntavísanir væntanlega í viðeigandi þýðingar. annars er hætt við að vísanirnar fari forgörðum. þetta gæti orðið hinn áhugaverðasti eltingarleikur. síst.

Björn Friðgeir sagði...

Brómelíaðan er að hluta komin út, Truckers og Diggers, a.m.k. Efast það hafi selst, sem leiðir til efasemda minna um söluvænleika Discworld á íslensku.
En það væri jú gaman að sjá það á prenti, ekki síst ef þýðandinn nýtir sér Annotated Pratchett File.

Hnakkus sagði...

Bókaþýðingar eru ekki það sama og talsetningar og Það er ekki sanngjarnt að bera þetta tvennt saman. Að lesa bók á tungumáli sem þú skilur ekki virkar ekki en það má vel horfa á mynd á tungumáli sem þú hefur aldrei einu sinni heyrt áður...svo lengi sem myndin er með texta. Á Íslandi hafa talsetningar hingað til verið hugsaðar fyrir ólæs börn en það má vel vera að það sé að fara að breytast og við séum að fara að feta í spor pólverja, ítala, spánverja, frakka og fleiri þjóða sem hafa aldrei heyrt röddina í uppáhalds leikurunum sínum og eiga í basli með að læra önnur tungumál en sitt eigið sökum ofverndunar.

Annars er ég alveg sammála með skort á dýpt í enskukunnáttu íslendinga. Ég hef sjálfur oft hlegið að því hvernig fólk sem gæti ekki skrifað 300 orða ritgerð um sumafríið sitt á ensku heldur að það sé útlært í málinu. Sumir halda að þeir séu tvítyngdir af því þeir geta horft á CSI án texta og samt skilið hvernig Grissom gómaði morðingjann. Það er vissulega og óneitanlega mjög fávitalegt.

Það er samt ekki hægt að neita því að pólverjar, frakkar, ítalir og spánverjar eru miklum mun lélegri í ensku t.d. heldur en íslendingar og geta almennt ekki get sig skiljanlega á því útbreidda og mjög svo nýtilega máli. Þessvegna finnst mér einmitt fínt að fólk horfi á sjónvarpsefni og bíómyndir frá sem flestum löndum...með texta.

Nafnlaus sagði...

Góðir hálsar!

Takk fyrir pistilinn Davíð. Auðvitað er fyrirliggjandi að ég er þér hjartanlega sammála í markhópaumræðunni. Því miður er staðan sú að ráðandi menn rýna sig rauðeyga og heiladauða í hlustunar/áhorfs/lestrarkannanir eins og þar sé hinn eina algilda mælikvarða að finna. Þegar við bætist Parkinson-lögmálið, þar sem duglausir og hræddir millistjórnendur ráðast til starfa sem örugglega ógna ekki toppunum, þá er fyrirliggjandi að ekkert nýtt um gerast á næstunni. Við munum horfa upp á sama marflata ófrumlega framboðið og verið hefur í fjölmiðlum: menningu og/eða afþreyingarefni. Því aftaníhossar ráða för. Sem ekkert finna til að teika nema í henni Ameríku. Eða það þarf þá eitthvert "slys" að koma til.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Ertu ekki að taka þessu of persónulega nafni :) Reyndar er líklega erfitt að gera það ekki undir þessum kringumstæðum, en þú ert bara í þeim sporum að þurfa að vega upp áralanga slæma reynslu fólks af kvikmyndaþýðingum.

Það er staðreynd að almennt hefur ekki verið settur mikill kraftur í það að þýða þær kvikmyndir sem sýndar eru hér á landi - hvort sem er meðtexta eða talsetningu. Það er það sem fólk þekkir og það er það sem aðdáendur Simpsons óttast að verði enn einu sinni niðurstaðan.

Auðvitað eru viðbrögðin síðan aðeins í harkalegri kantinum, sérstaklega að teknu tilliti til þess að myndin verður jú sýnd bæði með ensku og íslensku tali :)

Ég óska þér bara hins besta í þýðingunni og er reyndar sannfærður að betri maður í verkið sé vandfundinn.

Svo eitt svona að lokum. Mér finnst nú óþarfi að vera að tala eitthvað niður til þeirra sem finnst Radio Gaga vera besta lag Queen, enda smekkur manna misjafn og enginn smekkur í raun betri en annar. Þó þér finnist Radio Gaga vera rusl, þá er örugglega fullt af fólki sem finnst það ekki - og er ekkert minna fyrir það. Það er bara öðruvísi ;)

Stefán Arason sagði...

...ég ætla að fullyrða að þeim finnast Radio Gaga vera það besta með Queen eru svo sannarlega "minna" fólk. :-)

Nafnlaus sagði...

Stefán, haha :-D
(er í lagi með að þykja Prophets Song best?)

Sammála reyndar Davíð þeim sem ritar hér að ofan, hvað gerir til að fá talsetningu á þessa mynd þegar allir sem vilja geta séð hana á enskunni? Og skipt að vild á dvd diskinum þegar að því kemur.

fannar sagði...

Þetta "Við höfðum einfaldlega velt því fyrir okkur hvernig þátt við sjálfir myndum nenna að hlusta á og gerðum uppkast að slíkum þætti." Og svo að hafa framkvæmt þetta finnst mér æði. Ég tuða við konuna mína á hverjum degi hvað ég þoli ekki þegar fólk segir alltaf við mig. NEI ÞETTA MUN EKKI GANGA, Íslendingar gera ekki svona eða hitt. En það hlýtur að vera til fleira fólk eins og ég. Maður er að lesa greinar/blogg eftir fullt af fólki sem bara gerir hlutina og viti menn, það eru bara fullt af fólki eins og það! Allavega, besta grein sem ég hef lesið nokkurn tímann held ég barasta!

Nafnlaus sagði...

Ég þekki enga fullorðna Íslendinga sem vildu frekar horfa á talsetta teiknimynd heldur en textaða.

Landinn er almennt það góður að sér á ensku að hann skilji að jafnaði amerískar bíomyndir, sér í lagi ef hann hefur textann sér aðstoðar.

Víða virðist gilda það sjónarmið að Simpson þættirnir séu barnaefni sökum þess að um teiknimynd er að ræða.
Þessu er ég ósammála þó svo að ég viðurkenni að mörg börn hafi gaman af þáttunum líka. Munurinn er helst sá að þau hlægja einmitt að því hvað Hómer er vitlaus og Bart mikill prakkari en átta sig ekki á pólítískri satírunni.
Þessar vísanir í bandaríska dægurmenningu og pólítíska umræðu, sem Davíð nefnir, eiga að væntanlega að höfða til hinna fullorðnu og missa því marks hjá börnunum.

Ég hef búið erlendis og þurft að horfa á talsettar bíómyndir. Það gildir einu hvort til séu góðar þýðingar á verkum Shakespeare. Talsetningar á bíómyndum eru alltaf frekar glataðar.

Móðir, kona, meyja sagði...

Ég hlustaði á Górilluna af trúarlegri rækni á sínum tíma. Átti jafnvel til að hringja og skamma ykkur fyrir lagaval, svona þegar mér leiddist.

Ég er þér alveg hjartanlega sammála með landann. Ég er þér alveg hjartanlega sammála með Terry Pratchett (gætum við ekki fengið hann til að skrifa alla vega eina bók um Ísland?). Og að síðustu langar mig að óska þér velfarnaðar með þýðinguna á Simpsons. Kem til með að líta hana gagnrýnum augum, sem fagidjót.

Nafnlaus sagði...

Það er alveg rétt að Íslendingar telja sig vera mun betri í ensku en þeir eru í raun en ég held samt að sjónvarpið hafi töluverð áhrif á enskukunnáttu fólks. Það að heyra málið talað í kannski marga klukktíma á viku og bera saman við íslenska textann hlýtur að bæta kunnáttu á málinu. Ég hef lært dönsku í skóla jafn lengi og ensku en er þó töluvert betri í ensku sem ég held að einhverju leiti sé sjónvarpsglápi að þakka.

Davíð Gunnarsson