þriðjudagur, mars 06, 2007

Litla-Stokkseyrarbakkahraunskaupstaður?

Síðustu bakþankar mínir kölluðu á viðbrögð víða að. Ég var sakaður um linkind, fíkniefnasalar væru hættulegir samfélaginu og því þyrfti að loka þá inni. Því lengur sem þeir væru á bak við lás og slá, þeim mun lengur væri samfélagið óhult fyrir þeim.
Víst má færa rök fyrir því. En gleymum ekki að fyrir hvern fíkniefnasala sem stungið er inn losnar staða sem aðrir fíklar standa í biðröð eftir að fá. Með þessari aðferðafræði leysum við ekki fíkniefnavandann fyrr en síðasti fíkillinn er kominn í grjótið. Og þá höfum við í raun ekki leyst hann heldur aðeins flutt hann inn á Litla-Hraun, sem sennilega yrði farið að ná yfir nágrannabyggðirnar og væri orðið einn af stærri kaupstöðum landsins.
Höfum líka í huga að enginn „lendir í“ fíkniefnum. Afar fáir fíkniefnasalar selja öðrum eiturlyf en þeim sem leita þeirra að eigin frumkvæði. Enginn verður fíkill af því að „strákarnir plötuðu hann“ til að dópa. Enginn gleypir fyrstu E-pilluna í þeirri trú að hún sé E-vítamín. Hvenær sem einhver byrjar að neyta fíkniefna tekur hann eða hún meðvitaða ákvörðun um það.
En hvað veldur því að ungmenni taka þá ákvörðun að neyta fíkniefna? Svarið er augljóst. Í fyrstu álíta þau það af einhverjum ástæðum eftirsóknarvert. Þau eygja þar veruleika sem tekur daglegu lífi þeirra fram. Fíkniefnaheimurinn er heillandi og spennandi. Þar eru gangsterar og glæfrakvendi sem vaða í seðlum og aka um á glæsibílum. Púkalegir pólitíkusar lýsa þeim sem hættulegum óvinum samfélagsins, sem er auðvitað ólíkt flottara hlutskipti en að vera hvert annað ferkantað nóboddí í hinum gráa, hversdagslega raunveruleika. Smám saman verður neyslan síðan að óviðráðanlegri, knýjandi þörf. Fíknin tekur völdin.
Fíkniefnaneysla er útmáluð sem uppreisn gegn samfélaginu og uppreisnarseggir hafa alltaf þótt töff. Þegar það verður jafntöff að vera í dópi og að vera á Kleppi hefur árangur náðst í baráttunni við fíkniefnin, ekki fyrr. Því miður stuðlar engin þeirra aðferða sem nú er beitt að þeirri viðhorfsbreytingu.
Hámark tvískinnungsins er síðan auðvitað að telja sér trú um að fleiri hafi eyðilagt líf sitt á fíkniefnum en áfengi. Séu fíkniefnasalar hryðjuverkamenn eru áfengisverslanir ekkert annað en hreinræktaðar útrýmingarbúðir.
Bakþankar í Fréttablaðinu 4. mars 2007

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er alveg sammála því að þungir dómar leysa engan vanda. Það er líka goðsögn að dópmangarar hangi aðallega fyrir utan grunnskóla og smygli e-pillum ofan í börnin. Slíkt er allavega mjög sjaldgæft en auðvitað kærkomið haldreipi þeirra sem ekki vilja horfast í augu við eigin ábyrgð eða aðstandenda sinna.

Hitt er svo annað mál að fíkniefnasalar markaðssetja að sjálfsögðu vörur sínar og þjónustu eins og allir aðrir bissnissmenn. Stærsti markhópurinn er ungt fólk og óánægt og aðferðirnar eru þær sömu og hjá coca-cola, heilsuræktarstöðvum og kexverksmiðjum. Þú færð frían eða ódýran prufuskammt, ímynd sem höfðar til þín er tengd vörunni og þér er gefin sú tilfinning að fyrirtækið/sölumaðurinn hafi sérstakan áhuga á þér og standi með þér. Það er svona sem þetta virkar og engin ástæða til að gera lítið úr því.

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr! Tvískinnungurinn liggur í því að Ríkið skuli vera stærsti dópsalinn! Nefni annað, og þar endar skilningur minn og það er að SÁÁ skuli bjóða uppá meðferð við spilafíkn til dæmis,en er um leið aðili að rekstri spilakassa! Þykir það keimlíkt því og ef félagið (SÁÁ)færi að standa að rekstri Kaffi Austurstrætis...

Anna Jonna sagði...

Þessi umræða er mun upplýstari en það sem við fáum að heyra frá yfirvöldum. Með svona frábærum pistlum skapar þú væntingar. ;)

Nafnlaus sagði...

Svo ég slái nú um mig með takmarkaðri latínukunnáttu minni: Abusus non tollit usum. Þ.e.a.s. þó að hægt sé að misnota eitthvað, erþað ekki nægur grundvöllur til að banna það. Ef allt sem mögulega getur haft slæmar afleiðingar væri bannað væri lífið ansi erfitt.

Jimy Maack sagði...

Ég vil vísa á pistil sem ég skrifaði á bloggi mínu á myspace síðu minni um frelsið og vitna í þann pistil (mér þykir undursamlega gaman að vitna í sjálfan mig):


Það vill oft gleymast í hinu daglega amstri að líkamar folks eru þeirra eigin eignir.
Helst gleymist þegar kemur að neyslu ýmissra efna, svosum tóbaks, áfengis og annara vímuefna, svo og hefðunar sem skarast yfir siðsemismörk hvers og eins, einkum hvað varðar kynferðislega hegðun, verslun með kynlíf og/eða kynlífstengt efni.
Víðast hvar í hinum vestræna heimi eru önnur vímuefni en áfengi og tóbak ólögleg sem og kynlífsþjónusta.
Hefur þetta leitt af sér neðanjarðarhagkerfi í tengslum við þessi fordæmdu horn samfélagsins og gert þeim einstaklingum sem iðjur þessar stunda ókleift að taka þátt í að axla ábyrgð á sínum skyldum gagnvart samfélaginu, þar með talið skattgreiðslur í sameiginlega sjóð, sjóði sem einnig sjá þeim sem hafa farið glapstigu í meðferð sinni á fíkniefnum fyrir endurhæfingu.

Úrræði samfélagsins hafa einatt verið þau að sópa þeim vandræðum sem oftar en ekki fylgja þeim vandræðalegu lagasetningum sem viðkoma þessum málaflokkum undir teppið og fangelsa þá einstaklinga sem þessar iðjur stunda.

Þess í stað væri skynsamlegt, til þess að tryggja frelsið að halda þessum málaflokkum í dagsljósinu og gera þeim sem kynlífsiðnað og fíkniefnasölu það kleyft að axla ábyrgð á tilveru sinni.
Með því væri hægt að koma í veg fyrir mansal, tryggja portkonum og mönnum verkalýðsréttindi og tryggingar, heilbrigðisþjónustu og lífeyri.
Eins gerði þetta fíkniefnaneytendum það kleyft með skattgreiðslum að greiða fyrir eigin meðferðarúrræði og taka þar með ábyrgð á eigin gjörðum.
Lögleiðing hefði einni í för með sér þann gleðilega fylgifisk að hægt yrði að hafa hemil á þeim glæpum sem neðanjarðarhagkerfinu fylgja, koma í veg fyrir ofbeldisverk og eignaspjöll og losa samfélagið undan flestum þeim óhjákvæmilegu bágindum sem fylgt hafa núverandi kerfi.


Ég vil svo benda þér á að síðasti pistill þinn fór síður en svo fyrir brjóstið á mér en það fór nett í taugar mínar að þú málaðir alla flokksbræður mína sem fífl vegna Valdimars sem er jú flokksflótta Samfylkingur og hefði því verið nær að uppnefna þá diet-komma sem þar þrífast sem fífl.

Nafnlaus sagði...

Daginn langaði bara að kvitta fyrir komuna prófa að setja saman setningu án greinarmerkja góðar stundir

Nafnlaus sagði...

Góður pistill - en ég verð að fá að leiðrétta eitt sem Eva bætti við hérna.

Það er einfaldlega rangt að sömu lögmál gildi á frjálsum markaði og fíkniefnamarkaðnum. Það er endalaust framboð af gosi og drykkjum hvert sem maður fer og Coke og Pepsi þurfa að berjast um hvern kúnna til að sannfæra hann um að:

A) Drekka gos
og
B) Drekka sitt gos

Fíkniefni eru hins vegar í gríðarlegri eftirspurn á meðan framboð er ákaflega takmarkað, það útskýrir hvers vegna kíloverðið á kannabisplöntu er þrjár milljónir í lausasölu en agúrkur kosta töluvert minna.

Fyrir vikið þurfa fíkniefnasalar ekki að elta viðskiptavini, viðskiptavinir þurfa oftar en ekki að elta fíkniefnasala. Fíkniefnasalinn ræður oftast ferðinni, hann ákveður stað og stund, hann ákveður verð, hann ræður gæðunum.

Ef einhver kúnni segðist ætla að snúa sér annað ef hann fengi ekki fría prufu myndi salinn hreinlega hlæja að honum - vandamál salanna er að eiga nóg af efni en ekki að safna viðskiptavinum sem eru á hverju strái og borga margir fáránlegar upphæðir ef þær eru settar upp.

Bottom line: fríar prufur og gilliboð eru nánast óþekkt í fíkniefnaheiminum, að minnsta kosti er tilgangurinn ekki að stækka kúnnahóp sem nú þegar er óviðráðanlega stór.

Nafnlaus sagði...

Litla-kaupstaður

stingur í augu

Davíð Þór sagði...

Litla-....hrauns-kaupstaður. Ekkert athugavert við þetta.

Nafnlaus sagði...

það sem er athugavert við þetta er að þetta er ljótt.

málfræðin má fara fjandans til.

bestu kveðjur s.s.á.

Nafnlaus sagði...

Ég þekki marga sem hafa notað fíkniefni um lengri eða skemmri tíma en engan sem borgaði sjálfur fyrir fyrsta skammtinn sinn. Þótt dópmangarar auglýsi ekki fría prufuskammta er ekki þar með sagt að þeir séu ekki í boði. Og af hverju skyldi það nú vera raunin?

Nafnlaus sagði...

Það er allt annað mál ef maður er að djamma með einhverju rugl liði sem gefur manni með sér. Ég gef fólki áfengi þegar ég er að djamma með því, enda er það vímuefnið sem ég nota.

Ég efa stórlega að þetta fólk sem þú þekkir hafi lent í einhverjum útreiknuðum eiturlyfjasöluhring sem gaf því ókeypis efni til að stækka kúnnahópinn. Maður réttir jónuna einfaldlega til næsta mans af kurteisi.

Nafnlaus sagði...

Mér hafa oft verið boðin fíkniefni, enda finnst flestum það sjálfsögð kurteisi að gefa með sér. Flestir eru hins vegar fegnir ef boðinu er ekki tkið, enda fíkniefni ekki sérlega ódýr.

Nafnlaus sagði...

Þetta þykir mér góð og gild umræða en þó tel ég miður að rægja Kleppsbúa. Margir eru þeir haldnir sjúkdómi og því ekki við hæfi að skilgreina þá sem „ótöff.“

Skrifað af MR-ingi sem enn er bitur eftir 70 manna þýðinguna.

Davíð Þór sagði...

Ekki vakti fyrir mér að rægja Kleppsbúa, heldur einmitt að benda á að fíkn er fyrst og fremst skelfilegur sjúkdómur - í líkingu við þá sem vistmenn á Kleppi þurfa að kljást við og að það að koma sér upp þeim sjúkdómi sé ámóta eftirsóknarvert og að vera vistaður á þeirri annars ágætu sjúkrastofnun.

Hildigunnur sagði...

hei, eitt laganna minna er hér í byrjun þáttar :-)