mánudagur, mars 26, 2007

Enn lýgur Alcan

Það hefur verið óskaplega sorglegt að sjá áróðursvél álverssinna drekkja allri málefnalegri umræðu um stækkunaráform Alcan í Straumsvík undanfarið. Lygarnar eru svo yfirgengilegar að það hefur meira að segja tekist að ljúga því að Hafnfirðingum um hvað sé verið að kjósa.

Málaliðar stóriðjunnar hafa gerst svo djarfir að vara við því að fyrirtæki séu kosin burt. Það er ekkert annað en auvirðuleg lygi að halda því fram að það standi til.

Það er kosið um hvort samþykkja eigi álver af þessari stærð á þessum stað til framtíðar. – EKKERT ANNAÐ!

Jafnvel Rannveig Rist lét svo um mælt fyrir skömmu á heimasíðu álversins: "Engar áætlanir eru uppi um lokun álversins ef ekki kemur til stækkunar enda gengur verksmiðjan vel og árangurinn er góður, bæði á tæknilegum mælikvörðum og í umhverfismálum."

Þessi ummæli stóðu þar óhögguð til 27. febrúar 2007, þá var þeim skipt út fyrir bölmóð um lokun og rekstrarlega óhagkvæmni núverandi stærðar. Hvað gerðist í millitíðinni? Breyttust allar rekstrartæknilegar forsendur á einu bretti?

Ætli ekki sé líklegra að það sem hafi breyst sé að þeir alræmdu spuna- og brellumeistarar sem ráðnir voru að áróðursmaskínu álversins í febrúar síðastliðinum sáu að hömlulaus hræðsluáróður, sama á hve miklum þvættingi hann væri byggður, væri líklegri til að fá Hafnfirðinga til að samþykkja stækkunina en sannleikurinn.

Nefna mætti fleiri dæmi um vísvitandi, blákaldar lygar sem Alcan og leiguþýið hafa sett fram til að blekkja Hafnfirðinga til að samþykkja stækkun álversins í Straumsvík:

1. Alcan lofar Hafnfirskum fjölskyldum 250 þúsund króna í viðbótartekjum á ári á sama tíma og eini óháði aðilinn sem fjallað hefur um fjárhagsleg áhrif stækkunarinnar segir að ábatinn af stækkun gæti orðið 6000 - 8000 krónur á mann á ári. (Hagfræðistofnun Íslands, Kostnaður og ábati af hugsanlegri stækkun álvers, mars 2007). Alcan gengur svo langt að blanda saman niðurstöðum Hagfræðistofnunnar og áróðursgögnum frá Samtökum Atvinnulífsins og kynna niðurstöðuna í nafni Hagfræðistofnunnar í auglýsingum. Fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar hefur kynnt þá stefnu bæjaryfirvalda að allar viðbótartekjur bæjarins á næstu árum fari til greiðslu langtímaskulda (fundur í Bæjarbíó 22. mars, sjá http://bhsp.hafnarfjordur.is/) og því sé ábyrgðarlaust að vekja vonir í hugum bæjarbúa um viðbótartekjur til heimilana í bænum.

2. Alcan kynnir mengunaraukninguna við stækkun á álverinu í mengunartölum á hvert tonn af framleiddu áli. Það er auðvitað aukning á heildar-mengunarlosun frá álverinu sem skiptir Hafnfirðinga máli, ekki hve mikið það mengar að framleiða hvert tonn áls. Mengunarlosun mun aukast mikið við stækkun og það ber að kynna fyrir bæjarbúum. Líka hvort lækkun fasteignaverðs í kjölfar aukinnar mengunar kunni hugsanlega að nema meiru en 6000 - 8000 krónum á mann á ári.

3. Alcan kynnir niðurstöður úr mengunarmælingum á brennisteinsdíoxíði sem ársmeðaltöl, ber það saman við heilsuverndarmörk í sólahringsgildum og heldur því fram að mengunin megi tvöhundruðfaldast til þess að ná heilsuverndarmörkum. Tölur Alcan byggja aðeins á hluta af gögnum eins árs og er tala þeirra er undir ársmeðaltali síðustu fjögurra ára, sbr. gögn á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

4. Alcan heldur því fram við Hafnfirðinga að álframleiðsla allstaðar annarstaðar í heiminum en í Hafnarfirði valdi stórkostlegum útblæstri gróðurhúsaloftegunda en útblástur í Hafnarfirði sé næsta enginn (DVD diskur borinn í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007). Rétt er að 55% af allri álframleiðslu í heiminum er með vatnsorku og talið eru að hlutfall kolaorku í framleiðslunni muni ekki aukast í náinni framtíð.
( http://www.world-aluminium.org/environment/electric.html ).

5. Alcan sýnir Hafnfirðingum glansmyndir af stækkuðu álveri án línumannvirkja, skorsteina og turna í fullri stærð og annars útbúnaðar sem þarf til þess að hægt sé að reka álver (DVD diskur borinn út í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007). Heiðarlegra væri að segja Hafnfirðingum eins og er að hönnun liggur ekki fyrir og því er óvitað hvernig húsin og svæðið í kring koma til með að líta út ef af stækkun verður (sbr. upplýsingar frá Agli Guðmundssyni starfsmanni Arkís í Bæjarbíó 8. mars 2007, sjá http://bhsp.hafnarfjordur.is/ 15.mars). Þessir áberandi verksmiðjuskorsteinar gætu orðið eitt helsta tákn Hafnarfjarðar í framtíðinni.

6. Alcan sýnir Hafnfirðingum jafnvel falsaðar glansmyndir af núverandi álveri, þar sem línumannvirki, skorsteinar, turnar í fullri stærð og annar útbúnaður, sem er lítið augnayndi en samt nauðsyn til þess að hægt sé að reka álver, hefur verið "fótósjoppað" burt!

7. Fulltrúar Samtaka Atvinnulífsins segja Hafnfirðingum að í kringum álver spretti upp sprota- og þekkingarfyrirtæki (DVD diskur borinn í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007) þegar staðreyndin er sú að þau 40 ár sem Ísal/Alcan hefur starfað í Hafnarfirði hafa einungis þrjú fyrirtæki orðið til vegna starfsemi álversins (heimild: http://www.alcan.is/) og aðeins eitt af þessum þremur fyrirtækjum má kalla sprotafyrirtæki.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tal um að drekkja eigi bænum í drullu og skít eru nú sama marki brennd og lygarnar sem Alcanmenn eru að spýja frá sér.

En þó er eitt sem menn hafa ekki vakið athygli á, en það er framkvæmd mengunarmælinga í álverinu sjálfu. Kerskálastarfsmenn geta vottað um að þegar mengunarmælingar eru gerðar í einhverjum skálanna, eru gefnar út skipanir um að starfsemi skuli vera í algjöru lágmarki á meðan. Öll vinna í kerjum (sem felst í því að opna kerin og hleypa menguninni þannig út fram hjá lofthreinsikerfinu) skal stöðvuð á meðan á mengunarmælingu stendur. Mengunarmæling merkir í raun að starfsmenn sem ella ættu að vera að störfum í viðkomandi skála eru skipaðir til að taka sér 3 tíma kaffipásu.

Tölur um mengun per tonn miðast því í raun við að ekkert sé krukkað í kerjunum - þetta eru þannig lágmarkstölur.

Ég veit ekki hvort framkvæmdar séu aðrar mælingar með eðlilegri starfsemi og niðurstöður þeirra bornar saman við þessar sem nefndar eru að ofan. Svo tel ég þó ekki vera.

Mælingar UST sem framkvæmdar eru utan álverslóðarinnar eru þó alveg marktækar og ég held að þú vitir að útblástur frá álverinu er ekki slíkur hættuvaldur sem þú reynir að gefa í skyn í skrifum þínum.

Það væri t.a.m. gaman að bera saman mengunina frá skipunum í höfninni og mengunina frá álverinu.

Nafnlaus sagði...

Heh, þetta innslag fyrrverand starfsmannsins hér að ofan minnir mig á nokkuð.
Fyrir nokkrum árum vann bróðir minn í álverinu í Straumsvík. Dag nokkurn kom hann heim með grillgræjur, þ.e. grilltöng o.þ.h., ásamt svuntu. Á svuntunni var áletrun sem innihélt hamingjuóskir til starfsfólks með svo og svo marga slysalausa daga(man ekki fjöldann). Þegar ég lyfti brúnum yfir þessu, hnussaði hann og sagði að það væri nú ekki mikið að marka þetta, á milli álvera út um heiminn, innan fyrirtækisins samt, væri nefnilega í gangi keppni um það hvaða álver hefði lægstu slysatíðnina. Því væru þeir starfsmenn sem brytu í sér bein og annað smávægilegt í vinnunni, hvattir til að vera ekkert að hafa hátt um það. Þar með næðist þessi frábæri árangur....

Ég fékk að eiga græjurnar og nota svuntuna með áletruninni í hvert sinn sem ég elda eitthvað sem útheimtir óvenju mikinn subbuskap.

Kannski viðeigandi?

Davíð Þór sagði...

Tja ... jæja ... drekkja er kannski fulldjúpt í árinni tekið. Það þarf sennilega meira en 70 tonn til að drekkja heilu íbúðahverfi. Eigum við að sættast á "kaffæra"?

Nafnlaus sagði...

Takk Davíð. Ég vona að þú sért á leið á fundinn í Hafnarfirði á morgun, miðvikudag.

Nafnlaus sagði...

Vildi bara bæta við umræðuna að þetta "skrímsli" er það fyrsta sem útlendingar sjá þegar þeir koma frá Keflavík. Allar fullyrðingar undirritaðs um hvað Ísland sé fagurt og ómengað land falla um sjálft sig þegar ekið er framhjá núverandi gímaldi, hvað þá eins og það verður eftir stækkun.

Ég meina, ekki skellirðu sorptunnunni á útidyraþrepið hjá þér, þannig að það sé það fyrsta sem gestir sjá þegar þeir mæta? Nei, þú felur tunnurnar einhverstaðar til hliðar, bakvið eða í þar til gerðum skúrum.

Er engin aulahrollsfaktor í þessu máli?

Unknown sagði...

Mikið djöfullega er þetta skemmtileg grein. Þú ert snilldarpenni.