mánudagur, mars 19, 2007

Fagri Hafnarfjörður?


Senn taka Hafnfirðingar afdrifaríkustu ákvörðunina sem tekin hefur verið um framtíð bæjarins síðan Hansakaupmenn réðu þar ríkjum. Spurt er hvort bæjarbúar vilji að stærsta álbræðsla Evrópu rísi í hjarta Hafnarfjarðar.
Í raun er undarlegt að spyrja þurfi að að þessu. Ef af fyrirhugaðri stækkun verður mun álverið í Straumsvík nefnilega ausa um 70 tonnum af svifryki á ári yfir íbúabyggð í bænum. Losun gróðurhúsalofttegunda mun rúmlega tvöfaldast og fyrirhuguðu útivistarsvæði verður fórnað undir stærstu línumannvirki á Íslandi með 36 metra háum möstrum. Dettur einhverjum virkilega í hug að það sé hagur Hafnarfjarðar?
Það hefur verið dapurlegt að sjá hvernig útlenskir auðkýfingar með fulla vasa fjár og íslenskt leiguþý þeirra hafa dembt bláköldum lygum og hræðsluáróðri yfir Hafnfirðinga til að fá þá til að makka rétt og lúta hagsmunum fyrirtækisins. Sýndar eru fallegar myndir af ímynduðu álveri þar sem „óvart“ vantar allar raflínur, skorsteina jafnháa Hallgrímskirkju og ýmislegt annað sem þarf til að álbræðslan yrði starfhæf. Jafnvel eru sýndar myndir af litlu álveri í Noregi sem er jafnlíkt fyrirhugaðri stóriðju í Straumsvík og lambasparð er fjóshaugi. Af hverju ætti sá sem hefur sannleikann sín megin að ljúga?
Sagt er að verði stækkunin ekki samþykkt verði álverinu lokað því núverandi stærð sé svo óhagkvæm í rekstri. Hún er þó ekki óhagkvæmari en svo að aðeins þrjú þeirra 22 álvera sem ALCAN starfrækir nú eru stærri. Af hverju ætti álverið í Straumsvík að vera lagt niður? Af því að það er svo þreytandi að græða bara fjóra milljarða á því á hverju ári? Enginn hefur nefnt að loka eigi einhverju hinna álveranna.
Og þótt lokað yrði, bættur sé skaðinn. Nýlega misstu um 600 manns vinnuna við brotthvarf Bandaríkjahers. Samt lagðist byggð á Suðurnesjum ekki af eins og hótað hafði verið. Íslenskt atvinnulíf þyrstir í vinnuafl. Vinnufær Íslendingur er ekki vandamál, hann er tækifæri. Það er ALCAN sem þarf Hafnarfjörð, ekki öfugt – sama hve mörghundruð milljónum fyrirtækið ver til þeirrar blekkingar.
Látum ekki ljúga vitið úr hausnum á okkur. Látum ekki stjórnast af innihaldslausum hótunum og hræða okkur til undirgefni.
Seljum ekki erlendum auðhring Hafnarfjörð barna okkar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 18. mars 2007

21 comments:

Nafnlaus sagði...

Verði svo.

Davíð Þór sagði...

Þegar hafa skapast nokkrar umræður um þessa bakþanka á netinu. http://visir.is/article/20070318/SKODANIR06/103180109
Þeir sem vilja leggja orð í belg hefðu kannski áhuga á að taka þátt í umræðunni þar, en auðvitað er orðabelgurinn galopinn hér líka.

Nafnlaus sagði...

Er eitthvað skárra að selja íslenskum auðhringjum Hafnarfjörð?

Eða íslenskum eða erlendum not-for-profit hringjum?

Erlendum einstaklingum með sæmileg fjárráð, en samt ekki of mikil?

Hvaða mæliaðferðir notar þú þegar þú metur hvaða fjármagnseigendur séu æskilegir?
Borðar Alcan börn? Eru kynlífsþrælar í baxítnámum fyrirtækisins í Ástralíu?

Það er hins vegar alveg rétt sem þú segir með hræðsluáróðurinn og lygarnar. Það eru miklir spin-doktorar að störfum fyrir Álverið og um að gera að benda á þvæluna sem frá þeim kemur.


Myndin sem þú notar er reyndar af sama meiði, hún er greinilega tekin þegar bilun eða óhapp hefur orðið á lofthreinsikerfi álversins og alls ekki lýsandi fyrir ásýnd álversins úr hlíðum Hafnarfjarðar.

Tölur um svifryk eru líka svolítið villandi og hægt að snúa þeim í ýmsa hringi. T.a.m. kemur 25-35% svifryks í Rvk frá náttúrunni sjálfri og um 64% frá bílum. Báðar tölurnar eru frá Umhverfisstofnun.

Ekki hef ég orðið mjög var við slæmt loft í Hafnarfirði hingað til, ólíkt því sem gerist í Reykjavík.

http://www.ust.is/Mengunarvarnir/Loftgaedi/
http://www.ust.is/Mengunarvarnir/Loftgaedi/Svifryk/

Svifryk má skv. Evrópustöðlum ekki fara yfir 20 μg/m3.
Með stækkun verður ársmeðaltalið 5 μg/m3 á sjálfri lóð álversins. Á þynningarsvæðinu (útivistarsvæðinu sem þú talar um, þetta með öllu fallega iðnaðarhúsnæðinu) verður meðaltalið 0,3 μg/m3. Já 0,3.
Matskýrsla Hönnunar vegna stækkunar: http://alcan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=215

Álverið mun aldrei komast með tærnar þar sem bílaumferð hefur hælana hvað svifrykið varðar.

Ég vil ekkert sjá þessa stækkun, en það er þreytandi að sjá fólk reyna að mata samborgara sína á útúrsnúningum.

Lygahótanir um lokanir og ljótleiki mannvirkja sem munu rísa þarna í kring (á hné bæjarins, frekar en í hjartanu - en nota þú það orðalag sem þér hentar), eru alveg ágætis rök gegn álverinu og þú þarft ekki að finna upp ný eða henda fram stórum tölum án nokkurs samanburðar.

Við vitum það báðir að börnin okkar munu ekki kafna úr koltvíoxíði eða fá krabbamein af álverssvifryki þótt þau alist upp í Hfirði með stærra álveri.

Nafnlaus sagði...

Bestu bakþankar þínir - til þessa. Hafðu þökk fyrir.

Davíð Þór sagði...

Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta og auðvitað tala ég enga tæpitungu, nóg er af óáhugaverðu tuldri og þurri tölfræði í umræðunni. Mig langaði til að tekið væri eftir því sem ég segði. Hins vegar varðandi hné/hjarta ... Vissulega er Straumsvík í útjaðri bæjarins en þegar ég var strákur í Hafnarfirði var hún langt fyrir utan bæinn. Haldi Hafnarfjörður áfram að vaxa, jafnhratt og hann hefur vaxið síðan þá, verður Straumsvík komin inn í miðjan bæinn löngu áður en leyfistími verksmiðjunnar rennur út. Hafnarfjörður mun ekki stækka út á Álftanes eða inn í Garðabæ því þá væri það Álftanes eða Garðabær - ekki Hafnarfjörður.

Nafnlaus sagði...

Eins og talað frá mínu hjarta, þykir það sorglegt að finna að hræðsluáróður Alcan er að vinna á hjá þeim sem ég hef rætt þessi mál við undanfarið. Eeeen...Davíð sigraði Golíat :)

Jimy Maack sagði...

Hmm... reyndar er það svo að varla eru meira en 10 ár þangað til að Garðabær, Hafnarfjörður og Álftanes verða samgróin, og væntanlega verður þá ekki langt að bíða þartil samfelld byggð verður frá Kjalarnesi og vestur eftir Reykjanestanga í átt að Vatnsleysu.

Hvað varðar þetta álver þá held ég að við séum farin útá ansi hálan ís með þennan sama iðnað sem kominn er um hvern tanga og fjörð, en aftur á móti megum við ekki leggjast í það andóf gegn öllum þeim atvinnugreinum sem mögulega gætu skilað mælanlegum þjóðararfi sem Vinstri Grænir hafa gerst sekir um undanfarið.

Það er virkilega trist að þetta virðist eina hugmyndin sem (von bráðar fráfarandi) þaulsetin ríkisstjórn hefur haft fyrir iðnað í landinu, en það er einusinni svo að stór hluti landsmanna nær ekki endum saman og byggð mun endanlega leggjast af á þeim stöðum þaðan sem kvótinn hefur horfið ef engin önnur úrræði finnast.

Enginn hefur komið með betri lausnir, sem eru líklegar til þess að virka undanfarið, eða þá að þær hafa ekki fengið að virka einhverra hluta vegna. Þannig var tildæmis með Krókódílabýlið á Húsavík og fleiri og fleiri gullnar hugmyndir sem hljóta þann dóm að vera aðeins svokallaðir pípudraumar.

Ég er reyndar sammála því að álverið í Straumsvík sé alveg nógu stórt, en lykilatriði sem náttúruverndarsinnar verða að taka til sín eru tvenn.

a) Ekki fara með eilífar fleypur og bull sem haft er eftir kommúnistum sem hafa engar sannanir fyrir máli sínu. Það eru ansi margir innan raða náttúruverndarsinna sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala og eru í sífellu jarmandi upp úr sér einhverjar órökstuddar romsur sem þeir hafa gleypt upp eftir einhverjum reiðum eldri mönnum.

b) Ekki nota hræðsluáróður í anda öfgaiðnaðarsinna sem reyna að halda því fram að þetta séu einu lausnirnar við vanda þjóðarinnar. Stóriðja virkaði þó vel fyrir bæði Þjóðernissósíalista Þriðja Ríkisins og Sósíalista Sameinuðu Sovésku Ráðstjórnarríkjanna, en það eru til fleiri lausnir og það er þó leiðum að líkjast að apa upp lausnir þeirra á vandamálum. Ef umhverfisverndarsinnar notuðu staðreyndir, sannleika og málefnalega umræðu í stað þeirra aðferða sem nýttar hafa verið fram til þessa held ég að þeim myndi vegna mun betur.

Eins held ég að það ætti að hafa varann á þegar hryðjuverkasamtök í anda ALF og ELF eru farin að blanda sér í átökin, því slíkt fólk er ekki að berjast fyrir bættu lífi, heldur athygli og stuðningi við vafasöm öfl sbr. PETA og Sea Shepard.

Davíð Þór sagði...

Halló, halló? Fleipur og bull! Hræðusluáróður? Það er ekki eitt orð í þessum bakþönkum sem ekki er bláköld staðreynd, ekki eitt orð sem ég treysti mér ekki til að bakka upp með rökum. Þeir sem saka mig um að fara með rangt mál ættu að láta dæmi um rangfærslurnar í textanum um fylgja - ásökunum sínum til staðfestingar - eða halda munni ella!!! Og hananú!

Jimy Maack sagði...

Ég var ekki að tala um þig persónulega, heldur náttúruverndarsinna á Íslandi, og reyndar um gervallan heim, en þú stekkur samt upp og tekur þetta til þín!
Þú mátt vita það að þú ert einn af fáum ströngum náttúruverndarsinnum sem ég ber virðingu fyrir sem skeleggum og rökföstum talsmanni. Hinsvegar hef ég heyrt slíkar ambögur frá ýmsum náttúruverndarsinnum að mig hryllir við.
Þar á meðal hef ég heyrt, manneskju sem ég vill ekki nafngreina til þess að gera hana ekki að frekari athlægi, kalla Elliðavatn 'náttúruparadís, ósnortna af manna höndum' -þegar öll N-hlið vatnsins er stífla og það er eimmitt ástæðan fyrir veru vatnsins á þessum stað á annað borð!

Hræðsluáróðurinn hefur komið fram hjá báðum hliðum, ég hef alltaf verið talsvert mikill náttúruverndarsinni, en ýmsir náttúruverndarsinnar, til að mynda Ómar Ragnarsson hafa gerst sekir um slíkar rangfærslur (og myndbirtingar af óviðkomandi svæðum í sambandi við virkjanatal) að ég fór að endurskoða afstöðu mína til umhverfismála algjörlega.

Helsta heimskan sem ég sé í stækkun þessa álvers er eimmitt sú sem ég vík að í byrjun svars míns við grein þinni að samfelld byggð til Vatnsleysu verði komin innan tiltölulega fárra ára og mig hryllir við því að álverið skuli ekki frekar hyggja á að flytja sig útúr borgarkjörnum þar sem það er blákaldur sannleikur að alvarlegar sprengingar geta átt sér stað í slíkum verksmiðjum og því sé ekki rétta að storka örlögunum. Ég er ekki að segja að það komi ekki til að kosta stóran skildinginn og ég er ekki að sprenging muni gerast, en það er möguleiki á því, og mér þykja líf landa minna mun verðmætari en svo að ég geti látið mér standa á sama.

Hinsvegar er vandamálið það að iðnaður er einn af undirstöðum atvinnuvegs okkar Íslendinga, og þó við ætlum öll að vera hipp og kúl og með gullin þekkingarþorp og meika voða fínan pening á því að sýna Þjóðverjum fossa og frussuhveri, þá er ávalt nauðsyn að hvert hagkerfi hafi í undirstöðu sinni framleiðslustörf.
Þá er það bara spurningin um hvar þetta álver ætti að vera, en gallinn er bara sá við okkur Íslendinga að við elskum landið okkar svo mikið, bæði til hægri og vinstri að það finnst hvergi sá staður þar sem ekki verður einhver sem segir; 'þetta er fallegasti staður á landinu...'

Ef við gæfum okkur það, hæpóþettikallí eins og kaninn segir, að álver væri nauðsyn, hvar vildiru hafa það?

Það er ekki svo að ég sé sterkur stuðningsmaður Alcan eða Sólar í straumi, mér finnst bara umræðan hafi einkennst annaðhvort af hræðsluáróðri eða bleikum skýjum frá annari hliðinni og annaðhvort hræðsluáróðri eða drullukökum frá hinni hliðinni.

Svo koma stöku sinnum ágætisgreinar, en andsk! það þarf að lyfta umræðunni á hærra plan.

Alda sagði...

Langaði mest til að standa upp og klappa þegar ég las bakþankana þína á sunnudaginn. Frábær pistill í alla staði, mjög áhrifamikil lesning. Má ekki til þess hugsa að þessi stækkun verði að veruleika. Takk fyrir að leggja þitt að mörkum.

Kaffikella sagði...

Loksins kom vitræn umfjöllun! Húrra fyrir þér, sammála að þetta er einn besti bakþanki sem frá þér hefur komið, þó samkeppnin sé hörð!

Láttu bara heyra HÆRRA í þér!

Pétur Sigurðsson sagði...

Þessu óþverramáli alveg ótengt reyndar og sveiattan Alcan.

Í keppni Versló og MR í gær var spurt um Brandenburg, sem vissulega er sérnafn en þýðir samt bara Brandenkastali eða Brandenhöll. Verslingar skutu á Branden eitt og sér. En spurningin er. Ef spurt hefði verið um Balmoral eða Windsor hallir/ kastala hefði þá þurft að hnýta castle aftan við svarið? Burg er jú ekkert annað en höll eða kastali og Branden þá svipað og Balmoral eða Windsor eitt og sér.
Bara að spökulera, þar sem þetta svar þeirra var þeim dýrt að mér fannst.

Nafnlaus sagði...

Auðvitað átti að gefa Versló rétt fyrir svarið Branden. MR var gefið rétt fyrir Branden-borg. Hvað þýðir orðið "borg"? Í alls kyns samhengi þýðir það "kastali"! Spurningin var um kastala. Viðbótin í svari MR umfram svar Versló var því ENGIN.

Ég get fallist á að svar Verslinga var ekki alveg fullkomið, en það var betra að gefa þeim rétt fyrir svarið en að sitja uppi með þetta klúður.

Þetta réði líklega úrslitum í keppninni, því Versló neyddist til þess að fara að taka sénsa vegna stigamunar, sem þeir hefðu annars líklega ekki þurft að gera.

Svo er lið Versló bara miklu skemmtilegra en lið MR, og mikil synd að þeir séu dottnir út, sérstaklega í ljósi þess að það var óverðskuldað.

Davíð Þór sagði...

Branden ... Brandenburg/Brandenkastali. Ég hugsaði dæmið þannig að ef einhver hefði sagst fara að skoða Branden myndi enginn vita hvað við væri átt, en ef rætt væri um Brandenborg(arkastala/virki) væri það strax augljóst.

Ég er ósáttari við meðferð mína á þríþrautinni. Eftir á að hyggja hefði Versló átt að fá rétt frekar en MR ... en í raun hvorugt liðið, ég hefði átt að hanga á því eins og hundur á roði að fá fram orðið Útkast. Ég hefði þó sennilega brugðist þannig við hefðu úrslitin ekki þegar verið ráðin.

Ég sárvorkenni Verzlingunum líka. Þeir lentu undir og afhentu MRingum sigurinn á silfurfati með asa sínum (t. d. með súrrealismaspurningunni, Magna, Noriega en þó einkum LBJ).

Lokastaðan gaf ekki rétta mynd af getumun liðanna, hafi hann yfirhöfuð verið einhver.

Atli Freyr sagði...

Því er haldið fram að svarið „Branden“ sé fullnægjandi þegar spurt er um Brandenborgar-kastala. Á það má líta.

Slavneskir ættbálkar byggðu þetta svæði lengi en þoldu ágang Karlamagnúsar. Árið 928 hertók Hinrik fuglari höfuðvígi slavneska ættbálksins Hevella sem Branibor hét, setti þar upp búðir og nefndi Brandenburg, til samræmis við slavneska heitið Branibor, semsagt sem hljóðlíkingu, á svipaðan hátt og fornmenn nefndu Jerúsalem „Jórsali“ og Fjölnismenn kölluðu Düsseldorf „Þusslaþorp“. Staðurinn þar sem Brandenborgar-kastali stendur á hefur því frá árinu 928 eða þar um bil heitið Brandenburg en ekki „Branden“, sem er heiti sem hefur aldrei verið til í samanlagðri eitt þúsund og fimm hundruð ára málsögu þýsku þjóðarinnar.

Þá er að líta á notkun orðasambandsins „Brandenborgar-kastali“ í þýsku nútímamáli, eða „die Burg Brandenburg“. Athugun á Google leiðir í ljós að „Burg Branden“ skilar 22 niðurstöðum, en engin á við „Branden-kastala“, enda hefur hann aldrei verið til. Þarna er um að ræða skiptingar milli lína eða notkun á sögninni 'branden' aftast í aukasetningu.

Hins vegar gefur leitin „Burg Brandenburg“ 16.800 niðurstöður. Þjóðverjar setja ekki fyrir sig að segja „Brandenborgar-kastali“, og þótt þeir skynji seinni orðhlutann '-burg' að einhverju leyti sem 'kastala', gera þeir það ekki mjög sterkt, sbr. slavnesku hljóðlíkinguna áðan. Þess vegna gengur hvort tveggja „Wir waren auf der Burg Brandenburg heute“ (með tvítekningu) og einnig „Wir waren auf der Brandenburg heute“ en alls ekki „Wir waren auf der Burg Branden heute“, enda '-burg' fastur viðliður, með öllu óaðskiljanlegur.

Rökin eru þessi: Örnefnið „Branden“ hefur aldrei nokkurn tíma verið til stakt, og Þjóðverjar sjálfir tala ekki öðruvísi um bygginguna en sem „Brandenborgar-kastala“, „kastalann Brandenborg“ eða „Brandenborg“.

Mokki litli sagði...

Atli Freyr, þú ert rokkstjarna.

Nafnlaus sagði...

Alveg smá rúst hérna.

Nafnlaus sagði...

"Ég er ósáttari við meðferð mína á þríþrautinni. Eftir á að hyggja hefði Versló átt að fá rétt frekar en MR"

Nei alls ekki, lokasvar Verslinga var að merki dómarans um útkast markmanns þýddi vítakast. Þannig að þeir höfðu það ekki.

Sigrún sagði...

Góð færsla. :)
En mig langar að spyrja þig út í hvort að Sesar hafi verið keisari, hófst keisaradæmið ekki eftir lát hans?
& svo líka hvort að Skaði sé gyðja? Er hún ekki skessa gift Vananum N?y?rði sem gerður var að goði...gerir það hana að gyðju?
Annarsr mjög skemmtilegar spurningar. :)
Kveðja
Sigrún Antonsdóttir

ÁJ sagði...

Mjög lengi var rómverska keisararíkið í felum og keisararnir byggðu völd sín á prestsembættinu pontifex maximus. Ágústus var auðvitað kallaður sesar eða keisari vegna þess að hann var ættleiddur af Sesari. Þannig mætti alveg eins kalla Sesar keisara og Ágústus, eða hvorugan. Á þessum tíma var keisaratitillinn í raun ekki til sem hefðbundinn konungstitill en konungstitilinn forðuðust Ágústus og eftirmenn hans af ásettu ráði.

Síðar fara titlarnir caesar og imperator að merkja eitthvað en það gerðist smám saman.

Enginn veit hvort Skaði var gyðja í þeim skilningi að á hana hafi verið átrúnaður í heiðnum sið. En það á raunar við um fleiri goð.

Get tekið undir lokaorð Sigrúnar.

Sigrún sagði...

Takk takk fyrir góð svör ^^

Held að það þurfi þá að fara ða breyta kennslunni um rómaveldi í menntaskólum landsins ;)