mánudagur, október 23, 2006

Öpunarkenning Davíðs Bullustamps

Glöggir lesendur hafa tekið eftir því að Davíð Bullustampur lagði í síðustu viku fram tvær kenningar um eðli og tilurð heimsins hér á þessari síðu. Ásgrímur Sverrisson, vinur minn, hefur hins vegar bent mér á að sú fyrri, skóunarkenningin svokallaða, sé í raun aðeins tilbrigði við hans kenningu um eðli alls sem er. Ég veit ekki hvað sú kenning heitir réttu nafni en við skulum kalla hana Ásgrímsku, svona til að hafa eitthvað heiti á henni.
Ásgrímskan gengur nokkurn veginn út á að heimurinn sé ekki til heldur aðeins sá hluti hans sem maður (þ. e. Ásgrímur) sér hverju sinni. Þannig er hann í stöðugri sköpun og eyðingu eftir því hvernig maður (þ. e. Ásgrímur) fer í gegn um hann. Hann verður til jafnóðum eftir því sem eitthvað nýtt ber fyrir augu manns (þ. e. Ásgríms) um leið og hann eyðist að baki manns (þ. e. Ásgríms). Það að aðrir þræti fyrir að þeir leysist upp og hætti að vera til þegar maður (þ. e. Ásgrímur) hefur þá ekki fyrir augunum gerir ekki annað en að styðja kenninguna.
Ég get ekki þrætt fyrir réttmæti þessarar aðfinnslu Ásgríms og verð að beygja höfuðið í skömm og viðurkenna að skóunarkenningin er í raun aðeins daufur endurómur eða eftiröpun Ásgrímskunnar. Sjálfsagt er Ásgrímskan síðan aðeins tilbrigði við eða bergmál af enn annarri frumspekilegri hugmynd um eðli alls sem er. Það hlýtur eiginlega að vera – í ljósi öpunarkenningarinnar.
Sömuleiðis hefur Jimy Maack nefnilega réttilega bent á að óunarkenningin, sem ég lagði líka fram í síðustu viku, er í raun aðeins tilbrigði við eða eftiröpun af S. E. P. lögmálinu (E. M. V. (Ekki mitt vandamál)?) sem Douglas Adams kynnti í skáldsögunni Life, The Universe and Everything.
Ég hef því komist að því að það sé einfaldlega ekki hægt að gera eða hugsa neitt sem ekki hefur verið gert eða hugsað áður, að það að vera frumlegur sé í raun aðeins að vera sérlega ónákvæmur í öpun sinni af því sem áður hefur verið gert eða hugsað. Þetta gildir ekki bara um mannanna verk heldur er þetta náttúrulögmál sem gildir um allt sem maður sér. Öll sköpun eða þróun er í raun aðeins léleg öpun af lélegri öpun af lélegri öpun ... og þannig endalaust. Heimurinn verður m. ö. o. til við síendurtekna öpun.
Sú staðreynd að þessi kenning er aðeins stef við athugun sem Andri Snær Magnason gerir í upphafi Draumalandsins gerir ekki annað en að renna stoðum undir hana.
Vonandi getum við þá núna hætt að vera alltaf ósammála og sífellt að þræta um það hvor hafi haft á fullkomlega réttu að standa, Darwin eða Móses, fylkt liði að baki öpunarkenningunni og gerst einaðir og einarðir öpunarsinnar.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Spekingur þessi Ásgrímur. Svipar til þess að skv þessu sé heimurinn nokkurskonar matrix (þ.e. Ásgrímskan)

Hjörtur Howser sagði...

DAVÍÐ !!!

HALLÓ !!!

Kv.
HH..

Jimy Maack sagði...

Ef mér skjátlast ekki á þessi kenning sem Ásgrímur talar um uppruna sinn hjá Schopenhauer sem sagði á sínum tíma 'Das Ding an sich ist das Ding an mich' (eða hvernig sem það var nú orðað og var það í þeirri merkingu að hluturinn/heimurinn samkvæmt sjálfum sér skilgreinist eftir mícrocosmósi hvers og eins þar sem manneskjum er aðeins fært að skynja sitt eigið mícrocosm. Af því stafar þá óumflýjanlega að Marcrocosmið - alheimurinn sjálfur, er afstæður eftir þeim skynugu skepnum sem hann byggja og skynjunum þeirra og er því ekki fastastærð.

Og svo getur það líka verið að ég sé bara óforbetranlegur Besserwisser.

Davíð Þór sagði...

Hjörtur: Sæll, sömleiðis.

Jimy: Þakka þér kærlega fyrir innleggin. Það er ekkert að því að vera besserwisser.

Nafnlaus sagði...

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.
Ekki hafði ég hugmynd um að nafli alheimsins héti Ásgrímur.

Maður verður eiginlega að hitta hann, svona til að geta sagt söguna á næsta mannamóti...

Nafnlaus sagði...

Nafli alheimsins hér... hef sett niður nokkra punkta um málið á vefinn minn. Sjá: http://asgrimur.wordpress.com/2006/10/24/utlond-asgrimska-og-e%c3%b0li-allra-hluta/

Hildigunnur sagði...

besserwisserar eru kúl (stundum)

hurrðu, ertu til í að senda mér línu á hildigunnurr[at]talnet.is ?