sunnudagur, mars 05, 2006

Lítil hugleiðing um listina að sannfæra fólk um ágæti einhvers með því að segja ekkert um það

Ég er mikill aðdáandi sannfæringarkrafts. Sjálfur hef ég í gegn um tíðina öðru hverju staðið mig að því að hafa sannfært sjálfan mig um augljósustu rökleysur með sannfæringarkraftinn einan mér til fulltingis. Sannfæringarkraftur er líka mikilvægur í auglýsingum. Það er ekki nóg að segja að það sem er verið að selja sé gott, það þarf að segja það þannig að engu sé líkara en að þeim sem tali sé það mikið hjartans mál að enginn efist um að svo sé.
Nú er til dæmis verið að auglýsa ameríska bifreiðategund í sjónvarpinu. Ekki ætla ég að draga í efa að þetta sé út af fyrir sig ágætisbíll og vissulega heyrir maður ekki betur en að lesarinn sé sannfærður um að svo sé þegar hann segir: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum!" Ég held að ég hafi þurft að heyra þessa auglýsingu tíu sinnum þegar ég hætti að heyra hvernig þetta var sagt og fór að heyra hvað var sagt. Þetta er nefnilega alveg skelfilega veik fullyrðing þegar orðin ein eru skoðuð. Hvað er í raun verið að segja mér?
Í fyrsta lagi að þetta er ekki vinsælasti bíllinn neins staðar, hvorki Bandaríkjunum né annars staðar ... aðeins að þetta sé "einn vinsælasti" bíllinn. Hvað þýðir það nákvæmlega? Sjá fjórði vinsælasti? Einn af hundrað vinsælustu?
Í öðru lagi er ekki einu sinni fullyrti að þetta sé einn vinsælasti bíllinn svona almennt heldur einungis "í sínum flokki". Hvaða flokkur er það? Eru það bílar af svipaðri stærð? Bílar í svipuðum verðflokki? Bílar af svipaðri stærð í svipuðum verðflokki? Amerískir bílar í svipaðri stærð og á svipuðu verði? Í ljósi þess að þetta er frekar lítill amerískur bíll getur samkeppnin ekki verið mikil.
Í þriðja lagi er þetta ekki einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki, hver sem hann svosem er, neins staðar annars staðar en "í Bandaríkjunum" – þar sem hann er framleiddur. Þetta er ekki "einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki" ... punktur. Nei, það þarf að þrengja það niður í framleiðslulandið eitt til að þessi veika fullyrðing eigi við rök að styðjast.
Fyrirvarinn er í raun orðinn þrefaldur! Þegar að er gáð segir yfirlýsingin: "Einn vinsælasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum" nefnilega ekkert annað en: "Sumir aka um á svona bíl í landinu þar sem hann er framleiddur!" En það myndi náttúrlega enginn kaupa bíl sem ekki hefur neitt annað sér til ágætis en það, sama hvað það væri sagt af miklum sannfæringarkrafti.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta eru orð í tíma töluð. Enn og aftur nærð þú að draga fram í dagsljósið það sem flestum er hulið. Ég hló allan tíman meðan ég las því ég hef séð þessa auglýsingu og tók ekki eftir þessari staðreyndafölsun eða asnaeyradrætti sem textasmiðurinn leyfir sér. Ég gekk sumsé í gildruna, fannst þessi að þessi tiltekni bíll hlyti að vera að slá í gegn útí heimi, en svona er maður einföld sál.
Kíktu á hhowser.blogspot.com við tækifæri, kæri vinur og félagi.