fimmtudagur, mars 16, 2006

Hugleiðing um herinn


Okkur herstöðvaandstæðingum á Íslandi hefur undanfarinn áratug eða svo þótt ákveðin kaldhæðni í því fólgin að málstaður okkar skuli hvergi hafa notið jafnmikillar samúðar og í Pentagon. Því er óneitanlega kómískt að horfa upp á viðbrögð íslenskra ráðamanna við því að bandaríski herinn skuli loksins vera búinn að fá sig fullsaddan af því að geyma hér fjórar orustuþotur án vopna, að því er virðist í þeim tilgangi einum að niðurgreiða eðlilegar samgöngur Íslendinga við útlönd. Þetta geta á engan hátt talist óvæntar eða sorglegar fréttir. Hins vegar er sorglegt að í stað þess að fagna því að svo friðvænlegt sé orðið í okkar heimshluta að Bandaríkjamenn treysti sér til að tryggja varnir landsins án þess að hafa vígvélar sínar staðsettar hér á eyjunni skuli ráðamenn reka upp ramakvein og finnast þetta á einhvern hátt óeðlileg framkoma. Það er liðið á annan áratug síðan herinn tilkynnti okkur að hann vildi helst ekki vera hérna lengur. Af tillitssemi við ráðamenn okkar, sem fóru á fund herveldisins og grenjuðu út úr því framlengingu á hersetunni, hefur hann dregið brottflutninginn á langinn þar til núna. Við hverju bjuggust menn? Allt tal um að varnir landsins séu í uppnámi er bull, varnirnar eru afsökun fyrir því þurfa hugsanlega sjálf að standa straum af rekstri flugstöðvar og flugbjörgunarsveitar til að sinna þörfum okkar. Einhvern veginn hefur öllum sem áhyggjur hafa af þessum meintu vörnum landsins mistekist að benda á hvaðan okkur er ætti að vera hætta búin. Helst benda menn á hryðjuverkamenn, jafnvel þessa sem gerðu árás á Pentagon hérna um árið. Fyrst þeim tókst að gera mannskæða árás á sjálfar höfuðstöðvar Bandaríkjahers hef ég það sterklega á tilfinningunni að þeir gætu gert þær árásir sem þá lystir hér á landi hvort sem í Keflavík séu fjórar vopnlausar flugvélar merktar hernum eða ekki. Reyndar hef ég það sterklega á tilfinningunni að hugsanlegum skotmörkum hryðjuverkamanna hérlendis fækki um fjögur eigi síðar en í lok september á þessu ári. Þegar þjóðin loks ber gæfu til að sparka skósveinum stríðsherranna í Washington út úr Stjórnarráði Íslands og það verður ekki lengur enn einn hlekkurinn í keðju bandarískrar heimsvaldastefnu, sem vonandi gerist strax eftir næstu Alþingiskosningar, fækkar þeim um eitt til viðbótar. Einu slæmu fréttirnar við þetta eru þær að bandarískir hermenn sem hingað til hafa haft lítið annað að gera en að vera landi sínu og þjóð til vansa á Ránni fá nú það verkefni að vera landi sínu og þjóð til vansa í Írak. Héldu menn kannski að bandaríski herinn á Keflavíkurvelli væri einhver annar bandarískur her en bandaríski herinn í Abu Grahib?

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kanamellur
Baráttufundur um stöðu okkar og framtíðaráform kl. 12. Fjölmennum.
- Baggalútur

Nafnlaus sagði...

Persónulega fannst mér það eina góða við herinn vera lítil sjoppa sem kölluð var 'Sala Varnarliðseigna', en hún er víst hætt fyrir löngu. Sem er synd.

Nafnlaus sagði...

Það var nú enginn annar en Don Fredo sem réði ríkjum í þessari litlu sjoppu. Margir vildu meina að hann hefði byggt veldi sitt og margra áratuga setu í borgarstjórn á einmitt þessari litlu sjoppu.

Davíð Þór sagði...

Ég á enn skrifstofustól sem ég keypti þar. Sé ekki eftir einni krónu oní Don Fredo fyrir sjoppureksturinn. (Sjoppan var líka gósenland fyrir propsara og starfsfólkið þar allt hið samvinnuþýðasta - þótt ekki reki mig minni til að hafa átt bein samskipti við Donna sjálfan á því tímabili.)

Rustakusa sagði...

Ég vandi komur mínar í búlluna frá ca. 12 ára aldri, alltaf fann maður eitthvað, kakó, úlpur, skjalaskáp.
Svo seinna meir 30+ ; eldhúsljósakúpla, vinnugallar á karlinn, allar þær skrúfur og rær sem maður fann ekki annars staðar. Kostir og gallar við allt..þetta voru kostirnir við herinn..

Nafnlaus sagði...

Sæll vinur
Það er gaman að sjá að þú breytist ekki í afstöðu til hersins þrátt fyrir vissar útlitsbreytingar.
Ég hélt alltaf að "hnakkarnir" væru allir með tölu miklir vinir USA?
Allavega þeir fáu sem hafa einhverja skoðun á einhverju öðru en gæðum á hinum og þessum andlitskremum. hehehe
En getur þú mælt með einhverju sérstöku fyrir menn sem komnir eru yfir fertugt?
Heyri í þér
Ingi "spúkur" eða trefill vattsóever