föstudagur, janúar 13, 2006

Morðingjarnir Mikael og Jónas

Nú er allt á suðupunkti út af sjálfsmorðinu á Ísafirði og þeir á DV eru orðnir að morðingjum hjá dómstóli götunnar. Mig langar að leggja orð í belg af því að múgsefjunin er algjör og æsingurinn kominn marga kílómetra fram úr nokkurri raunveruleikatengingu. Ég er enginn aðdáandi DV, en fjandakornið – maður sem styttir sér aldur eftir að greint var frá alvarlegum ávirðingum í hans garð á forsíðu DV átti greinilega við einhver alvarlegri vandamál að stríða en tillitslausa fjölmiðla. Auðvitað er það forkastanlegt að birta nafn og mynd af manni sem grunaður er um alvarlega glæpi. Það gildir einu hve augljós sekt hans er að mati blaðamanna, það er ekki þeirra að meta sekt eða sakleysi heldur að greina frá þeim staðreyndum málsins sem erindi eiga til lesenda. Nafn hins grunaða og örorka teljast ekki til þeirra. Hann á að njóta alls vafa uns sekt hans er sönnuð af þar til bærum dómstólum, ekki ritstjórn eða sefasjúkum almenningi. En förum samt ekki að telja okkur trú um að einhver annar en sá sem sviptir sig lífi beri ábyrgð á þeim verknaði. Saklausir sem sekir menn hafa verið bornir þyngri sökum en þessum og lifað það af. Fólk hefur þolað ótrúlegustu raunir án þess að sjá sig knúið til þess að ganga fyrir ætternisstapa af þeim sökum.
Það bjánalega er að þessi voðaatburður skuli vera til þess að fólki hættir að standa á sama. Þótt afleiðingar þessarar umfjöllunar séu náttúrulega alvarlegri en áður eru dæmi um (svo ég viti) er sekt DV í þessu ákveðna tilfelli ekkert meiri en mörgum sinnum áður. Hvernig var það þegar þeir birtu ábyrgðarlaust slúður af sorpvefnum barnalandi punktur is þar sem nafngreindur einstaklingur með þjóðkunn bernskubrek að baki var sagður raðnauðgari án þess að fyrir því lægju neinar aðrar staðreyndir en nafnlausar dylgjur á vefnum? Þurfti hann að fremja sjálfsmorð en ekki láta sér nægja að flýja land, eins og raunin varð, til að fólk setti spurningarmerki við fréttaflutninginn?
Hvernig var það þegar presturinn fyrir austan birtist á forsíðu fyrir þær sakir einar að hafa haldið framhjá konunni sinni? Var glæpur hans meiri en annarra hórkarla af því að hann og konan hans voru prestar? Eða var það af því að hann hélt framhjá með karlmanni? (Að vísu töluvert yngri karlmanni, en engum ókynþroska óvita sem ekki vissi hvað hann var að gera.) Hver var helsta heimild DV í því máli? Jú, náungi sem komist hafði að fyrirætlunum klerksins þegar hann sjálfur var á netinu að reyna að komast í kynni við unglingspilta (af hverju skyldi það nú hafa verið) og gerðist í kjölfarið brotlegur við allar reglur um friðhelgi einkalífsins með því að "stalka" prestinn og veitast að honum í sundi! Þurfti presturinn að drepa sig til að fólk áttaði sig á því að hann var eina manneskjan á Íslandi sem af einhverjum ástæðum var ástæða til að slá upp á forsíðu fyrir þá sök eina að hafa verið ótrú maka sínum?
Jónas og Mikael voru auðvitað fullkomlega siðlausir ritstjórar, en þeir voru þó upp að vissu marki heiðarlegir í siðleysi sínu. Enginn var óhultur, allir voru jafnóhultir. Mér finnst nefnilega stundum að fólk gleymi því að fyrir ritstjórnartíð þeirra var DV sannkallaður sorasnepill. Þar var gefið út veiðileyfi á ákveðna einstaklinga, þeir jafnvel vísvitandi bornir röngum sökum á meðan öðrum var hampað, þeir fegraðir og þagað yfir öllum ávirðingum í þeirra garð til að þjónusta persónulega duttlunga þáverandi ritstjóra, Óla Björns Kárasonar. DV Mikaels og Jónasar gaf sig aldrei út fyrir að vera neitt annað en það var. DV Óla Björns birti markvissar fréttafalsanir til að gæta pólitískra hagsmuna valdhafa.
Í tíð Óla Björns birtist einu sinni mynd af mér í blaðinu og undir henni stóð að ég hefði sett barnaklám á netið. Öllu verr er varla hægt að meiða æru nokkurs manns. Engir fyrirvarar voru við þessa fullyrðingu, ekki útskýrt að inn á heimasíðu blaðs sem ég ritstýrði hefði ég látið tengil inn á aðra síðu, sem tengill á meint barnaklám hafði verið settur inn á mörgum vikum eftir að ég hætti störfum hjá tímaritinu. Fullyrt var að ekki hefði náðst í mig – sem var bláköld lygi. Það hafði ekki einu sinni verið reynt að ná í mig. Þeir vissu GSM númerið mitt og ég var innan þjónustusvæðis allan tímann sem blaðið var í vinnslu. Það þjónaði einvörðungu hagsmunum Óla að svipta mig ærunni og sverta mannorð mitt. Hvar var "lynch mobbið" með kyndlana þá?
Þegar málinu var loksins vísað frá eftir rannsókn sem leiddi ekkert í ljós og sakleysi mitt af þessum ávirðingum hafði verið sannað reyndi ég að kæra þessa umfjöllun til siðanefndar Blaðamannafélagsins sem vísaði málinu frá á þeim forsendum að meira en sex mánuðir væru liðnir frá því að umræddar persónusvívirðingar birtust. Þær munu því standa óleiðréttar um tíð og tíma, sagnfræðingum framtíðarinnar til afþreyingar. Ef ég hefði hengt mig þá væri Óli Björn í dag sennilega álitinn hafa líf mitt á samviskunni.
Mig langar ekki að fella dóma yfir fólki. En ef þeir Mikael og Jónas hafa með skrifum sínum tryggt sér eilífðarvist á Hótel Helvíti verða þeir að mínu mati að bíta í það súra epli að svítan er frátekin fyrir Óla Björn.
Það virðist að vísu vera ávísun á holskeflu af móðursýkislegum viðbrögðum að reyna að ræða þetta mál af skynsemi og yfirvegun, eins og Mörður Árnason fékk að reyna í fyrradag. Þá það ... látið hana koma, kallið mig öllum illum nöfnum, ef þið viljið. Ég hef verið kallaður eitt og annað ansi slæmt á prenti og lifi þó enn!

6 ummæli:

kerling í koti sagði...

Þótt DV hafi verið andstyggilegt undir ritstjórn Óla Björns eins og við vitum, finnst mér að það hafi mátt líkja DV undir síðustu ritstjórn við mann sem ávallt ók á ofsahraða hverjar sem aðstæðurnar voru. Það hlaut að koma að því að bíllinn rynni til í hálku og lenti á einhverjum sem ekki lifði það af. Í þessu tiltekna máli finnst mér rauverulegu fórnarlömbin kannski drengirnir sem kærðu og fá nú aldrei lyktir á sínum málum. Og er nokkuð hægt að afsaka það að senda geðsjúkt fólk út í sjálfsvíg?

Nafnlaus sagði...

Skyldi nokkurn tíma hafa "gleymst" að reyna að hafa samband við fórnarlömb frétta í blaðinu eftir að Mikael tók við?
Það kæmi mér a.m.k. ekki á óvart.

Hanna sagði...

Var það kannski þessi "bjánlegi" dropi sem snarfyllti mælinn?

Unknown sagði...

Mér finnst þetta flottur pistill hjá þér og er mikið til sammála.

Nafnlaus sagði...

Vel hugsað, vel skrifað, erfitt að fallast ekki á rökin - þau eru sterk.
Hugsandi og ritfær maður sem augljóslega reynir að vanda sig þarf að forðast þær hálfvitagildrur sem algeingast er að blaðrarar falli í nútil dags. Eitthvað þjónar tilgangi ekkert þjónustar. Að þjóna er gott ef þónustan góð. að þjónusta er bull, þjónustunin er þá væntanlega veitt af þjónustunarstúlku sem veitir góða þjónustun - á ég að halda áfram?

Siggi

Nafnlaus sagði...

Það er einfaldlega ekki rétt hjá þér að DV undir stjórn Mikaels og Jónasar hafi engum hlíft. Það hlífði eigendum sínum og gekk erinda eigenda sinna ekkert síður en DV undir stjórn Óla Bjarnar. Kannast einhver við að hafa séð drullu um Jón Ásgeir á forsíðunni?