sunnudagur, janúar 15, 2006

Fernt sem lífið hefur kennt mér

Dægurþras undanfarinna daga hefur leitað mjög á huga minn, enda kristallast í því margar mikilvægar siðferðisspurningar um ábyrgð mannsins á sjálfum sér og öðrum. Þetta eru spurningar sem hafa verið mér mjög hugleiknar býsna lengi og hef ég í gegn um nám og starf, en þó einkum sára lífsreynslu, komist að nokkrum niðurstöðum í þessu efni sem mig langar að deila með ykkur (jafnvel þótt ég kunni að einhverju leyti að vera að höggva í sama knérunn og endurtaka mig frá síðasta bloggi) ef það mætti verða til þess að hjálpa einhverjum að hugsa skýrt um það sem á hefur dunið upp á síðkastið:

I. Ég einn ber ábyrgð á mér
Ef ég saga af mér löppina af því að ég fékk kartöflu í skóinn var það ég sem sagaði af mér löppina en ekki Kertasníkir – óháð því hvort ég átti skilið að fá kartöflu í skóinn eða ekki. Ef ég fer á fyllirí af því að konan mín fór frá mér get ég aðeins kennt sjálfum mér um þynnkuna, ekki konunni minni – hvort sem hún hafði góða eða vonda ástæðu fyrir því að fara frá mér. Ef ég hengi mig af því að ég er kallaður klámhundur í blöðunum er það ég sem hengi mig, ekki blöðin – og gildir þá einu hvort ég hafi verið einhver klámhundur í raun og veru eða ekki á meðan ég var lífs.

II. Músin sem læðist er miklu verri
Óvinur sem birtist með horn og hala og klaufir stórar getur vissulega verið mjög ógnvekjandi, en hann er ekki næstum því eins siðlaus og hættulegur og óvinurinn sem þykist vera góður en er svo bara vondur þegar til kastanna kemur. Það er verra að vera borinn röngum sökum af einhverjum sem almennt er tekið mark á en þorpsfíflinu. Það er ekki næstum því eins meiðandi að vera kallaður klámhundur í blaði sem allir vita að ekki virðir nein hefðbundin siðferðsiviðmið og fólk er löngu farið að lesa með þeim fyrirvara heldur en í blaði sem fólk er haldið þeim misskilningi að sé vandaður fjölmiðill.

III. Morð er aðeins tilraun til manndráps sem tókst
Ég frem ekki meiri glæp með því að kalla sakleysingja A nauðgara en sakleysingja B, jafnvel þótt sakleysingi A fyrirfari sér í kjölfarið en sakleysingi B hlæji að mér. Mín gjörð er söm. Það lýsir því engu öðru en himinhrópandi hræsni ef þjóðfélagið fylltist skyndilega vandlætingu og reiði í minn garð fyrir að hafa vogað mér að kalla sakleysingja A nauðgara, eftir að þessi sama þjóð hefur leyft mér að valsa um og kalla sakleysingja B til Ö nauðgara að vild án þess að fetta fingur út í það og meira að segja kostað framtakið í þeim tilgangi að fá slúðurþörf sinni fullnægt og fyllast um leið vellíðan yfir eigin ágæti og göfugu innræti með því að súpa öðru hverju hveljur yfir því sem hún hlustar á af áfergju og tuldra í eigin barm eitthvað um að "nú hafi ég kannski farið yfir strikið".

IV. Stundum þarf að vera vondur til að vera góður
Það sem fólki í hugaræsingi finnst gott að heyra er aldrei það sem það hefur gott af því að heyra. Æst fólk vill heyra æsing sinn réttlættan og bakkaðan upp, ekki vera beðið um að ígrunda afstöðu sína vel og vandlega og skoða málið frá öllum hliðum. Því finnst gott að heyra afdráttarlaust tekið undir með einstrengingslegri afstöðu sinni og finnst vænt um þá sem það gera, en vont að heyra einhvern véfengja að málið sé svona einfalt og er illa við þá sem neita að gerast meðvirkir. Það þarf hugrekki til að segja æstum múgi eitthvað sem hann vill ekki heyra og vera reiðubúinn til að taka afleiðingum þess. Versta gunga treystir sér aftur á móti til að segja honum að hann hafi rétt fyrir sér, því hún veit fyrirfram að þannig uppsker hún aðeins vinsældir. Það lýsir því engu öðru en heigulshætti að stökkva á vanþóknunarbylgju eins og þá sem skók þjóðfélagið í síðustu viku og ætla að "sörfa" hana til persónulegra vinsælda. Þetta gerði Hjálmar Árnason með ásökunum sem eru mun alvarlegri og verr ígrundaðar en þau orð sem voru orsök vanþóknunarbylgjunnar til að byrja með (sjá lið I. hér að ofan). Hafi einhver stjórnmálamaður "gert í brók" (eins og einhver netverjinn orðaði það á heimasíðu Marðar Árnasonar) í kjölfar umfjöllunarinnar um harmleikinn á Ísafirði í síðustu viku var það því Hjálmar en ekki Mörður. Mörður bað fólk um að sýna stillingu. Fólk í hugaræsingi hefur gott af því að vera beðið um að sýna stillingu, þótt það sé ekki líklegt til vinsælda hjá því. Fólki í hugaræsingi finnst hins vegar miklu þægilegra að heyra auvirðulegt lýðskrum eins og það sem Hjálmar bar á borð fyrir það.

Að lokum ...
... óska ég öllum þeim sem þessar línur lesa eilífrar hamingju á endalausri blómabreiðu ævi sinnar.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já.

Kristín sagði...

Takk fyrir og sömuleiðis. Áhugaverðir punktar.

Hildigunnur sagði...

mjög góður pistill og dagsannur.

Hildigunnur sagði...

(breytir samt ekki því að myndbirting DV á þessu stigi máls er engan veginn réttlætanleg. Hvorki í þessu tilfelli né öðrum)

Unknown sagði...

Góður pistill. Get tekið undir hvert orð.

Anna Sigridur sagði...

Sammála Hildigunni!

Davíð Þór sagði...

Vegna athugasemdar Hildigunnar: "Auðvitað er það forkastanlegt að birta nafn og mynd af manni sem grunaður er um alvarlega glæpi. Það gildir einu hve augljós sekt hans er að mati blaðamanna, það er ekki þeirra að meta sekt eða sakleysi heldur að greina frá þeim staðreyndum málsins sem erindi eiga til lesenda. Nafn hins grunaða og örorka teljast ekki til þeirra." (Úr næsta bloggi fyrir neðan, "Morðingjarnir Mikael og Jónas":)

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér Davíð. Önnur góð grein er eftir Jón Trausta á mannlif.is um þetta sama mál. Þar við setur einhver Guðmundur inn athugasemd og þá varð mér hugsað til þín og tímaritsins "Bleikt og blátt".

Annað við morðingja áburð Hjálmars er hvort verið geti að Alþingi beri ábyrgð á þessum smekklegu ummælum sem birtust á vef þingsins.
Man ekki betur en að einhverjar reglur gildi um þá miðla sem dreifa óhróðri um fólk. Og miðill er fleira en hefðbundnir fjölmiðlar eins og sjá má í lögum um prentrétt: „1. gr. Rit samkvæmt lögum þessum telst hvert það rit, sem prentað er eða letrað á annan vélrænan eða efnafræðilegan hátt. Til rita teljast og uppdrættir, teikningar og myndir, þótt ekki sé á letrað mál, svo og nótur, ef letrað mál fylgir.“
Það væri ekki úr vegi að gengið væri eftir því að Hjálmar og þingið huguðu að sinni ábyrgð í þessu máli.

Nafnlaus sagði...

Allt þetta sem þú segir breytir samt ekki þeirri staðreynd að blaðið er sóðasnepill sem þurfti að breyta um stefnu.

Þessa dagana finnst mér erfitt að horfa upp á það að þeir sem að bera ábyrgð á blaðinu láta nú eins og þeim komi það ekki við. Ritstjórarnir er aðeins peð í mínum augum.

Nafnlaus sagði...

Mæltu manna heilastur félagi.

Rustakusa sagði...

Klukk :-)