mánudagur, nóvember 15, 2010

Enn um mosku í Reykjavík


Varðandi síðastu færslu og viðbrögð við henni langar mig að rökstyðja mál mitt eilítið betur. Í því augnamiði vil ég byrja á að benda á nokkur vel valin atriði úr Mannréttindayfirlýsingu SÞ:


2. gr. „Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“


18. gr. „Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu og helgihaldi.“


19. gr. „Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.“


30. gr. „Ekkert í yfirlýsingu þessari má túlka á þann veg að nokkru ríki, hópi eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það er stefni að því að gera að engu einhver þau réttindi eða frelsi sem hér hafa verið upp talin.“


Semsagt: 30. gr. tekur af allan vafa um að 19. gr. tryggir engum rétt til að stefna að því að gera að engu þau réttindi sem tryggð eru í 18. gr. – M.ö.o.: Réttur fólks til að vera frjálst skoðana sinna og láta þær í ljós gildir ekki um rétt fólks til að stefna að því gera að engu rétt annarra til að rækja trú sína opinberlega með tilbeiðslu og helgihaldi.


Við þetta má bæta 2. lið 29. gr. sömu yfirlýsingar: „Við beitingu réttinda sinna og frelsis, skulu allir háðir þeim takmörkunum einum sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir réttindum og frelsi annarra og til þess að fullnægja réttlátum kröfum um siðgæði, almannareglu og velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.“


Þarna er viðurkennt að beiting réttinda og frelsis geti verið háð tökmörkunum sem settar eru með lögum. Þetta má bera saman við alþjóðasamning um afnám kynþáttamisréttis frá 1968 sem Íslendingar eru aðilar að. Þar segir m. a.:


2. gr. d.: „Skuldbindur hvert aðildarríki sig til að banna og binda enda á, með öllum viðeigandi ráðum, þar með talið í löggjöf þar sem slíkt er nauðsynlegt, kynþáttamisrétti meðal allra manna, hóps eða samtaka.


4. gr. a.: „Gera refsiverða með lögum alla útbreiðslu á hugmyndum sem eru byggðar á kynþáttayfirburðum eða óvild ...


4. gr. b.: „Lýsa ólögleg og banna samtök og einnig skipulagða og alla aðra áróðursstarfsemi sem stuðlar að og hvetur til kynþáttamisréttis og skal gera þátttöku í slíkum samtökum eða starfsemi refsiverða með lögum.


Samningurinn skilgreinir „kynþáttamisrétti“ sem það að fólk af öðrum „kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna“ (1. gr.) njóti ekki borgaralegra réttinda og tilgreinir samningurinn sérstaklega, í gr. 5d (vii), rétt „til frjálsrar hugsunar, samvisku og trúar.


Þennan samning er því erfitt að skilja öðruvísi en þannig að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til að allur áróður gegn rétti fólks til að iðka trú sína skuli varða við lög.


Samtök gegn því að moska rísi í Reykjavík eru vissulega siðlaus að mínu mat. En það er í raun algjört aukaatriði. Það er fráleitt að byggja samfélag á persónulegri siðferðiskennd einstaklinga. Það á ekki að virða mannréttindi af því að mér finnst að það eigi að gera það.


Það á að virða mannréttindi af því að við höfum skuldbundið okkur til þess í lögum og alþjóðlegum samningum. Það á að virða lög og skuldbindingar. Þau lög og skuldbindingar kveða skýrt á um að samtök gegn því að moska rísi í Reykjavík skuli varða við landslög.

Umburðarlyndi andskotans

Umburðarlyndi er kjaftæði. Bókstaflega lýsir orðið eitt og sér ekki öðru en því lyndi að umbera. En enginn vill vera umborinn. Fólk vill vera samþykkt og viðurkennt, ekki umborið. Ef einhver ætlar að slá sjálfan sig til riddara fyrir þá góðmennsku sína að umbera mig getur sá hinn sami tekið sitt umburðarlyndi og troðið því þangað sem sólin ekki skín. Þannig umburðarlyndi er ekkert annað en hroki og yfirlæti undir þunnu lagi af bleikri málningu.

Umburðarlyndi er svo mikið í tísku um þessar mundir að því er jafnvel stillt upp sem andstöðu forræðishyggju, ritskoðunar og alls annars sem setur frelsi einstaklingsins til að gera það sem honum sýnist, sjálfum sér til sálartjóns og öðrum til ama, einhverjar skorður. Fyrir vikið verður kynþáttahatur að skoðun sem verður að umbera, því fólk á að hafa frelsi til að vera eins miklir kynþáttahatarar og það kýs.

En sumt á einfaldlega aldrei að umbera. Mannréttindabrot á ekki undir neinum kringumstæðum að umbera. Heimsku, ofbeldi, grimmd og fáfræði á ekki að umbera. Mannhatur á ekki að umbera, hvort sem það beinist að konum, útlendingum, hommum, guðleysingjum, múslimum eða rauðhausum. Skoðanir sem byggja á heimsku og hatri á ekki að umbera. Skoðanir sem vega að mannréttindindum, t.d. trúfrelsi og tjáningarfrelsi, á ekki að umbera.

Það á að samþykkja fólk án þess því fylgi að grimmd þess, fáfræði og heimska sé umborin. Skoðanir byggðar á þessu eru hættulegar og dæmin sýna að þeim vex fiskur um hrygg ef þær er umbornar. Þar sem slíkar skoðanir ná lýðhylli eru þær undantekningarlaust landinu og þjóðinni til mikils skaðræðis. Mér ber engin skylda til að umbera nýnasisma, útlendingahatur, trúar- eða vantrúarofstæki eða neitt annað sem vegur að grundvallarmannréttindum. Ég áskil mér rétt, reyndar er mér tryggður hann í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, til að berjast gegn þessu öllu með kjafti og klóm – að því tilskyldu að sú barátta brjóti ekki réttindi annarra. Höfum hugfast að réttindum, s.s. ferðafrelsi, er hægt að fyrirgera með að misbeita þeim.

Ef við umberum samtök gegn grundvallarmannréttindum á borð við trúfrelsi, t. d. því að moska rísi í Reykjavík, verðum við á nákvæmlega sömu forsendum að umbera Ku Klux Klan og samtök helfararafneitara, svo fátt eitt af sama sauðahúsi sé nefnt. Það er umburðarlyndi andskotans.

Bakþankar í Fréttablaðinu 13. 11. 2010.

föstudagur, nóvember 05, 2010

Baráttusöngur borgaralega byltingarmansins

Ég stóð upp úr leðursófanum svarta

og slökkti á flatskjánum nýja.

Í úlpu frá sextíu og sex gráðum norður

smokraði ég mér hlýja.

.

Svo fór ég á jeppanum fjórhjóladrifna

(mér finnst hann þvílíkt æði)

niður í bæ og var fljótur í förum,

en fann hvergi bílastæði.

.

Ég lagði því bílnum á umferðareyju

innan um fleiri jeppa,

fannst eðlilegt að ég ætti við sektir

og óþarfa vesen að sleppa.

.

Ég keypti í leiðinni kleinuhringa,

karamellufyllta,

og kókosbollu og café latte

með kortinu mínu gyllta.

.

Svo arkaði ég út á Austurvöllinn

og öskraði mikið og hátt

um það sem aðrir þurfa að gera

því að ég á svo bágt.

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Gelt gelt

Það virðist einkenna Íslendinga um þessar mundir að skiptar skoðanir leiði aldrei af sér frjóa og skapandi umræðu. Kannski eru það vonbrigðin með hið nýja Ísland eða öllu heldur lífseigju hins gamla sem valda því. Þess í stað hleypur fólk upp í fylkingar, fullt tortryggni og gremju, sem gelta hvor á aðra. Nýjasta dæmið er tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur um breytt samskipti skóla við trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar er önnur fylkingin skipuð andlegum öreigum og gott ef ekki siðblindum fjendum guðrækni og góðra siða líka, ef marka má hina sem virðist, samkvæmt þeirri fyrrnefndu, vera skipuð talsmönnum trúboðs í skólum sem vilja að valdagráðug ríkiskirkja fái óáreitt að heilaþvo ungviði borgarinnar í óþökk foreldra þess.

Ég held að hvor fylking sé hugarburður hinnar. Ég held að báðar fylkingar aðhyllist mannréttindi, trúfrelsi og jafnrétti trúar- og lífsskoðana og vilji tryggja æskunni haldgóða og óhlutdræga þekkingu umhverfi sínu og menningu. Þar eru trúarbrögð og trúararfur stór þáttur. Reynslan sýnir að þekkingarskortur elur á útlendingahatri og fordómum. Fólk óttast það sem það þekkir ekki. Víðsýni og umburðarlyndi eru skilgetin afkvæmi upplýsingar og menntunar. Um það held ég að báðar fylkingar séu sammála.

Í 2. gr. viðauka nr. 1 við samning Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis (Mannréttindasáttmála Evrópu), sem Íslendingar eru aðilar að, segir m. a.: „Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að ... menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.“ Lítill hluti Íslendinga, einkum trúlausir húmanistar, telja núverandi fyrirkomulag brjóta í bága við þetta ákvæði. Það er auðvitað með öllu óviðunandi og úr því verður að bæta. En það verður ekki gert með því að brjóta þessi nákvæmlega sömu réttindi á öðrum.

Hættum að gelta hvert á annað. Réttsýnt og skynsamt fólk, sem er annt um mannréttindi og trúfrelsi, hlýtur að geta sest niður með sáttfýsi og gagnkvæma virðingu að leiðarljósi og komist í sameiningu að viturlegri niðurstöðu. Ég neita að trúa öðru en að við getum komið okkur upp þjóðfélagi þar sem mannréttindi allra eru virt, ekki bara meirihlutans. Og þaðan af síður bara minnihlutans. Náungakærleikur felst í því að opna dyr, ekki loka þeim.

Bakþankar í Fréttablaðinu 30. 10. 2010.

þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Gerum lífið skemmtilegra

Við skemmtilegra lífið gerum.

Lesin vítt og breitt við erum

í biðröðum við búðarkassa.

Blaðið hefur mikinn klassa.

Lítill texti, margar myndir

mæra flestar dauðasyndir

svo þið kannski síður kvartið.

Sjáið kjólana og skartið!

Vissulega er voða gaman

að vita hverjir eru saman

og flestir líka vísast vilja

vita hverjir eru að skilja.

Með stjörnunum við fylgjast fáum

og fréttir af því jafnótt sjáum

ef þær sýna úti í búð

appelsínuhúð.

Í ræktina ef frægt lið fer

fréttir af því birtast hér

og ekki fer það fram hjá þér

ef fer það út og skemmtir sér.

Já, allt sem gerir fólkið fræga

er fjallað um með lotning næga,

en auðvitað kæmi það engum við

ef það væruð þið.

Auglýsingar okkar lita

umhverfið og frá sér smita.

Hver gleðst ei ef uppi á vegg er

Ásdís Rán eða Gilzenegger?

Við skemmtilegra lífið gerum

litlausum og heimskum verum

sem innan í sér eru dauðar,

andvana og gleðisnauðar.