þriðjudagur, febrúar 02, 2010

Lagið um Vetrarbrautina

(lag & texti: Monty Python / íslenskun: D. Þ. J.)

Minni lífið á skelfingu og skandal, frú Hvanndal,
og skímu er hvergi að sjá,
því fólk er bæði óþolandi leiðinlegt og ljótt,
mig langar að benda þér á ...

... að jörðin snýst um möndul sinn, það mundu hverja stundu,
á meira en þúsund kílómetra hraða.
Á hundrað þúsund sendist hún um sól sem er vort skjól
og sína orku ber til allra staða.
Sólin okkar fer og allt sem fyrir augu ber
í ferðalag sem býsna hratt er stefnt.
Sjötíu þúsund kílómetra á klukkustund hún spanar
um kerfi eitt sem Vetrarbraut er nefnt.

Vetrarbrautin hefur svona hundrað milljarða stjarna.
Ein hundrað þúsund ljósár þvermálið er.
Hún sverust er í miðið, sextán þúsund ljósár þar,
en þrjú þúsund ljósár myndi hún vera hér.
Þrjátíu þúsund ljósár miðja hennar reiknast héðan,
hver hringferð tekur milljónir alda tvær
og okkar Vetrarbraut er aðeins ein af milljörðum
í alheimi sem stöðugt þokast fjær.

Því alheimurinn sjálfur er að þenjast út og þenjast
og það er alveg ótrúlegt hve greitt.
Á ljóshraða hann þýtur, já, allt uns yfir þrýtur,
þrjú hundruð milljón metra á sekúndu, hraðar fer ei neitt.
Svo mundu, ef þú ert niðurdregin, társtokkin og trist,
hve tilveran er miklum undrum gjörð.
Og vonandi er í geimnum eitthvert vitsmunalíf,
því það vottar ekki fyrir því á jörð.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Can I have your liver please?

Nafnlaus sagði...

Trúiru á Guð, þ.e.a.s. ertu kristinn?

Ef svo er má ég spurja hvort þú hafir verið það áður en þú fórst í Guðfræði eða eftir?

Er mikill aðdáandi eilífðarspurningunnar þinnar í morgunútvarpinu, mjög gaman að hlusta á pælingarnar þínar.

kv. Sævar

Davíð Þór sagði...

Kæri Sævar.
Til að svara spurningum þínum:
a. Já, ég trúi á Guð og ég lít á mig sem kristinn mann. Það þýðir aftur á móti ekki að allir sem telja sig kristna skilgreini trú og hvað í því felst að vera kristinn á sama hátt og ég geri.
b. Ég var trúaður en leitandi þegar ég hóf nám í guðfræði, þ.e.a.s. ég efaðist ekki mikið um tilvist einhvers konar Guðs, en vissi ekki mikið meira hvað í því fólst. Ég fór m.a. í guðfræði til að komast að því hvað hafði verið hugsað í þessum efnum á undan mér svo ég upplifði sjálfan mig ekki sífellt á byrjunarreit heldur gæti byggt mína leit á niðurstöðum þeirra sem um þessi mál höfðu hugsað á undan mér. Ef allir væru alltaf að finna upp hjólið hefði bíllinn aldrei orðið til.

Þakka þér hólið varðandi eilífðarspurninguna.