mánudagur, október 12, 2009

Kjaftæðið um krúttin

Þegar ég var unglingur brast á með pönki. Það var uppreisn gegn tildri og yfirborðsmennsku diskósins. Ég var alls ekki eina íslenska ungmennið frá borgaralegu millistéttarheimili sem pönkið heillaði. Við gengum ekki í rifnum fötum af því að við höfðum ekki efni á nýjum, eins og upphafsmenn pönksins í fátækrahverfum Stóra-Bretlands, heldur af því að í því fólst, að okkar mati, einhvers konar yfirlýsing. Leðurjakkinn, sígildur einkennisbúningur uppreisnarseggsins, hefði auðvitað þótt fágæt munaðarvara í því umhverfi sem pönkið spratt úr. Fyrir rest voru pönkaragellurnar síst farnar að verja minni fjármunum í hárvörur (fyrir hanakambinn) og augnmálningu (biksvarta) en diskódísirnar. Byltingin étur börnin sín.
Um þessar mundir tröllríða svokölluð „krútt“ öllu því sem heitast og flottast þykir. Í því felst að tónlist skal vera gersneydd allri agressjón og klæðnaður í senn hlýlegur og fátæklegur. Prjónahúfur, sem helst eiga að líta út fyrir að hafa verið gerðar í handavinnutíma í 10 ára bekk, eru eitt helsta einkennið ásamt grófum ullarkápum og vettlingum. Af þessum sökum standa margir í þeirri meiningu að krúttin séu óháð tískustraumum og stefnum, þau taki sjálfstæðar ákvarðarnir um klæðaburð sinn í stað þess að fylgja fyrirmælum.
Ef fatnaður krúttanna er skoðaður nánar verður þó auðvitað strax ljóst að þar gilda mjög strangar reglur. Það, hve staðlaður og samræmdur klæðaburðurinn er, bendir ennfremur til þess að reglum þessum sé framfylgt af fyllstu hörku, tískulögreglan sé síst afslappaðri en áður fyrr, jafnvel þótt fagurfræðilegar forsendur útlitseftirlitsins kunni að virðast nýstárlegar.
Vegna þess hve bannið við öllu nýlegu og ríkmannlegu – og reyndar öllu sem ekki lítur út fyrir að hafa annað hvort fengist hjá Rauða krossinum eða Hjálpræðishernum – er skilyrðislaust, telja ýmsir ennfremur að krúttin séu betur í stakk búin en aðrir til að takast á við kreppuna. Þetta er náttúrlega eins og hvert annað kjaftæði. Það gerir engan hæfari til að mæta fátækt, sem hefur aðallega hangið á kaffihúsum sötrandi latte á 450 krónur bollann brimandi netið á mörghundruðþúsund króna kjöltutölvu, að finnast ógeðslega flott að vera eins og niðursetningur til fara og Sigur Rós skemmtileg.
Bakþankar í Fréttablaðinu 10. 10. 2009

2 ummæli:

Solla sagði...

AMEN

Guðmundur Brynjólfsson sagði...

Mikið er ég hjartanlega sammála þér - þar fyrir utan þá leiðast mér þessi meintu krútt. En það er sjálfsagt bara mín öldrun...