mánudagur, október 26, 2009

Djöfullinn í þögninni

„Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug.“ (1Pét 5.8-10)
Þessi mögnuðu orð leituðu á hug minn í vikunni sem leið. Í þeim er nefnilega að mínu mati fólgið dásamlegt fyrirheit um að kærleikurinn hafi sigur að lokum og hinn þjáði rísi upp öflugri en áður.
Auðvitað veit ég að þessi orð, sem skrifuð voru öðru hvoru megin við aldamótin 100, eru skrifuð til kristinna söfnuða í Litlu-Asíu, sem sættu ofsóknum, en ekki Íslendinga í upphafi 21. aldar. Djöfullinn, sem þarna er talað um, er ekki þessi óeiginlegi sem hver þarf að draga sitt eigið eintak af, sjálfum sér og fólkinu í kringum hann til tjóns, heldur grimmúðlegt heimsveldi. Mér finnst þau samt eiga jafnvel við um hann.
Ég veit líka að djöfullinn er ekki í tísku um þessar mundir. Það þykir hálfgerður miðaldafnykur af öllu tali þar sem hann ber góma. En merking þrífst á andstæðu sinni. Ljós er ljós af því að við þekkjum myrkur, hlýja er hlýja af því að við þekkjum kulda. Guð er kærleikur (1 Jóh 4.8) og við þekkjum andstæðuna, þá tilfinningu að Guð hafi yfirgefið okkur og öllum sé sama. Andstæða kærleikans er nefnilega ekki hatur heldur skeytingarleysi. Hatur er ástríða. Fullkominn skortur á kærleika er ekki hatur heldur hitt, það að standa á sama. Ef Guð er kærleikur hlýtur djöfullinn því að vera skeytingarleysi.
Allir þekkja kveðjuna: „Friður sé með yður.“ Kristilegri orðsendingu er varla hægt að fá. Forsenda friðar, samkvæmt kristnum skilningi, hlýtur að vera réttlæti, af því að friður um óréttlæti er ekki friður, heldur einmitt skeytingarleysi.
Illu heilli höfum við séð skeytingarleysið ganga um eins öskrandi ljón og valda okkar minnstu bræðrum og systrum þjáningum. En við höfum líka séð skeytingarleysið hopa eilítið.
Sumir segja að Guð búi í þögninni. Vera má að stundum sé það svo. En þegar þagað er um óréttlæti geymir þögnin engan Guð, aðeins djöfulinn.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. október 2009

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fridur se med ydur, var thad ekki titillag a hljomskifu thin og fariseana?

Unknown sagði...

Heyr heyr!

Orð að sönnu hér rituð.

Hjörtur Árnason.