miðvikudagur, október 08, 2008

Í djúpum skít

Þegar mér varð litið upp úr rannsóknum mínum á síðgyðinglegri apókalyptík nú í vikunni varð mér ljóst, mér til mikillar skelfingar, að í þjóðfélaginu er apókalyptískt sálarástand. Þetta eru auðvitað kjöraðstæður fyrir apókalypsó.
Þar sem þeir sem tjá sig mest um ástandið bregða gjarnan fyrir sig líkingamáli úr sjómennsku („það gefur á bátinn“, „karlinn í brúnni“, „stormur og stjórsjór“ o.s.frv.) fannst mér við hæfi að sækja lagið í sjávardjúpin köld.
Þeim sem eru í aðstöðu til þess er frjálst að flytja þennan texta við hvert tækifæri sem gefst.


Apókalypsó

lag: Alan Menken/texti: D. Þ. J.

Til fjandans er krónan farin
og fimmkallinn sömu leið.
Vor aleiga'er einskis virði
og alls staðar kvöl og neyð.
Vor skúta á skeri'er strönduð
og skaflinn oss dynur á
í úthafsins ölduróti.
Hvar erum við landsmenn þá?

Í djúpum skít!
Í djúpum skít!
Að ósi feigðar
fjárglæfrahneigðar
ég fálmandi flýt.
Svona'er að eyða'um efni fram
í óþarfa munað, sukk og djamm.
Við erum allir,
aular sem snjallir,
í djúpum skít.

Nú húmar að hinsta kvöldi
því heimurinn bráðum ferst.
Þú kynnir að efast um það,
en annað eins hefur gerst.
Senn leggjast mun yfir landið
sem Lakagíg áður frá
ein hörmungamæðu móða.
Við munum vart anda ná!

Í djúpum skít!
Í djúpum skít!
Skortur á lausnum,
landinn á hausnum
á lánum og krít.
Fjallkonan farin vergang á,
fáir sem vilja hana sjá,
enda í tötrum,
álagafjötrum
og djúpum skít.

Í djúpum skít.
Krist bæði'og Óðin
ákallar þjóðin
af armæðu hvít.
Pólverjar pakka'og fara heim.
Pant vera sá sem fylgir þeim.
Eins gott að fara,
Ísland er bara
í djúpum skít.

Nú álfarnir skjálfa,
skrælingjar væla,
skíðamenn kvíða,
karlmenni skæla,
skátarnir gráta,
grínarar hrína
og Geir er af angist glær
og öryrkjar kjökra,
einyrkjar kveina,
æskumenn dæsa,
æpa og veina,
hver karl er í keng,
hver kerling í spreng
og Kölski'í kampinn hlær.

Í djúpum skít!
Í djúpum skít!
Aumur og gugginn,
grátinn og hnugginn
í gaupnir ég lít.
Nú þarf að flytja Frónbúa
sem fyrst upp á jósku heiðina
æra af hungri
og mæðu þungri
úr djúpum skít.
Ekkert fær dafnað,
Ísland er kafnað
í djúpum skít.
Sopið er kálið.
Sýnist mér málið
að hrökkva'eða stökkva.
Munið að slökkva.
Allir til skips, ó!
Apókalypsó
í djúpum skít.

Engin ummæli: