þriðjudagur, október 28, 2008

Hörmungar

Fyrir nokkrum árum átti ég afar eftirminnilegt spjall við gamla frænku mína. Við ræddum haustið 1918 og atburði þess, en þá var hún nýskriðin af barnsaldri. Þetta haust gekk á með einhverjum mestu frosthörkum í manna minnum. Þá var húsakostur landsmanna mun lakari en nú. Heilu fjölskyldurnar hírðust í þröngum kytrum þar sem einangrun var bágborin og hitaveita var auðvitað með öllu óþekkt.
Þetta haust geisaði spænska veikin. Hún lagðist þungt á Íslendinga. Þegar verst lét voru tveir af hverjum þremur Reykvíkingum rúmfastir. Öll lyf kláruðust, athafnalíf lamaðist og jafnvel samskipti við útlönd féllu niður. Erfitt var að anna líkflutningum og gripið var til þess ráðs að jarða fólk í fjöldagrafreit. Tæplega 500 Íslendingar dóu í spænsku veikinni, þar af 258 í Reykjavík. Þá er ekki tekið tillit til fósturláta sem töluvert var um.
Ég vissi um spænsku veikina því ég hafði lesið um hana. Það sem sló mig var að hún skyldi ekki heyra sögunni til, heldur vera lifandi fólki í fersku minni. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hve stutt var í raun síðan og hve lífsskilyrðum þjóðarinnar hefur fleygt fram á ekki lengri tíma en tæpum mannsaldri.
Fleiri hörmungar hafa dunið á Íslendingum síðan þá. Þjóðin fór ekki varhluta af blóðtöku seinni heimsstyrjaldarinnar, en hún kostaði ríflega 200 Íslendinga lífið. Árið 1995 var þjóðarsorg þegar 34 Íslendingar létu lífið í tveimur snjóflóðum. Sá harmur er engum gleymdur.
Haustið 2008 kom síðan kreppa. Fullt af fólki tapaði miklum peningum og margir misstu vinnuna. Í umræðunni hafa einhverjir leyft sér að kalla þetta mestu hörmungar sem dunið hafa á þjóðinni. Ég er hins vegar ansi hræddur um að frænku minni sálugri þætti lítið til þessara þrenginga koma. Hvar eru líkin? Hvar eru fjöldagrafirnar?
Ástæðulaust er að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem við stöndum núna frammi fyrir. En við höfum séð það svartara. Gleymum ekki að við erum rík þjóð með góðan húsakost, hátt menntunarstig og gnægð náttúrulegra auðlinda. Mér finnst því að við ættum að sýna þeim fjölmörgu Íslendingum, sem misstu annað og meira en peninga í þeim raunverulegu hörmungum sem dunið hafa á þjóðinni, þá virðingu að gæta tungu okkar þegar við börmum okkur yfir blankheitum.
Bakþankar í Fréttablaðinu 26. október 2008

mánudagur, október 27, 2008

Milli draums og vöku

Um þessar mundir er verið að sýna leikrit eftir Sigurð Pálsson, skáld, í einu atvinnuleikhúsanna. Verkið segir hann byggt á röddum sem hann heyri tala við sig þegar hann er á milli draums og vöku. Í viðtölum hefur hann sagt að hann hafi reynt að forðast eins og heitan eldinn að falla í þá gryfju að hafa einhvern söguþráð eða framvindu í verkinu og gefið í skyn að ástæða þess að aðrir láti eitthvað gerast í sínum leikritum sé ekki sú að fólki finnist svoleiðis leikrit yfirleitt skemmtilegri en þau þar sem ekkert gerist heldur séu þeir of huglausir til að þora að láta allt sem kalla mætti uppbyggingu lönd og leið. Mig langar sem sagt ekkert til að sjá þetta verk.
Þó þekki ég raddir, eins og þær sem Sigurður Pálsson lýsir, vel af eigin raun. Ég hef samt á tilfinningunni að mínar tali öðruvísi við mig en Sigurðar við hann. Í svefnrofunum í morgun heyrði ég til dæmis mína dularfullu hálfdraums-rödd segja þetta við mig: „Það versta sem ég hef lent í því að hafa er kímnigáfa. Hún gerbreytir því hvernig maður sér heiminn og litar öll samskipti manns við annað fólk. Ó, sagði ég kímnigáfa? Ég ætlaði að segja flatlús.“

þriðjudagur, október 21, 2008

Staka


Ég kneyfa ennþá kampavín

og krásir dýrar ofét

því ekki lækka launin mín.

Lifi þetta sovét!

þriðjudagur, október 14, 2008

Þegar G. Pétur stal fréttunum


Um daginn var ég skammaður fyrir að skrifa bara um einhver smámál, en ekki um stórmálin sem eru efst á baugi: „Heimurinn er að farast og þú ert að rausa um tittlingaskít!“ En ég geri þetta af yfirlögðu ráði. Mér finnast smámálin nefnilega undantekningalítið mun áhugaverðari en stórmálin. Til dæmis hafði ég mjög gaman af fréttum hér áður fyrr, þegar þar var sagt frá því helsta í heimsmálunum, smáu sem stóru. Þá mynduðu smáatburðir nauðsynlegt mótvægi við stóratburði. „Hafði“ segi ég því nú er þessu öðruvísi farið. Nú eru bara stórmál í boði. Um daginn var ekki einu sinni pláss fyrir íþróttafréttir í Sjónvarpinu fyrir stórfréttum úr heimi bókfærslu og viðskipta.
Ég man að fyrir nokkrum árum byrjaði þáttur í sjónvarpi sem hét Viðskiptafréttir og gekk út á það að umsjónarmaðurinn, hinn geðþekki G. Pétur Matthíasson, ruddi upp úr sér tölfræði um gengi hlutabréfa og helstu gjaldmiðla. Ég man að ég gapti af undrun fyrst þegar ég sá þetta ævintýralega leiðinlega sjónvarpsefni. Ekki datt mér í hug að nokkur maður nennti að horfa á þetta, þeir sem þyrftu þessar upplýsingar fengju þær annars staðar, þeir sem ekki þyrftu þær skiptu um stöð. Ég spáði þessum þætti því ekki löngum lífdögum. Illu heilli reyndist ég ósannspár. Þættinum óx fiskur um hrygg frekar en hitt. Smám saman yfirtók hann aðalfréttatímann eins og hvimleið og skæð sýking. Nú er svo komið að allar fréttir eru viðskiptafréttir, ekki bara í sjónvarpi heldur líka í daglegum samskiptum fólks.
Um daginn lagði leið mína á gamla eftirlætispöbbinn minn til að spjalla við fyllibytturnar um síðustu atburði. Þetta var daginn eftir lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu, en um hvað haldið þið að hafi verið rætt þarna á barnum þennan sögulega mánudagseftirmiðdag? Dramatíkina í lokaumferðinni? Seiglu Hafnfirðinga og seinheppni Keflvíkinga? Nei, það var verið að ræða vísitölur og vogunarsjóði, vaxtabætur og verðtryggingarálag. Ef þetta er að vera dagdrykkjumaður í dag er ég feginn að geta notað tímann í annað.
Ég trúi því hins vegar og treysti að þegar fram líða stundir muni sannir fréttafíklar eins og ég minnast ársins í ár með hryllingi. Árið 2008 verður annus horribilis í minningunni, árið þegar G. Pétur stal fréttunum.
Bakþankar í Fréttablaðinu 12. 10. 2008

sunnudagur, október 12, 2008

Staka

Fjármálastofnanri þjóðnýttar. Eigur stóreignamanna frystar. Öll fjármálastarfsemi í höndum ríkisins. Almenningi skammtaður gjaldeyrir. Er von að manni verði hugsað:

Ástandið hérna er undrum blandið,
allt annað hljóð er í strokknum.
Sovét-Ísland, óskalandið,
innleitt af Sjálfstæðisflokknum?

miðvikudagur, október 08, 2008

Í djúpum skít

Þegar mér varð litið upp úr rannsóknum mínum á síðgyðinglegri apókalyptík nú í vikunni varð mér ljóst, mér til mikillar skelfingar, að í þjóðfélaginu er apókalyptískt sálarástand. Þetta eru auðvitað kjöraðstæður fyrir apókalypsó.
Þar sem þeir sem tjá sig mest um ástandið bregða gjarnan fyrir sig líkingamáli úr sjómennsku („það gefur á bátinn“, „karlinn í brúnni“, „stormur og stjórsjór“ o.s.frv.) fannst mér við hæfi að sækja lagið í sjávardjúpin köld.
Þeim sem eru í aðstöðu til þess er frjálst að flytja þennan texta við hvert tækifæri sem gefst.


Apókalypsó

lag: Alan Menken/texti: D. Þ. J.

Til fjandans er krónan farin
og fimmkallinn sömu leið.
Vor aleiga'er einskis virði
og alls staðar kvöl og neyð.
Vor skúta á skeri'er strönduð
og skaflinn oss dynur á
í úthafsins ölduróti.
Hvar erum við landsmenn þá?

Í djúpum skít!
Í djúpum skít!
Að ósi feigðar
fjárglæfrahneigðar
ég fálmandi flýt.
Svona'er að eyða'um efni fram
í óþarfa munað, sukk og djamm.
Við erum allir,
aular sem snjallir,
í djúpum skít.

Nú húmar að hinsta kvöldi
því heimurinn bráðum ferst.
Þú kynnir að efast um það,
en annað eins hefur gerst.
Senn leggjast mun yfir landið
sem Lakagíg áður frá
ein hörmungamæðu móða.
Við munum vart anda ná!

Í djúpum skít!
Í djúpum skít!
Skortur á lausnum,
landinn á hausnum
á lánum og krít.
Fjallkonan farin vergang á,
fáir sem vilja hana sjá,
enda í tötrum,
álagafjötrum
og djúpum skít.

Í djúpum skít.
Krist bæði'og Óðin
ákallar þjóðin
af armæðu hvít.
Pólverjar pakka'og fara heim.
Pant vera sá sem fylgir þeim.
Eins gott að fara,
Ísland er bara
í djúpum skít.

Nú álfarnir skjálfa,
skrælingjar væla,
skíðamenn kvíða,
karlmenni skæla,
skátarnir gráta,
grínarar hrína
og Geir er af angist glær
og öryrkjar kjökra,
einyrkjar kveina,
æskumenn dæsa,
æpa og veina,
hver karl er í keng,
hver kerling í spreng
og Kölski'í kampinn hlær.

Í djúpum skít!
Í djúpum skít!
Aumur og gugginn,
grátinn og hnugginn
í gaupnir ég lít.
Nú þarf að flytja Frónbúa
sem fyrst upp á jósku heiðina
æra af hungri
og mæðu þungri
úr djúpum skít.
Ekkert fær dafnað,
Ísland er kafnað
í djúpum skít.
Sopið er kálið.
Sýnist mér málið
að hrökkva'eða stökkva.
Munið að slökkva.
Allir til skips, ó!
Apókalypsó
í djúpum skít.

föstudagur, október 03, 2008