mánudagur, mars 24, 2008

Oddi: Þar sem loforð um trúnað eru ekki pappírsins virði sem þau eru prentuð á - Reynslusaga

Um þessar mundir er prentsmiðjan Oddi í einhverri ímyndarherferð í auglýsingatímum sjónvarpsins þar sem meðal annars er gert mikið úr því hve mikla áherslu þeir hjá Odda leggi á trúnað gagnvart verkkaupa. Ég get ekki að því gert að í ljósi reynslu minnar af því að skipta við prentsmiðjuna Odda blöskrar mér ófyrirleitnin. Hvernig voga þeir sér að halda þessu fram?
Ég ritstýrði einu sinni tímariti sem prentað var hjá prentsmiðjunni Odda. Það var gefið út af tímaritaútgáfunni Fróða. Tímaritið var í andarslitrunum þegar ég tók við því en mér tókst með mínum hætti að auka söluna á því og ... smám saman ... fjármagnið sem varið var í að afla efnis í blaðið og prenta það. Efnistök blaðsins og umfjöllunarsvið eru aukaatriði í þessu samhengi. Einhverjum kann að hafa „fundist“ eitt og annað, en sem betur fer stjórnast prentfrelsið ekki enn af því sem fólki úti í bæ „finnst“ heldur lögum og reglum. Tímaritið varðaði aldrei við lög. Í tvígang rannsökuðu yfirvöld hvort ástæða væri til að leggja fram kæru á hendur blaðinu fyrir lögbrot og í bæði skiptin var fallið frá því þar sem ljóst þótti að slíkar ásakanir fengju ekki staðist.
Hvað um það. Einu sinni var grein í blaðinu um ljósmyndafalsara sem þá höfðu tiltölulega nýlega náð þeirri leikni í list sinni, með aðstoð fótósjopps, að blekkja jafnvel færustu sérfræðinga. Einhverjar Hollywoodstjörnur höfðu orðið fyrir barðinu á þessari iðju og þurft að sverja af sér að hafa setið fyrir á vafasömum ljósmyndum. Til að sýna í hverju þetta væri fólgið falsaði umbrotsmaður blaðsins nektarmyndir af tíu íslenskum konum. Konurnar sem urðu fyrir valinu voru þær sem skipað höfðu sér í tíu efstu sætin skömmu áður í vali Rásar tvö á kynþokkafyllstu konum landsins, opinberar persónur orðlagðar fyrir kynþokka. Aldrei var ýjað að því að myndirnar væru ekta, þvert á móti voru þær beinlínis settar fram sem dæmi um falsanir. Þvert yfir síðuna stóð jafnvel stórum stöfum að um falsaðar ljósmyndir væri að ræða. Auðvitað vissi ég að þetta kynni að verða viðkvæmt og valdi því sérlega smekklegar og lítið afhjúpandi myndir úr dagatali Playboy og setti íslensku andlitin á þær. Eftir að hafa haft samráð við lögfræðing fyrirtækisins komst ég að því að um myndir af þessu tagi gilda sömu reglur og hverjar aðrar skopmyndir. Hvað sem hverjum kann að „finnast“ um þessa ritstjórn stóðst hún bæði lög og sínar eigin forsendur.
Blaðið fór í prentun, það tók alla jafna nokkra daga að prenta blaðið og koma því í dreifingu, þannig að ég beið bara eins og ég var vanur eftir símtali um að verkinu væri lokið. Hins vegar fékk ég næst hringingu frá framkvæmdastjóra útgáfunnar sem bar sig aumlega eftir að hafa fengið símtal frá löfræðingi einnar kvennanna á þessum myndum, þáverandi umhverfisráðherra. Lögfræðingurinn var með eintak af blaðinu í höndunum var ekki ánægður. Trúnaður Odda risti semsagt svo djúpt að lögfræðingur umhverfisráðherra fékk blaðið í hendurnar á undan ritstjóra þess. Engar skýringar fékk ég á því hverju þetta sætti. Ég hafði reyndar rekið augun í einhverja innrammaða yfirlýsingu um trúnað uppi á vegg í prentsmiðjunni, en hún reyndist greinilega ekki pappírsins virði sem hún var prentuð á.
Eftirmáli þessa atviks varð fréttamatur. Upplaginu var eytt, umbrotinu breytt og allt prentað upp á nýtt. Jafnvel þótt við hefðum lögin á okkar bandi þótti útgefandanum ekki rétt að standa í illdeilum við ríkisstjórnina. Jafnvel þótt trúnaður Odda við okkur sem verkkaupa hefði verið svívirtur þótti ekki rétt að standa í illindum við þá heldur. Útgáfan var háð prentsmiðjunni með alla þjónustu og síðar komst ég reyndar að því að útgáfan skuldaði prentsmiðjunni svo mikið að það var aðeins fyrir náð og miskunn (og viðskiptavit) að prenstmiðjan var ekki búin að taka útgáfuna upp í skuld.
Þannig að þið sem ætlið að kaupa ykkur prentþjónustu hjá Odda sem útheimtir trúnað: Gætið þess að prentefnið ykkar sé ekki eitthvað sem einhverjum, sem kemur að verkinu á einhverjum tíma prentvinnslunnar, gæti dottið í hug að einhver einhvers staðar úti í bæ myndi vilja sjá.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ja djö
ekki versla ég við odda eftir að hafa lesið þetta
hef reyndar ekki keypt blaðið síðan þú hættir

Nafnlaus sagði...

Já ljótt að heyra þetta. Ég hætti reyndar líka að kaupa blaðið eftir að þú fórst, ekkert varið í það lengur. Takk fyrir bloggið þitt, ég hef gaman af því að lesa það!