þriðjudagur, febrúar 05, 2008

102 Reykjavík*


Borgarstjórinn í Reykjavík er með læknisvottorð upp á að hann ráði við starfið sem hann gegnir. Ég veit ekki til þess að aðrir borgarfulltrúar geti státað af því. Reyndar stórefa ég að þeir, sem létu tilfinningarnar hlaupa með sig í verstu gönurnar úr ræðustól borgarstjórnar í kjölfar þeirra sviptinga sem þar áttu sér stað fyrir hundraðogeitthvað dögum, gætu allir harkað slíkt vottorð út úr samviskusömum lækni.
Borgarstjórinn er með lítið fylgi. Leikreglur lýðræðisins leyfa að litlir flokkar lendi í oddaaðstöðu sem gerir fulltrúum þeirra kleift að komast í meiri valdastöður en fylgið gefur augljóst tilefni til, eins og mýmörg dæmi eru um í ríkisstjórnum. Slíkir menn hafa oft gegnt störfum sínum með sóma og verið farsælir í embætti.
Heyrst hefur að kjósendur borgarstjórans hafi alls ekki verið að kjósa hann heldur einhvern annan, gott ef ekki einhvern allt annan flokk sem var ekki einu sinni í framboði. Auðvitað er sú umræða út í hött. Ég veit hvorki til þess að kjósendur borgarstjórans hafi strikað hann út í meiri mæli en eðlilegt getur talist né að þeir hafi verið inntir á marktækan hátt eftir forsendum sínum fyrir því hvernig þeir greiddu atkvæði. Þótt flokkur borgarstjórans mælist varla í skoðanakönnunum um þessar mundir þá veljum við okkur ekki leiðtoga í skoðanakönnunum heldur kosningum.
Ekkert af því sem einkennt hefur umræðuna skiptir m. ö. o. neinu máli. Það eru málefnin sem skipta máli og ég verð að viðurkenna að ég saup hveljur þegar ég heyrði málefnasamning nýrrar borgarstjórnar. Kaupa á húsin við Laugaveg, hvað sem þau kosta, að því er virðist í þeim tilgangi einum að „varðveita 19. aldar götumynd“. Er það þá stefna Sjálfstæðisflokksins að borgin eigi að vera í þeim bisnes að kaupa gömul hús, gera þau upp og selja eða leigja? Öðruvísi mér áður brá.
Að auki er helsta kosningamál borgarstjórans í höfn: Flugvöllurinn skal vera í Vatnsmýrinni áfram. Það þýðir að hundsa á lýðræðislega fram kominn vilja Reykvíkinga og svíkja skuldbindingar fyrri borgarstjórnar um að lúta honum. Það er hið alvarlega í málinu, ekki heilsufar borgarstjórans, fylgi eða meint sinnaskipti þess samkvæmt könnunum. Það er þarna sem manni finnst leikreglur lýðræðisins brotnar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 3. febrúar 2008
*Þar sem prófarkalesari Fréttablaðsins þóttist vita betur en ég sjálfur hvað ég ætlaði að segja í þessum Bakþönkum var fyrirsögnin „leiðrétt“ á síðum blaðsins. 102 er einmitt póstnúmerið sem vantar í Reykjavík af því að helmingurinn af láglendi borgarlandsins fer undir flugvöll. 102 Reykjavík er ennfremur heiti á samtökum um brottflutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni, sem ég tók þátt í að stofna á sínum tíma, en lögðu upp laupana eftir að baráttumál þeirra átti að vera komið í höfn. Mér sýnist hins vegar ekki vera vanþörf á að þau taki aftur til starfa og hvet hérmeð til þess að þau gangi í endurnýjun lífdaga. Loks hagaði kalhæðni örlaganna því þannig að 102 er fjöldi daganna sem síðasti borgarstjórnarmeirihluti var við völd.)

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var góður pistill en mér fannst titilinn sem kom í Fréttablaðinu skrýtinn. Titillinn sem þú valdir sjálfur á greinina gengur hins vegar fullkomlega upp.

Þetta sýnir bara að ritstjórar (eða prófarkalesarar) eru ekki alvitrir.

Nafnlaus sagði...

já, ég hikstaði líka á titlinum um daginn.

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég feginn að þessi samtök séu dauð. Þegar maður sá draumamyndirnar með blokkum á flugvallarsvæðinu vissi maður að það væri betra að hafa flugvöllinn þarna.

Nafnlaus sagði...

Ég, dreifbýliskonan, vil að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað. Ég fæ líka alltaf kikk út úr því að koma inn til lendingar yfir höfnina og spá í hvort við lendum í Tjörninni eða á flugbrautinni :)
En svona í alvöru, Vatnsmýrin er fínt flugvallastæði í HÖFUÐBORGINNI - mundu Reykjavík er ekki bara smá sveitaþorp á hjara veraldar, hún er höfuðborg.
Rannveig Árna

Nafnlaus sagði...

Ég er úr dreifbýlinu og það skiptir okkur miklu máli að völlurinn sé þarna. Það má vel vera að samt mætti nýta svæðið á annan hátt án þess að völlurinn hverfi. Ég veit líka að þetta er á landi ykkar sveitarfélags og ennfremur að þetta er höfuðborg allra landsmanna sem þar af leiðandi geymir fjöldann allan af stofnunum okkar allra. Þetta er sem sagt allt snúið mál og óskandi að allir geti sæst á einhverja lendingu.

Unknown sagði...

Það er gaman að fylgjast með borgarmálum þessa daganna .