fimmtudagur, maí 17, 2007

Þegar Dabbi fór á sjóinn

Um daginn hringdi í mig blaðamaður frá Fréttablaðinu og bað mig að hitta sig og Önnu Kristjánsdóttur, vinkonu mína, að spjalli um daginn og veginn. Þar sem ég hafði svosem ekkert merkilegra að gera og hafði enga ástæðu til að afþakka boðið mætti ég. Spjallið var hið áhugaverðasta og lítill hluti þess birtist sem einhvers konar viðtal í blaðinu skömmu síðar. Vegna plássleysis rataði þó megnið af því aldrei á síður blaðsins. En sumt af því hefur verið mér afar hugleikið síðan, einkum það sem okkur fór á milli um sjómennskuna.
Það bar meðal annars á góma að við Anna höfum bæði verið á sjó, en Anna hefur auðvitað miklu meiri reynslu af því en ég. Ég var eitt sumar á menntaskólaárunum á skaki á tveggja tonna trillu frá Hafnarfirði og síðan var ég eina vetrarvertíð, 1990 – 1991, háseti á línubát frá Sandgerði. Þetta var dagróðrabátur sem reri með tvöfalda línu. Ég var spurður að því hvort ég mælti með því að ungir menn færu á sjóinn og hvort ég hefði getað hugsað mér að leggja sjómennsku fyrir mig og svör mín voru já og nei.

Já, ég taldi mig geta mælt með því að menn færu á sjóinn, að mínu mati hefði sú reynsla eflt mig að visku og þroska, víkkað og dýpkað bæði heimsmynd mína og sjálfsþekkingu. Hins vegar vakti Anna máls á því að öryggismál sjómanna hefðu árum og áratugum saman verið í gríðarlegum ólestri, að litið hefði verið á það nánast sem náttúrulögmál að missa ár hvert fjölda sjómanna í hafið. Árin 1964 – 2000 létust 455 íslenskir sjómenn við skyldustörf, ríflega tólf á ári. Undanfarið mun banaslysum á sjó víst til allrar hamingju hafa fækkað jafnt og þétt, m. a. fyrir tilstilli hins feykiöfluga Slysavarnaskóla sjómanna, en það breytir því ekki að mannfórnirnar sem sjósóknin hefur kostað þjóðina í gegn um tíðina eru talsvert meiri en flestir gera sér grein fyrir og enn er að sjálfsögðu full ástæða til halda áfram að bæta og tryggja öryggi íslenskra sjómanna.
Að þessu sögðu langar mig að taka fram að ég get að sjálfsögðu aðeins mælt með sjómennsku að því tilskyldu að menn komi heilu höldnu aftur í land. Það eflir engan að visku og þroska að drukkna.
Nei, ég gat hins vegar ekki hugsað mér að leggja sjómennsku fyrir mig. Eins ánægður og ég er með að hafa verið á sjó þá er ég nefnilega töluvert ánægðari með að vera ekki lengur á sjó. Vinnan er erfið og vinnutíminn út í hött.
Einhvern tímann þegar verið var að ræða kjaramál sjómanna (sem var vinsælt umræðuefni um borð) tók einhver upp hanskann fyrir útgerðarmanninn sem væri að hætta aleigunni til að við hefðum vinnu. Viðkomandi var að sjálfsögðu snarlega bent á að það væri sjómaðurinn sem væri að hætta aleigunni, sjálfum lífsandanum í brjóstinu á sér, til að útgerðarmaðurinn hefði vinnu, en ekki öfugt. Auðvitað ber að meta það til launa ef menn eru í lífshættu við vinnu sína og ekki síður ef álagið á þá er að öðru leyti ómannúðlegt.
Sjómenn fórna nefnilega gríðarmiklu fyrir starfann. Þótt þeir fórni ekki lífi sínu og limum í bókstaflegri merkingu þá fórna þeir lífi sínu á annan hátt, þeir fórna fjölskyldulífi sínu, einkalífi, tilfinningalífi, sálarlífi – eða leggja a. m. k. á það meiri raunir en sanngjarnt er að ætlast til, raunir sem alls ekki er sjálfgefið að menn þoli. Langar fjarverur frá fjölskyldu og heimili gera sjómenn alloft að gestum í lífi barna sinna og maka. Það þarf einstakar manneskjur til að slík fjarvera bitni ekki verulega á nánd og innileika manna í milli. Það er meira en að segja það að vera fjarverandi uppvöxt barna sinna, daglegt líf makans og hversdagsleg úrlausnarefni heimilisins og sleppa óskaddaður frá því.
Um leið og sjómennskan efldi og magnaði óbeit mína á arðræningjum, sem auðgast á framlagi þeirra sem hætta lífi sínu og limum af því að sjálfir hætta þeir fjármunum, þá varð ég eiginlega líka fráhverfur kommúnisma á sjónum. Þar fann ég nefnilega í fyrsta sinn fyrir því á eigin skinni hvað ágóðavonin getur verið mikill drifkraftur og hvílíkur glæpur það er gagnvart frumkvæði og framkvæmdagleði manna að svipta þá henni.
Auðvitað var róið upp á hlut, en ákveðin trygging (lágmarkstrygging) var fyrir hendi sem menn fengu jafnvel þótt ekkert fiskaðist. Yfirleitt tók það um það bil viku að fiska upp í tryggingu. Framan af desember hafði brælt óvenjumikið, lítið hafði verið hægt að róa og þeir fáu túrar sem farnir voru höfðu verið með eindæmum lélegir. Þegar tekið var tillit til helgidaganna var ljóst að þennan mánuð myndum við ekki ná að fiska upp í trygginguna, jafnvel þótt við næðum einum eða tveim túrum í viðbót. Þá var ákefðin í að fara á sjó að sjálfsögðu engin, við hefðum strangt til tekið verið í sjálfboðavinnu við það. Þannig að auðvitað þurfti óvenjulítið hvassviðri seinnipart mánaðarins til að skipstjórinn kallaði það haugasjó og brælu sem ekki væri farandi á sjó í.

Það gerðist líka á sjónum að ég öðlaðist trú. Ég hafði alla tíð verið andlega þenkjandi og fundist raunveruleikinn hljóta að vera aðeins dýpri og víðfeðmari en hinn skynjanlegi efnisheimur. Áður en ég fór á sjóinn hafði ég verið að kynna mér anþrópósófíska næringarfræði (x - x)í Svíþjóð, ég var grænmetisæta og starfaði sem kokkur á náttúrulækningasjúkrahúsi. Þar voru miklar andlegar og guðspekilegar pælingar í gangi. Flestar voru þær að vísu tómt bull, en Järna er bara svo yndislegur staður að ég varð fljótt þeirrar skoðunar að þeorían mætti alveg vera dálítið vitlaus ef praktíkin væri svona hlý og manneskjuleg.
Það gerðist eiginlega alveg óvart. Ég var einn á vakt á dekki um hánótt í janúar. Það var nístingskuldi og andardráttur minn myndaði grýlukerti í skegginu. Sjórinn var spegilsléttur og svo kaldur að ef ég hefði fallið útbyrðis hefði ég króknað á augabragði. Á himninum dönsuðu brjáluð norðurljós og spegluðust í haffletinum. Í minningunni finnst mér næstum eins og ég hafi heyrt einhvers konar kristalshljóð frá þeim, en sennilega eru þau seinni tíma viðbót hugans. Mér fannst svo átakanlega ljóst að þessarar gríðarlegu fegurðar, sem um leið var svo ógnvekjandi og fullkomlega ólífvænleg, naut ég ekki af eigin verðleikum. Ef allt sem mér var gefið af öðrum hefði verið tekið frá mér, hlífðarfötin sem ég var í og skipið undir fótunum á mér, hefði ég átt örfáar sekúndur eftir ólifaðar. Samt var líf á hverju járni. Þar sem ekki var fiskur var svampdýr, krossfiskur eða kórall. Þarna, einhvers staðar á milli Íslands og Grænlands, langt frá allri landssýn, á stað sem er öllu lífi, eins og maður skilur það, eins fjandsamlegur og hægt er að hugsa sér, á hafsbotni undir margra tonna fargi af saltvatni sem var svo kalt að saltmagnið og ölduhreyfingar sjávar einar komu í veg fyrir að það væri einn risastór og gegnheill klaki, iðaði jörðin af lífi.
Þá fann ég það. Ég skildi það ekki, ég reiknaði það ekki út, ég fann það einfaldlega í hverri frumu líkama míns. Að þetta væri engin tilviljun, þetta sem við köllum lífið á jörðinni. Tilfinningin var svo sterk að ég gat ekki sniðgengið hana. Ef ég hefði ekki getað treyst þessari tilfinningu hefði ég aldrei getað treyst neinni tilfinningu sem ég hef nokkru sinni fundið til fyrr eða síðar. Guð er til. Ég get ekki sannað það, ég fann bara svo sterkt fyrir því hvernig hann umlykur alla tilvistina að ég ákvað að hætta að streitast á móti og trúa því. Mér fannst nánast eins og hann væri að segja við mig: „Hvað viltu að ég geri meira? Þarf ég að skrifa það með logagylltum stöfum á himinhvelið að ég sé til svo þú fáist til að trúa því? Er þetta ekki nóg?“
Ég áfellist engan sem er ekki sama sinnis. Hins vegar tryggir 18. grein mannréttindayfirýsingar Sameinuðu þjóðanna mér réttinn til að hafa þessa trúarlegu afstöðu og láta hana í ljós opinberlega með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi. Um tæknileg atriði, s. s. rekstrarfyrirkomulag kirkna og starfssvið trúfélaga má auðvitað ræða og deila, en það þarf að gera í bróðerni og af gagnkvæmri virðingu. Ég nenni ekki lengur að eiga orðastað um trúmál við þá sem vilja svipta mig mannréttindum.
Reyndar liðu mörg ár frá því að ég fór að trúa á Guð þar til ég fór að treysta á hann, en það er önnur saga sem ég segi kannski síðar.
Þannig að þegar upp er staðið get ég hiklaust mælt með því að ungmenni fari á sjóinn. Að því tilskyldu að öryggismál séu í lagi og menn komi heilir á húfi heim er það mín reynsla að það geri manni aðeins gott. Hins vegar eru ábyggilega ekki allir þannig að upplagi að það henti þeim að leggja sjómennsku fyrir sig og gera hana að ævistarfi.

Og fyrst sjómennskan gerði úr mér kristilegan sósíalista kynni hún að hafa sömu áhrif á aðra. Auðvitað hlýt ég að vera þeirrar skoðunar að eftir því sem við værum fleiri væri heimurinn betri staður.

16 ummæli:

Djalla sagði...

Þetta er áhrifamikil lýsing af fundi þínum við Guð, ég fékk gæsahúð! Stundum er náttúran svo yfirþyrmandi að það er eiginlega erfitt að höndla það án þess að vita af æðri mætti sem ræður yfir þessu öllu.

Ég hef aldrei verið á sjó en ég hef unnið í miklu návígi við náttúruna og það er afskaplega hollt fyrir ungt fólk að eiga svona stundir eins og þú lýsir með sjálfu sér og náttúrunni (og Guði!).

Nafnlaus sagði...

Um hvað fjallar hin anþrópósófíska "þeoría"? Að mér læðist sá grunur að þú vitir lítið um þessi fræði.

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð!

Glæsilegur pistill! Ég fæ ekki séð að nokkur klerkur standist þér snúning þar sem stíl og sannfæringarkraftur er annars vegar. Gatan er því greið.
Það sem ég hins vegar velti fyrir mér, eftir þessa lesningu (enn og aftur þegar þú átt í hlut), er hvernig í ósköpunum þú getur verði stuðningsmaður Vinstri Grænna svona þenkjandi?

Bestu kveðjur,
Jakob

Davíð Þór sagði...

Kæra Þórunn. Ekki ætla ég að halda því fram að ég sé einhver fræðingur í anþrópósófíu, en ég setti tengla inn á upplýsingar um anþrópósófíu inn í pistilinn fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér hana nánar. Þaðan má finna upplýsingar um þeósófíuna og Rúdolf Steiner. Allt saman feykilega áhugavert fyrir þá sem eru þannig stemmdir, sem ég er ekki lengur.

Nafnlaus sagði...

Hér er einn að traðka á mannréttindum Davíðs. Fuss.

Davíð Þór sagði...

Fyrir þá sem lesa færsluna sem vísað er á hér fyrir ofan þá get ég alveg viðurkennt að mér hefur orðið það á að sárna ummæli um trú og trúfólk og fara í kjölfarið offari í orðfæri í einhverri misskilinni trúvörn, svona eins og Guð geti ekki passað sig sjálfur, í stað þess að tala af þeirri rósemd hugans sem nauðsynleg er vitrænni umræðu. Ég játa að ég hef asnast til að vilja gjalda líku líkt, jafnvel rauðan belg fyrir gráan, í stað þess að rétta hinn vangann eins og mér bæri væri ég sjálfum mér samkvæmur. Hafi ég sært trúarvitund einhvers, sem taldi trú mína gera mig hlynntan umskurn kvenna eða nornabrennum, holundarsári með því að líkja honum við náttúrulausan mann – eða einhverra annarra með einhverjum öðrum hætti – biðst ég velvirðingar á því.
Þegar ég vísa í mannréttindi þá á ég til dæmis við þá kröfu, sem sett hefur verið fram, að trúaðir haldi trú sinni "út af fyrir sig" og láti aðra í friði. Mannréttindayfirlýsing S. Þ. tryggir nefnilega hverjum manni réttinn til að "láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi." Ennfremur er mönnum þar tryggð "réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra."
Hins vegar er þar hvergi minnst á réttinn til að fá að vera í friði fyrir þeim sem vilja nýta sér þessi réttindi, það eru ekki mannréttindi að fá ekki þær upplýsingar sem maður kærir sig ekki um, aðeins að vera "frjáls hugsana sinna, sannfæringar og trúar" og "frjáls skoðana" sinna. Maður á m. ö. o. að fá að ráða hverju maður trúir og á hverju maður tekur mark, en ekki hvað maður heyrir.
Mönnum er tryggð vernd gegn áróðri til að skapa misrétti sem brýtur í bága við yfirýsinguna, ekki öðrum áróðri. Ég get alveg verið sammála því að vilji fólk réttlæta þá skoðun að menn séu ekki bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum með trú sinni þá ber þeim að halda henni út af fyrir sig. Á meðan trúarskoðinar réttlæta ekki þrælahald, pyntingar, handahófskennda frelsisviptingu eða skorður á ferðafrelsi, tjáningarfrelsi eða trúfrelsi eða öðrum ákvæðum mannréttindayfirlýsingarinnar ættum við öll að geta verið vinir og sýnt hvert öðru og skoðunum hvers annars umburðarlyndi og virðingu.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir pistilinn sem mætti gjarnan birtast víðar.
Guð er góður.

Takk fyrir
Sjómannsdóttirin

Unknown sagði...

Verst að grípa seint í rassa, en ef þú sérð þetta: Frábær pistill Davíð Þór. Takk.

-haukur s.m.

washington finance sagði...

Góðan dag, ég er herra Kristur og ég vil upplýsa þig um hvernig ég fékk lánið mitt,
   Ég fékk lánið mitt frá Washington fjármálum með í stuttan tíma 48 klukkustundir,
  með aðeins 2% hlutfalli, vil ég að þú þarna úti og leita að láni til að hafa samband við Washington fjármál og fá lánið þitt án tafar um það sem alltaf er að hafa samband við fyrirtækið beint í tölvupósti um (washingtonfinance511@gmail.com)

washington finance sagði...

Góðan dag, ég er herra Kristur og ég vil upplýsa þig um hvernig ég fékk lánið mitt,
   Ég fékk lánið mitt frá Washington fjármálum með í stuttan tíma 48 klukkustundir,
  með aðeins 2% hlutfalli, vil ég að þú þarna úti og leita að láni til að hafa samband við Washington fjármál og fá lánið þitt án tafar um það sem alltaf er að hafa samband við fyrirtækið beint í tölvupósti um (washingtonfinance511@gmail.com)

washington finance sagði...

Góðan dag, ég er herra Kristur og ég vil upplýsa þig um hvernig ég fékk lánið mitt,
   Ég fékk lánið mitt frá Washington fjármálum með í stuttan tíma 48 klukkustundir,
  með aðeins 2% hlutfalli, vil ég að þú þarna úti og leita að láni til að hafa samband við Washington fjármál og fá lánið þitt án tafar um það sem alltaf er að hafa samband við fyrirtækið beint í tölvupósti um (washingtonfinance511@gmail.com)

washington finance sagði...

Góðan dag, ég er herra Kristur og ég vil upplýsa þig um hvernig ég fékk lánið mitt,
   Ég fékk lánið mitt frá Washington fjármálum með í stuttan tíma 48 klukkustundir,
  með aðeins 2% hlutfalli, vil ég að þú þarna úti og leita að láni til að hafa samband við Washington fjármál og fá lánið þitt án tafar um það sem alltaf er að hafa samband við fyrirtækið beint í tölvupósti um (washingtonfinance511@gmail.com)

washington finance sagði...

Góðan dag, ég er herra Kristur og ég vil upplýsa þig um hvernig ég fékk lánið mitt,
   Ég fékk lánið mitt frá Washington fjármálum með í stuttan tíma 48 klukkustundir,
  með aðeins 2% hlutfalli, vil ég að þú þarna úti og leita að láni til að hafa samband við Washington fjármál og fá lánið þitt án tafar um það sem alltaf er að hafa samband við fyrirtækið beint í tölvupósti um (washingtonfinance511@gmail.com)

washington finance sagði...

Góðan dag, ég er herra Kristur og ég vil upplýsa þig um hvernig ég fékk lánið mitt,
   Ég fékk lánið mitt frá Washington fjármálum með í stuttan tíma 48 klukkustundir,
  með aðeins 2% hlutfalli, vil ég að þú þarna úti og leita að láni til að hafa samband við Washington fjármál og fá lánið þitt án tafar um það sem alltaf er að hafa samband við fyrirtækið beint í tölvupósti um (washingtonfinance511@gmail.com)

washington finance sagði...

Góðan dag, ég er herra Kristur og ég vil upplýsa þig um hvernig ég fékk lánið mitt,
   Ég fékk lánið mitt frá Washington fjármálum með í stuttan tíma 48 klukkustundir,
  með aðeins 2% hlutfalli, vil ég að þú þarna úti og leita að láni til að hafa samband við Washington fjármál og fá lánið þitt án tafar um það sem alltaf er að hafa samband við fyrirtækið beint í tölvupósti um (washingtonfinance511@gmail.com)

Eliot Snel sagði...

Þökk sé Dr.Kumola fyrir að hjálpa mér að fá konuna mína aftur, konan mín byrjaði að starfa mjög skrýtið, allt það litla sem hún reiðist og hún sagði mér að hún vildi flytja. Hún flutti loksins út og hlutirnir urðu erfiðir fyrir mig get ég ekki logið. Ég veit ekki hvað ég á að gera fyrr en ég sá auglýsingu Dr.Kumola og hvernig hann hjálpaði fólki. Ég hafði samband við tölvupóstinn hans (Dr.Kumola_lovespell@outlook.com) og sagði honum allt. Hann fullvissaði mig um að ég fengi hana aftur eftir stafsetningu. Ég gerði allt sem spámaðurinn sagði mér. Konan mín kom heim 2 dögum seinna, hún sagðist ekki vita hvað kom yfir hana, við erum komin saman aftur Þökk sé Dr.Kumola fyrir að koma konunni minni aftur. Hafðu samband við tölvupóstinn hans (Dr.Kumola_lovespell@outlook.com), hann er frábær stafsetningarstjóri.