mánudagur, apríl 23, 2007

Íslendingar ættu ekki að heita Íslendingar, þeir ættu að heita Vitleysingar ...



... sagði Einar vinur minn fyrir margt löngu og eftir því sem ég kynnist þjóð minni nánar sannfærist ég betur og betur um sannleiksgildi þessara orða. Það er nefnilega hreint ekki einleikið að þjóð sem hefur jafnmikla ástæðu til hógværðar og lítillætis og sú íslenska skuli vera jafnófær um að sýna þá eiginleika og raun ber vitni. Nokkur helstu einkenni hins dæmigerða vitleysings eiga það nefnilega til að loða við meinta vitræna orðræðu Íslendinga eins og skítur við sóða.

Vitleysingar óttast allt sem þeir þekkja ekki. Þannig er ein uppáhalds rökvillan mín þessi séríslenska speki: Það sem ekki hefur virkað til þessa fer ekki allt í einu að virka núna. Hvar er rökvillan í henni? Jú, það sem aldrei hefur verið prófað hefur eðli málsins samkvæmt aldrei virkað. Niðurstaðan er semsagt: Það sem aldrei hefur verið prófað áður mun ekki virka. Þetta eru kjörorð flestra þeirra sem hafa eitthvað að segja um menningar- og afþreyingarframleiðslu þjóðarinnar. Þó sem betur fer ekki allra.

Einu sinni langaði mig að vera með útvarpsþátt. Ég og Jakob vinur minn bjuggum til grind að þætti sem okkur langaði að búa til. Við sýndum útvarpsstöðinni þáttinn og þar á bæ var hváð: "Svona hefur aldrei verið gert áður. Þetta virkar ekki. Hver er eiginlega markhópurinn?"
Það var fátt um svör hjá okkur Jakobi. Markhópurinn? Við höfðum aldrei spáð í neinn markhóp. Við höfðum einfaldlega velt því fyrir okkur hvernig þátt við sjálfir myndum nenna að hlusta á og gerðum uppkast að slíkum þætti.
Fyrir rest var áhættan tekin og útvarpsþættinum hleypt af stokkunum. Það var vegna þess að annar útvarpsþáttur sem ég hafði komið að hafði notið hylli, en hann hafði bara komist á dagskrá stöðvarinnar fyrir frændsemis sakir Bjössa basta við eigandann. Hann hét Radíus.
Þessi nýi þáttur hét Górilla og sló í gegn (svo ég sýni nú þjóðerni mitt og varpi hógværð og lítillæti fyrir róða). Hann mældist með eilítið meiri hlustun en hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu og talsvert meiri hlustun en Jón og Gulli sem voru með þátt á annarri stöð á sama tíma og við (með tífalt hærra kaup eins og síðar kom í ljós í úttekt í einhverju blaði). Þeirra þáttur var byggður á formúlu sem var búin að margsanna sig og var beint að skýrt skilgreindum markhópi. Þátturinn okkar Jakobs var ekki líkur neinu sem gert hafði verið áður og markhópurinn var við Jakob.
Meðalíslendingurinn er ekki til. Allir eru frábrugðnir öðrum einhverju leyti. Það sem er ætlað fyrir alla eða einhvern meðaltalsvísitöluhlustanda endar á því að vera ekki fyrir neinn. Það er ekki til neins að spyrja fólk hvað það vilji heyra því það nefnir aðeins eitthvað sem það hefur heyrt áður. Eins mætti spyrja fólk að því hvert sé uppáhaldslagið þeirra eða uppáhaldsbókin þeirra og draga af svörunum þá ályktun að óhætt sé að hætta að semja tónlist og skrifa bækur því enginn hafi nefnt ósamið lag eða óskrifaða bók.

Annað sem einkennir vitleysinga er að þeir halda að þeir séu miklu klárari en þeir eru. Maður hefur heyrt það fullyrt svo oft að Íslendingar séu svo góðir í ensku að maður er nánast farinn að trúa því umhugsunarlaust. En málið er auðvitað aðeins flóknara. Um leið og Íslendingur er farinn að geta bablað ensku þokkalega skiljanlega með málþroska og orðaforða fjögurra ára enskumælandi barns telur hann sig nefnilega orðinn altalandi á tunguna. Fjöldi Íslendinga sem ekki myndi treysta sér til að lesa skáldsögu eða fræðirit á miðlungsþungri ensku hikar ekki við að segjast tala tungumálið reiprennandi.
Útlendingar eru ekki jafnblindir á eigin getu og segjast oft ekki tala ensku nógu vel, af því að þeir vilja ekki verða sér til minnkunar með því að tala eins og óvitar, jafnvel þótt þeir tali jafngóða ensku og kokhraustur Íslendingur sem segist tala lýtalausa ensku þótt eina nafnorðið sem hann hafi á valdi sínu sé "thing" og hann noti orðasambandið "you know" sem nafnorðsígildi sem geti merkt það sem hentar honum hverju sinni. Hann hefur nefnilega glápt svo mikið á CSI að hann er með framburðinn á hreinu.
Fyndnast er að Íslendingar skuli telja sig hafa lært "svona góða ensku" af sjónvarpsglápi. Ekkert bendir til þess að þjóðir sem góna minna á fjöldaframleitt, bandarískt skjádrasl tali verri ensku en Íslendingar. Eða hefur enskukunnáttu íslenskra barna kannski hrakað þennan áratug sem nánast allt barnaefni hefur verið talsett? Ég stórefa það.

Þriðja einkennið á vitleysingi er að hann heldur að hann sé farinn að skilja allt um leið og hann getur klórað sig fram úr meginatriðunum og hlegið að augljósasta slapstickinu. Ég hef horft tvisvar á nýju Simpsons myndina og fattaði strax söguþráðinn. Ég hló líka að því hvað Hómer var vitlaus og leiðinlegur og Bart dónalegur og stjórnlaus. Mér finnst líka fyndið þegar þeir segja Flanders að halda kjafti.
Ég er búinn að lesa handritið. Það er með leiðbeiningum fyrir þýðendur, þar sem vísanir eru útskýrðar og þeir hvattir til að staðfæra þær. Helmingur þeirra hafði farið fram hjá mér við áhorfið og þykist ég þó þokkalega vel að mér í enskri tungu og sæmilega fróður um sögu og menningu Bandaríkjanna. Handritið er einfaldlega morandi í skírskotunum og tilvitnunum í bandaríska dægurmenningu og pólitíska umræðu, skírskotunum sem óhjákvæmilega fara fram hjá hverjum þeim sem ekki er rækilega með á nótunum og mjög sennilega fjölmörgum Bandaríkjamönnum. Ég get því miður ekki nefnt dæmi vegna trúnaðar sem sem ég er bundinn varðandi handritið.
Samt eru Íslendingar strax tilbúnir til að fullyrða að það sé skemmdarverk að þýða myndina, þeir séu svo klárir og kúl og fatti þetta allt svo vel og séu svo rosalega vel inni í þessu að þýðing eyðileggi fyrir þeim ánægjuna af myndinni. Jafnvel ganga sumir svo langt að fullyrða að talsetningin eigi hreinlega ekki rétt á sér.
Vel má vera að íslenskur leikari nái ekki að segja "dóh!" á jafnfyndin hátt og Dan Castellaneta, en þeir sem halda að húmorinn í Simpsons sé í því fólginn hvað Hómer sé vitlaus og Bart mikill prakkari eru á sama plani og Queen-aðdáendur sem finnst Radio Gaga besta lagið með þeim.

Sjálfsagt var sagt við Helga Hálfdanar þegar hann hóf sitt verk: "Þeir sem hafa áhuga á Shakespeare vilja sjá hann á ensku. Þú ert ekki bara að vinna óþarft verk, heldur beinlínis verk sem á ekki rétt á sér." Sagði ekki páfinn líka við Martein Lúther á sínum tíma að þeir sem þyrftu að geta lesið Nýja-Testamentið kynnu allir grísku? Þess vegna gef ég ekki mikið fyrir yfirlýsingar eins og að "vísindaskáldsögur og fantasíur eigi almennt erfitt uppdráttar þýddar, langstærstur hluti markhópsins vill þær frekar á ensku."
Ég hef lesið greinar um Discworld bækurnar þar sem vísanir og skírskotanir eru útskýrðar á svipaðan hátt og í Simpsons handritinu. Ég hef verið aðdáandi þessara bóka í 20 ár, en samt hafði stór hluti þessara vísana og orðaleikja farið fram hjá mér. Discworld bækur Terrys Pratchetts hafa verið þýddar á búlgörsku, dönsku, eistnesku, finnsku, frönsku, grísku, hebresku, hollensku, ítölsku, kóresku, litháísku, norsku, portúgölsku, pólsku, rúmensku, rússnesku, serbnesku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, tyrknesku, ungversku og þýsku. Íslenska virðist vera eina tungumálið í heiminum sem fantasíuskáldskapur virkar ekki á.
Það hefði verið erfitt að finna "markhóp" fyrir Draumalandið. LoveStar hefði verið dauðadæmd hefði henni verið lýst fyrir dæmigerðum vitleysingi. "Svona skáldsaga hefur aldrei verið skrifuð áður og þar af leiðandi aldrei selst, hver heldurðu að vilji gefa út skáldsögu sem aldrei selst?"

Markhópar eru einfaldlega ekki til. Þar sem boðlegt efni er í boði myndast um það hópur þeirra sem kunna að meta það. Mér hefur reynst ágætlega til þessa að reyna að búa eitthvað til sem ég sjálfur myndi nenna að hlusta á, sjá eða lesa. Sem betur fer hafa nógu margir reynst hafa svipaðan smekk og ég til að ég hafi getað haft það að lifibrauði.

Kannski bendir það til þess að Íslendingum sé ekki alveg alls varnað þrátt fyrir allt.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Hugleiðingar óþarfs manns


Ég er óþarfur maður. Í fyrsta lagi er ég haldinn oki ranghugmynda og ætti því að óska mér kvalafulls dauðdaga hið fyrsta til að vera sjálfum mér samkvæmur. Ég sem hélt að trú mín hefði einmitt forðað mér undan oki ranghugmynda minna sem stefndu í að draga mig hægt og rólega til kvalafulls dauðdaga. Nafnlaus bloggari í Hafnarfirði veit betur og hefur leiðrétt þetta á netinu. Hvað um það.

Það sem veldur mér meiri áhyggjum er að það sem ég hef að lifibrauði virðist ekki bara vera misráðið heldur jafnvel til hreinnar óþurftar. Ég sit nefnilega við þessa dagana og þýði kvikmyndina um Simpson-fjölskylduna í Springfield (Lindarhaga), í óþökk allra að því er virðist. Það er eins og það sé almenn stemning fyrir því í þjóðfélaginu að það sé beinlíns skaðlegt fyrir tungu okkar og menningu að þetta efni sé til á móðurmáli okkar.
Auðvitað má til sanns vegar færa að meiri ástæða sé til að þýða margt annað, en mínar hugmyndir um áhugaverð þýðingaverkefni njóta ekki hljómgrunns hjá þeim sem greiða þýðendum laun fyrir vinnu sína og því tek ég því sem mér býðst og líst þokkalega á. Ég þarf til allrar hamingju ekki lengur að þýða efni sem mér býður við.
Á bak við mörg helstu þýðingarafrek íslenskunnar er áratuga löng vinna erlendra höfunda og flóknar pælingar í tungumálum. Nægir þar að nefna Hringadróttinssögu. Af einhverjum ástæðum hef ég samt aldrei heyrt neinn tala um að misráðið hafi verið að þýða hana á íslensku af því hve rætur hennar í enskri tungu og menningu séu djúpar. Auðvitað fer alltaf eitthvað forgörðum í þýðingu. Óvíða er það jafnáberandi og í verkum Shakespeares, eftirlætishöfundar Lindu P. Samt þykir af einhverjum ástæðum fengur að verk hans séu til á íslensku, sum jafnvel í nokkrum þýðingum.
Einu sinni þótti það eftirsóknarvert að sem flestar perlur heimsbókmenntanna væru til í íslenskri þýðingu. Einhvern tímann gerðist það hins vegar að þýðendur urðu í huga þjóðarinnar að menningarlegum skemmdarvörgum. Nú virðist það vera þannig að helstu perlurnar eigi ekki að menga með því að snara þeim á fjósamannatunguna sem við tölum.
Það er í lagi að snara drasli eins og Faðirvorinu en að snerta gullkorn á borð við "D-oh!" og "Hi-diddly-ho!" er hins vegar sakkrílids.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Meira pönk!



Ef ég segðist ekki endilega vilja hafa svefnherbergið mitt hvítt þætti mér óeðlilegt að fá viðbrögðin: „Heldurðu að dökkappelsínugult sé skárra, lúðinn þinn?“ Samt væru þau í stíl við pólitíska umræðu unglingsára minna. Ég er nefnilega kominn á fimmtugsaldur og ólst upp við að þjóðin væri klofin í afstöðunni til hersins. Ég var herstöðvarandstæðingur. Viðbrögðin við mínum málflutningi voru býsna gjarna: „Heldurðu að það væri betra að hafa Rússana hérna?“ Rétt eins og í leikriti alheimsstjórnmálanna væru aðeins tvö hlutverk, Rússadindilsins og Kanamellunnar, og Íslendingar þyrftu að hafa vit á að velja það illskárra, þetta með nælonsokkana og litasjónvarpið. Það væri enginn þriðji kostur.
Svo kom pönkið. Ég var afar ginkeyptur fyrir hugmyndafræði pönksins: „Fuck the system“. Eiginlega gekk hún bara út á að rústa kerfinu án þess að hafa einhverjar háleitar hugmyndir um hvað átti að koma í staðinn. Það eina sem pönkið boðaði var í raun rjúkandi rústir ríkjandi ástands. Það þýddi ekkert að segja við pönkara: „Heldurðu að eitthvað annað sýstem væri skárra?“ Þá væri hið nýja sýstem nefnilega strax orðið hið ríkjandi sýstem og þarafleiðandi kerfið sem pönkið vildi fokka.
Ég hef leyft mér að gagnrýna kerfi. Ég hef bent á að hvert það stjórnkerfi sem neyði þegnana til örbirgðar, hvaða nafni sem það nefnist, sé brotlegt við mannréttindi, réttinn til mannlegrar reisnar og boðlegs lífs. Það gildir einu hvort maður býr við lýðræði, einræði, auðræði, guðræði, harðræði eða jafnvel gerræði ef maður fæðist til lamandi fátæktar sem engin leið er út úr. Ég hef nefnt borðleggjandi dæmi um að kapítalísk samfélög séu sums staðar sliguð af efnahagslegu og félagslegu óréttlæti. Þetta hafa sumir skilið sem svo að það sé mín skoðun að ríkisstyrktur landbúnaður, kommúnísk hagstjórn og gott ef ekki einokunarverslun líka, sé það eina sem tryggt geti hagsæld alþýðunnar. Þetta finnst mér í stíl við að halda að þar sem mér finnst hvítt ljótt hljóti ég að vera að spá í dökkappelsínugult.
Hvað vil ég þá í staðinn? Ég er ekki viss, en rjúkandi rústir ríkjandi ástands yrði strax framför.
Bakþankar í Fréttablaðinu 15. apríl 2007

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Fátækt er ekki náttúrulögmál



Ég hitti einu sinni konu frá El Salvador. Hún sagði mér að landið væri sannkölluð matarkista en samt væri eymd og fátækt landlæg þar, sem ætti að vera algjör óþarfi. Vegna fríverslunarsamnings Ameríkuríkja væri hins vegar nánast allur matur fluttur úr landinu til Bandaríkjanna þar sem landeigendur fá betra verð fyrir hann. Í Bandaríkjunum hefur þessi sami samningur víst komið fjölda smábænda á vonarvöl vegna þess að þeir geta ekki keppt við ódýra, innflutta matvöru. Ég efast ekki um að þessi viðskipti hafi bætt kjör margra í báðum löndunum. Á hvorugum staðnum hafa þau þó bætt kjör þeirra bágstöddustu.
Ég er ekki andvígur verslunarfrelsi. Hins vegar ber að líta til þess að um þessar mundir eiga sér stað víðtækar þjóðfélagsbreytingar víða um heim í kjölfar breyttra viðskiptahátta. Því miður stuðla þær ekki allar að auknum jöfnuði og betri lífsskilyrðum fyrir þorra fólks. Reyndar er þróunin sorglega víða einmitt þveröfug. Af þessum sökum hafa mannréttindasamtök í síauknum mæli beint sjónum sínum að víðtæku félagslegu og efnahagslegu óréttlæti í ríkjum sem að öðru leyti kenna sig við frelsi og lýðræði, í stað þess að einskorða sig við réttindi samviskufanga og augljós og skipulögð mannréttindabrot ýmissa vopnaðra hópa og harðstjóra, sem þó er líka full þörf á.
Þessar áherslur voru nýlega gerðar tortryggilegar í grein í The Economist sem fjallað var um í Morgunblaðinu. Þar eru mannréttindasamtök sögð á villigötum, þau séu farin að skipta sér af stjórnskipan og verslun sem eigi ekki að vera í verkahring þeirra. Þá átta menn sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að stjórnkerfi sem neyðir örbirgð upp á þegna sína brýtur á þeim grundvallarmannréttindi, sama hve mikið viðskiptafrelsi og lýðræði ríkir þar að nafninu til. Fátækt hneppir fólk í fjötra.
Nelson Mandela sagði: „Fátækt er eins og þrælahald og aðskilnaðarstefna að því leyti að hún er ekki náttúrulögmál. Hún er af manna völdum og það er í mannlegu valdi að þurrka hana út. Að eyða fátækt er ekki gustukaverk, heldur er það liður í að verja grundvallarmannréttindi; réttinn til mannlegrar reisnar og boðlegs lífs.“
Bakþankar í Fréttablaðinu 1. apríl 2007.