miðvikudagur, mars 28, 2007

Víðtæk og skipulögð eldhúsáhaldaréttindabrot?



Í gær var pínulítið tilefni til að gera sér dagamun hjá fjölskyldunni og ákvað ég af því tilefni að baka skúffuköku. Ekki hafði ég neina uppskrift við hendina svo ég leitaði bara á netinu og fann. Eftir að hafa kynnt mér uppskriftina sem mér leist best á hætti ég hins vegar snarlega við að nota hana. Þar var nefnilega kveðið á um að í kremið skyldi ég nota fjórar kúgaðar matskeiðar af kakói. Ég gat bara ekki fengið mig til þess.
Þess í stað nýtti ég mér umhyggju annarra, en góða fólkið hjá Vilko hefur nýverið tekið sig til og sett öll þurrefnin sem þarf í skúffuköku í poka og sem seldir eru úti í búð.
Hins vegar verð ég að kvarta yfir einu. Skúffukaka heitir skúffukaka einmitt af því að hún er bökuð í skúffu. Skúffukökuuppskrift þar sem segir: "Setjið deigið í hæfilega stórt form t. d. ferkantað 20 x 20 cm eða hringlaga form 20 cm ..." er alls ekki skúffukökuuppskrift heldur bara uppskrift að venjulegri súkkulaðiköku. Ekki satt? Ofnskúffan mín er 30 x 40 cm.
Kakan var að vísu ljúffeng og gerði góða lukku, en ég varð auðvitað að gera tvöfalda uppskrift. Sem sagt, takk fyrir fyrirhöfnina, góða Vilko-fólk, en breytið endilega nafninu á skúffukökunni ykkar í "Ósköp venjulega súkkulaðiköku", "Hálfa skúffuköku" eða jafnvel "Skúffuköku fyrir sérlega litlar ofnskúffur".

mánudagur, mars 26, 2007

Enn lýgur Alcan

Það hefur verið óskaplega sorglegt að sjá áróðursvél álverssinna drekkja allri málefnalegri umræðu um stækkunaráform Alcan í Straumsvík undanfarið. Lygarnar eru svo yfirgengilegar að það hefur meira að segja tekist að ljúga því að Hafnfirðingum um hvað sé verið að kjósa.

Málaliðar stóriðjunnar hafa gerst svo djarfir að vara við því að fyrirtæki séu kosin burt. Það er ekkert annað en auvirðuleg lygi að halda því fram að það standi til.

Það er kosið um hvort samþykkja eigi álver af þessari stærð á þessum stað til framtíðar. – EKKERT ANNAÐ!

Jafnvel Rannveig Rist lét svo um mælt fyrir skömmu á heimasíðu álversins: "Engar áætlanir eru uppi um lokun álversins ef ekki kemur til stækkunar enda gengur verksmiðjan vel og árangurinn er góður, bæði á tæknilegum mælikvörðum og í umhverfismálum."

Þessi ummæli stóðu þar óhögguð til 27. febrúar 2007, þá var þeim skipt út fyrir bölmóð um lokun og rekstrarlega óhagkvæmni núverandi stærðar. Hvað gerðist í millitíðinni? Breyttust allar rekstrartæknilegar forsendur á einu bretti?

Ætli ekki sé líklegra að það sem hafi breyst sé að þeir alræmdu spuna- og brellumeistarar sem ráðnir voru að áróðursmaskínu álversins í febrúar síðastliðinum sáu að hömlulaus hræðsluáróður, sama á hve miklum þvættingi hann væri byggður, væri líklegri til að fá Hafnfirðinga til að samþykkja stækkunina en sannleikurinn.

Nefna mætti fleiri dæmi um vísvitandi, blákaldar lygar sem Alcan og leiguþýið hafa sett fram til að blekkja Hafnfirðinga til að samþykkja stækkun álversins í Straumsvík:

1. Alcan lofar Hafnfirskum fjölskyldum 250 þúsund króna í viðbótartekjum á ári á sama tíma og eini óháði aðilinn sem fjallað hefur um fjárhagsleg áhrif stækkunarinnar segir að ábatinn af stækkun gæti orðið 6000 - 8000 krónur á mann á ári. (Hagfræðistofnun Íslands, Kostnaður og ábati af hugsanlegri stækkun álvers, mars 2007). Alcan gengur svo langt að blanda saman niðurstöðum Hagfræðistofnunnar og áróðursgögnum frá Samtökum Atvinnulífsins og kynna niðurstöðuna í nafni Hagfræðistofnunnar í auglýsingum. Fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar hefur kynnt þá stefnu bæjaryfirvalda að allar viðbótartekjur bæjarins á næstu árum fari til greiðslu langtímaskulda (fundur í Bæjarbíó 22. mars, sjá http://bhsp.hafnarfjordur.is/) og því sé ábyrgðarlaust að vekja vonir í hugum bæjarbúa um viðbótartekjur til heimilana í bænum.

2. Alcan kynnir mengunaraukninguna við stækkun á álverinu í mengunartölum á hvert tonn af framleiddu áli. Það er auðvitað aukning á heildar-mengunarlosun frá álverinu sem skiptir Hafnfirðinga máli, ekki hve mikið það mengar að framleiða hvert tonn áls. Mengunarlosun mun aukast mikið við stækkun og það ber að kynna fyrir bæjarbúum. Líka hvort lækkun fasteignaverðs í kjölfar aukinnar mengunar kunni hugsanlega að nema meiru en 6000 - 8000 krónum á mann á ári.

3. Alcan kynnir niðurstöður úr mengunarmælingum á brennisteinsdíoxíði sem ársmeðaltöl, ber það saman við heilsuverndarmörk í sólahringsgildum og heldur því fram að mengunin megi tvöhundruðfaldast til þess að ná heilsuverndarmörkum. Tölur Alcan byggja aðeins á hluta af gögnum eins árs og er tala þeirra er undir ársmeðaltali síðustu fjögurra ára, sbr. gögn á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

4. Alcan heldur því fram við Hafnfirðinga að álframleiðsla allstaðar annarstaðar í heiminum en í Hafnarfirði valdi stórkostlegum útblæstri gróðurhúsaloftegunda en útblástur í Hafnarfirði sé næsta enginn (DVD diskur borinn í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007). Rétt er að 55% af allri álframleiðslu í heiminum er með vatnsorku og talið eru að hlutfall kolaorku í framleiðslunni muni ekki aukast í náinni framtíð.
( http://www.world-aluminium.org/environment/electric.html ).

5. Alcan sýnir Hafnfirðingum glansmyndir af stækkuðu álveri án línumannvirkja, skorsteina og turna í fullri stærð og annars útbúnaðar sem þarf til þess að hægt sé að reka álver (DVD diskur borinn út í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007). Heiðarlegra væri að segja Hafnfirðingum eins og er að hönnun liggur ekki fyrir og því er óvitað hvernig húsin og svæðið í kring koma til með að líta út ef af stækkun verður (sbr. upplýsingar frá Agli Guðmundssyni starfsmanni Arkís í Bæjarbíó 8. mars 2007, sjá http://bhsp.hafnarfjordur.is/ 15.mars). Þessir áberandi verksmiðjuskorsteinar gætu orðið eitt helsta tákn Hafnarfjarðar í framtíðinni.

6. Alcan sýnir Hafnfirðingum jafnvel falsaðar glansmyndir af núverandi álveri, þar sem línumannvirki, skorsteinar, turnar í fullri stærð og annar útbúnaður, sem er lítið augnayndi en samt nauðsyn til þess að hægt sé að reka álver, hefur verið "fótósjoppað" burt!

7. Fulltrúar Samtaka Atvinnulífsins segja Hafnfirðingum að í kringum álver spretti upp sprota- og þekkingarfyrirtæki (DVD diskur borinn í hvert hús í Hafnarfirði 23. mars 2007) þegar staðreyndin er sú að þau 40 ár sem Ísal/Alcan hefur starfað í Hafnarfirði hafa einungis þrjú fyrirtæki orðið til vegna starfsemi álversins (heimild: http://www.alcan.is/) og aðeins eitt af þessum þremur fyrirtækjum má kalla sprotafyrirtæki.

föstudagur, mars 23, 2007

Ísland í dag

Hvað er að gerast á Íslandi í dag?

Til stendur að drekkja Hafnarfirði í drullu og skít. Byggja stærstu álbræðslu Evrópu þar sem hún verður umlukin íbúabyggð á þrjár hliðar eftir 10 – 20 ár haldi bærinn áfram að stækka eins og hann hefur stækkað undanfarin 10 – 20 ár. Hópur fólks er á kaupi hjá alþjóðlegum auðhring við að falsa þessar hugmyndir og gabba bæjarbúa til að samþykkja þær á kolröngum forsendum.

Hvað annað?

Þrír mestu glæpamenn þjóðarinnar voru nýverið sýknaðir af öllum ákærum fyrir stærsta þjófnað Íslandssögunnar, að vísu rúnir mannorði og æru. Ástæðan er sú að íslensk lög eru svo haganlega smíðuð að þegar menn okra og ræna í gegn um stórfyrirtæki er persónuleg ábyrgð þeirra á gjörðum sínum engin.

Hvað er á forsíðum blaðanna?

Jú: Vændi í Reykjavík. Við ættum að finna eitthvað annað orð yfir fréttir, eitthvað í stíl við "news" eða "nyheder", því nákvæmlega hvað það er sem er nýtt við að vændi sé stundað í Reykjavík hefur farið fram hjá mér. Stóð kannski einhver í þeirri meiningu að Reykjavík væri eini kaupstaðurinn af sinni stærðargráðu á Vesturlöndum þar sem vændi væri óþekkt? Hélt kannski einhver að stúlkur sem gefa upp GSM símanúmer á einkamál.is og auglýsa eftir $kyndikynnum væru einmana og langaði til að spjalla?

Hvað er fleira í fréttum?

Nýlega var klámhundum bannað að koma til Íslands og gista á hóteli sem sýnir klám í öllum herbergjum, hótelinu þar sem öllum iðnustu núlifandi fjöldamorðingjum reikistjörnunnar er tekið með KFUM-kveðjunni "svara, svara, vertu velkominn" þegar þeir mæta þangað á herforingjaráðstefnur NATÓ.

Á sama tíma ...

... er ekki hægt að auglýsa gosdrykki öðruvísi en með vísan í kynlíf (ZERO forleik / ZERO smellur á brjóstahalda / ZERO samræður við hitt kynið fyrir kynmök).

Á sama tíma ...

... er kvartað undan því að uppistandarar haldi sig alfarið fyrir neðan beltisstað í skemmtidagskrá sinni.

Hvernig er öðruvísi hægt að höfða til þjóðar hverrar áhugasvið nær ekki upp úr nærbuxum náungans? Ég bara spyr.

mánudagur, mars 19, 2007

Fagri Hafnarfjörður?


Senn taka Hafnfirðingar afdrifaríkustu ákvörðunina sem tekin hefur verið um framtíð bæjarins síðan Hansakaupmenn réðu þar ríkjum. Spurt er hvort bæjarbúar vilji að stærsta álbræðsla Evrópu rísi í hjarta Hafnarfjarðar.
Í raun er undarlegt að spyrja þurfi að að þessu. Ef af fyrirhugaðri stækkun verður mun álverið í Straumsvík nefnilega ausa um 70 tonnum af svifryki á ári yfir íbúabyggð í bænum. Losun gróðurhúsalofttegunda mun rúmlega tvöfaldast og fyrirhuguðu útivistarsvæði verður fórnað undir stærstu línumannvirki á Íslandi með 36 metra háum möstrum. Dettur einhverjum virkilega í hug að það sé hagur Hafnarfjarðar?
Það hefur verið dapurlegt að sjá hvernig útlenskir auðkýfingar með fulla vasa fjár og íslenskt leiguþý þeirra hafa dembt bláköldum lygum og hræðsluáróðri yfir Hafnfirðinga til að fá þá til að makka rétt og lúta hagsmunum fyrirtækisins. Sýndar eru fallegar myndir af ímynduðu álveri þar sem „óvart“ vantar allar raflínur, skorsteina jafnháa Hallgrímskirkju og ýmislegt annað sem þarf til að álbræðslan yrði starfhæf. Jafnvel eru sýndar myndir af litlu álveri í Noregi sem er jafnlíkt fyrirhugaðri stóriðju í Straumsvík og lambasparð er fjóshaugi. Af hverju ætti sá sem hefur sannleikann sín megin að ljúga?
Sagt er að verði stækkunin ekki samþykkt verði álverinu lokað því núverandi stærð sé svo óhagkvæm í rekstri. Hún er þó ekki óhagkvæmari en svo að aðeins þrjú þeirra 22 álvera sem ALCAN starfrækir nú eru stærri. Af hverju ætti álverið í Straumsvík að vera lagt niður? Af því að það er svo þreytandi að græða bara fjóra milljarða á því á hverju ári? Enginn hefur nefnt að loka eigi einhverju hinna álveranna.
Og þótt lokað yrði, bættur sé skaðinn. Nýlega misstu um 600 manns vinnuna við brotthvarf Bandaríkjahers. Samt lagðist byggð á Suðurnesjum ekki af eins og hótað hafði verið. Íslenskt atvinnulíf þyrstir í vinnuafl. Vinnufær Íslendingur er ekki vandamál, hann er tækifæri. Það er ALCAN sem þarf Hafnarfjörð, ekki öfugt – sama hve mörghundruð milljónum fyrirtækið ver til þeirrar blekkingar.
Látum ekki ljúga vitið úr hausnum á okkur. Látum ekki stjórnast af innihaldslausum hótunum og hræða okkur til undirgefni.
Seljum ekki erlendum auðhring Hafnarfjörð barna okkar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 18. mars 2007

þriðjudagur, mars 06, 2007

Litla-Stokkseyrarbakkahraunskaupstaður?

Síðustu bakþankar mínir kölluðu á viðbrögð víða að. Ég var sakaður um linkind, fíkniefnasalar væru hættulegir samfélaginu og því þyrfti að loka þá inni. Því lengur sem þeir væru á bak við lás og slá, þeim mun lengur væri samfélagið óhult fyrir þeim.
Víst má færa rök fyrir því. En gleymum ekki að fyrir hvern fíkniefnasala sem stungið er inn losnar staða sem aðrir fíklar standa í biðröð eftir að fá. Með þessari aðferðafræði leysum við ekki fíkniefnavandann fyrr en síðasti fíkillinn er kominn í grjótið. Og þá höfum við í raun ekki leyst hann heldur aðeins flutt hann inn á Litla-Hraun, sem sennilega yrði farið að ná yfir nágrannabyggðirnar og væri orðið einn af stærri kaupstöðum landsins.
Höfum líka í huga að enginn „lendir í“ fíkniefnum. Afar fáir fíkniefnasalar selja öðrum eiturlyf en þeim sem leita þeirra að eigin frumkvæði. Enginn verður fíkill af því að „strákarnir plötuðu hann“ til að dópa. Enginn gleypir fyrstu E-pilluna í þeirri trú að hún sé E-vítamín. Hvenær sem einhver byrjar að neyta fíkniefna tekur hann eða hún meðvitaða ákvörðun um það.
En hvað veldur því að ungmenni taka þá ákvörðun að neyta fíkniefna? Svarið er augljóst. Í fyrstu álíta þau það af einhverjum ástæðum eftirsóknarvert. Þau eygja þar veruleika sem tekur daglegu lífi þeirra fram. Fíkniefnaheimurinn er heillandi og spennandi. Þar eru gangsterar og glæfrakvendi sem vaða í seðlum og aka um á glæsibílum. Púkalegir pólitíkusar lýsa þeim sem hættulegum óvinum samfélagsins, sem er auðvitað ólíkt flottara hlutskipti en að vera hvert annað ferkantað nóboddí í hinum gráa, hversdagslega raunveruleika. Smám saman verður neyslan síðan að óviðráðanlegri, knýjandi þörf. Fíknin tekur völdin.
Fíkniefnaneysla er útmáluð sem uppreisn gegn samfélaginu og uppreisnarseggir hafa alltaf þótt töff. Þegar það verður jafntöff að vera í dópi og að vera á Kleppi hefur árangur náðst í baráttunni við fíkniefnin, ekki fyrr. Því miður stuðlar engin þeirra aðferða sem nú er beitt að þeirri viðhorfsbreytingu.
Hámark tvískinnungsins er síðan auðvitað að telja sér trú um að fleiri hafi eyðilagt líf sitt á fíkniefnum en áfengi. Séu fíkniefnasalar hryðjuverkamenn eru áfengisverslanir ekkert annað en hreinræktaðar útrýmingarbúðir.
Bakþankar í Fréttablaðinu 4. mars 2007